Skip to main content

Nálgast veltihringrás Atlantshafsins vendipunkt?

Nálgast veltihringrás Atlantshafsins vendipunkt? - á vefsíðu Háskóla Íslands
Hvenær 
18. október 2024 12:00 til 13:15
Hvar 

Veröld - Hús Vigdísar

VHV 023

Nánar 
Aðgangur ókeypis

Opinn fyrirlestur á vegum námsleiðar í umhverfis- og auðlindafræði við HÍ föstudaginn 18. október kl. 12-13.15 í Veröld VHV-023. 

Lóðrétt hringrás í Atlanshafinu (e. Atlantic Meridional Overturning Circulation, AMOC) flytur varma til norðurs og hefur mikil áhrif á veðurfar, ekki bara umhverfis Norður-Atlantshafið heldur einnig hnattrænt. Fornveðurfarsgögn frá síðasta jökulskeiði sýna að AMOC getur verið frekar óstöðug  og hefur valdið skyndilegum og umfangsmikilum  veðurfarsbreytingum. Þennan óstöðugleika má rekja til tveggja ólíkra vendipunkta (e. tipping points). Það sem vekur áhyggjur nú eru beinar mælingar sem sem sýna að dregið hefur úr styrk AMOC á síðustu árum og túlka má fyrirliggjandi gögn sem svo að styrkur AMOC sé nú minni en hann hefur verið í þúsund ár.

Í erindinu fjallar Rahmstorf um þau fornveðurfarsgögn sem sýna óstöðugleika hringrásarinnar og þá þætti sem liggja til grundvallar, þau gögn sem benda til þess að hægt hafi á AMOC og að lokum hættuna á að við nálgumst hættulegan vendipunkt sem gæti haft afdrifarík áhrif á lífsskilyrði á Íslandi.

Fyrirlestrinum verður einnig streymt. 

Fyrirlesari: Dr. Stefan Rahmstorf.

Stefan Rahmstorf er prófessor í hafeðlisfræði við Háskólann í Potsdam í Þýskalandi og stýrir Jarðkerfisfræðideild PIK (Potsdam-Institut für Klimafolgenforschung) sem er leiðandi á heimsvísu í loftslags- og jarðkerfisrannsóknum. Hann var meðlimur ráðgjafarráðs þýsku ríkisstjórnarinnar um loftslagsmál frá 2004–2013. Hann er höfundur um 140 ritrýndra greina, þ.m.t 42 í tímaritum með háan áhrifastuðul, s.s. Nature, Science og PNAS, og auk þess er hann höfundur fjögurra bóka um vísindi fyrir almenning.

Fyrir framlag sitt til vísindanna hlaut hann  Alfred Wegener verðlaun Evrópsku jarðvísindasamtakana árið 2024. Auk þessa hefur hann hlotið nokkrar viðurkenningar fyrir vísindamiðlum um loftslagsbreytingar og áhrif þeirra, m.a. frá Bandaríska jarðvísindasambandinu og einnig viðurkenningu sem  kennd er  við  Stephen H. Schneider, sem var einn frumkvöðla loftslagsvísinda.

Stefan Rahmstorf er prófessor í hafeðlisfræði við Háskólann í Potsdam í Þýskalandi og stýrir Jarðkerfisfræðideild PIK (Potsdam-Institut für Klimafolgenforschung) sem er leiðandi á heimsvísu í loftslags- og jarðkerfisrannsóknum.

Nálgast veltihringrás Atlantshafsins vendipunkt?