Þjóðfræði - Viðbótardiplóma
Þjóðfræði
Viðbótardiplóma – 30 einingar
Í diplómanámi í þjóðfræði geta nemendur lært um alþýðumenningu og fagurfræði hversdagsins, menningararf, samband manna og dýra, þjóðfræði staðarins, sviðslistafræði, eldhúsnautnir, norræna trú og fleira. Fjarnám.
Skipulag náms
- Haust
- MenningararfurB
- Kenningar í félags- og mannvísindumB
- Sviðslistafræði (Performance Studies): Frá sagnaflutningi til uppistands, kjötkveðjuhátíða og stjórnmálamannaBE
- Mannskepnur og önnur dýrB
- Samfélög manna og örvera: Örverur, menning, heilsa, og umhverfiB
- Hagnýt þjóðfræðiB
- Menning framtíðar: öfgafullar umhverfissaðstæðurB
- Vor
- Að sá ennþá fleiri fræjum: Miðlun í þjóðfræðiB
- RáðstefnuþátttakaB
- RáðstefnumálstofaB
- Alþýðutónlist: Hefðir, andóf, stál og hnífurB
- Ímynduð samfélög og þjóðmenning: Þjóðir, ímyndir og alþýðuhefðirB
- Munnleg hefð og íslenskar fornsögur og kvæðiBE
- Norræn trúB
- Matur og menning:BE
Menningararfur (ÞJÓ506M)
Hvað er menningararfur og hvaða hlutverki þjónar hann? Af hverju er hann í stöðugri útrýmingarhættu? Hvernig tengir hann saman fortíð og samtíð? Hvað á hann skylt við þjóðríkið? Söguvitund? Hnattvæðingu? Kapítalisma? Stjórnmál? Í námskeiðinu verður leitað svara við þessum spurningum, kynntar nýlegar rannsóknir þjóðfræðinga, mannfræðinga, listfræðinga, félagsfræðinga, safnafræðinga, sagnfræðinga og fornleifafræðinga á menningararfi og tekinn púlsinn á því sem er að gerast á þessu ört vaxandi sviði.
Kennslan fer fram í fyrirlestrum og umræðum.
Kenningar í félags- og mannvísindum (FMÞ102F)
Námskeiðið fjallar um nýleg verk og stefnur sem valdið hafa, eða eru líkleg til að valda, straumhvörfum í félags- og mannvísindalegri hugsun. Áhersla er lögð á samfélagslegt og sögulegt samhengi kenninganna. Kennsla fer fram í fyrirlestrum og umræðum. Skyldumæting er í umræðutíma einu sinni í viku í 40 mínútur. Fjarnemar geta mætt í kennslustofu eða tekið þátt í gegnum Internetið (með Zoom).
Sviðslistafræði (Performance Studies): Frá sagnaflutningi til uppistands, kjötkveðjuhátíða og stjórnmálamanna (ÞJÓ107F)
Sviðslistafræði (Performance Studies) fjallar um það hvernig fólk í öllum samfélögum, bæði fyrr og nú, tekur þátt í ymis konar sviðslist (performances) í daglegu lífi, á mismunandi "leiksviðum", allt frá helgisiðum til kirkjupredikana, leiksýninga, kvikmyndasýninga, útvarpsþátta, uppistands, sagnaflutnings, gjörningalistar, hátíða, útskriftasiða, matarboða, dulbúningasiða og málflutnings stjórnmálamanna heima og erlendis. Á námskeiðinu munu nemendur kynnast þeim margslungnu táknmálsformum sem beitt er í mismunandi tegundum sviðslista, frá talmáli til búninga, útlits, svipbrigða, kyns, samhengis, hljóðs, "timing" og nytsemi rýmis og viðtöku áhorfenda.
Vinnulag
Kennsla fer fram í fyrirlestrum, umræðum um fyrirlestra og farið í heimsóknir.
Mannskepnur og önnur dýr (ÞJÓ110F)
Kennsla fer fram með fyrirlestrum, umræðu, rafrænum fyrirlestrum og vettvangsferðum í náttúru og á söfn.
