Fyrstu skref að innleiðingu Heimsmarkmiða SÞ í matvæla og næringarfræði
Árið 2015 settu Sameinuðu þjóðirnar fram 17 markmið í átt að sjálfbærri þróun sem þjóðir heimsins skulu vinna að til ársins 2030. Matur og næring eru málefni sem tengjast öllum 17 sjálfbærnimarkmiðum Sameinuðu þjóðanna, ýmist beint eða óbeint. Öll þurfum við að borða til að halda góðri heilsu og í neysluhegðun okkar getum við haft gríðarleg áhrif með fæðuvali okkar, hvaða umhverfisáhrif og heilsufarslegu áhrif maturinn hefur. Innleiðing Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna í kennslu í matvæla- og næringarfræði á því vel við.
Í sjálfsmatsskýrslu Matvæla- og næringarfræðideildar árið 2019 sem gerð var vegna ytri gæðaúttektar voru tvö atriði sérstaklega fyrirferðarmikil í greiningu erlendu matssérfræðinganna. Annað atriðið sneri að því að tengingu náms og rannsókna milli fræðasviða matvæla- og næringarfræði væri ábótavant, og hitt atriðið að það vantaði meiri áherslu á sjálfbærni í náminu. Markvissar breytingar til að mæta þessum athugasemdum hafa verið gerðar síðan, og verða þær helstu tíundaðar hér.
Mannaflastaða deildar í aðdraganda sjálfsmatsskýrslunnar var takmörkuð, en innan deildarinnar voru þá 8 full stöðugildi kennara og um 140 nemendur á ársgrundvelli. Mikil rannsóknarvirkni einkennir deildina, sem veldur því að á hverju misseri er að jafnaði einn akademískur starfsmaður í rannsóknarleyfi, sem orsakar álag innan deildar. Kynslóðabreytingar og mikil starfsmannavelta akademískra starfsmanna hófst 2018 þar sem kennarar sem komu að stofnun deildar eru að hverfa frá störfum vegna aldurs. Slík starfsmannavelta getur valdið tímabundnum óstöðugleika á deild þar til nýir starfsmenn ná að koma sér af stað í rannsóknum og kennslu. Slíkar mannaflabreytingar geta þó einnig haft í för með sér heilmörg tækifæri til breytinga, líkt og í tilviki Matvæla- og næringarfræðideildar.
Í sjálfsmatsskýrslu Matvæla- og næringarfræðideildar 2019 höfðu nemendur áhyggjur af takmörkuðum tengslum námsins við atvinnulíf, bæði í matvæla- og næringarfræði, ásamt að lítil áhersla væri á sjálfbærni. Því þótti nám í deildinni ekki í takti við þær samfélagslegu kröfur sem uppi eru við gerð skýrslunnar. Í sjálfsmatsskýrslunni kom einnig fram að verulega vantaði upp á tengsl nemenda sín á milli, sérstaklega á milli nemenda á mismunandi námsbrautum og einnig í framhaldsnámi. Nemendur bentu til viðbótar á að þar sem deild væri ekki með eigið húsnæði og kennarar deildar væru staðsettir á afar mörgum starfsstöðvum væru lítil sem engin samskipti við kennara í náminu. Ásamt þessari gagnrýni bentu utanaðkomandi sérfræðingar á mikla hagkvæmni bæði fjárhagslega og faglega að kenna nemendum í matvæla- og næringarfræði saman, enda má segja að matvæla- og næringarfræði séu fræðigreinar sem eru sitt hvor hliðin á sama peningi. Sérfræðingarnir bentu einnig á að meiri áherslu þyrfti að leggja á sjálfbærni í kennslunni.
Til að koma til móts við þessar athugasemdir brást deildin við með því að a) fækka starfsstöðvum deildarinnar úr fimm yfir í eina meginstarfsstöð deildar á Aragötu og tvær starfsstöðvar fyrir framhaldsnám á LSH og á Matís og auka þannig aðgengileika nemenda að kennurum og samstarf innan deildarinnar, b) hefja vinnu að endurskoðun námskrár fyrir grunnnámið vorið 2020, og c) ráða í þrjú ný stöðugildi ásamt endurnýjun á stöðugildum sem eru að losna. Ein staðan sem auglýst og ráðið var í hafði jafnframt sérstaka áherslu á heilsu manns og jarðar út frá sjálfbærni. Þegar þessi grein er rituð eru hins vegar stöðugildin orðin 12 og hálft og nemendur um 220. Deildin er því í örum vexti.
