Íslensk miðaldafræði


Íslensk miðaldafræði
MA – 90 einingar
Meistaranám í íslenskum miðaldafræðum er kennt í samvinnu við Stofnun Árna Magnússonar.
Námið miðar að þeirri þekkingu að geta lesið og rannsakað gamla miðaldatexta og frumtexta í handritum.
Skipulag náms
- Haust
- Meistararitgerð í íslenskri miðaldafræði
- Forníslenska 1
- Bókmenntir á norrænu á miðöldum – yfirlit og helstu viðfangsefni
- Norðurheimur á miðöldum
- VíkingaöldinV
- Vor
- Meistararitgerð í íslenskri miðaldafræði
- Forníslenska 2
- ÍslendingasögurV
- Seiður, skilvit og skrímsliV
- Sögur og staðirV
- Íslensk miðaldahandritV
- VíkingaaldarfornleifafræðiV
- MiðaldafornleifafræðiV
- Norræn trúV
- Bergmál alþjóðlegra miðalda í samtímasöguV
- Sumar
- Meistararitgerð í íslenskri miðaldafræði
Meistararitgerð í íslenskri miðaldafræði (MIS431L)
Meistararitgerð í íslenskri miðaldafræði
Forníslenska 1 (MIS105F)
Í þessu námskeiði verður gefið yfirlit yfir málfræði forníslensku til að auðvelda lestur forníslenskra texta. Megináhersla verður lögð á hljóð- og beygingarkerfi með umræðu um helstu atriði í hljóðþróun frá frumnorrænu til forníslensku og beygingarflokkum forníslensku.
Sjá nánari námskeiðslýsingu á ensku.
Bókmenntir á norrænu á miðöldum – yfirlit og helstu viðfangsefni (MIS701F)
Í námskeiðinu verður farið ítarlega yfir miðaldabókmenntir á norrænu, m.a. helstu tegundir texta (kveðskap, Íslendingasögur, Eddukvæðin, Snorra Eddu, Konungasögur, Biskupasögur, Fornaldarsögur, fræðilega texta, o.s.frv.). Textarnir verða ræddir og úrval þeirra lesnir í þýðingu.
Það verður líka gefið yfirlit um rannsóknasögu íslenskra miðaldabókmennta og fjallað um fræðikenningar sem hafa legið til grundvallar og hvernig hægt er að beita mismunandi kenningum til að svara ólíkum spurningum um miðaldabókmenntir. Enn fremur verður fjallað um viðtökusögu íslenskra fornbókmennta.
Nemendir eru hvattir til að vera búin að lesa textana á forníslensku í byrjun misseris.
Textar til undirbúnings á íslensku
- Íslendingabók
- Edda Snorra Sturlusonar: Prologus og Gylfaginning.
- Eddukvæði
- Hrafnkels saga Freysgoða
- Brennu-Njáls saga
Kennslubækur og textar
- Carl Phelpstead 2020: An Introduction to the Sagas of Icelanders (New Perspectives on Medieval Literature: Authors and Traditions. Gainesville.
- Jan A. van Nahl & Astrid van Nahl 2019: Skandinavistische Mediävistik: Einführung in die altwestnordische Sprach- und Literaturgeschichte.
- Ármann Jakobsson & Sverrir Jakobsson (eds.) 2017: The Routledge Research Companion to the Medieval Icelandic Sagas. Oxon/New York.
- Ármann Jakobsson 2009: Illa fenginn mjöður: lesið í miðaldatexta. Reykjavík.
- Rory McTurk (ed.) 2005: A Companion to Old Norse-Icelandic Literature and Culture. Malden MA et al.
Norðurheimur á miðöldum (SAG716M)
Sögulegt yfirlit og saga rannsóknarhefðar um valin þemu norrænna miðalda, með áherslu á Ísland og Noreg frá víkingaöld fram til fjórtándu aldar. Þemu telja, m.a.: vald, konungur og ríki; lög og fæðardeilur; kyngervi, mægðir og félagstengsl; trú og hugarfar; kristnitaka, kristni og kirkja; efnahagur. Grunnþekking í atburðasögu tímabilsins er hjálpleg en ekki skilyrði. Leskunnátta í þýsku og norrænum málum er einnig hjálpleg en ekki skilyrði (skyldulesefni er allt á ensku). Nemendur semja eina ritgerð og stýra umræðum; ekkert skriflegt próf.
