Skip to main content
9. október 2020

Friðardögum fagnað með nýju hlaðvarpi

Friðardögum fagnað með nýju hlaðvarpi - á vefsíðu Háskóla Íslands

Um 50 einstaklingar, fræðimenn, sérfræðingar og aðgerðarsinnar ræða um frið og hvernig fyrirbyggja má ófrið í fimm þátta hlaðvarpsþáttaröð Höfða - friðarseturs Reykjavíkurborgar og Háskóla Íslands undir yfirskriftinni Er friðurinn úti? Þáttaröðin er liður í árlegum Friðardögum í Reykjavík sem að þessu sinni fara algjörlega fram á netinu vegna kórónuveirufaraldursins.

Þann 10. október ár hvert hefur Höfði friðarsetur staðið fyrir alþjóðlegri ráðstefnu í Veröld - húsi Vigdísar sem ásamt tendrun friðarsúlunnar hefur markað upphaf Friðardaga í Reykjavík. Vegna þeirra aðstæðna sem nú ríkja í samfélaginu verður umræðan færð yfir á netið með vönduðum hlaðvarpsþáttum. Þættirnir sem eru unnir í samstarfi við UNICEF, UN Women, Félag Sameinuðu þjóðanna og utanríkisráðuneytið, fjalla um hvað Ísland getur gert til að stemma stigu við ofbeldi í íslensku samfélagi og einn daginn jafnvel útrýmt því. Rætt er um kynbundið ofbeldi og ofbeldi gegn börnum, um ófrið á heimilum þar sem á að vera skjól, fátækt og ójafnrétti. Spurt er hvernig Ísland getur verið öflugri málsvari friðar og mannréttinda á alþjóðavettvangi og rætt um hvernig ágangur mannsins á jörðina getur haft ófrið og átök í för með sér.

 

Þættirnir eru fimm talsins og munu birtast á Kjarnanum og vera aðgengilegir á nýrri vefsíðu friðarsetursins. Fyrsti þátturinn fer í loftið mánudaginn 12. október en umræðan fer af stað laugardaginn 10. október með birtingu greina eftir valda pistlahöfunda og viðmælendur úr hlaðvarpsþáttunum. Umsjónarmaður friðarhlaðvarpsins er Margrét Marteinsdóttir, fjölmiðlakona. 

"Merki Friðardaga"