Sigríður Sigurjónsdóttir, prófessor við Íslensku- og menningardeild, og Eiríkur Rögnvaldsson, prófessor emeritus
Einungis tæplega helmingur 13-15 ára unglinga telur íslensku skipta miklu máli fyrir velgengni í námi og starfi og er miklu frekar tilbúinn en eldra fólk að nýta ensku í samskiptum við raddstýringartæki og stafræna aðstoðarmenn, eins og Siri, Google Home og Alexu. Þetta er meðal fyrstu niðurstaðna í viðamikilli rannsókn fræðimanna við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands sem miðar að því að varpa ljósi á stöðu og framtíð íslenskunnar á tímum stafrænna samskipta og snjalltækja. Vonir standa til að rannsóknin geti einnig nýst öðrum þjóðum þar sem tungumálið stendur höllum fæti gagnvart tækninni.Fyrir stórum hópi sem stendur að rannsókninni fara þau Sigríður Sigurjónsdóttir, prófessor í íslenskri málfræði, og Eiríkur Rögnvaldsson, prófessor emeritus í sömu grein. Hugmyndin að verkefninu kviknaði hjá Eiríki árið 2015 þegar hann rakst á grein í Fréttablaðinu eftir Lindu Björk Markúsdóttur talmeinafræðing undir yfirskriftinni „Ég kann þetta ekkert á íslensku“. Þar lýsti Linda því að hún fengi æ oftar til sín íslensk börn sem kynnu ekki íslensku nema að litlu og yfirborðskenndu leyti og þekktu jafnvel frekar ensk orð yfir ýmis hugtök. „Maður hafði oft heyrt talað um það að íslensk börn væru farin að tala saman á ensku. Þegar ég rakst á grein Lindu hugsaði ég með mér: „Það gengur ekki að séu alls konar sögur í gangi um að eitt og annað sé að breytast og að börn kunni ekki íslensku. Við þurfum að komast að því hvernig þetta er í raun og veru,““ segir Eiríkur um upphafið að rannsókninni.
Hann hafði í framhaldinu samband við Sigríði og fleiri fræðimenn sem á endanum leiddi til þess að settur var á fót rannsóknarhópur sem hlaut 117 milljóna króna öndvegisstyrk til þriggja ára úr Rannsóknasjóði Íslands árið 2016.
Rannsóknin hófst það sama ár og er ein sú yfirgripsmesta sem gerð hefur verið á stöðu íslenskrar tungu. „Við sömdum mjög viðamikla netkönnun m.a. með spurningum um málumhverfi, hversu miklum tíma fólk eyðir á netinu, hvort það á snjallsíma og hversu mikla ensku eða íslensku það talar, skrifar, hlustar á og les. Við könnuðum líka viðhorf til tungumálsins, bæði íslensku og ensku og svo spurðum við um ýmislegt sem snýr að málnotkun og málfræði íslensks nútímamáls,“ segir Sigríður.
Könnunin var lögð fyrir 5.000 manna handahófskennt úrtak úr þjóðskrá. „Af þeim eru 3.500 13 ára og eldri og 1.500 þriggja til tólf ára, en við lögðum áherslu á að hafa fleiri þátttakendur í yngri hópum,“ segir Sigríður enn fremur. Sama könnunin var lögð fyrir alla 13 ára og eldri en í raun fjórar kannanir fyrir yngri hópinn því ekki er hægt að nota sama orðalag og sömu rannsóknaraðferðir hjá 3-5 ára og 10-12 ára. „Börnin skipta mestu máli í könnuninni, sérstaklega þau sem eru 3-12 ára því þau eru flest fædd eftir að snjalltækjabyltingin hófst 2010 og framtíð íslenskunnar byggist jú á börnunum,“ segir hún enn fremur.
Til viðbótar þessu hyggst rannsóknarhópurinn fá um 400 manns, sem tóku þátt í netkönnuninni, í nánari kannanir og viðtöl.
Nærri helmingur byrjaði að nota netið fyrir þriggja ára aldur
Meðal þess sem rannsóknin leiðir í ljós er að 44% barna í aldurshópnum 3-5 ára byrjuðu að nota snjalltæki yngri en þriggja ára og 22% barna sem eru 6-7 ára. „Af þessum 44% sem byrjuðu að nota snjalltæki 3-5 ára eru 6% sem byrjuðu yngri en eins árs. Það er auðvitað sláandi. Þetta eru nokkurra mánaða gömul börn,“ segir Sigríður.