Víkingaöldin (MIS704M)
Á víkingaöld héldu norrænir menn í stórum stíl frá meginlandi Skandinavíu vítt og breitt um Evrópu, austur til Miklagarðs og Kaspíahafs, vestur til Bretlandseyja, Írlands og Frakklands, og suður fyrir Íberíuskaga og inn í Miðjarðarhafið. Margvíslegar heimildir vitna um ferðir þeirra, fornleifar sem og ritaðar lýsingar þar sem þeir ganga undir ýmsum nöfnum og koma fyrir í margvíslegum hlutverkum, t.d. sem ógvekjandi innrásarsveitir, nokkuð friðsamir kaupmenn, eða leiguliðar.
Meistararitgerð í íslenskri miðaldafræði (MIS431L)
Meistararitgerð í íslenskri miðaldafræði
Forníslenska 2 (MIS801F)
Í þessu framhaldsnámskeiði verður lögð megináhersla lögð á auka færni í forníslensku með því að lesa fjölbreytt úrval texta, bæði lausamálstexta og kveðskapar. Nemendur kynnast ólíkum bókmenntategundum og unnið verður með ólíkar tegundir textaútgáfna.
Sjá nánari lýsingu í enskri gerð kennsluskrár.
Íslendingasögur (MIS704F)
Í þessu 10 eininga námskeið verða kynntar mismunandi fræðilegar aðferðir við að lesa og túlka Íslendingasögur. Lesnar verða valdar Íslendingasögur, þær greindar og fjallað um helstu fræðilegar útleggingar á þeim. Sögurnar verða lesnar á ensku en vísað til frumtexta þeirra.
Seiður, skilvit og skrímsli (MIS815F)
Í þessu námskeiði verða skoðuð hugtök tengd hinu yfirskilvitlega og yfirnáttúrulega í íslenskum miðaldabókmenntum. Samfara vaxandi áhuga á viðfangsefninu hafa þróast frumlegar kenningar og í námskeiðinu verður leitast við að sýna hvernig er hægt að flétta þessar ólíku greiningaraðferðir saman. Í námskeiðinu verða nemendum kynntar kenningar og greiningaraðferðir á borð við kynjafræði, þjóðfræði, skrímslafræði, trúarbragðafræði, umhverfisfræði, sálgreiningu, sálfræði og viðtökufræði. Lesnir verða og greindir ýmsir textar úr miðaldabókmenntum, þ.e. textabrot úr nokkrum Íslendinga-, fornaldar- og riddarasögum. Auk þess verður farið yfir nútímatexta þiggja frá þessum heimildum.
Hugtakið hið yfirnáttúrulega vísar til fyrirbæra eða vera sem lúta ekki lögmálum náttúrunnar en geta fallið undir hjátrú og hindurvitni; það er ‚óraunveruleg‘ fyrirbæri sem birtast í ‚óraunverulegu‘ samhengi. Frá þessu sjónarhorni verður rýnt í hugmyndir um þann veruleika sem býr að baki miðaldatextunum. Orðin seiður, skilvit og skrímsli verða eins konar kennileiti í nálgun okkar. Seiður vísar til þekkingar sem menn nota til að vinna með hulin lögmál heimsins með það fyrir augum að hafa áhrif á hluti og fólk án líkamlegrar snertingar. Fjallað verður um seið eða galdur sem birtingarmynd hins yfirnáttúrulega og hvernig hann getur verkað í senn sem sjálfstæður gerandi og verkfæri fyrir langanir mannsins. Enn fremur kenningar um skilvit og mannshugan skoðaðar þar sem sálfræðin á í samskiptum við hið yfirnáttúrulega, ekki síst varðandi skörun yfirskilvitlegra þátta og birtingarmyndar áfalla í sögunum. Loks verður fjallað um hefðbundnar hugmyndir um skrímsli með hliðsjón af samfélagslegri mótun skrímsla og menningarlegri notkun þeirra.
Með því að nota „hið yfirnáttúrulega“ sem grundvöll umræðunnar verður ekki aðeins til kjölfesta fyrir allt námskeiðið heldur gefst einnig tækifæri til að sýna hversu árangsríkt er að nálgast sama efni frá ólíkum sjónarhornum. Í hverri kennslustund verða afmarkaðar birtingamyndar hins yfirnáttúrulega í brennidepli. Kennd verður viðeigandi greiningaraðferð sem beitt verður í greiningu textabrota. Skipulag kennslunnar leyfir nemendum að ræða saman um viðfangsefnin og þróa eigin hugmyndir um þau og bera eigin nálgun undir hópinn. Vilji nemendur takast á við efni námskeiðisins á skapandi og listrænan hátt verða þeir hvattir til þess og jafnframt til að skoða tengslin milli skapandi verks síns og greiningaraðferðanna sem kenndar eru í námskeiðinu.
