Lýðheilsuvísindi - Örnám


Lýðheilsuvísindi
Örnám – 30 einingar
Örnám í lýðheilsuvísindum er sérstaklega ætlað fagfólki innan heilbrigðis- félagsmála- eða menntakerfisins sem vill auka þekkingu sína á heilsueflingu og forvörnum og skilning á lýðgrunduðum rannsóknum.
Skipulag náms
- Haust
- Lýðheilsa: Vísindi, stjórnmál, forvarnir
- Áhrifavaldar heilbrigðis, forvarnir og heilsuefling
- Faraldsfræði - megindleg aðferðafræði
- Viðfangsefni í faraldsfræði (Faraldsfræði III)V
- R forritunV
- Líftölfræði IV
- Líftölfræði II (Klínísk spálíkön)V
- R fyrir byrjendurV
- Vor
- Hagnýt gagnagreiningV
- Áföll og heilsufarslegar afleiðingar þeirraV
- AlþjóðaheilsaV
- Líftölfræði III (Lifunargreining)V
- Aðferðir í faraldsfræði (Faraldsfræði II)V
- LýðheilsunæringarfræðiV
Lýðheilsa: Vísindi, stjórnmál, forvarnir (LÝÐ101F)
Í námskeiðinu er farið yfir skilgreiningar, sögu, markmið, gildissvið, siðfræði og aðferðir lýðheilsuvísinda svo og íslensk- og alþjóðleg lög og sáttmála sem tengjast lýðheilsu. Nokkur áhersla er lögð á lýðheilsu og heilbrigðisvísa í alþjóðlegu samhengi en einnig á íslenska heilbrigðiskerfið, stjórnun og fjármögnun þess svo og samanburð við heilbrigðiskerfi annara þjóða. Ennfremur er farið yfir söfnun heilbrigðisupplýsinga á Íslandi sem á alþjóðavísu og nýtingu þeirra til rannsókna og stefnumótunar í heilbrigðismálum. Einnig er lögð áhersla á þau svið lýðheilsu sem eru á döfinni hverju sinni.
Áhrifavaldar heilbrigðis, forvarnir og heilsuefling (LÝÐ104F)
Stærstu áhættuþættir ótímabærra dauðsfalla svo sem hár blóðþrýstingur, tóbaksnotkun, yfirþyngd og hreyfingarleysi valda um 22 milljónum dauðsfalla árlega á heimsvísu. Bæta mætti allt að 5 árum við meðalaldur jarðarbúa með því að draga hóflega úr algengi átta algengstu áhættuþáttanna. Markmið námskeiðsins er að undirbúa nemendur fyrir þetta viðfangsefni og skiptast áherslur í nokkra meginþætti:
1. Áhrifavaldar heilbrigðis: Hvaða þættir hafa mest áhrif á heilsu og heilbrigði?
2. Aðferðafræði:
a) Hvernig skipuleggjum við forvarnar- og heilsueflingarverkefni?
b) Hvar er hagkvæmast að byrja? Hagfræðileg greining á inngripum.
c) Hvernig höfum við jákvæð áhrif á atferli einstaklinga? Líkön í atferlisfræði, áhugahvetjandi samtöl, atferlishagfræði, samskiptafræði og félagsleg markaðsfærsla.
d) Hvernig höfum við áhrif á ,,kerfið”? Hagsmunagæsla (lobbyismi), bréfaskrif til þingmanna, umfjöllun í fjölmiðlum.
3. Nánari umfjöllun um helstu viðfangsefni: háþrýsingur, sykursýki, hjarta- og æðasjúkdomar, næring og mataræði, ofþyngd og offita, hreyfing, tóbaksvarnir, krabbamein, áfengi og vímuefni, slysavarnir, umhverfi og atvinna, geðrækt og sjálfsvígsforvarnir, kynheilbrigði og sjálfsmynd, sértækar lausnir fyrir börn og unglinga.