Í könnuninni var einnig spurt hversu mikilvægt fólk teldi að vera góður í íslensku eða ensku og hversu miklu máli íslenska og enska skiptu fyrir velgengni í námi og starfi. „Það kemur greinilega fram að allir þátttakendur í fullorðinskönnuninni eru mjög jákvæðir gagnvart íslensku og ensku en það er munur þegar horft er til aldurshópa og tungumálanna tveggja. Svipað hlutfall í öllum aldurshópum er jákvætt í garð enskunnar en í ljós kemur að eldri aldurshópar eru töluvert jákvæðari gagnvart íslensku en þeir yngri. Um 90 prósent eldri þátttakenda eru mjög sammála því að íslenska sé mikilvæg en aðeins um 55% af 13-15 ára unglingunum,“ segir Sigríður.
„Það hefur sýnt sig í málsambýlisfræðum, þar sem eitt tungumál hefur áhrif á annað, að þá skipta viðhorf alveg rosalega miklu máli og þess vegna er svo mikilvægt að það verði einhvers konar vitundarvakning meðal Íslendinga, og ekki síst meðal unglinga, um að íslenska skipti máli,“ bætir hún við.
Sigríður bendir einnig á að fyrri rannsóknir, t.d. Birnu Arnbjörnsdóttur, prófessors í ensku, á áhrifum ensku á íslensku bendi til að óvirk enskunotkun Íslendinga, þ.e. lestur og hlustun, hafi verið miklu meiri en virk notkun, þ.e. tal og skrif. „Niðurstöður okkar benda til að virk enskunotkun barna og unglinga sé að aukast. Þau tala miklu meiri ensku en áður.“
Stafræn raddstýring og aðstoðarmenn eingöngu á ensku
Þá kemur í ljós að um helmingi svarenda meðal yngra fólksins í fullorðinskönnuninni fannst í góðu lagi að hafa viðmót í snjalltækjum á ensku en einungis 6% aðspurðra 61 árs og eldri voru á sömu skoðun. „Unga fólkið er enn fremur miklu frekar tilbúið að tala ensku við raddstýringartæki eins og Siri. Ef maður fer lengra með þetta þá veltir maður fyrir sér hvaða áhrif hefur það til lengri tíma á viðhorf til tungumálsins ef það er ekki hægt að nota það á öllum sviðum,“ segir Eiríkur.
„Rannsóknarhópurinn, einkum Tinna Frímann Jökulsdóttir sem skrifaði meistararannsókn um efnið, hefur einnig mikið fjallað um þessa nýju stafrænu aðstoðarmenn á heimilinu, Google Home og Alexa, sem tala bara ensku. Ef það máláreiti sem börnin okkar fá, sem var áður eingöngu á íslensku, verður að hluta til á ensku þá erum við að taka frá íslenskunni,“ segir Sigríður og Eiríkur tekur undir. „Það þarf ákveðið magn af íslensku til þess að börnin nái tökum á málinu og ef íslenskan er ekki nógu mikil í umhverfinu verða þau óviss í þessu og það ýtir undir breytileika í tungumálinu,“ segir Eiríkur enn fremur.
Þá benda þau á að vinsælir tölvuleikir og efni á YouTube sé nánast eingöngu á ensku. „Það kemur fram í rannsókninni að yngstu aldurshóparnir í fullorðinskönnuninni, 13-15 ára og 16-20 ára, spila mest af tölvuleikjum og hjá þeim er jákvæðasta viðhorfið gagnvart ensku. Það eru marktæk tölfræðileg tengsl þar á milli eins og fram kemur í nýrri meistararannsókn Dagbjartar Guðmundsdóttur,“ segir Sigríður og Eiríkur bætir við að í tölvuleikjunum eigi sér stað gagnvirk samskipti sem alla jafna fari fram á ensku.
Ekki í stríði við enskuna eða snjalltækin
Eiríkur segir aðspurður að vaxandi áhugi sé fyrir verkefninu í samfélaginu enda meðvitund og skilningur á því að það sé ýmislegt að gerast í tungumálinu sem þurfi að rannsaka. „Við leggjum samt áherslu á það að við erum ekki með neinar heimsendaspár um endalok íslenskunnar. Þvert á móti gætum við slegið á þær,“ segir hann.
„Það þarf að rannsaka málið á kerfisbundinn, vísindalegan hátt. Það erum við að gera en svo er það stjórnmálamanna að bregðast við,“ segir Sigríður og bætir við: „Við megum alls ekki slá því föstu að íslenskan sé að deyja þannig að unga fólkið hugsi: „Það þýðir þá ekkert að vera að púkka upp á hana,“ en auðvitað þurfum við samt að vera vakandi. Tungumál geta alveg dáið á einhverjum áratugum eða öldum og það er ekki sjálfgefið að íslenskan lifi ef við tölum hana ekki við börnin okkar og þau taka hana ekki á máltökuskeiðinu, en í því sambandi eru það fyrstu 6-9 árin sem skipta mestu máli,“ segir Sigríður enn fremur.
