Hlaut styrk til meistaraverkefnis í umhverfis- og auðlindafræði

Steinunn Kristín Guðnadóttir, meistaranemi í umhverfis- og auðlindafræði við Háskóla Íslands, hlaut á dögunum námsstyrk Ellýjar Katrínar í ár. Styrkurinn er veittur á vegum Reykjavíkurborgar til að hvetja nermendur til framhaldsnáms í umhverfis- og loftslagsmálum og efla þannig þekkingu á málefninu til framtíðar.
Styrkurinn er veittur til að vinna meistaraverkefni og í sínu verkefni hyggst Steinunn rannsaka hvernig íslensk nútímalist vinnur með hugmyndir um loftslagsmál og hvernig slík verk varpa ljósi á skynjun samfélagsins á loftslagsvánni. Megináhersla verður lögð á sjónræna list sem tekst á við loftslagsvá og umhverfismál, það er myndlist, vídeóverk, ljósmyndun, gjörningalist og sviðslist. Verkefnið tengist einnig Reykjavíkurborg sem loftslags- og menningarborg þar sem list og stefnumótun í loftslagsmálum mætast og móta hvort annað.
Markmið rannsóknarinnar er að auka skilning á því hvaða viðhorf til loftslagsbreytinga birtast í íslenskri list og hvernig þau geta haft áhrif á stefnumótun og hvatningu til loftslagsaðgerða. Steinunn vinnur verkefnið undir leiðsögn Helgu Ögmundardóttur, dósents við Félagfræði-, mannfræði og þjóðfræðideild, og Magnúsar Arnar Sigurðssonar.
Steinunn er sem stendur erlendis í skiptinámi erlendis en faðir hennar, Guðni Elísson, veitti styrknum viðtöku fyrir hennar hönd í Höfða á dögunum. Hér er hann ásamt Heiðu Björg Hilmisdóttur borgarstjóra og Magnúsi Karli Magnússyni, eftirlifandi eiginmanni Ellýjar Katrínar.

Fram kemur á vef Reykjavíkurborgar að námsstyrkur Ellýjar Katrínar hafi verið settur á laggirnar í fyrra til að heiðra minningu Ellýjar Katrínar Guðmundsdóttur, fyrrverandi sviðsstjóra, borgarritara og leiðtoga í loftslags- og umhverfismálum í Reykjavík. Styrkurinn er veittur árlega til meistaraverkefna til að hvetja til framhaldsnáms í umhverfis- og loftslagsmálum og efla þannig þekkingu á málefninu til framtíðar.
Alls bárust tólf umsóknir um styrkinn í ár. Í valnefnd sátu: Hrönn Hrafnsdóttir deildarstjóri loftslagsmála á umhverfis- og skipulagssviði (formaður), Brynhildur Davíðsdóttir, prófessor við Háskóla Íslands og Hjálmar Sveinsson borgarfulltrúi. Verkefnisstjóri valnefndar var Margrét Lára Baldursdóttir, sérfræðingur á umhverfis- og skipulagssviði.