Framsetning: Fyrirlestrar umsjónarkennara og valinna gestafyrirlesara sem eru meðal fremstu sérfræðinga þjóðarinnar á sínu sviði. Lagt verður upp úr umræðum, virkni og þátttöku nemenda í tímum. Einnig vinna nemendur hópverkefni þar sem þeir kynna sér til hlítar valinn áhættuþátt og gefa tillögur að úrbótum.
Faraldsfræði - megindleg aðferðafræði (LÝÐ107F)
Námskeiðið er inngangur að faraldsfræðilegum rannsóknaraðferðum og nálgun orsaka. Námskeiðið gefur yfirlit yfir mælingar á tíðni sjúkdóma, áhættu og afstæðri áhættu, gerðir faraldsfræðilegra rannsókna (tilraunir og íhlutandi rannsóknir, hóprannsóknir, tilfella-viðmiðsrannsóknir). Áhersla er lögð á kerfisbundna skekkjuvalda og á aðferðir til að sneiða hjá þeim á undirbúningsstigi rannsókna svo og í úrvinnslu gagna. Nemendur fá þjálfun í því að ritrýna faraldsfræðilegar rannsóknarniðurstöður.
Viðfangsefni í faraldsfræði (Faraldsfræði III) (LÝÐ097F)
Markmið námskeiðsins er að auka skilning nemenda á sérstökum sviðum innan faraldsfræði, kynna sérstaka aðferðafræði sem tilheyrir viðkomandi sviðum, og að efla hæfni nemenda í að meta gæði og túlka niðurstöður faraldsfræðilegra rannsókna.
Námskeiðið mun fjalla ítarlega um 4-6 sérstök rannsóknarsvið innan faraldsfræðinnar, sem dæmi faraldsfræði fæðinga, næringar, og smitsjúkdóma. Mismunandi umfjöllunarefni kunna að vera valin frá ári til árs.
R forritun (MAS102M)
Í námskeiðinu munu nemendur framkvæma hefðbundnar tölfræðiaðferðir á raunverulegum gagnasöfnum. Áhersla verður lögð á fjölbreytu aðhvarfsgreiningu (e. multiple linear regression). Nemendur beita fáguðum aðferðum við myndræna framsetningu sem og sjálfvirka skýrslugerð. Námsmat verður í formi raunhæfra verkefna þar sem nemendur framkvæma ofangreind atriði á raunverulegum gagnasöfnum með það fyrir augum að svara rannsóknarspurningum.
Líftölfræði I (LÝÐ105F)
Inngangur að hagnýtri líftölfræði í lífvísindum. Yfirlit er gefið yfir tegundir breyta; flokkabreytur, strjálar og samfelldar talnabreytur. Lýsandi tölfræði; lýsistærðir og myndræn framsetning gagna. Fræðilegar líkindadreifingar; tvíkostadreifing, Poisson dreifing og normaldreifing. Skilgreiningar á slembiúrtaki og þýði. Dreifingar lýsistærða. Notkun á öryggisbilum og tilgátuprófum. Samanburður á meðalgildi hópa (samfelldar mælingar). Tölfræðipróf fyrir tíðnitöflur (flokkabreytur). Einföld og lógistísk aðhvarfsgreining og ROC greining. Lifunargreining með aðferð Kaplan Meier og Cox. Í fyrirlestrum og dæmatímunum verður notast við tölfræðiforritið R og RStudio umhverfið.
Líftölfræði II (Klínísk spálíkön) (LÝÐ301F)
Námskeiðið er beint framhald af Líftölfræði I og veitir nemendum praktíska handleiðslu í tölfræðiúrvinnslu í eigin rannsóknarverkefnum. Útreikningar á hlutfallslegri áhættu og leiðréttri hlutfallslegri áhættu. Fylgni og einföld aðhvarfsgreining, margvíð línuleg aðhvarfsgreining og lógistísk aðhvarfsgreining. Námskeiðið byggist á fyrirlestrum og dæmatímum. Í dæmatímunum verður notast við tölfræðiforritið R.
