Sjálfbærnimenntun, M.Ed
Sjálfbærnimenntun
M.Ed. gráða – 120 einingar
Þverfræðileg nám sem snýst um þann grunnþátt menntunar sem lýtur að sjálfbærni samkvæmt íslenskri aðalnámskrá fyrir leik-, grunn- og framhaldsskóla.
Námið veitir réttindi til að sækja um leyfisbréf kennara. Fjarnám að mestu eða hluta.
Skipulag náms
- Haust
- Sjálfbærnimenntun og forysta
- Vor
- Menntun til sjálfbærni – hæfni í heimi breytinga
- Sjálfbærnimenntun og nám
- Inngangur að eigindlegum rannsóknaraðferðumB
- Inngangur að megindlegum rannsóknaraðferðumB
- Óháð misseri
- Námsmat og námskrá grunnskóla
- Nám og kennsla í grunnskóla
- Félagsfræði og heimspeki menntunar
Sjálfbærnimenntun og forysta (SFG003F)
Megintilgangur þessa námskeiðs er að veita þátttakendum tækifæri til að skilja sjálfbærni og sjálfbærnimenntun út frá sjónarhorni stofnana eða heilla kerfa. Kennslutímar og umræður á milli þeirra byggjast á upplýstri rökræðu. Unnin verða fá stærri verkefni og krafist virkrar þátttöku í umræðum, skipulagningu kennslustunda og því að leiða umræður. Námskeiðið er kennt á neti. Krafist er að lágmarki 80% mætingar í kennslustundir. Til að standast námskeiðið þarf að fá að lágmarki einkunnina 5,0 fyrir hvert verkefni námskeiðsins og uppfylla lágmarkskröfur um mætingu og þátttöku í tímum. Nánari útfærsla og upplýsingar um kennslufyrirkomulag verður á Canvas.
Dæmi um viðfangefni:
- Formleg og óformleg sjálfbærnimenntun (t.d. á vinnustöðum)
- Forysta í vinnu með sjálfbærni (t.d. í heildstæðum breytingum og þróun í skóla eða í frístundastarfi)
- Tengsl náttúrufræði og sjálfbærni (t.d. út frá kerfisbundinni nálgun eða út frá grunndvallarsýn)
- Þróun dreifbýlis og sjálfbærni
- Mótun sameiginlegra gilda (t.d. í samfélagslegri ábyrgð fyrirtækja)
- Námskrárbreytingar
Menntun til sjálfbærni – hæfni í heimi breytinga (FAG201F)
Fjallað verður um hugtakið sjálfbær þróun og meginhugmyndir alþjóðlegra sáttmála um sjálfbærni. Tekin verða dæmi af ýmsum vandamálum er tengjast umhverfi og náttúru, s.s. loftslagsmálum, tegundafækkun, jarðvegseyðingu og mengun. Lögð verður áhersla á að greina vandamál úr umhverfi nemenda með áherslu á að finna mögulegar lausnir. Fjallað verður um hlutverk kennara í að vinna með ágreiningsmál og hvernig þeir geta kennt börnum að greina vanda, meta upplýsingar og setja fram hugsanlegar lausnir. Þátttakendur lesi og noti rannsóknir á sjálfbærnimenntun. Einnig munu þátttakendur skoða eigin viðhorf til sjálfbærrar þróunar, gildi sín og meta eigin hegðun.
Skyldumæting er í staðlotur samkvæmt kennslualmanaki Menntavísindasviðs.
Sjálfbærnimenntun og nám (SFG207F)
Meginmarkmið þessa námskeiðs er að veita þátttakendum tækifæri til að beina sjónum að námi, kennslu og frístundastarfi sem stuðlar að sjálfbærni. Kennslutímar og umræður á milli þeirra byggjast á upplýstri rökræðu. Unnin verða fá stærri verkefni og krafist virkrar þátttöku í umræðum, skipulagningu kennslustunda og því að leiða umræður. Námskeiðið er netnámskeið og krafist er 80% skyldumætingar samkvæmt kennsluáætlun.
