Mótmæli framhaldsskólanema haustið 2022 vegna stöðu þolenda kynferðisofbeldis, #MeToo byltingin, #Free the nipple og fleiri samfélagshreyfingar tengdar jafnréttismálum eru í brennidepli í doktorsverkefni Katrínar Pálmadóttur Þorgerðardóttur í heimspeki. Þar rýnir hún í áhrif þessara uppreisna á siðferðileg viðmið og hugmyndir ungs fólks um ást og kynlíf.
„Það loðir stundum við heimspekina að hún sé ekki í tengslum við raunveruleika venjulegs fólks og að hún sé óaðgengileg. Á sama tíma og margvísleg sérhæfing sem heimspekimenntaðir tileinka sér er mikilsverð tel ég ekki síður mikilvægt að iðka heimspeki sem á erindi við og er skiljanleg fyrir fólk utan akademíunnar. Mér hafa fundist femínískar rannsóknir og kenningar, hvort sem er innan eða utan heimspekinnar, ná einna best utan um lifaða reynslu fólks og róttæka sýn á heiminn,“ segir Katrín aðspurð um rannsóknaráherslur sínar en doktorsverkefni hennar er hluti af stærra verkefni um femínisma, siðfræði og #MeToo sem Eyja Margrét Jóhönnu Brynjarsdóttir, prófessor í siðfræði, og Nanna Hlín Halldórsdóttir, nýdoktor í heimspeki, leiða.
Auk þess að státa af gráðum í heimspeki er Katrín með kennsluréttindi fyrir framhaldsskóla og hefur kennt á ýmsum skólastigum. Hún bendir á að heimspekin tengist svo mörgum öðrum greinum og henni hafi sjálfri þótt skemmtileg áskorun að nýta heimspeki í kennslu á margvíslegan hátt. „Ég hef mikinn áhuga á að nýta betur fræðilegar aðferðir til að greina og skilja heiminn sem við lifum í en einnig til þess að stuðla að raunverulegum breytingum í samfélaginu til hins betra,“ bætir hún við.
Inni á persónulega sviði jafnréttisbaráttunnar
Katrín bendir á að jafnréttisbyltingar síðustu ára, eins og #MeToo, #FreeTheNipple, Beauty Tips og fleiri hreyfingar, hafi aukið meðvitund almennings um útbreiðslu kynferðisofbeldis og birtingarmyndir nauðgunarmenningar aukist verulega. Þá hafi mikil umræða einnig átt sér stað um kynjamisrétti meðal yngra fólks og m.a. brutust út víðtæk mótmæli meðal íslenskra framhaldsskólanema haustið 2022 þegar ungir þolendur stigu fram og lýstu reynslu sinni af kynferðisofbeldi af hálfu jafnaldra og mótmæltu aðgerðaleysi skólayfirvalda og réttarkerfisins.
„Þessi rannsókn miðar að því að kortleggja siðferðisleg gildi og væntingar ungs fólks á aldrinum 18-25 ára á Íslandi þegar kemur að ást og nánd, m.a. með það til hliðsjónar að meta hve miklu fyrrnefnd umræða hefur skilað sér í þekkingu og viðmiðum sem ungmennin nýta svo í eigin lífi og samböndum. Ungt fólk býr eðli málsins samkvæmt oft yfir minni reynslu þegar kemur að ástarsamböndum og því er áhugavert að heyra hvaða væntingar og hugmyndir það hefur um nánd og ást og ekki síður að skoða hvaðan slíkar hugmyndir koma,“ útskýrir Katrín.
Þar að auki heillar það Katrínu að rýna í þann kynslóðamun sem oft birtist í jafnréttisbaráttunni. „Mér þykir áhugavert að skoða hvernig pólitísk og siðferðileg viðhorf einstaklinga mótast hverju sinni en þar inn í spila ríkjandi hugmyndafræði og orðræða, tungumálið, tækni og ótal margt fleira. Í rannsókninni er sjónum beint að persónulegu sviði jafnréttisbaráttunnar, þ.e. hvort og þá hvernig ungt fólk meðtekur og raungerir siðferðileg hugtök úr jafnréttisorðræðu í verki í nánum tengslum,“ segir hún.
Feminísk heimspeki lengi fengist siðferðislegar víddir ástar og kynlífs
Margvíslegar femínískar heimspekikenningar mynda grundvöll verkefnisins en að sögn Katrínar hafa heimspekilegar og siðfræðilegar vangaveltur um ást, hjónabönd og kynlíf verið fyrirferðarmiklar um alllangt skeið innan þess anga heimspekinnar. „Úr femínísku grasrótinni og fræðaheiminum hafa m.a. sprottið fram ný hugtök og sjónarmið til að bera kennsl á og skilja fyrirbæri sem tengjast málaflokknum. Þessi þróun hefur einnig skilað sér að einhverju leyti í víðtækri umræðu um margvísleg blæbrigði og flókin valdatengsl sem geta verið til staðar í óheilbrigðum samskiptum og samböndum þar sem kynferðisbrot eru framin,“ bendir hún á.
