Skip to main content
2. október 2025

Rýndu í myndun vinatengsla í HÍ

Rýndu í myndun vinatengsla í háskólanámi - á vefsíðu Háskóla Íslands

Þessar vikurnar er stór hópur að stíga sín fyrstu skref í Háskóla Íslands og kynnast bæði nýju umhverfi og nýju fólki. Kannski eru einhver að leggja grunn að ævilangri vináttu, vináttu sem grundvallast á setu saman í tímum, sameiginlegri glímu við flókin verkefni og þátttöku í fjörugu félagslífi. En hvaða máli skiptir vinátta sem verður til á fyrstu mánuðum háskólagöngunnar fyrir árangur í námi? Við þessa og fleiri spurningar um fyrstu skrefin í háskóla hafa þrír fræðimenn í Háskóla Íslands fengist. Þau hafa m.a. komist að því að vinatengsl nemenda í COVID-heimsfaraldrinum, þegar ekki var hægt að bjóða upp á hefðbundið nám í húsakynnum HÍ, reyndust marktækt færri á fyrstu tveimur námsmisserunum en hjá þeim nemendum sem hófu í nám þremur árum fyrr. Rannsóknir þeirra hafa einnig sýnt að líkur á að klára nám aukast með fleiri vinatengslum.

Þau Magnús Þór Torfason, prófessor við Viðskiptafræðideild og nú forseti Félagsvísindasviðs, Margrét Sigrún Sigurðardóttir, prófessor við Viðskiptafræðideild, og Anna Helga Jónsdóttir, prófessor í tölfræði við Raunvísindadeild, hafa unnið að rannsóknunum í hátt í áratug og hafa birt niðurstöður sínar í bæði innlendum og erlendum vísindatímaritum undanfarin ár.

„Rannsóknir innan stjórnunar hafa sýnt fram á mikilvægi tengsla í starfi og því veltum við Magnús fyrir okkur hvort áhrif tengsla í námi væru jafnmikilvæg og á vinnumarkaði. Úr varð rannsókn meðal nemenda í einu námskeiði í Viðskiptafræðideild þar sem niðurstöður sýndu að fjöldi tengsla hjá nemendunum hafði forspárgildi fyrir hvoru tveggja hærri einkunnir og minni líkur á brotthvarfi,“ segir Margrét um upphaf rannsóknanna en þau Magnús birtu m.a. grein um rannsóknina í veftímaritinu Netlu árið 2017.

Óvænt tækifæri í COVID-19-faraldrinum

Í framhaldinu kviknaði áhugi hjá þeim Margréti og Magnúsi að víkka rannsóknina út með því að skoða stöðuna í fleiri námsleiðum innan skólans. Þau leituðu til Önnu Helgu um samstarf og í framhaldinu réðust þremenningarnir í rannsókn haustið 2017 sem náði til allra nýnema á Félagsvísindasviði og Verkfræði- og náttúruvísindasviði.

Tæpum þremur árum síðar skall COVID-19-faraldurinn á með sínum takmörkunum og lokunum í samfélaginu, þar á meðal í Háskóla Íslands. Um leið skapaðist einstakt tækifæri fyrir þremenningana að bera saman myndun vinatengsla hjá áðurnefndum hópi við vinatengsl nemenda í sömu námsleiðum sem hófu háskólanám fyrir framan tölvuna heima hjá sér haustið 2020.

Magnús bendir á að fyrri rannsóknir hafa sýnt að félagsleg tengsl, ekki síst vinatengsl, skipti máli fyrir árangur í háskólanámi. „Enn fremur hafa rannsóknir annars staðar í heiminum leitt í ljós að háskólastúdentar mynduðu færri vinatengsl og að andleg líðan þeirra versnaði í COVID-19-heimsfaraldrinum. Þetta getur haft mikil áhrif á háskólastarfið því þessi hópur býr ekki að sama félagsauð og þeir nemendur sem hófu nám fyrir eða eftir faraldurinn og nýtur ekki sama jafningjastuðnings í námi,“ segir Magnús.

Þremenningarnir undirstrika að aðstæður stúdenta í faraldrinum hér á landi hafi um margt verið ólíkar aðstæðum stúdenta í sumum öðrum löndum. Lokanir í samfélaginu hafi ekki verið eins miklar hér og víða annars staðar en háskólasvæði HÍ var að hluta til opið skólaárið 2020-2021 og nýnemum hafi m.a. gefist tækifæri til að mæta á svæðið af og til þennan vetur.

Söfnuðu gögnum um fjölda vina á fyrstu mánuðum háskólagöngu

Gagnasöfnun þeirra Magnúsar, Margrétar og Önnu Helgu fór annars vegar í fram í september 2017 og 2020, þegar vika var liðin af haustmisseri, og hins vegar í febrúar 2018 og 2021, þegar nemendur voru komnir á annað misseri í námi. Þriðja og síðasta gagnasöfnun fór svo fram í maí á sjötta misseri þátttakenda í skólanum, þ.e. þegar flestir nemendur ljúka sínu grunnnámi.

Í gagnasöfnuninni, sem fram fór í september 2017 og 2020, gafst nemendum færi á að velja úr nemendalista þá nemendur sem þeir þekktu best við upphaf náms en í seinni könnunum, sem fóru fram á öðru misseri náms, gafst þeim færi á velja fólk úr nafnalista sem þau vörðu mestum tíma með í námi eða félagslífi. Auk þess var upplýsinga um framgang í námi, aldur og kyn þátttakenda aflað. Í rannsóknunum var aðeins stuðst við svör þeirra sem svöruðu könnununum bæði við upphaf háskólanáms og á öðru misseri og fengust rúmlega 200 svör árið 2017 en tæplega 250 árið 2020.