Dæmi um viðfangsefni eru:
- Aðgerðastefna (e. activism) í námi og kennslu
- Staðtengt nám og reynslunám
- Breyting á hegðun
- Náttúrfræðinám, tækni og sjálfbærni
- Sköpun, þekkingarsköpun og félagsleg sjálfbærni
- Háskólanám og nám fullorðinna
- Formlegt og óformlegt nám
- Sjálfbærni sem námssvið í mótun
Inngangur að eigindlegum rannsóknaraðferðum (MVS212F, MVS213F)
Fjallað verður um ólíkar rannsóknarstefnur og tengsl þeirra við uppbyggingu og útfærslu rannsókna. Einnig um siðfræði vísinda með áherslu á hagnýt atriði og um gæðahugtök, s.s. réttmæti, trúverðugleika og ólíka sýn á þessi hugtök. Í námskeiðinu beinist athyglin að eigindlegum aðferðum. Kynnt verða algeng rannsóknarsnið eigindlegra rannsókna, aðferðir við öflun gagna og greiningu þeirra, og fjallað um ritun og framsetningu niðurstaðna. Nemar fá nokkra þjálfun í að beita algengum aðferðum rannsókna m.a. vettvangsathugunum, viðtölum og heimildaathugunum. Þá vinna nemar með öflun, skráningu, flokkun, greiningu og túlkun gagna, og með framsetningu þeirra og gera heildstæða rannsóknaræfingu.
Fyrirlestrar, umræður og verkefni. Skyldumæting er í staðlotum.
Inngangur að megindlegum rannsóknaraðferðum (MVS212F, MVS213F)
Markmiðið er að nemendur
- hafi innsýn í megindlega aðferðafræði á sviði rannsókna í uppeldis- og menntunarfræði
- þekki helstu rannsóknaraðferðir og hugtök sem þeim tengjast
- geti beitt algengum rannsóknaraðferðum og þannig aflað gagna, unnið úr þeim og túlkað á agaðan og viðurkenndan hátt
- séu færir um að rýna í rannsóknir og nýta sér niðurstöður þeirra
- hafi tileinkað sér rannsakandi hugarfar og gagnrýna hugsun
Kynnt verða algeng rannsóknarsnið megindlegra rannsókna, aðferðir við öflun gagna og greiningu þeirra, og fjallað um ritun og framsetningu niðurstaðna. Nemendur nota tölvuforrit til að reikna algenga tölfræðistuðla og halda utan um og vinna úr gögnum. Sérstök áhersla verður lögð á þjálfun í túlkun matsniðurstaðna sem líklegt er að verði á vegi þeirra hópa sem taka námskeiðið.
Fyrirlestrar á vef, umræður og verkefni. Námskeiðið er kennt vikulega en fyrirlestrar verða eingöngu á vef. Verkefnatímar verða ekki teknir upp. Ekki er mætingarskylda í námskeiðið en nemendur eru hvattir til að mæta í kennslustundir.
Nemendur verða að hafa Jamovi (sjá nýjustu útgáfu á https://www.jamovi.org) uppsetta á fartölvum sem þeir mæta með í kennslustundir.
Lesefni: Kaflar 1-11 í Navarro DJ and Foxcroft DR (2019). Learning statistics with jamovi: a tutorial for psychology students and other beginners. (Version 0.70). DOI: 10.24384/hgc3-7p15. Rafræn ókeypis kennslubók sem hala má niður á síðunni https://www.learnstatswithjamovi.com.
Námsmat og námskrá grunnskóla (KME006F)
Meginmarkmiðið er að nemendur öðlist þekkingu, leikni og hæfni sem snýr að námskrárfræðum og námsmati og verði færir um að beita þekkingu sinni á því í skólastarfi. Fjallað er nokkur lykilhugtök námskrárfræða og matsfræða eins og þau hafa birst í íslensku skólakerfi. Þannig er fjallað um áherslur og hugmyndastefnur sem greina má í opinberum námskrám, lögum, reglugerðum og öðrum stefnuritum. Þætti sérfræðinga (kennara, stjórnenda og fleiri) í námskrárgerð, þróun skólanámskrár og þróun námsmats eru gerð skil . Fjallað er um forsendur, tilgang og aðferðir við mat á námi og námsárangri (sbr. leiðsagnarmat, lokamat, gerð prófa og annarra matstækja og beitingu einkunna og vitnisburða). Þátttakendur lesa og ræða einnig um álitamál og ólíka hugmyndafræðilega strauma sem tengjast grundvallarspurningum um tilgang og markmið skyldunáms.
Vinnulag á námskeiðinu felst í lestri greina og bókakafla, fyrirlestrum og kynningum ásamt gagnrýninni umræðu í málstofum og hópverkefnum.
Lesefni er kynnt í námsáætlun hverju sinni.
