Skip to main content
8. október 2025

Hvernig mælum við velferð?

Hvernig mælum við velferð? - á vefsíðu Háskóla Íslands

Hagvöxtur og hagvaxtarmælingar, hagsæld og virði þess að verða ekki fyrir ofbeldi er meðal þess sem Tinna Laufey Ásgeirsdóttir, prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands, ræðir í fjórða þætti hlaðvarpsins „HÍ og heimsmarkmiðin“ sem nú er kominn í loftið, en Tinna var aðalfyrirlesari á þriðja viðburði í samnefndri viðburðaröð Háskólans fyrr á þessu ári.

Rannsóknir Tinnu eru á sviði heilsuhagfræði og hún og samstarfsfólk hennar í svokölluðu teymi um tekjuuppbót hafa m.a. lagt áherslu á að skoða virði heilsu og heilsufarslegra og félagslegra gæða, svo sem hvers virði það er fyrir fólk að vera laust við ofbeldi eða tiltekin veikindi.

Í samtali við Hafdísi Hönnu Ægisdóttur, forstöðumann Sjálfbærnistofnunar HÍ, ræddi Tinna um kosti og galla hagvaxtarmælinga, eða mælinga á aukningu eða samdrætti í vergri landsframleiðslu, og benti líka á ýmsa aðra mælikvarða sem notaðir hafa verið til að varpa skýrara ljósi á stöðu samfélagsins en hagvaxtarmælingar einar og sér geta.

Þær Tinna og Hafdís ræddu einnig hvort sjónarmið hagvaxtar og sjálfbærni geti farið saman, um græna þjóðhagsreikninga og hverju við værum að fórna í dag í nafni hagvaxtar. „Ég held að það sé mjög margt. Umhverfið er mjög nærtækt í þessari umræðu en síðan er það líka okkar eigin velferð og heilsa og samfélagsgerðin, það eru hlutir eins og félagsleg tengsl. Þau skipta miklu máli,“ sagði Tinna meðal annars um fórnirnar.

Hún benti hins vegar á að flókið mál væri að búa til þjóðhagsreikninga sem tækju mið af öllum þáttum samfélagsins. Í grænum þjóðhagsreikningum væri t.d. einungis tekið tillit til umhverfislegra þátta en ekki annarra þátta sem verið væri að ganga á með ósjálfbærnum hætti. „Síðan eru til mælikvarðar sem reyna að taka þetta allt inn á sama tíma. Genuine Progress Indicator er einn þeirra og þar er horft til jöfnuðar, heilsu, umhverfisáhrifa og hversu friðsælt er í samfélaginu,“ sagði Tinna en undirstrikaði að flókið væri að taka alla þætti inn í mælikvarða á hagsæld samfélaga.

Tinna tók enn fremur dæmi af rannsóknum sínum og samstarfsfólks en þau hafa m.a. rannsakað virði þess að vera ekki þolandi mismunandi tegunda ofbeldis, eins og kynferðisofbeldis og líkamlegs og andlegs ofbeldi. Hún benti á að niðurstöður þeirra sýndu að ef sú ólíklega staða kæmi upp í samfélaginu að enginn hefði lent í nokkru ofbeldi væri ávinningurinn það mikill að samfélagið væri jafnvel sett þótt 17% af vergri landsframleiðslu hyrfu á brott. Tinna benti á að einnig væri hægt að nýta aðferðirnar til að reikna út skaða meðaleinstaklings af völdum ofbeldis og þá mögulega nýta niðurstöðurnar til að áætla ávinning af ýmsum aðgerðum gegn ofbeldi í samfélaginu.

Í þættinum ræðir Tinna einnig um feril sinn og ýmsar aðrar rannsóknir en það er eflaust á fárra vitorði að Tinna lauk námi í sagnfræði áður en hún ákvað að helga sig hagfræðinni.

Þessi fjórði þáttur hlaðvarpsins er tekinn upp í framhaldi af þriðja viðburði viðburðaraðarinnar HÍ og heimsmarkmiðin en þar var sjónum beint að heimsmarkmiði 8 um góða atvinnu og hagvöxt sem snýst um það hvernig hægt er að stuðla að viðvarandi sjálfbærum hagvexti og arðbærum og mannsæmandi atvinnutækifærum fyrir alla. Upptöku af viðburðinum má finna hér

Hér er hægt að hlusta á viðtalið við Tinnu

Það er starfsfólk Sjálfbærnistofnunar HÍ sem heldur utan um hlaðvarpið en stofnunin stendur ásamt HÍ og forsætisráðuneytinu að samnefndri viðburðaröð.

Tinna Laufey Ásgeirsdóttir