Á svipuðum tíma og sjálfsmatsskýrslan var gerð kom EAT-Lancet skýrslan út (Willett o.fl., 2019), en efni hennar fjallar í stuttu máli um mikilvægi þess að skoða mataræði út frá umhverfisáhrifum þess og hversu miklu máli það skiptir að breyta mataræði íbúa jarðarinnar í átt að grænni kosti. Þarna var kominn afar mikilvægur hvati til að tengja matvælafræðina og næringarfræðina betur saman, og tækifæri til að endurskoða námið í ljósi heilsu manns og jarðar. Lektor í lífsferilsgreiningum var ráðinn við deildina með það í huga að endurskoða grunnnám deildar með sjálfbærni að leiðarljósi og þannig tengja námsgreinarnar í matvæla- og næringarfræði saman.
Hugmyndafræði endurskoðunarinnar er að skipulag námsleiða sé kvikt; að nemendur fái þá menntun sem þeir þurfa, út frá námskröfum til að fá löggildingu að námi loknu; mæta væntingum nemenda um hvað þeim þykir áhugavert, ásamt að námið horfi til þeirra samfélagslegu áskorana sem eru mest á döfinni hverju sinni, svo sem þær ógnir um loftslagsbreytingar sem allir íbúar jarðarinnar standa nú frammi fyrir.
Fyrir stefnufund deildar um endurskoðun grunnnáms í matvæla- og næringarfræði var ákveðið að Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun (e.d.) yrðu sú regnhlíf sem horft væri til þegar að náminu yrði breytt. Þessi ákvörðun markast einnig af þeim ákvæðum í stefnu Háskóla Íslands 2021–2026, sem segir að skólinn stefni að því að verða „leiðandi á sviði sjálfbærni í krafti kennslu, rannsókna og þekkingarsköpunar“. Það hefur því verið sett krafa á okkur háskólakennara að auka áherslu á Heimsmarkmiðin og gera þau sýnileg í kennsluskrá, námskeiðalýsingum og allri kennslu.
Stefnumótunarfundur um breytingu grunnnáms deildar var svo haldinn á vormánuðum 2020 og megininntak hans var, eins og áður var greint frá, að auka samstarf innan deildar undir regnhlíf sjálfbærni. Við fengum gestafyrirlestur frá Auði Pálsdóttur, dósent við Menntavísindasvið, og Láru Jóhannsdóttur, prófessor í umhverfis- og auðlindafræði við Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands, en vinna þeirra við greiningu á stöðu Heimsmarkmiðanna í námskeiðalýsingum deildarinnar og háskólans í heild skipti sköpum fyrir okkar vinnu við endurskipulag námsins. Meginniðurstaða greiningarinnar sýndi að þó svo að viðfangsefni og verkefni sem tengjast sjálfbærnimarkmiðum Sameinuðu þjóðanna kunni að eiga sér stað innan námsins, þá koma þau einkar illa fram í námskeiðalýsingum og gögnum um starfsemi deilda (Auður Pálsdóttir og Lára Jóhannsdóttir, 2021a). Að sama skapi kynntu þær vísindalega samantekt á grunnhæfniþáttum fyrir aukna sjálfbærni fyrir Háskóla Íslands (Auður Pálsdóttir og Lára Jóhannsdóttir, 2021b), en sú greining hefur einnig skipt sköpum fyrir umbótarvinnu Matvæla- og næringarfræðideildar.
Árið 2015 settu Sameinuðu þjóðirnar fram 17 markmið í átt að sjálfbærri þróun sem þjóðir heimsins skulu vinna að til ársins 2030. Matur og næring eru málefni sem tengjast öllum 17 sjálfbærnimarkmiðum Sameinuðu þjóðanna, ýmist beint eða óbeint. Öll þurfum við að borða til að halda góðri heilsu og í neysluhegðun okkar getum við haft gríðarleg áhrif með fæðuvali okkar, hvaða umhverfisáhrif og heilsufarslegu áhrif maturinn hefur. Innleiðing Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna í kennslu í matvæla- og næringarfræði á því vel við.
Niðurstaða stefnumótunarfundarins var að sameina skyldi grunnnám matvæla- og næringarfræðinnar fyrstu tvö árin og leggja þar áherslu á sjálfbærni manns og jarðar og samkennslu nemenda. Sú vinna fól í sér að öll námskeið deildar voru endurskoðuð og ný námskeið hafa verið búin til, þannig að hægt sé að ná fram endurskoðuðum markmiðum deildarinnar. Breytingarnar fela meðal annars í sér að á fyrsta námsári er eitt námskeið sem kennir grunnhugmyndafræði innan sjálfbærni, matvæla- og næringarfræði, þar sem sérstaklega er unnið með þá þætti sem eru sameiginlegir með þessum þverfaglegu fræðigreinum. Námsmat námskeiðs er meðal annars eitt stórt hópverkefni sem tengir saman fæðutengdar ráðleggingar um mat og næringu, matvælavinnslu og útreikninga umhverfisáhrifa mismunandi mataræðis. Þannig fá nemendur innsýn í mikilvægi þess að við veltum fyrir okkur hvað við borðum, hvar maturinn okkar er framleiddur og við hvaða aðstæður, og síðast en ekki síst hvaða afleiðingar mataræði og framleiðsla matar hefur á umhverfið. Þessi breyting á grunnnáminu tók gildi nú haustið 2022.
