Skip to main content
17. nóvember 2025

Andrés fær stóran styrk til rannsókna á geðröskunum

Andrés Ingason

Andrés Ingason, vísindamaður við Miðstöð í lýðheilsuvísindum HÍ, fékk nýlega stóran styrk frá Lundbeck Foundation í Danmörku fyrir rannsóknarverkefnið "From Genes to Biology in Mental Health: Population-based Insights from Human Gene Dosage Sensitivity". Styrkurinn sem verkefni Andrésar fékk hljóðar upp á rúmlega 6,5 milljón danskra króna, sem samsvarar u.þ.b. 130 milljónum íslenskra króna. Lundbeck Foundation er einn af stærstu einkareknu rannsóknarsjóðum Danmerkur og veitir um 500 milljónir danskra króna (10 milljarðar íslenskra króna) til rannsókna á sviði heilbrigðisvísinda á ári hverju.
 
Andrés segir styrkinn vera til fjögurra ára og áætlað er að verkefninu ljúki árið 2030. „Þetta er nýtt verkefni, sem byggist að miklu leyti á rannsóknum mínum í Danmörku undanfarin ár og snýr að eintakabreytileikum í erfðamengi mannsins og tengslum þeirra við geðraskanir. Verkefnið mun nýta nýja tækni til að greina með skipulögðum hætti meðfæddar úrfellingar á erfðavísum meðal hundruða þúsunda einstaklinga í stóru dönsku rannsóknarþýði og rannsaka áhrif slíkra stökkbreytinga á frumur, heilaþroska og heilsufar. Þannig fáum við betri innsýn í þá líffræðilegu ferla sem liggja að baki geðröskunum, sem aftur greiðir veginn fyrir uppgötvunum á lyfjamörkum byggðum á raunhæfum sjúkdómslíkönum,“ segir Andrés þegar hann var beðinn að útskýra í stuttu máli út á hvað verkefnið hans gengur.
 
„Styrkurinn nýtist til að fjármagna stöðugildi tveggja nýdoktora út rannsóknartímann, sem munu inna verkefnið af hendi í samstarfi við vísindamenn frá Íslenskri erfðagreiningu og Laureate Institute for Brain Research (LIBR) í Bandaríkjunum,“ segir Andrés, sem er aðalrannsakandi verkefnisins.
 
Ásamt stöðu rannsóknarprófessors við HÍ gegnir Andrés stöðu yfirrannsakanda við Institut for Biologisk Psykiatri hjá Geðheilbrigðissviði Kaupmannarhafnarsvæðisins og er styrkurinn veittur Andrési í gegnum þá stöðu.

Andrés Ingason, vísindamaður við Miðstöð í lýðheilsuvísindum HÍ, fékk nýlega stóran styrk frá Lundbeck Foundation í Danmörku. Mynd/Kristinn Ingvarsson