Samskipti manneskjunnar við önnur dýr er viðfangsefni þessa námskeiðs sem við nálgumst frá bæði fræðilegum og listrænum sjónarhornum. Nemendur vinna sjálfstæð verkefni, um dýr að eigin vali, þar sem áhersla er einnig lögð á sjónræna framsetningu - t.d. teikningar eða ljósmyndir. Í fyrirlestrum verður m.a. fjallað um hvítabirni, hvali, geirfugla og lunda og nýlegar rannsóknir á þeim. Fjallað verður um áhrifavald og ólíkar birtingarmyndir dýra í margvíslegu listrænu og menningarlegu samhengi, til dæmis í fornbókmenntum, þjóðsögum, munnmælum, kvikmyndum, fréttum, efnismenningu og ferðamennsku. Þá verður til dæmis hugað að „framhaldslífi“ dýra í formi listmuna, safngripa og minjagripa. Við munum skoða gripi í einkaeigu og á opinberum vettvangi og spyrja spurninga á borð við: hvað gerist þegar lifandi dýri er breytt í safngrip? Hvernig þróast og breytist merking dýrsins í ólíku samhengi? Hvernig mótast hugmyndir okkar um dýr? Tekist verður á við hlutverk ólíkra dýra í þekkingasköpun og mótun orðræðu um loftslagsmál og málefni norðurslóða, tengsl við ákveðin landsvæði og menningarhópa og hlutverk þeirra í ímynda- og sjálfsmyndasköpun bæði fortíðar og samtíma. Stigið verður út fyrir hefðbundna ramma sem snúa að aðgreiningu manna/dýra og annarra lífvera um leið og við könnum samtvinnaða hugmynda- og vistheima þeirra.
Markmið
Markmið námskeiðs er að velta upp áríðandi spurningum og málefnum er snúa að sambúð fólks og dýra, loftlagsbreytingum, útrýmingu dýrategunda og sjálfbærni. Við munum íhuga hvernig listamenn, rannsakendur, aðgerðasinnar og söfn hafa tekið þátt í umræðu um þessi málefni og hvernig hægt sé að þróa umræðuna áfram. Við munum skoða hvernig mismunandi lista- og menningarminjasöfn miðla hugmyndum og upplýsingum um samband manna og dýra í gegnum safneign sína og sýningar. Nemendur eru hvattir til að nálgast, með gagnrýnum hætti, sjónrænt efni, muni, gripi og texta, bæði rafrænt en einnig með heimsóknum á söfn og sýningar.
Samfélög manna og örvera: Örverur, menning, heilsa, og umhverfi (MON002M)
Námskeiðslýsing
Hvað segir skyrgerð okkur um þróun íslensks samfélags? Hver eru áhrif þarmaflórunnar á heilsu okkar? Hvernig losum við okkur við úrgang í þéttbýli á umhverfisvænan hátt og hvaða þögli meirihluti jarðarbúa er þar að verki? Lykillinn að öllum þessum spurningum er sá sami: Samfélög örvera hafa mótað jörðina og íbúa hennar frá upphafi lífs eða í milljarða ára. Til að skilja og takast á við áskoranir 21. aldar varðandi umhverfi, heilsu og samfélag, þurfum við að skilja hlutverk þessara fyrstu lífvera betur og hvernig það tvinnast saman við líf okkar sjálfra og nágranna okkar í lífríkinu. Nýlegar rannsóknir sýna að meirihluti frumanna í og á mannslíkamanum tilheyrir fjölbreyttum tegundum örvera. Þýðir það að menn séu örverur? Eða “bara” að samlífið við örverur sé nánasta og mikilvægasta sambandið sem við eigum í? Námskeiðið býður nemendum að kanna samlífi örvera og manna út frá ýmsum sjónarhornum, sem eru m.a. ættuð úr örverufræði og þjóðfræði, matvælafræði, næringarfræði og mannfræði. Litið verður til þess hvernig örverur koma að þróun og varðveislu matvæla í samfélögum manna, hlutverk þeirra í meltingunni og tengsl við andlega og líkamlega heilsu. Einnig hvernig örverur viðhalda lífsnauðsynlegum hringrásum lífrænna efna og geta umbreytt rusli og úrgangi í endurnýjanlegt form eins og heilbrigðan jarðveg.
Námskeiðið vinnur út frá hugmyndinni um „eina heilsu“ sem mótast hefur síðustu áratugi og vísar til þess að heilbrigði umhverfis, manna og annarra dýra, og samfélaga, er samtengt á þann hátt að niðurbrot á einhverju þessara sviða leiðir til niðurbrots á öðrum. Efnið verður skoðað út frá einstökum dæmum um samlífi örvera og manna, eins og áhrifum örvera á bragð og samsetningu matvæla, áhrifum mataræðis á þarmaflóru, hlutverki gerjunar í mótun mannlegra tengsla og hvernig losunarkerfi í þéttbýli rjúfa hringrás næringarefna í umhverfi mannsins.