Samkvæmt nýrri kennsluskrá verða einnig tvö ný námskeið þróuð fyrir annað námsárið. Í fyrra námskeiðinu verður áhersla lögð á fæðukerfi og sjálfbærni, og dýpri samræður um áhrif hagaðila á samskipti innan fæðukeðju á framleiðsluhætti og sjálfbærni framleiðslu. Um mjög flókið samspil, næstum óteljandi ferla, er að ræða sem gaman verður að takast á við með frjóum hópi nemenda. Það námskeið verður kennt í fyrsta skipti haustið 2023. Seinna námskeiðið „Matvæla- og fæðuöryggi“ snýr að mikilvægi fæðuöryggis og aðgengis að matvælum annars vegar og matvælaöryggis hins vegar, en bæði málefnin snerta sjálfbærnimarkmiðin beint. Þessi nýju námskeið byggja þannig enn fremur undir þann grunn sem fyrir var með kennslu á námskeiðum svo sem „Vistvæn nýsköpun matvæla“ og „Vöruþróun matvæla“ þar sem umhverfismálin hafa verið tekin til umfjöllunar til lengri tíma. Einnig er vinna hafin við að uppfæra allar námskeiðalýsingar deildarinnar, tengja þær við áðurnefnd hæfnimarkmið um sjálfbærni og markvisst kynna slíkar tengingar fyrir nemendum í gegnum allt námið. Gert er ráð fyrir að þessi vinna liggi fyrir með útgáfu nýrrar kennsluskrár fyrir kennsluárið 2023–2024.
Þar sem þessar grundvallarbreytingar á skipulagi náms í matvæla- og næringarfræði hófust með athugasemdum nemenda var einkar spennandi að fylgjast með niðurstöðum miðmisseriskönnunar og heyra hvað nemendur í nýju inngangsnámskeiði í „Mat, næringu og sjálfbærni“ hefðu að segja um námskeiðið. Niðurstöður miðmisseriskönnunarinnar sýna að nemendur eru almennt ánægðir með þetta fyrsta árs námskeið, en námskeiðið hlaut meðaleinkunnina 8,29 í könnuninni, sem er hærra en meðaleinkunn námskeiða bæði á Heilbrigðisvísindasviði og í Háskóla Íslands í heild. Þótt einungis sé um fyrstu vísbendingar að ræða, þá lítum við samt á þetta sem ákveðna staðfestingu á að sú vegferð sem við höfum hafið sé í rétta átt. Einnig ættu viðbrögðin og niðurstöðurnar að sýna nemendum að þeirra skoðanir hafa áhrif, sem svo þarf að fara saman með vilja deilda til breytinga. Til viðbótar þá hefur þessi aukna áhersla innan deildar á sjálfbærni ekki aðeins valdið breytingum á kennsluskrá með nýjum námskeiðum. Samþætting sjálfbærni í kennslu hefur líka alið af sér aukna samvinnu í rannsóknum innan deildarinnar sem t.d. hefur skilað af sér verkefni sem styrkt er af markáætlun Rannís um samfélagslegar áskoranir sem kallast „Sjálfbært heilsusamlegt mataræði“, auk þess sem umhverfisáhrif og sjálfbærni eru nú tekin til rannsókna með einum eða öðrum hætti í flestum rannsóknarverkefnum deildarinnar.
Sú jákvæða reynsla sem hlotist hefur af þeim grundvallarbreytingum sem reifaðar hafa verið í þessari grein um grunnnám í matvæla- og næringarfræði, hefur leitt til þess að vinna er einnig hafin við að þróa kjörsvið á meistarastigi með áherslu á sjálfbær fæðukerfi og nýsköpun. Mun deildin halda þessari vegferð áfram í gegnum öll námsstigin.
Að lokum þá hvetjum við höfundar greinarinnar aðrar deildir til að hefja svipaða vegferð, hafi deildir ekki gert það nú þegar. Með nýtilkomnum Samstarfssjóði háskólanna býðst einnig tækifæri til að nýta reynslu okkar við innleiðingu á sjálfbærni og Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun til aukins samstarfs á milli íslensku háskólanna. Aukin sjálfbærni er okkar allra hagur og við deilum gjarnan reynslu okkar í Matvæla- og næringarfræðideild til annarra, sé þess óskað.