Skip to main content
13. október 2025

Öflugur samstarfsvettvangur íslenskra háskóla í evrópskum háskólanetum

Öflugur samstarfsvettvangur íslenskra háskóla í evrópskum háskólanetum - á vefsíðu Háskóla Íslands

Fjórir háskólar á Íslandi taka nú þátt í evrópskum háskólanetum (e. European Universities alliances) og hafa, í samstarfi við Landskrifstofu Erasmus+ á Íslandi, myndað samstarfsvettvang til að miðla upplýsingum um þau fjölmörgu tækifæri sem háskólanetin skapa fyrir nemendur, starfsfólk, háskólana sjálfa og samfélagið.

Samstarfsvettvangurinn hefur jafnframt hafið samtal við stjórnvöld um hvernig íslenskt lagaumhverfi getur stutt betur við markmið háskólanetanna og tryggt virka þátttöku Íslands í að móta og byggja upp evrópska háskólasvæðið.

Gott dæmi um starfsemi samstarfsvettvangsins er málþing sem verður haldið þriðjudaginn 14. október 2025 í Norræna húsinu undir yfirskriftinni: Eru evrópskir háskólar í fararbroddi? - ávinningur og áskoranir íslenskra háskóla í evrópskum háskólanetum.

Á málþinginu munu fulltrúar Háskóla Íslands fjalla um þátttöku skólans í evrópska háskólanetinu Aurora sem hefur starfað frá árinu 2016. Aurora hefur hlotið veglega styrki frá Evrópusambandinu til að efla nám, kennslu og rannsóknir.

„Þátttaka HÍ í Aurora-netinu er mikilvæg leið til að efla alþjóðavæðingu háskólans með nánu samstarfi við erlenda háskóla sem skuldbinda sig til þess að þróa sameiginlegt nám og efla rannsóknasamstarf og rannsóknainnviði,“ segir Silja Bára R. Ómarsdóttir rektor. „Þetta eru spennandi tækifæri fyrir nemendur og starfsfólk og styður um leið framþróun háskólans og nýskapandi lausnir fyrir samfélagið. Hins vegar stöndum við frammi fyrir ýmsum stjórnsýslu- og lagalegum hindrunum í þróun sameiginlegs náms sem mikilvægt er að leysa í góðu samstarfi við stjórnvöld.“

Fulltrúar íslenskra háskóla í evrópskum háskólanetum kynntu sameiginlega nemendatækifæri á vegum netanna á Háskóladeginum 1. mars sl.

Fulltrúar menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðuneytis taka þátt í málþinginu en ráðuneytið hefur stutt við starfsemi samstarfsvettvangsins, m.a. með fjárframlögum, en einnig má nefna að fulltrúar þess hafa tekið þátt í vinnuhópi vettvangsins um mögulegar breytingar á fjármögnunarlíkani háskóla til að styðja við framkvæmd alþjóðlegra námskeiða, námsleiða og örnáms.

Nánar um málþingið

Streymi og síðar upptaka

Myndband um íslenska háskóla í evrópskum háskólanetum

Nánar um evrópsk háskólanet

Innan Evrópu er nú lögð rík áhersla á dýpra samstarf háskóla en áður hefur þekkst með fjármögnun evrópskra háskólaneta. Netin eiga að styðja við nýsköpun í kennslu og rannsóknum til að mæta örum samfélagsbreytingum og fjölþættum áskorunum nútímans. Háskólum í netum er þannig ætlað að ýta undir bæði sjálfbæra þróun til framtíðar og samkeppnishæfni Evrópu. Háskóli Íslands leiðir Aurora-netið sem samanstendur af öflugum evrópskum rannsóknaháskólum.

""