Skip to main content

Ungmenni áttu erfitt með að aðlagast fyrra lífi eftir kórónuveirufaraldurinn

Ungmenni áttu erfitt með að aðlagast fyrra lífi eftir kórónuveirufaraldurinn - á vefsíðu Háskóla Íslands

Sóttvarnaaðgerðir gegn COVID--19 hafa haft margvíslegar beinar og óbeinar afleiðingar á heilsu og líðan ungs fólks. Eva Jörgensen, doktorsnemi í mannfræði við HÍ, sem vinnur að rannsókn undir yfirskriftinni „Áhrif COVID-19 á ungt fólk á aldrinum 12-17 ára,‟ segir að margt hafi verið vel gert en að spurningar vakni um hvort ekki hefði mátt taka betur mið af sjónarmiðum ungmenna og bæta upplýsingamiðlun til þeirra. Í viðtali við nemanda í blaða- og fréttamennsku við HÍ segir hún frá rannsókn sinni, aðdraganda, aðferðum og niðurstöðum.

Hvernig kviknaði hugmyndin að þessari rannsókn og hvernig gengur? 

Upphaflega hafði ég í hyggju að fara í vettvangsrannsókn til Grikklands og rannsaka heilsuhegðun hinsegin kvenna í Grikklandi ásamt aðgengi að heilbrigðiskerfinu en COVID-19-faraldurinn setti strik í reikninginn. Þess vegna ákvað ég að fara í þessa rannsókn frekar.

Ég byrjaði á nýju rannsóknarefni sumarið 2020, fór síðan að taka viðtöl við fólk sem vinnur með ungmennum, svo sem kennara og heilbrigðisstarfsfólk. Sumarið eftir byrjaði ég síðan að taka viðtöl við unglinga. Það hafa orðið ýmsar tafir út af faraldrinum en allt er á réttri leið og ég vonast til að geta klárað eftir um það bil eitt og hálft ár.

Hvaða aðferðir notar þú við rannsóknina?

Til viðbótar við einstaklingsviðtöl nota ég líka spurningalista og svo hef ég verið að safna gögnum um stefnumótun stjórnvalda í COVID-19-faraldrinum: hvaða sóttvarnaraðgerðir var farið í og hvernig þær breyttust með tímanum. Ég ætla líka að notast við gögn um líðan unglinga í faraldrinum þannig að ég er bæði með almenn gögn til að gefa rannsókninni breidd og svo viðtöl við einstaklinga til að fara meira á dýptina og fá sýn á málið frá fleiri hliðum.

Ertu aðeins að rannsaka áhrifin á Íslandi eða ætlar þú að fara í einhvern samanburð á milli landa?

Til að byrja með er ég að einblína á Ísland en í framhaldi af þessari rannsókn langar mig að setja niðurstöðurnar í alþjóðlegt samhengi. Ég er að sækja um styrk til að fara í sameiginlega rannsókn með öðrum norrænum ríkjum sem yrði þá samanburðarrannsókn í framhaldi af þessari. Þá gæti ýmislegt áhugavert komið í ljós þar sem norrænu ríkin hafa alls ekki öll farið sömu leið í sóttvarnaraðgerðum sínum.

Í lausu lofti eftir afléttingu sóttvarnatakmarkana

Hvort ertu að skoða áhrifin af sjúkdómnum sjálfum eða af sóttvarnaraðgerðum?

Í rauninni bæði en fyrst og fremst áhrifin af sóttvarnaraðgerðum því þau skipta mestu máli þegar kemur að börnum og unglingum. Stefnumótun stjórnvalda í faraldrinum hefur mikil áhrif á daglegt líf og líðan ungmenna. Við á Íslandi ákváðum til dæmis að halda skólunum að mestu leyti opnum en aðgerðirnar hafa samt valdið mikilli röskun í lífi unglinga. Það er mikið af seintækum, duldum áhrifum sem koma ekki fram fyrr en eftir faraldurinn. Mestu áhrifin urðu þegar framhaldsskólar voru lokaðir, bein og óbein áhrif á allan heilsuþríhyrninginn: á félagslega, andlega og líkamlega heilsu.

Svo voru áhrif upplýsingamiðlunar misjöfn. Við vorum með þessa flottu upplýsingafundi daglega sem flestir fylgdust vel með og svo settum við fram efni fyrir yngstu börnin svo að þau gætu líka fylgst með því sem var í gangi. Allt var þetta mjög vel gert en hins vegar varð hópur unglinga svolítið eftir. Það er eins og fólk hafi gert ráð fyrir því að þau myndu skilja allt sem kom fram á upplýsingafundum en það sem unglingar eru að segja við mig er að þeir skildu engan veginn hvað væri í gangi.

Það var mikil óvissa í kringum sóttvarnaraðgerðir og endaði með því að unglingar fóru að reyna að forðast vandamálið. Þegar öllu er síðan aflétt 25. febrúar 2022 þá lýsa þeir því þannig að þeir hafi bara ekki verið tilbúnir. Allt í einu varð allt eðlilegt aftur en þeim fannst að þeir hefðu þurft að taka þetta í skrefum og áttu erfitt með að aðlagast hinu gamla lífi aftur.