Hagnýt þjóðfræði (ÞJÓ304M)
Fjallað verður um hagnýtingu þjóðfræðilegrar þekkingar og hvernig aðferðir og vinnubrögð þjóðfræðinnar geta komið að notum til að breikka og dýpka umræðu og opnað leiðir til að hafa jákvæð samfélagsleg áhrif. Fjallað verður um tengsl þjóðfræði við ferðaþjónustu, safnastarf, listir og margvíslega miðlun þjóðfræðiefnis. Rætt verður um gagnasöfn tengd þjóðfræði á Íslandi og möguleika á hagnýtingu þeirra. Skoðað hvernig nýta má sögulegt efni, viðtöl og vettvangsrannsóknir, og setja niðurstöður fram, svo sem með sýningum, hátíðum og viðburðum, blaðaskrifum, bókaútgáfu, vefútgáfu, útvarpsþáttagerð og gerð heimildamynda. Ólíkar aðferðir til að ná til ólíkra markhópa verða ræddar og hvernig miðla má efni til breiðra hópa gesta, lesenda, hlustenda eða áhorfenda. Siðferðileg, efnahagsleg, menningarleg og pólitísk álitamál við hagnýta þjóðfræði tekin til umfjöllunar.
Námskeiðið verður að hluta lotukennt, 3 daga í þriðju kennsluviku í Reykjavík og 4 daga í verkefnavikunni á Hólmavík á Ströndum. Nemendur vinna verkefni tengd hagnýtri þjóðfræði, en ekkert lokapróf er í áfanganum.
Menning framtíðar: öfgafullar umhverfissaðstæður (ÞJÓ311F)
Námskeiðið skoðar efnisleg, menningarleg og umhverfisleg samskipti, lausnir, nýsköpun og aðlaganir manneskjunnar að öfgafullum umverfisaðstæðum á yfirborði jarðar, til sjávar og í geimnum. Við könnum áskoranir, viðbrögð, ráðagerðir og lausnir sem upp hafa komið og hvaða þýðingu þau kunna að hafa fyrir framtíð mannskyns í örum loftslagsbreytingum á hlýnandi plánetu.
Að sá ennþá fleiri fræjum: Miðlun í þjóðfræði (ÞJÓ215F)
Þetta námskeið er framhald námskeiðsins ÞJÓ605G Að sá fræjum: Miðlun og starfsþróun. Hér er aukin áhersla lögð á miðlun þjóðfræðilegrar þekkingar. Nemendur læra að kynna bæði sig og fag sitt á opinberum vettvangi, í rituðu og töluðu máli, í persónu og á netinu. Námskeiðið er verkefnamiðað en unnið er að litlum verkefnum jafnt og þétt yfir önnina.
Ráðstefnuþátttaka (ÞJÓ210M)
Alþjóðlegar þjóðfræðiráðstefnur, þar sem nýjustu rannsóknir í faginu eru kynntar, eru haldnar reglulega. Þar koma þjóðfræðingar víða að úr heiminum til að segja frá eigin verkefnum, takast á um hugmyndir, víkka sjóndeildarhringinn, njóta félagsskapar við fólk sem slær um sig með sömu hugtökunum og leggja drög að mögulegu samstarfi. Í júní 2025 munu fara fram tvær þjóðfræðiráðstefnur: Evrópsku þjóðfræðisamtökin SIEF halda alþjóðlega ráðstefnu í Aberdeen í Skotlandi og viku síðar fer Norræna þjóðfræðiráðstefnan fram í Turku í Finnlandi. Í kjölfar málstofu þar sem farið er ofan í í saumana á alþjóðlegum fræðiráðstefnum (sjá ÞJÓ209M Ráðstefnumálstofa) tekur nemandi þátt í annarri ráðstefnunni og skilar skýrslu að henni lokinni (5 einingar).
Nemendur þurfa sjálfir að standa straum af kostnaði við ferðina á ráðstefnuna en við bendum á að Félag þjóðfræðinga á Íslandi auglýsir stundum ferðasjóð í tengslum við ráðstefnur af þessu tagi. Oft er hægt að fá endurgreiðslu frá stéttarfélagi og doktorsnemar geta sótt í ferðasjóð doktorsnema.
