Skip to main content
24. september 2025

Háskóli Íslands hlýtur viðurkenningu fyrir stafræn skref

Háskóli Íslands hlýtur viðurkenningu fyrir stafræn skref - á vefsíðu Háskóla Íslands

Háskóli Íslands var í hópi sjö stofnana sem fengu nýverið viðurkenningu frá Stafrænu Íslandi fyrir að stíga mikilvæg stafræn skref sem miða meðal annars að því að efla þjónustu með því að nýta opin og sameiginleg tól sem þróuð hafa verið af Stafrænu Íslandi. 

Viðurkenningin eru hvataverðlaun fyrir opinbera aðila og er einnig ætlað að ýta undir bætta nýtingu fjármuna á vegum hins opinbera. Verðlaunin voru veitt í fyrsta skipti árið 2022 og eru stafrænu skrefin eru níu talsins sem stendur.
 

Starfsfólk þróunarsviðs Háskóla Íslands tók þátt í ráðstefnu Stafræns Íslands en þar var m.a. sýnt myndbandsviðtal þar sem starfsfólk þjónustuborðs greindi frá reynslu sinni af notkun þjónustukerfisins Zendesk en upplifun þeirra hefur verið mjög jákvæð. Þá upplifa notendur tímasparnað við svörun og betri yfirsýn. 

Á árlegri ráðstefnu Stafræns Íslands, sem ber yfirskriftina „Tengjum ríkið“, voru veittar viðurkenningar til sjö stofnana fyrir að hafa stigið stafræn skref á undanförnum 12 mánuðum og var Háskóli Íslands í þeirra hópi. Skólinn hefur lokið við sex skref af þeim níu sem Stafrænt Ísland skilgreinir og kom það hlut rektors Háskóla Íslands, Silju Báru R. Ómarsdóttir, að taka við viðurkenningu fyrir hönd skólans. 

Innleiðing stafrænna skrefa er hluti af stafrænni vegferð Háskóla Íslands undir merkjum notendamiðaðrar þjónustu sem er liður í stefnu skólans, HÍ26. Skólinn hefur í þessu augnamiði m.a. hafið innleiðingu á  þjónustukerfinu Zendesk sem auðveldar starfsfólki að svara erindum og stúdentum að sækja ýmsa þjónustu á Þjónustumiðju um leið og þjónustueiningar skólans hafa fengið betri yfirsýn yfir verkefni og verkaskiptingu.  

Handhafar viðurkenninga fyrir stafræn skref