Allt gert til að að koma starfinu í eðlilegt horf

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, sendi meðfylgjandi tilkynningu á stúdenta og starfsfólk í dag (22. janúar):
„Kæru nemendur og samstarfsfólk.
Nú er að koma skýrari mynd á afleiðingar vatnstjónsins sem varð í byggingum Háskóla Íslands í fyrrinótt. Ljóst er að höggið er mikið en engu að síður gerum við allt til að koma starfi okkar í eðlilegt horf á sem skemmstum tíma. Með seiglu og samstöðu komumst við í gegnum þetta verkefni.
Unnið er hörðum höndum að því að þurrka þau rými þar sem vatn flæddi um. Stefnt er að því að ganga rösklega til verks við að rífa út allt það sem ónýtt er og að koma í framhaldinu húsnæði og búnaði í samt lag. Í tilviki kennslurýma á Háskólatorgi er ljóst að það mun taka mánuði og sömu sögu er að segja af skrifstofu- og kennslurými á jarðhæð í Gimli sem verður lokuð um óákveðinn tíma.
Vinna stendur nú yfir við að koma á rafmagni og netsambandi í Gimli. Vonast er til að það gangi eftir um helgina svo nemendur og starfsfólk á efri hæðum þar geti snúið aftur til náms og starfa á mánudag. Upplýst verður um gang mála hvað þetta varðar eftir því sem fram vindur.
Eins og fram hefur komið er verið að leita að tímabundinni aðstöðu fyrir skrifstofu Félagsvísindasviðs og er þeim sem eiga erindi við hana bent á að nota síma og tölvupóst. Nýjar upplýsingar verða jafnóðum settar á heimasíðu Félagsvísindasviðs.
Ég vil ítreka þakkir mínar til allra sem hafa lagt á sig ómælda vinnu við erfiðar og óvæntar aðstæður. Starfsfólk okkar og slökkvilið unnu magnað afrek og lögðu hreinlega nótt við dag. Þá hafa verktakar sem nú vinna í húsakynnum skólans unnið mikið og gott starf á mjög skömmum tíma.
Ég vil í lokin minna á mikilvægi einstaklingsbundinna sóttvarna og ég hvet ykkur öll til að njóta helgarinnar eins og kostur er.
Jón Atli Benediktsson, rektor“
