Skip to main content
3. nóvember 2025

Húsfyllir í Eddu: „Laxdæla stendur fólki greinilega nærri“

Húsfyllir í Eddu: „Laxdæla stendur fólki greinilega nærri“ - á vefsíðu Háskóla Íslands

Aðsóknarmet var slegið í fyrirlestrasal Eddu á vel heppnuðu þingi um Laxdæla sögu laugardaginn 1. nóvember þar sem fléttað var saman fyrirlestrum um söguna, ljóðalestri og myndlist. Þingið sóttu um hundrað og fimmtíu manns og var þétt setið í salnum. 

„Laxdæla stendur fólki greinilega nærri“, segir skipuleggjandi þingsins, Guðrún Ingólfsdóttir. „Þessi mikla aðsókn ber skýrt vitni um mikinn áhuga á sögunni meðal almennings.“ Að þinginu stóðu Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og Háskóli Íslands. Var það helgað minningu fræðikonunnar Jenny Jochens (1928–2025). Tvö ljóðskáld fluttu verk sem tengdust sögunni, María Elísabet Bragadóttir og Kristín Ómarsdóttir.  Þá sýndi listakonan Borghildur Óskarsdóttir leirlistaverk sitt Ok þótti sinn veg hvoru þeirra sem vísar í fleyga setningu úr sögunni. Fjórir fyrirlesarar fluttu erindi.

Haukur Þorgeirsson fjallaði um handrit Laxdælu í fyrirlestri sem nefndist Tvenns konar Laxdæla saga: Fyrstu drög að nýrri útgáfu. Haukur spurði hvað Guðrún Ósvífursdóttir hafi átt við með orðunum „Mikil verða hermdarverk,“ þegar hún spurði víg Kjartans og hvers vegna þessi setning er með ýmsum hætti í handritum sögunnar. Þá sýndi Haukur hvernig rannsóknir á handritum sögunnar leiða okkur til móts við texta höfundarins.

Brynja Þorgeirsdóttir ræddi kvæðin í sögunni í erindi sínu Raddir skáldskaparins í Laxdæla sögu. Fáar vísur eru í sögunni samanborið við margar aðrar Íslendingasögur sem hafa fjölskylduharma og ástir að þungamiðju. Í fyrirlestrinum fjallaði Brynja um hvað einkennir kveðskapinn í Laxdælu, hvaða bókmenntalegu virkni hann hefur í sögunni, og hvernig sambandi hans við prósann er háttað.

Torfi H. Tulinius flutti erindi sem nefndist Baráttan um blóðið. Laxdæla og átök Sturlungaaldar. Í því varpaði hann nýju ljósi á inntak og byggingu Laxdæla sögu með hliðsjón af blóðugum átökum höfðingja á Sturlungaöld um völd í landinu og samband við Noregskonung. Einnig ræddi hann þær hugmyndir sem lesa má úr sögunni um stöðu kvenna í samfélaginu.

Konurnar í Sælingsdalstungu nefndist fyrirlestur Guðrúnar Nordal. Laxdæla er eina Íslendingasagan sem hverfist um konur. Í erindinu fjallaði Guðrún um bókmenntaumhverfi sögunnar á þrettándu öld og rakti þræði milli kvennanna sem sátu í Sælingsdalstungu á ritunartíma sögunnar og Guðrúnar Ósvífursdóttur, sem fluttist í Tungu með Bolla.

Aðsóknarmet var slegið í fyrirlestrasal Eddu á vel heppnuðu þingi um Laxdæla sögu laugardaginn 1. nóvember
Guðrún Ingólfsdóttir þakkar Kristínu Ómarsdóttur fyrir ljóðaflutning.
Guðrún Nordal, Kristín Ómarsdóttir, Torfi Tulinius, María Elísabet Bragadóttir, Brynja Þorgeirsdóttir, Haukur Þorgeirsson og Guðrún Ingólfsdóttir.
Leirlistaverk Borghildar Óskarsdóttur.