„Nýnæmi verkefnisins felst í því að greina hvaða hugmyndir um siðferðileg norm og viðmið endurspeglast í orðræðu ungs fólks um ást og kynlíf og um siðferðilega breytni og ábyrgð í nánum samböndum,“ segir Katrín Pálmadóttir Þorgerðardóttir. MYND/Kristinn Ingvarsson
Katrín bætir við að færa megi rök fyrir því að í ástarsamböndum myndist eins konar grátt svæði þar sem almennar siðferðilegar kröfur sem við setjum á annað fólk séu teknar út fyrir sviga. „Í gráa svæðinu getum við hallað okkur inn í undantekninguna sem ástarsambandið felur í sér, t.d. þá gagnkvæmu berskjöldun og trúnað sem við væntum um að þar ríki. Þar er jafnframt að finna ákveðið markaleysi í þeim skilningi að við leggjum talsvert meiri og sértækari skyldur á ástvini okkar en aðra meðlimi samfélagsins. Femínískir siðfræðingar hafa tekist á við siðferðislegar víddir þessa kima einkalífsins betur en flestar hefðbundnari siðfræðikenningar og þá sérstaklega út frá þeim kynjuðu valdatengslum sem geta verið til staðar eða myndast í rómantískum og kynferðislegum samskiptum,“ segir Katrín enn fremur.
Viðtöl við ungt fólk varpa ljósi á ábyrgð í nánum samböndum
Rannsókn Katrínar felst annars vegar í heimspekilegri greiningu sjónarmiða og hugtaka sem tengjast viðfangsefninu og hins vegar í viðtölum við ungt fólk sem verða gerð og greind með aðferðum fyrirbærafræðinnar. „Fyrirbærafræðilegar rannsóknaraðferðir í viðtölum byggja á svokallaðri samhuglægni (e. intersubjectivity) og heimspekilegri túlkun frekar en einhliða túlkun rannsakanda. Slíkar aðferðir geta veitt mikla dýpt í viðtölum og því getur slík rannsókn vonandi lagt talsvert af mörkum við að kortleggja siðferðilegt hugarfar og hugarfarsbreytingar í samfélaginu,“ útskýrir Katrín.
Hún bætir við að í viðtölunum reyni hún að greina hvaða merkingu viðmælendur leggja í ýmis hugtök sem þau hafa lært og nota um eigin reynslu og væntingar, auk þess að skoða hve meðvituð þau eru um eigin afstöðu og hvaðan hugmyndir þeirra um nánd og ást koma. „Nýnæmi verkefnisins felst í því að greina hvaða hugmyndir um siðferðileg norm og viðmið endurspeglast í orðræðu ungs fólks um ást og kynlíf og um siðferðilega breytni og ábyrgð í nánum samböndum,“ segir Katrín enn fremur.
Verkefni Katrínar er nýhafið og því liggja ekki fyrir niðurstöður en að hennar sögn hafa viðtölin sem hún hefur tekið við ungt fólk verið afar áhugaverð. „Þau gefa, sem dæmi, dýpri innsýn í þá miklu umræðu og mótmæli í framhaldsskólum sem áttu sér stað haustið 2022 þar sem aðgerða var krafist í málefnum þolenda kynferðisofbeldis af hálfu samnemenda sinna en ég tel það sýna fram á mikilvægi þess að hlusta á raddir yngra fólks í jafnréttisbaráttu,“ segir hún.
Niðurstöður nýtist í baráttu gegn kynferðisofbeldi
Þegar spurt er um þýðingu rannsóknarinnar fyrir samfélagið og fræðin bendir Katrín á að hún telji mikilvægt að skoða fræðilega hvernig umræða síðustu missera hefur haft áhrif á siðferðisvitund ungs fólks í nánum samböndum, m.a. til að berjast gegn kynferðisofbeldi í framtíðinni. „Einnig er mikilvægt fyrir fræðasvið eins og siðfræði og fyrirbærafræði að kallast á við samfélagslegar áherslur hverju sinni og takast á við þær breytingar sem samfélagið stendur frammi fyrir með gagnrýnum og fræðilegum aðferðum. Áhersla verður lögð á að varpa ljósi á stöðu þekkingar og viðhorf ungs fólks en markmiðið er einnig að gögn og niðurstöður nýtist í fræðslu og frekari framþróun í málaflokknum.“
Segja má að töluverður kraftur hafi almennt færst í rannsóknir sem tengjast kynferðisofbeldi í nánum samböndum ungs fólks og kynlífsmenningu unglinga undanfarin ár, m.a. á vegum fræðafólks og nemenda HÍ, og að sögn Katrínar benda þær til þess að klámvæðing hafi haft veruleg áhrif á kynhegðun og hugmyndir þessa aldurshóps. „Slíkar hugmyndir og hegðun geta varpað ljósi á gjörólíkar upplifanir gerenda og þolenda af sama atviki sökum ósamræmanlegra og óraunhæfra hugmynda m.a. um nánd, langanir, samþykki og mörk,“ segir hún enn fremur að endingu.