Ráðstefnumálstofa (ÞJÓ209M)
Alþjóðlegar þjóðfræðiráðstefnur þar sem nýjustu rannsóknir í faginu eru kynntar eru haldnar reglulega. Þar koma þjóðfræðingar víða að úr heiminum til að segja frá eigin verkefnum, takast á um hugmyndir, víkka sjóndeildarhringinn, njóta félagsskapar við fólk sem slær um sig með sömu hugtökunum og leggja drög að mögulegu samstarfi. Í júní 2025 munu fara fram tvær þjóðfræðiráðstefnur: Evrópsku þjóðfræðisamtökin SIEF alþjóðlega ráðstefnu í Aberdeen í Skotlandi og viku síðar fer Norræna þjóðfræðiráðstefnan fram í Turku í Finnlandi. Í þessari málstofu förum við í saumana á alþjóðlegum fræðiráðstefnum og leggjum áherslu á þessar tvær ráðstefnur. Kynnum okkur lykilfyrirlesara, köfum ofan í einstakar málstofur eftir áhugasviði þátttakenda, rýnum í þemu, veltum fyrir okkur samtökunum sem að þeim standa, kortleggjum ólíkar hefðir og áherslur í þjóðfræði í löndum Evrópu og tökum púlsinn á því sem helst er að gerast í faginu akkúrat núna. Um leið undirbýr málstofan þátttakendur undir að taka þátt í slíkri ráðstefnu. Málstofan hittist einu sinni í viku í tvo tíma í senn.
Nemendur eru hvattir til að fara á aðra hvora ráðstefnuna og geta fengið fyrir það 5 einingar til viðbótar, sjá Ráðstefnuþátttaka ÞJÓ201M.
Alþýðutónlist: Hefðir, andóf, stál og hnífur (ÞJÓ216F)
Í þessu námskeiði kynnast nemendur alþýðutónlist í gegnum tíðina, skoða uppruna hennar og hlutverk í menningu, samfélagi og sjálfsmyndarsköpun; alþýðutónlist sem hefur orðið að æðri tónlist trúarbragða og efri stétta, og tónlist jaðarhópa og minnihlutahópa sem orðið hefur að meginstraumstónlist. Menningarlegt hlutverk tónlistar sem andóf, sameiningarafl, sjálfsmyndarsköpun, afþreying og iðnaður, verður rannsakað. Farið verður yfir sögu söfnunar tónlistar, úrvinnslu og útgáfu.
Skoðaðar verða þjóðsögur og arfsagnir tónlistarheimsins um tónlistarmenn og tónlistarstefnur, og efnismenning tónlistar verður rædd. Hugmyndir um sköpun og eðli tónsköpunar verða skoðaðar, m.a. í tengslum við höfundarrétt, almannarétt og endurnýtingu tónlistar, þ.e. sem efnivið nýsköpunar í tónlist.
Rímnakveðskapur, raftónlist, blús, rapp, grindcore, klassík, hip-hop, jazz, popp, pönk messur, breakbeat, ópera og dauðarokk.
Ímynduð samfélög og þjóðmenning: Þjóðir, ímyndir og alþýðuhefðir (ÞJÓ217F)
Námskeiðið fjallar um hvernig sjálfsmyndir og ímyndir af Íslendingum og öðrum þjóðum hafa mótast og hvernig þær vinna með alþýðuhefðir á hverjum stað. Við skoðum íslenskan veruleika og ímyndir í samanburði við reynslu ýmissa grannþjóða og rannsökum hvernig sögur, siðir og minjar skapa þjóðir og móta þær, frá þjóðminjasöfnum til þorrablóta í London; og frá viskídrykkju (í Skotlandi) til víkingasagna (á Norðurlöndum), með viðkomu á Up Helly Aa (á Hjaltlandseyjum) og Ólafsvöku (í Færeyjum); við skoðum hönnunarsýningu (á Grænlandi), norrænar byggðir í Vesturheimi og sendum myndir af öllu saman á samfélagsmiðla.
Við berum niður í kvikmyndum og tónlist, hátíðum, leikjum og skrautsýningum stjórnmálanna. Sérstaklega verður greint hvernig þjóðlegar ímyndir sameina og sundra hópum fólks. Í því samhengi verður horft til kvenna og karla, búsetu (borgar og landsbyggðar), fólksflutninga fyrr og síðar (innfluttra, brottfluttra, heimfluttra), kynþáttahyggju og kynhneigðar. Við rannsökum þessar ímyndir sem hreyfiafl og hugsjón, auðlindir og þrætuepli og skoðum hvernig þeim er beitt í margvíslegu skyni af ólíku fólki á ólíkum stöðum, jafnt af þjóðernispopúlistum sem græningjum, ríkisstofnunum og bönkum, fræðafólki og nemendum.