Nám og kennsla í grunnskóla (KME102F)
Meginmarkmið námskeiðsins er að veita nemendum innsýn í helstu kenningar og rannsóknir um nám, kennslu og kennarastarfið. Sérstök áhersla er lögð á kennsluaðferðir og skipulag kennslu sem sýnt hefur stuðning við áhugahvöt nemenda. Fjallað er um starfsumhverfi grunnskólakennara m.a. þeim lögum og reglum sem gilda um grunnskóla og nemendur kynnast vettvangi með vikulöngu vettvangsnámi.
Inntak / viðfangsefni:
Fjallað er um nám og kennslu frá mörgum sjónarhornum. Nemendur kynnast námi og kennslu á öllum stigum skyldunáms og setja fram markmið, skipuleggja ólíkar kennsluaðferðir og námsumhverfi, auk þess að skipuleggja einnig samskipti og samstarf á vettvangi. Leitast er við að tengja þessi viðfangsefni hugmyndum um fagmennsku kennara og þróun eigin starfskenningar. Í fyrri hluta námskeiðsins verður fjallað sérstaklega um áhugahvöt til náms, verkefnaval, notkun umbunar/umbunarkerfa, námsmat og hópaskiptingu. Í síðari hluta námskeiðsins verður einnig fjallað um þróun sjálfsmyndar nemenda, foreldrasamstarf, stuðning við sjálfræði nemenda, félagsleg tengsl, væntingar nemenda og kennara og skólaforðun. Einstakir efnisþættir verða ræddir og settir í samhengi við árangursríkar kennsluaðferðir sem eru til þess fallnar að ýta undir áhugahvöt nemenda til náms.
Félagsfræði og heimspeki menntunar (SFG106F)
Viðfangsefni: Meginmarkmið námskeiðsins er að veita innsýn í félagsfræðileg og heimspekileg sjónarhorn á menntun og skólastarf. Til að ná því markmiði verður fjallað um valdar félagsfræðilegar og heimspekilegar hugmyndir sem gagnast við að skoða menntun og skólaveruleika. Áhersla er á þrjá þætti. A. Að skilja hugmyndir og hugtök og geta gert grein fyrir þeim. B. Að máta hugmyndir og hugtök við þá menntun og þann skólaveruleika sem við þekkjum. C. Að fjalla með gagnrýnum hætti um hugmyndirnar og þann veruleika sem þær eiga að varpa ljósi á.
Vinnulag: Fyrirlestrar og umræður verða vikulega. Uppteknir fyrirlestrar verða settir á Canvas-vef námskeiðsins. Nemendur kynna sér þá og taka svo þátt í umræðutímum sem ekki verða teknir upp. Í upphafi misseris skrá nemendur sig í umræðuhópa sem haldast út misserið. Mætingarskylda (80%) er í umræðutímana en hægt er að velja um að mæta í Stakkahlíð eða í rauntíma á Zoom. Þá vinna nemendur tvö hópverkefni, tvö einstaklingsverkefni og lokaverkefni.
- Haust
- Loftslagsbreytingar og viðkvæm jörðE
- Vor
- Lokaverkefni
- Nám og kennsla – vettvangsnám í faggrein
- Óháð misseri
- Nám og kennsla - fagmennska í starfi
Loftslagsbreytingar og viðkvæm jörð (SFG002F)
Námskeiðið beinir sjónum að loftslagsbreytingum og loftslagsmenntun (e. climate change education). Fjallað verður um orsakir loftslagsbreytinga, þ.e. gróðurhúsaáhrif, varmaflutningur og samspil lofttegunda og geislunar. Rýnt verður í afleiðingar loftslagsbreytinga bæði á náttúru og samfélag, heima og á heimsvísu. Fjallað verður um á líffjölbreytni, uppblástur og landeyðingu, súrnun sjávar, hækkun sjávaryfirborðs og dreifingu ágengra tegunda. Tekin verða dæmi af breytingum á samfélag fólks og búsetusvæði, mengun lands og sjávar og sjónum beint að aðgerðum til að vernda náttúruna, endurheimta fyrri landgæði og stuðla að kolefnishlutlausu spori landsins (t.d. endurheimt votlendis, sjálfbærum lífsstíl og orkugjöfum).
