Svanborg R. Jónsdóttir, dósent við Kennaradeild
Í menntastefnu íslenskra menntayfirvalda frá árinu 2011 voru kynntir sex grunnþættir sem grunnmenntun skal byggjast á. Sköpun er einn þessara þátta og er hann talinn lykilþáttur sem snertir og fléttast saman við hina grunnþættina á margvíslegan hátt.
Sköpunarþátturinn á ekki aðeins við um kennslu í list- og verkgreinum heldur á hann að vera gegnumgangandi í öllu skólastarfi eins og segir í aðalnámskrám leik-, grunn- og framhaldsskóla og slíkt hið sama á við í þeim stofnunum sem mennta kennara.
Svanborg R. Jónsdóttir, dósent í listum og skapandi starfi, leiddi rannsóknarverkefnið RASKA 1 (RAnnsókn á SKApandi skólastarfi) með aðferðafræði svokallaðra starfendarannsókna að leiðarljósi frá 2013-2015. Rannsóknin náði til þriggja kennara á Menntavísindasviði og fimm starfenda í leik-, grunn- og framhaldsskólum. Kennararnir gerðu úttekt á kennslu sinni og skoðuðu hvernig mætti auka hinn skapandi þátt í námi nemenda þeirra.
Svanborg R. Jónsdóttir
Spurð um gildi rannsóknarinnar segir Svanborg hana efla kennarana sem taka þátt í henni um leið og hún varpar ljósi á hvað felst í að vinna með sköpun á ýmsum skólastigum.
Niðurstöður fyrri hluta rannsóknarinnar sýna að sögn Svanborgar ákveðna þætti sem mikilvægt er að vera meðvitaður um í kennslu, m.a. að finna jafnvægi milli skipulags og frelsis. Seinni hluti rannsóknarinnar, RASKA 2, er í undirbúningi en þá stendur til að vinna með list- og verkgreinakennurum á sama hátt og gert var í fyrri hlutanum.
Spurð um gildi rannsóknarinnar segir Svanborg hana efla kennarana sem taka þátt í henni um leið og hún varpar ljósi á hvað felst í að vinna með sköpun á ýmsum skólastigum. „Hún felur í sér bæði fræðilega og hagnýta þekkingu á vinnu með sköpun í skólastarfi,“ segir hún.
Auk Svanborgar tóku þær Þórunn Blöndal, Edda Kjartansdóttir, Elsa Lyng Magnúsdóttir, Halldóra Pálmarsdóttir, Jóna S. Þorvaldsdóttir, Sverrir Árnason og Sigríður Einarsdóttir þátt í verkefninu.