Munnleg hefð og íslenskar fornsögur og kvæði (ÞJÓ109F)
Lögð verður til grundvallar kenning Alberts B. Lord um munnlegan kvæðaflutning (munnlega kenningin) í bókinni The Singer of Tales. Þá verða raktar þær rannsóknir sem fram hafa komið í kjölfar hennar og reynt að meta hvaða áhrif kenningin hefur á rannsóknir miðaldabókmennta sem byggja að hluta á munnlegri hefð. Í seinni hluta námskeiðsins verður tekið mið af eddukvæðum og nokkrar Íslendingasögur lesnar vandlega með hliðsjón af kenningum um sagnfestu- bókfestu- og nýsagnfestu. Kennslan fer fram með fyrirlestrum kennara og umræðum. Nemendum er ætlað að vinna sjálfstæð verkefni og skila greinargerðum um efni nokkurra bóka og greina.
Kennsla fer fram í fyrirlestrum og umræðum í bland við sjálfstæð nemendaverkefni um rannsóknaviðfangsefni námskeiðsins.
Athugið, námskeiðið er kennt annað hvert ár.
Norræn trú (ÞJÓ203F)
Trúarlíf manna á norðurslóðum er tekið fyrir og heimildir allt frá elstu tímum, eins og grafir, rúnasteinar, hellaristur og aðrar fornminjar verða skoðaðar. Einnig verða lesnar lýsingar á norrænum trúarathöfnum í verkum eftir Tacitus, Adam frá Brimum, Saxo Grammaticus og í fornritum Íslendinga eins og Eddukvæðum og Konungasögum. Auk norrænnar trúar verður fjallað um seið og sjamanisma. Örlagatrú er tekin til ítarlegrar umfjöllunar sem meginþáttur í forkristnum átrúnaði á Norðurlöndum. Loks er vikið að því hvernig kristindómur hefur fallið að norrænum lífsháttum og hugsunarhætti. Námskeiðið er kennt á ensku.
Vinnulag
Kennsla fer fram í fyrirlestrum, og umræðum um fyrirlestra.
Matur og menning: (NÆR613M)
Matur er mannsins megin, uppspretta orkunnar og forsenda lífsins. En matur er líka sneisafullur af merkingu. Matarhættir veita innsýn í heimsmynd okkar, lífssýn og listfengi og matur mótar tilveru okkar, líkama, samfélag, hagkerfi, hugarfar og siðferði. Sjálfsmynd okkar og minningar eru nátengdar mat og matur er einhver mikilvægasti miðillinn fyrir samskipti okkar við annað fólk.
Í námskeiðinu skoðum við hvað fólk borðar, hvernig, hvenær, með hverjum og hvers vegna. Með þeim hætti fáum við dýrmæta innsýn í kyngervi og kynslóðir, fæðuöryggi og rétt til matar, stéttaskiptingu og menningarlegan margbreytileika, skynheim og fegurðarskyn, tækni og matvælaframleiðslu, tísku og matarkúra, matarhefðir og menningararf, tilfinningar, vináttu og fjölskyldubönd. Matarhættir tengja þannig saman menningu og náttúru, hnattvæðingu og hið staðbundna, heimilið og vinnustaðinn, fortíð og samtíð, manneskjur og örverur.
Í námskeiðinu beinum við sjónum að sambandi matarframleiðslu og neyslu á 21. öld með sérstaka áherslu á lýðheilsu, siðferðislega neyslu og sjálfbærni.
Matur og menning eru þverfagleg viðfangsefni og því er þetta námskeið kennt í samstarfi námsbrauta í þjóðfræði og matvæla- og næringarfræði.
Hafðu samband
Nemenda- og kennsluþjónusta Félagsvísindasviðs er á
Þjónustutorgi í Gimli
s. 525 4500
Netfang: nemFVS@hi.is
Opið virka daga frá 09:00 - 15:00
Gimli - Sæmundargötu 10, 102 Reykjavík
Bóka viðtal við nemenda- og kennsluþjónustu Félagsvísindasviðs
Þjóðfræði á samfélagsmiðlum
Hjálplegt efni
Ertu með fleiri spurningar? Hér finnurðu svör við ýmsum þeirra og upplýsingar um ýmislegt annað sem gott er að hafa í huga þegar þú velur nám.