Rýnt verður í áherslu Sameinuðu þjóðanna (SÞ) um loftslagsmenntun og slík menntun rædd í samhengi við heimsmarkmið SÞ. Fjallað verður um álitamál tengd loftlagsbreytingum og tekin dæmi af hvernig má vinna með ólíkar hliðar loftslagsbreytinga í skólastarfi.
Kennsla byggist á vikulegum tímum á neti og þátttakendur vinna verkefni er tengjast aldurshópi að eigin vali, sem eru ýmist einstaklings-, para- eða hópverkefni.
Lokaverkefni (SFG401L)
Lokaverkefni til M.Ed.-prófs er 30e einstaklingsverkefni sem nemandi vinnur sjálfstætt undir leiðsögn leiðbeinanda/leiðbeinenda.
Nemendur skulu hafa samráð við formann námsbrautar um val á leiðbeinanda. Leiðbeinandi er að jafnaði valinn úr hópi fastra kennara Menntavísindasviðs.
Nemandi velur viðfangsefni í samráði við formann námsbrautar og leiðbeinanda. Þess skal gætt að efni lokaverkefnis tengist vettvangi og sérsviði því sem nemandi hefur valið, það er að segja, að verkefnið tengist viðfangsefnum viðkomandi námsleiðar og einnig kjörsviði/sérsviði/námssviði þar sem það á við.
Verkefni til M.Ed.-prófs getur verið af ólíku tagi, til dæmis rannsóknarritgerð (heimildarannsókn), rannsóknarskýrsla (ritgerð sem byggir á rannsókn), starfstengt þróunar- eða matsverkefni, námskrárgerð eða námsefnisgerð. Öllum verkefnum, öðrum en rannsóknarritgerðum ogrannsóknarskýrslum, skal fylgja fræðileg greinargerð.
Nemandi sem vinnur að lokaverkefni skráir sig í lokaverkefni í árlegri skráningu, miðað við áætlaða framvindu á haustmisseri og vormisseri. Að öllu jöfnu er gert ráð fyrir að undirbúningur og vinna lokaverkefnis til M.Ed.-prófs dreifist á tvö misseri eða fleiri. Á sumum námsleiðum er gert ráð fyrir að vinna verkefnis skiptist með ákveðnum hætti á tvö eða þrjú misseri, sjá nánari upplýsingar undir krækjunni skipulag náms fyrir hverja námsleið í kennsluskrá.
Ekki eru gefnar tölueinkunnir fyrir lokaverkefni til meistaraprófs heldur er gefið annað hvort staðið eða fallið. Við mat á meistaraverkefnum er farið að reglum Menntavísindasviðs.
Nemendur skulu fylgja nánari leiðbeiningum og reglum Menntavísindasviðs um verklag við M.Ed.-verkefni. Sjá á innri vef Menntavísindasviðs, Uglu: Fræðasvið / Menntavísindasvið / Kennslumál / Meistaraverkefni
Nám og kennsla – vettvangsnám í faggrein (FAG401F)
Meginviðfangsefni námskeiðsins er vettvangsnám í faggrein. Lögð er áhersla á að nemar prófi sig í kennslu og fái tækifæri til að ræða, meta, ígrunda og þróa kennslu sína. Þeir þróa kennsluáætlun byggða á aðalnámskrá grunnskóla og skólanámskrá. Þeir greina atvik úr kennslu sinni og draga lærdóm af þeim. Þeir skoða fjölbreyttar kennsluaðferðir og beita þeim í kennslu á vettvangi.
Vinnulag: Nemendur eru á vettvangi alla önnina á báðum námskeiðum og mæta reglulega í kennslustundir í háskólanum. Byggt er á fyrirlestrum, umræðum, sjálfstæðri vinnu og samvinnuverkefnum. Námsþættir námskeiðsins eru í beinum tengslum við námskeiðið Nám og kennsla - fagmennska. Ýmis álitamál verða skoðuð og rædd með vísun til dæma úr námsþáttunum, bæði efni sem kennarar velja og efni sem nemar viða að sér.
