Doktorsvörn í ensku: Margrét Ann Thors

Aðalbygging
Hátíðasalur
Föstudaginn 12. september 2025 fer fram doktorsvörn við Mála- og menningardeild við Háskóla Íslands. Þá ver Margrét Ann Thors doktorsritgerð sína í ensku, „Segðu allan sannleikann en farðu í kringum hann—“: Skáhöll greining á bókmenntum í kjölfar 11. september 2001. Viðburðurinn fer fram í Hátíðasal í Aðalbyggingu Háskóla Íslands og hefst kl. 13:00. Hægt verður að fylgjast með vörninni í streymi hér.
Andmælendur við vörnina verða Marie Bouchet, dósent við háskólann í Toulouse í Frakklandi og Thomas Ærvold Bjerre, dósent við Syddansk Universitet í Danmörku. Doktorsritgerðin var unnin undir leiðsögn Giti Chandra, sérfræðings hjá Rannsóknastofnun í jafnréttisfræðum (RIKK) við Háskóla Íslands. Einnig voru í doktorsnefnd Gregory Alan Phipps, prófessor í ensku við Háskóla Íslands, Jón Ólafsson, prófessor í menningarfræði við Háskóla Íslands, og Kristiaan Versluys, prófessor við háskólann í Ghent í Belgíu.
Gísli Magnússon, forseti Mála- og menningardeildar, stjórnar athöfninni.
Um rannsóknina
Í þessari rannsókn eru færð rök fyrir nýrri, óbeinni nálgun á greiningu bókmennta í kjölfar árásanna 11. september 2001. Rannsóknir á slíkum bókmenntum hafa hingað til einkum beinst að skáldsögum sem fjalla með beinum og afdráttarlausum hætti um árásirnar á Tvíburaturnana og afleiðingar þeirra. Hér er hins vegar lögð áhersla á aðra nálgun við að móta og skilgreina hugmyndir um bókmenntir í kjölfar 11. september – nálgun sem nær ekki einungis til verka sem hafa augljós tengsl við atburðinn, heldur fremur til þeirra verka þar sem tengslin eru óbein og/eða dulin. Meginforsenda ritgerðarinnar er sú að rétt eins og áhrif 11. september eru oft óbein í samtímanum, birtast þau með óbeinum hætti í samtímabókmenntum.
Um doktorsefnið
Margrét Ann Thors lauk B.A.-prófi í heimspeki, MA-prófi í menntunarfræði, og MFA-prófi í ritlist við Columbia Háskólann í New York borg.
Margrét Ann Thors.
