Stærðfræðinemar sigruðu í Forritunarkeppni háskólanna
Benedikt Vilji Magnússon, Kári Hlynsson og Matthías Andri Hrafnkelsson, stærðfræðinemar við Háskóla Íslands, urðu hlutskarpastir í Forritunarkeppni háskólanna sem haldin var í Háskólanum í Reykjavík um miðjan september. Þeir verða meðal þátttakenda á Norðurlandakeppninni í forritun (NCPC) sem fram fer í Háskóla Íslands um næstu helgi.
Þetta var í annað sinn sem forritunarkeppnin var haldin en að henni stóð Keppnisforritunarfélag Íslands. Markmið félagsins er að styðja við keppnisforritun hér á landinu og í því augnamiði stendur félagið fyrir reglulegum fræðslufundum og forritunarkeppnum, eins og forritunarkeppni grunn-, framhalds- og háskólanna.
Í keppninni sem fram fór á dögunum voru 13 lið skráð til leiks og var verkefni þeirra að spreyta sig á 13 miserfiðum forritunarverkefnum. Til þess höfðu þau fimm klukkustundir. Þegar upp var staðið náði liðið Codebusters, lið Benedikts, Kára og Matthíasar, að leysa flestar þrautir, eða níu talsins og var því sigurvegari keppninnar.
Þremenningarnir munu ásamt fleiri íslenskum liðum taka þátt í Norðurlandakeppnin í forritun (NCPC) sem fram fer á Háskólatorgi laugardaginn 5. október. Keppnin er opin háskólaliðum frá öllum norrænu ríkjunum og Eystrasaltsríkjunum og hafa lið frá 20 háskólum nú þegar staðfest þátttöku. Keppnisfyrirkomulag verður með svipuðu sniði og í landskeppninni hér á landi, þ.e. árangur liða er metinn út frá þeim fjölda þrauta sem liðum tekst að leysa. Hægt verður að fylgjast með keppninni á vef NCPC