Nám og kennsla - fagmennska í starfi (KME301F)
Meginviðfangsefni námskeiðsins er fagmennska í starfi kennara og hlutverk, ábyrgð og skyldur umsjónarkennara sem og fagreinakennara. Sérstök áhersla er lögð á að styðja kennaranema í að móta heildstæða starfskenningu, efla fagvitund, skerpa sýn á kennarastarfið og skilning á þeim skuldbindingum sem starfið felur í sér. Á námskeiðinu er áhersla lögð á tengsl kennslu og náms og það hlutverk kennarans að byggja upp öflugt og skapandi námsumhverfi. Fjallað verður um siðfræði kennarastarfsins, manngildissjónarmið og ábyrgð kennara, gagnvart velferð barna og foreldrasamstarfi. Meðal viðfangsefna verða sjálfsrýni og sjálfsmat, ígrundun eigin kennslu og í samræðu við nema úr öðrum faggreinum. Auk þess er lögð áhersla á samskiptafærni, m.a. í samskiptum við foreldra, viðtalstækni, teymiskennslu og teymisvinnu og mismunandi leiðir til bekkjarstjórnunar.
Vinnulag byggir á fyrirlestrum, umræðum, málstofum, sjálfstæðri vinnu og samvinnuverkefnum. Námsþættir námskeiðsins eru í beinum tengslum við vettvangsnám. Ýmis álitamál verða skoðuð og rædd með vísun til dæma úr skólastarfi. Kennaranemar lesa valdar greinar og rannsóknir sem tengjast námsþáttunum, bæði efni sem kennarar velja og efni sem nemar viða að sér. Þeir vinna námsþáttaverkefni og halda rannsóknardagbók a.m.k. einu sinni í viku meðan á vettvangsnámi stendur. Kennaranemar vinna að jafnaði saman í teymi á vettvangi í samstarfi við æfingakennara og kennara námskeiðsins. Þeir fara með ákveðin verkefni til að skoða og vinna með, auk þess sem þeir skipuleggja samþætt, lýðræðislegt verkefni um málfefni líðandi stundar. Einnig safna þeir gögnum af vettvangi sem nýtt eru í tengslum við vinnu að námsþáttum námskeiðsins. Áhersla er lögð á að skrifin tengist kenningum um nám og kennslu, faggrein, siðfræði og starfskenningu kennaranema. Vettvangsnámshlutinn er einnig hluti af námsvinnunni í bóknámshluta námskeiðsins, þ.e. einstakir námsþættir og vettvangsnámið eiga að mynda eina samofna heild.
Vettvangsnámið dreifist yfir allt skólaárið, allt frá því þegar skólar hefja störf í ágúst þar til skóla lýkur að vori. Mætingaskylda er á námskeiðinu á mánudögum eftir hádegi á Menntavísindasviði eða í rauntíma á neti fyrir þá sem búa að landsbyggðinni utan við Selfoss eða Akranes.
Kennaranemar velja sjálfir hvort þeir fara í launað starfsnám eða ólaunað vettvangsnám:
Launað starfsnám (leiðbeinendur í kennslu). Kennaranemar sem hyggja á launað starfsnám leita sér sjálfir að stöðu og sækja um. Þeir stunda vettvangsnámið í eigin bekk/námshópum sem þeir eru að kenna.
Í launuðu starfsnámi er hálft starf fullgilt vettvangsnám og kennaranemar sinna bæði störfum umsjónarkennara og kennslu í faggrein/sérhæfingu sinni. Miðað er við að allir kenni að lágmarki 4 kennslustundir á viku í faggrein sinni. Vettvangsnámið er hluti af starfi og fylgir því skólaárinu í grunnskóla viðkomandi.
Ólaunað vettvangsnám. Kennaranemar sem hyggja á ólaunað vettvangsnám geta lagt til hvar þeir vilji stunda sitt vettvangsnám. Í könnun sem send verður út í maí geta þeir óskað eftir borgarhluta/ landsvæði eða skóla.
Á vettvangi skila þeir að jafnaði fjögurra til sex klukkustunda viðveru á dag, 2 – 3 daga í viku, þ.e. 12 klukkustundum á viku. Þar af er miðað við að þeir kenni 8 kennslustundir og þarf kennsla í faggrein að vera minnst 4 kennslustundir á viku. Einnig þarf nemi að hafa tækifæri til að kynnast hlutverki umsjónarkennara.
Vettvangsnámstímabilið í ólaunuðu vettvangsnámi fylgir háskólaárinu.
Hafðu samband
Kennsluskrifstofa Menntavísindasviðs
Stakkahlíð, 1. hæð í Enni
Opið kl. 8.15 – 15.00 alla virka daga
Sími 525 5950
mvs@hi.is
Hjálplegt efni
Ertu með fleiri spurningar? Hér finnurðu svör við ýmsum þeirra og upplýsingar um ýmislegt annað sem gott er að hafa í huga þegar þú velur nám.