R fyrir byrjendur (MAS103M)
Námskeiðið fjallar um tölfræðiúrvinnslu í forritinu R. Gert er ráð fyrir að nemendur hafi grunnþekkingu í tölfræði og munu nemendur læra að beita þeim tölfræðiaðferðum sem þeir þekkja í R. Farið verður í innlestur gagna, myndræna framsetningu, lýsandi tölfræði og hvernig algengustu tilgátupróf (t-próf, kí-kvaðratpróf o.s.frv) eru framkvæmd í R. Að auki verður nemendum kennt að nota knitr pakkann til að vinna skýrslur.
Námskeiðið er kennt á fimm vikum í þrjár kennslustundir á viku. Kennari heldur fyrirlestra og nemendur vinna verkefni.
Hagnýt gagnagreining (MAS202M)
Námskeiðið fjallar um tölfræðiúrvinnslu í forritinu R. Gert er ráð fyrir að nemendur hafi grunnþekkingu í tölfræði og tölfræðihugbúnaðnum R. Æskilegt er að nemendur þekki til margbreytu aðhvarfsgreiningar (e. multiple linear regression). Nemendur læra að beita hinum ýmsu tölfræðiaðferðum í R (ss. classification methods, resampling methods, linear model selection og tree-based methods). Námskeiðið er kennt á tólf vikum og verður það á vendikennsluformi þar sem nemendur lesa námsefni og horfa á myndbönd áður en þeir mæta í tíma og fá svo aðstoð með fyrirliggjandi verkefni í tímum.
Áföll og heilsufarslegar afleiðingar þeirra (LÝÐ0A0F)
Námskeiðið fjallar um áföll í æsku og á fullorðinsárum, þ.m.t. ofbeldi, slys og hamfarir, og lífshættuleg veikindi, og tengsl þeirra við sálræna og líkamlega heilsu. Sérstök áhersla verður lögð á að kynna vísindagrunn þessara fræða og veita þjálfun í að lesa úr rannsóknum á þessu sviði. Helstu efnisatriði námskeiðsins eru m.a.:
- Algengi áfalla og streituviðbrögð í kjölfar þeirra.
- Sálrænn vandi í kjölfar áfalla, m.a. áfallastreituröskun, kvíði, þunglyndi, svefnvandi, fíknisjúkdómar og langvarandi sorg.
- Sjúkdómsbyrði áfalla m.a. vegna hjarta- og æðasjúkdóma, krabbameina, sjálfsónæmissjúkdóma og sjálfsvíga.
- Áhrif umhverfis- og erfðafræðilega þátta í þróun sálrænna og líkamlegra sjúkdóma í kjölfar áfalla.
- Þættir sem stuðla að bata í kjölfar áfalla og draga úr áhættu á langvarandi heilsufarsvanda.
- Gagnreynd meðferðarúrræði við áfallastreituröskun.
Námskeiðið er ætlað nemendum sem vilja auka vísindalega þekkingu sína á tengslum áfalla og heilsu og er einungis ætlað nemendum í framhaldsnámi. Námskeiðið byggir á fyrirlestrum umsjónarkennara og valinna gestafyrirlesara sem eru sérfræðingar á sviði áfalla. Lagt verður upp úr umræðum og virkri þátttöku nemenda í tímum.
Alþjóðaheilsa (LÝÐ045F)
Námskeiðið fjallar um lýðheilsu í hnattrænu samhengi, sögu og áherslur. Fjallað verður um Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna og stefnu Íslands í innleiðingu þeirra. Einnig munu sérfræðingar á hverju sviði, íslenskir og erlendir, fjalla um viðfangsefni innan alþjóðaheilsunnar, svo sem heilbrigðisvísa; sjúkdómsbyrði og áhrifaþætti heilsu í löndum heimsins sem búa við fátækt og ójöfnuð og þær leiðir sem gætu stuðlað að bættri heilbrigðisþjónustu og auknu heilbrigði; áhrif öryggis og átaka á heilsu; og heilsuáhrif hamfara.
