Skip to main content
14. október 2025

Kynntu fjölbreytt lokaverkefni í umhverfis- auðlindafræði

Kynntu fjölbreytt lokaverkefni í umhverfis- auðlindafræði - á vefsíðu Háskóla Íslands

Sjálfbærni í hvalaskoðun, umhverfisáhrif fiskeldis í sjó, velsældarvísar og hæfni íslenskra björgunarsveita til að aðlagast að loftslagsbreytingum er meðal þess sem meistaranemar í umhverfis- og auðlindafræði hafa fengist við í lokaverkefnum sínum að undanförnu. Þeir kynntu rannsóknir sínar á meistaradegi námsleiðarinnar sem fram fór nýverið.

Umhverfis- og auðlindafræði er þverfræðilegt nám og eiga nemendur því möguleika á að brautskrást úr greininni frá fjölmörgum deildum skólans, allt eftir áherslum þeirra í námi. Nemendur hafa lengst af kynnt rannsóknarverkefni sín innan útskriftardeildar sinnar en námsleið í umhverfis- og auðlindafræði hóf í vor að bjóða upp á eigin meistaradag í aðdraganda útskriftar þar sem nýjustu meistaraverkefni nemenda eru kynnt.

Meistaradagur umhverfis- og auðlindafræði fór fram í annað sinn mánudaginn 29. september og var hann opinn öllum áhugasömum. Kynningar voru bæði á staðnum og á netinu auk þess sem útskriftarnemar svöruðu spurningum gesta. Umhverfis- og auðlindafræði er ekki aðeins þverfræðilegt heldur einnig alþjóðlegt nám og því eru nemendur með bakgrunn úr afar fjölbreyttum fræðigreinum og alstaðar að úr heiminum. Þessi fjölbreytileiki endurspeglast vel í lokaverkefnum nemendanna. Auk ofangreindra viðfangsefna hafa útskriftarnemar meðal annars fengist við rannsóknir á umhverfisáhrifum nautgriparæktar, líffræðilegri getu þéttbýlis og mannvirkja sem metin er með fjarkönnun og íslenska almannavarnakerfinu og rýmingu Grindavíkur. Hægt er að nálgast meistararitgerðir í greininni í Skemmu.

Meistardagur umhverfis- og auðlindafræði verður framvegis haldinn þrisvar á ári í takt við útskriftir nemenda frá Háskóla Íslands.

Frá kynningum meistaranema í umhverfis- og auðlindafræði í vor og haust.