Eru einhverjar niðurstöður úr rannsókninni sem þú getur greint frá nú þegar?

Þetta er enn í vinnslu en rauði þráðurinn er kannski sá að við þurfum að passa okkur betur á óvissunni sem fylgir þessum sóttvarnaraðgerðum. Á fyrstu dögum faraldursins voru foreldrar kvíðnari en unglingarnir sjálfir en þegar einhverjir skólar lokuðu varð krökkunum ljóst að vandinn var raunverulegur og alvarlegri en þeir höfðu gert sér grein fyrir. Þau áttu erfitt með að fylgjast með upplýsingafundum og hröðum breytingum í sóttvarnaraðgerðum.

Eins og við þekkjum þá eru unglingar mikið á samfélagsmiðlum og þar fengu þeir alls konar misvísandi upplýsingar um faraldurinn og það var erfitt fyrir þá að moða úr þessu. Þau fóru ekkert á covid.is heldur voru þeir að reiða sig á einhvern vin eða foreldra sem voru inni í málinu. Svo var aðlögunin erfið eftir að öllu var aflétt. Þeir voru mikið á samfélagsmiðlum á meðan á faraldrinum stóð og áttu sumir erfitt með að hætta á þeim þegar allt fór í gang aftur. Margir töluðu um að eiga erfiðara með að einbeita sér í skólanum og þetta heyri ég líka frá kennurum.

„Grundvallaratriði í barnasáttmála Sameinuðu Þjóðanna er að hafa börn og unglinga með í ráðum þegar kemur að ákvarðanatöku um mál sem snerta daglegt líf þeirra. Rödd þeirra á að heyrast en það sem gerist oft er að stefnumótun sem snertir börn er ekki unnin í samráði við þau. Það er ekki alltaf auðvelt þegar um neyðarástand er að ræða en þetta skiptir máli,“ segir Eva.

Eva Jögensen

Þörf á aukinni aðstoð fyrir unglinga

Annað sem við erum að sjá er að neikvæðu áhrifin eru að miklu leyti að koma fram eftir á. Þegar við lendum í erfiðum aðstæðum einbeitum við okkur að því að lifa áfallið af en þegar við erum komin úr hættunni þá verður spennufall og þá dynja á okkur neikvæðu áhrifin: kvíði, léleg sjálfsmynd og þunglyndi. Þessi vandamál eru ekki ný af nálinni heldur eru þetta undirliggjandi vandamál sem við vorum nú þegar að glíma við áður en faraldurinn skall á og hafa versnað í framhaldi af því. Krakkarnir þurfa kannski aukna aðstoð eftir faraldurinn en kerfin okkar bjóða ekki endilega upp á það. Við þurfum að bregðast við því og hugsa bæði um forvörn og inngrip á sama tíma.

Hvernig gekk fjarkennslan í skólunum?

Það er mjög misjafnt hvernig hún gekk, bæði milli skóla og milli einstaklinga. Hjá sumum viðmælendum mínum var það mikið basl að halda í við námið og halda einbeitingu, öðrum gekk hins vegar mjög vel. Það gekk líka misjafnlega vel hjá kennurum. Kennarar reyndu að gera sig aðgengilega en eftir smá tíma kom þreyta í mannskapinn og sumir nemendur voru einfaldlega ekki með aðstöðu til að vera „í skólanum heima hjá sér“.

Er eitthvað sem við hefðum átt að gera öðruvísi í sóttvarnaraðgerðum eftir á að hyggja?

Grundvallaratriði í barnasáttmála Sameinuðu Þjóðanna er að hafa börn og unglinga með í ráðum þegar kemur að ákvarðanatöku um mál sem snerta daglegt líf þeirra. Rödd þeirra á að heyrast, en það sem gerist oft er að stefnumótun sem snertir börn er ekki unnin í samráði við þau. Það er ekki alltaf auðvelt þegar um neyðarástand er að ræða en þetta skiptir máli.

Þó að við höfum gert margt mjög vel þá hefði verið hægt að gera betur að þessu leyti. Við gerðum hins vegar mjög vel með því að halda skólunum opnum eins lengi og hægt var enda kemur það fram í skýrslum núna er að þetta hafi verið besta lausnin.

Svo þurfum við að hugsa betur um þennan hóp í kringum 14-15 ára sem segir kannski ekki upphátt að hann skilji ekki það sem kemur fram á upplýsingafundum en er í raun ekki alveg með á nótunum. Við þurfum að nota samfélagsmiðla sem krakkarnir eru á, miðla fræðslu þar í gegn og þannig getum við náð betur til þeirra.

Þannig að það er kannski þetta helst: að hafa börn og unglinga með í ráðum, miðla upplýsingum betur til þeirra og halda þannig óvissunni í lágmarki.

Höfundur greinar: Jean-Rémi Chereyre, framhaldsnemi í blaða- og fréttamennsku við HÍ.