Líkön voru smíðuð til að spá fyrir um líkur nemenda á að ljúka því námi sem þau hófu, bæði í hópi nýnema 2017 og 2020. Í 2017 hópnum jukust líkurnar á að ljúka námi um tæp 10 prósentustig hjá þeim sem nefndu 1-3 tengsl við samnemendur við upphaf náms miðað við þau sem nefndu engin tengsl, og um 22 prósentustig meðal þeirra sem nefndu fjögur eða fleiri tengsl. Úr myndasafni HÍ/Kristinn Ingvarsson

Helmingur hafði ekki myndað nein ný vinatengsl á öðru misseri í faraldrinum

Rannsóknin leiddi í ljós sláandi mun á myndun vinatengsla í COVID-19-faraldrinum og árið 2017. Fólkið sem hóf nám í faraldrinum myndaði aðeins 1,4 ný tengsl að meðaltali milli fyrsta og annars misseris en árið 2017 voru þau 3,54. „Með öðrum orðum, meira en 60% af þeim vinaböndum sem fyrsta árs nemar hefðu getað vænst þess að mynda við samnemendur sína í upphafi náms í venjulegu árferði urðu ekki að veruleika í COVID-19-faraldrinum,“ segir Magnús. Hann bætir þó við að niðurstöðurnar sýni einnig að í faraldrinum hafi á móti slitnað upp úr færri vinaböndum sem voru fyrir hendi við upphaf náms en árið 2017, m.ö.o. héldu stúdentar betur í vini sína milli mælinga skólaárið 2020-2021 en skólaárið 2017-2018.

Niðurstöður leiddu einnig í ljós að innan við einn af hverjum tíu svarendum hafði ekki myndað nein ný vinatengsl á fyrstu tveimur misserunum árið 2017 en þremur árum síðar reyndist þetta hlutfall rúmlega 47%. „Það þýðir að næstum helmingur þeirra stúdenta sem tók þátt í könnuninni hafði ekki myndað nein ný vinatengsl við upphaf annars misseris,“ undirstrikar Margrét.

Almennt mynduðu konur fleiri vinabönd er karlar hjá báðum hópum sem til rannsóknar voru en munurinn milli kynja minnkaði þó í heimsfaraldrinum. Þá dró úr fjölda vinatengsla eftir því sem svarendur voru eldri. Nemendur við Verkfræði- og náttúruvísindasvið mynduðu jafnframt fleiri vinabönd að meðaltali en nemendur Félagsvísindasviðs samkvæmt niðurstöðunum.

Líkön voru smíðuð til að spá fyrir um líkur nemenda á að ljúka því námi sem þau hófu, bæði í hópi nýnema 2017 og 2020. Í 2017-hópnum jukust líkurnar á að ljúka námi um tæp 10 prósentustig hjá þeim sem nefndu 1-3 tengsl við samnemendur við upphaf náms miðað við þau sem nefndu engin tengsl, og um 22 prósentustig meðal þeirra sem nefndu fjögur eða fleiri tengsl. Í 2020-hópnum jukust líkurnar á að ljúka námi um 16 prósentustig hjá þeim sem nefndu eitt eða fleiri tengsl miðað við þau sem nefndu engin tengsl við upphaf náms (munurinn á milli 1–3 tengsla og fjögurra eða fleiri reyndist ekki marktækur).

Kunnu að meta sveigjanleika fjarnáms en voru einmana

Í könnuninni sem lögð var fyrir í febrúar 2021 fyrir nemendur sem hófu nám í faraldrinum voru tvær opnar spurningar en þar voru nemendur inntir eftir reynslu sinni af fjarnámi. Í ljós kom að svarendur kunnu að meta þann sveigjanleika sem fólst í því að geta sótt tíma hvar sem er en á móti kvörtuðu nemendur undan einmanaleika og að geta ekki tengst samnemendum og kennurum.

Aðspurð um þýðingu rannsóknanna og mögulegt framhald benda þremenningarnir á að rannsóknir á tengslaneti háskólanema eru sérstaklega mikilvægar í ljósi þess að einmanaleiki ungs fólks hafi aukist mjög og kennara lýsi dræmri mætingu í kennslustundir og nemendum sem flýja í símann í frímínútum. „Við höfum því tekið höndum saman við fræðafólk við Háskólann á Akureyri, Háskólann í Reykjavík og Elon-háskóla í Bandaríkjunum og sótt um styrk til Rannís til að gera enn stærri rannsókn á meðal allra nemenda sem hefja nám við íslenska háskóla haustið 2026. Með því að safna gögnum frá nemendum í ólíkum fögum og í ólíkum háskólum í fjar- og staðnámi getum við fengið heilstæða mynd af hlutverki tengsla og tengslaneta í háskólanámi, sem getur vonandi nýst til þess að auka gæði háskólanáms,“ segir Margrét að endingu.

Anna Helga Jónsdóttir, prófessor í tölfræði við Raunvísindadeild,  Magnús Þór Torfason, prófessor við Viðskiptafræðideild og nú forseti Félagsvísindasviðs, Margrét Sigrún Sigurðardóttir, prófessor við Viðskiptafræðideild,