Stefnt verður á að nemendum verði boðið í vettvangsheimsókni til stofnana sem koma að stefnu Íslands í alþjóðastarfi og móttöku flóttamanna.
Líftölfræði III (Lifunargreining) (LÝÐ079F)
Námskeiðið fjallar um tölfræðigreiningu á nýgengi (incidence) og eftirfylgnitíma (survival time) í ferilrannsóknum. Kennd verður notkun Poisson aðhvarfsgreiningarlíkana og aðferða í lifunargreiningu (survival analysis) eins og Kaplan-Meier aðferðarinnar (log-rank), Cox aðhvarfsgreiningar, Poisson aðhvarfsgreiningar og líkana með óstikuðum hættuföllum. Notast verður við tölfræðiforritin R.
Aðferðir í faraldsfræði (Faraldsfræði II) (LÝÐ085F)
Markmið námskeiðsins er að auka skilning nemenda á ítarefnum í faraldsfræði og að efla hæfi nemenda í að meta gæði og túlka niðurstöður faraldsfræðilegra rannsókna.
Námskeiðið mun fjalla ítarlega um framhaldsaðferðir í faraldsfræði. Fjallað verður um áhrif jákvæðrar og neikvæðrar blöndunar (positive and negative confounding), pörun (matching), líkindaskor (propensity score), áhrifsbreytingu (effect modification and interaction), nýlegar aðferðir til að takast á við blöndun (instrumental variables), orsakamyndir (causal diagrams), og hvað á að gera þegar gögn vantar í rannsóknina (missing data). Teknar verða fyrir vísindagreinar sem tengjast faraldsfræðilegum álitamálum í rannsóknum og þær ræddar ítarlega.
Lýðheilsunæringarfræði (NÆR611M)
Námskeiðslýsing:
Í námskeiðinu eru kynnt helstu viðfangsefni og áskoranir lýðheilsunæringarfræðinnar en einnig aðferðir og nálganir á sviði heilsueflingar. Áhersla verður lögð á heilsueflingarverkefni á sviði næringar á vesturlöndum en einnig í þróunarlöndum. Næring er sett í samhengi við aðra heilsutengda hegðun, aðstæður fólks og lífshætti. Kynntar verða helstu kenningar um heilsutengt atferli hvaða þættir stýra neysluhegðun og hvað getur skipt máli ef unnið er að breytingum á heilsutengdri hegðun. Kynnt verða helstu næringartengdu forvarna- og heilsueflingarverkefni á Íslandi auk erlendra verkefna. Nemendur öðlast færni í að skipuleggja lýðheilsuverkefni á sviði næringar og hvernig má nota rannsóknaniðurstöður til forvarna og aðgerða sem miða að bættri heilsu. Fjallað verður um öll helstu skref í mótun og undibúningi verkefnis, framkvæmd þess og mati á árangri.
Meðal spurninga sem leitað er svara við á námskeiðinu má nefna:
Ráðum við því raunverulega hvað við leggum okkur til munns – eða höfum við takmarkað val?
Ákvarðast lýðheilsa einungis af pólitík?
Er næringarlæsi mikilvægt hugtak?
Er mataræði þitt að eyðileggja heilsu móður jarðar?
Færð þú eitthvað að borða ef það er stríð í útlöndum?
Hver er ábyrgð þín á börnum sem svelta í heiminum?
Hvað stjórnar heiminum í raun og veru?
Viltu eiga þátt í að breyta heiminum?
Skapaðu heilsueflingarverkefni að eigin vali.
Hafðu samband
Sturlugata 8, 102 Reykjavík
Sími 525 4956
Netfang: publichealth@hi.is
Opið mánu- til fimmtudaga 10-16 og föstudaga 10-12.

Hjálplegt efni
Ertu með fleiri spurningar? Hér finnurðu svör við ýmsum þeirra og upplýsingar um ýmislegt annað sem gott er að hafa í huga þegar þú velur nám.