Nýtt hlaðvarp HÍ tengt heimsmarkmiðunum
HÍ og heimsmarkmiðin er heitið á nýju hlaðvarpi á vegum Háskóla Íslands sem hafið hefur göngu sína og er nátengt samnefndri viðburðaröð skólans sem hefst á ný eftir hlé miðvikudaginn 27. nóvember.
Í fyrsta hlaðvarpsþættinum er fjallað almennt um heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna og sjálfbærni og hvernig HÍ og háskólar geta stutt við þau. Þar ræða þær Hafdís Hanna Ægisdóttir, forstöðumaður Sjálfbærnistofnunar HÍ, og Fanney Karlsdóttir, teymisstjóri Aurora-samstarfs HÍ, saman en báðar hafa þær yfirgripsmikla reynslu af vinnu tengdri heimsmarkmiðunum og sjálfbærni, bæði hjá fyrirtækjum, félagasamtökum og í opinbera geiranum. Heimsmarkmiðin eru afar víðfem og snerta nánast alla fleti í lífi okkar og eru nokkurs konar leiðarvísir um það hvernig við getum stuðlað að betri heimi fyrir líf á jörðinni og umhverfið, eins og þær Hafdís Hanna og Fanney ræða nánar í hlaðvarpinu.
Hægt er að hlusta á fyrsta þáttinn á Soundcloud.
Það er starfsfólk Sjálfbærnistofnunar HÍ sem heldur utan um hlaðvarpið en stofnunin stendur ásamt HÍ og forsætisráðuneytinu að samnefndri viðburðaröð sem nú hefur verið endurvakin eftir nokkurt hlé. Á fyrsta viðburðinum í nýrri viðburðalotu tengdri HÍ og heimsmarkmiðunum, sem fram fer í Hátíðasal Aðalbyggingar í hádeginu 27. nóvember, er sjónum beint að heimsmarkmiði 16 um frið og réttlæti sem fjallar m.a. um að draga skuli verulega úr hvers kyns ofbeldi. Mikið hefur verið rætt um ofbeldi hér á landi að undanförnu, sérstaklega meðal ungmenna og barna, og á viðburðinum verður sjónum sérstaklega beint að þeim málaflokki með þátttöku forseta Íslands og fjölbreytts hóps innan og utan HÍ.
Nánari upplýsingar um viðburðinn 27. nóvember má finna á vef HÍ.