Eiríkur og Sigríður undirstrika að þau séu ekki að segja enskunni stríð á hendur. „Við erum hins vegar að rannsaka hvað getur gerst ef enskan tekur yfir stórt svið sem íslenskan hefur haft. Málin geta mjög vel lifað saman, við komumst ekkert hjá því í nútímaþjóðfélagi að hafa gott vald á ensku en það táknar ekki að enskan dugi okkur til allra hluta eða eigi að gera það,“ segir Eiríkur.
„Eins með snjalltækin. Þau eru auðvitað stórkostleg uppfinning og komin til að vera en við þurfum að átta okkur á því hvað það er lítið af íslensku efni á netinu og kannski er það það sem háir okkur líka, okkur vantar bækur og þætti á íslensku. Maður sá alveg að krakkarnir duttu í norsku þættina Skam á netinu og þá var norska allt í einu orðin töff,“ bætir Sigríður við.
Nemendur leggja mikið til rannsóknarinnar
Alls unnu 14 nemendur að rannsókninni nú í sumar en að verkefninu koma einnig innlendir fræðimenn auk erlendra samstarfsmanna. Þegar hafa fjögur meistaraverkefni verið unnin upp úr gögnum rannsóknarinnar og þá eru tvö doktorsverkefni í vinnslu. „Við höfum ekki fengið marga nemendur í íslenskuna á síðustu árum en mikla úrvalsnemendur. Þetta verkefni væri ekki komið svona langt nema fyrir þær sakir að við höfum haft með okkur ótrúlega öflugan hóp nemenda og þeir hafa lært gríðarmikið af verkefninu,“ segir Sigríður.
Tungumál geta dáið í netheimum
Sigríður og Eiríkur segja enn fremur að hugmyndin sé sú að verkefnið geti nýst öðrum málsamfélögum og að niðurstöðurnar verði hægt að yfirfæra á önnur tungumál sem eiga í sams konar vanda og íslenskan. „Meirihluti þjóða stendur frammi fyrir því sama og við. Auðvitað eru þar stærri málsamfélög en okkar, það er til meira efni á þeim tungumálum og við erum því kannski brothættari,“ segir Sigríður en bætir við að íslenskan sé að mörgu leyti ákjósanleg til rannsókna sem þessarar því málsamfélagið er lítið og auðvelt að nálgast málhafa.
Rannsóknarhópurinn stóð fyrir ráðstefnu fyrr í haust með erlendum samstarfsmönnum og boðsfyrirlesurum. Einn þeirra var ungverski stærðfræðingurinn og málfræðingurinn András Kornai sem vakti mikla athygli árið 2013 þegar hann hélt því fram að 95% tungumála heimsins myndu deyja stafrænum dauða í framtíðinni, þ.e. myndu eitt af öðru hætta að vera nothæf í netheimi. „Kornai benti á að við Íslendingar hefðum allar forsendur til þess að halda íslenskunni á lífi: ríkisstjórnin hefði ákveðið að verja fé í máltækniáætlun landsins, við ættum orðabækur og langa rithefð. En viðhorfið þarf að vera í lagi. Málnotendur þurfa að vilja nota tungumálið. Að helmingi unglinga finnist í góðu lagi að hafa enskt viðmót í snjalltækjunum felur í sér ákveðna hættu,“ segir Sigríður.
Verkefninu hvergi nærri lokið
Verkefninu lýkurum mitt næsta ár og ljóst er að gífurlegt magn gagna mun þá liggja fyrir sem nýtast mun bæði fræðimönnum og nemendum langt inn í framtíðina. „Auðvitað verðum við að vinna úr þessu næstu árin og það væri gaman að fá frekari styrki til þess að halda áfram vinnunni og það er mikilvægt fyrir íslenskuna og Íslendinga,“ segir Sigríður.
„Það er nú enn þá verið að vinna úr framburðarkönnun Björns Guðfinssonar frá því um 1940,“ bendir Eiríkur á og bætir við: „En mér finnst einboðið að það verði framhald á verkefninu, hvort sem það verði þessi sami hópur eða hluti hans sem heldur verkefninu áfram. Það er ekki annað hægt en að vinna áfram með þau gögn sem við erum enn að safna.“
„Svo er það færeyskan. Það kitlar mig svolítið að fara til Færeyja og vinna sams konar rannsókn með þeim. Fara í útrás,“ segir Sigríður brosandi að endingu.
Við þetta má bæta að hluti rannsóknarhópsins mun kynna verkefnið á Vísindavöku sem fram fer í Laugardalshöll á föstudaginn 28. september kl. 16.30-22.