Sjúkraþjálfunarnemar verðlaunaðir fyrir lokaverkefni á evrópskri ráðstefnu

Nemendur í grunn- og framhaldsnámi í sjúkraþjálfun fengu verðlaun fyrir lokaverkefni sín á árlegri haustráðstefnu Evrópusamtaka háskóla sem kenna sjúkraþjálfun (The European Network of Physiotherapy in Higher Education (ENPHE)) á dögunum.
ENPHE var stofnað árið1995 sem óformlegt tengslanet og hefur Háskóli Íslands verði hluti af því frá upphafi. Árið 2021 var ENPHE breytt í formleg samtök og nú eiga meira en 150 háskólar frá 31 Evrópulandi aðild að þeim.
ENPHE hélt sína árlegu haustráðstefnu dagana 19.-20. september og að þessu sinni var gestgjafinn sjúkraþjálfunardeild The Lunex University of Applied Sciences í Lúxemborg. Þema ráðstefnunnar í ár var „The Future of Physiotherapy Education: Trends, Challenges, and Opportunities“. Ráðstefnan er ætluð bæði kennurum og nemendum í sjúkraþjálfun og leggja samtökin mikla áherslu á að nemendur taki virkan þátt og að rödd þeirra fái að heyrast.
Að þessu sinni tóku fjórir kennarar og þrír nemendur frá Námsbraut í sjúkraþjálfun við Háskóla Íslands þátt í ráðstefnunni og höfðu bæði gagn og gaman af. Viðburðir ENPHE eru ekki bara mikilvægir til að miðla og afla þekkingar í kennslu heldur einnig til að mynda tengslanet og hópa sem vinna að kennsluþróunarverkefnum og rannsóknum.
Á síðasta degi ráðstefnunnar fór fram aðalfundur ENPHE. Þar lét Björg Guðjónsdóttir, dósent við Háskóla Íslands, af stjórnarsetu eftir tíu ár í stjórn. Á þessum tíma sinnti hún fjölbreyttum og mikilvægum verkefnum fyrir samtökin. Hún skipulagði meðal annars árlegar vinnustofur og ráðstefnur, kom að undirbúningi námskeiða á vegum ENPHE, stýrði starfsemi vinnuhópa, var um tíma varaformaður og gegndi síðustu árin embætti gjaldkera.
Einn fastur liður í starfi ENPHE eru verðlaun fyrir framúrskarandi BS -og MS-verkefni. Hver háskóli innan samtakanna getur tilnefnt eitt ágrip af BS-verkefni og annað af MS-verkefni til þátttöku í samkeppni um bestu nemendarannsóknirnar. Háskóli Íslands hefur ávallt tekið virkan þátt í þessari keppni og verkefni héðan hlotið verðlaun ítrekað. Í ár urðu verkefni frá Háskóla Íslands í fyrsta sæti bæði í flokki BS- og MS-verkefna. Gauti Björn Jónsson, Guðmundur Örn Guðjónsson og Tómas Elí Jafetsson hlutu verðlaun fyrir BS-verkefnið „Rehabilitation of a Shoulder Problem from the Perspective of Artificial Intelligence“ sem unnið var undir leiðsögn Atla Ágústssonar lektors og Bjargar Guðjónsdóttur. Þá hlaut Daníel Bjarki Stefánsson verðlaun fyrir MS-verkefnið „Experiences of assistive devices among children and youth with cerebral palsy (CP) at Gross Motor Function Classification System Levels III–V“ sem unnið var undir leiðsögn Bjargar Guðjónsdóttur og Sólveigar Ásu Árnadóttur prófessors.
Námsbraut í sjúkraþjálfun er afar stolt af framlagi sínu til ENPHE og árangri nemenda Háskóla Íslands á alþjóðavettvangi. Námsbrautin flytur Björgu Guðjónsdóttur sérstakar þakkir fyrir ómetanlegt starf í þágu ENPHE.