Sögur og staðir (MIS814F)
Íslenskar miðaldabókmenntir eru sérstakar fyrir það hve tengdar þær eru ákveðnum stöðum þar sem sögurnar gerast. Á þetta bæði við um Íslendingasögur og konungasögur, en hægt er að heimsækja sögustaði þeirra og tengjast atburðunum á annan hátt en ella. Undanfarin ár hafa rýmisfræði (spatial studies) orðið æ fyrirferðarmeiri í rannsóknum á norrænum miðaldabókmenntum. Þessi fræði eiga rætur að rekja til þróunar í hugvísindum á síðari hluta 20. aldar en hafa fengið aukið vægi á þessari öld með tilkomu nýrra aðferða við að gera grein fyrir rýmis, m.a. með GPS staðsetningatækjum, gerð stafrænna korta o.m.fl. Ýmsir fræðimenn hafa orðið til þess að nálgast íslenskar fornbókmenntir út frá rýmisfræðunum, t.d. Emily Lethbridge og Eleanor Barraclough. Í námskeiðinu verður þessi fræðahefð kynnt, sögur lesnar með tilliti til rýmisins og sögustaðir heimsóttir. Þótt námskeiðið sé kennt á vormisseri eru nemendur hvattir til að taka þátt í ferðum á sögustaði sem skipulagðar eru í tengslum við norrænt og alþjóðlegt meistaranám í víkinga- og miðalddafræðum.
Íslensk miðaldahandrit (MIS204F)
Í þessu námskeiði verður fjallað um íslenska handritamenningu frá ýmsum hliðum. Nemendur fá þjálfun í að lesa íslensk handrit frá ýmsum tímum, allt frá elstu skinnhandritunum á tólftu og þrettándu öld og fram á tíma pappírshandrita á sautjándu og átjándu öld. Gefið verður yfirlit yfir skriftarsöguna, fjallað um uppruna íslenskrar skriftar og helstu breytingar á henni í tímans rás og nemendur þjálfaðir í að lesa ólíkar skriftartegundir frá ólíkum tímum. Stafsetning fornra handrita er um margt ólík þeirri stafsetningu sem við eigum að venjast í nútímanum. Þar er til að mynda notað kerfi skammstafana sem að hluta til er arfur úr miklu eldri latínustafsetningu. Nemendur fá þjálfun í að lesa úr þessum styttingum. Íslenskt mál hefur einnig breyst í tímans rás og margvíslegar málbreytingar birtast þegar lesnir eru íslenskir textar frá ólíkum tímum. Rætt verður um valdar breytingar. Breytingar á skrift, stafsetningu og máli veita mikilvægar vísbendingar um aldur handrita og fá nemendur þjálfun í að tímasetja íslensk handrit á grundvelli skriftar, stafsetningar og máls.
Fjallað verður um bókagerð á miðöldum og meðal annars rætt um skinnaverkun, blekgerð og bókband. Fjallað verður um skrifara og skrifaraskóla og líklegar miðstöðvar bókagerðar á Íslandi á miðöldum. Rýnt verður í verk nokkurra afkastamikilla skrifara frá fjórtándu öld. Hvað var skrifað? Hvernig var skrifað? Breyttust vinnubrögð skrifara á löngum skrifaraferli? Enn fremur verður fjallað um textana sem handritin geyma og undirstöður textafræðinnar kynntar. Njáls saga hefur, svo dæmi sé tekið, varðveist í ríflega sextíu handritum og textinn í þeim er nokkuð breytilegur. Hvaða handrit á að leggja til grundvallar við útgáfu Njáls sögu? Rætt verður um mismunandi útgáfur fornra texta og nemendur takast á við útgáfuverkefni. Fjallað verður um rafrænar útgáfur og nemendur fá þjálfun í merkingu fornra texta með textamerkingarmálinu XML eftir leiðbeiningum Medieval Nordic Text Archive (MENOTA) og Medieval Unicode Font Initiative (MUFI).
Námskeiðið er kennt með blöndu af fyrirlestrum og vinnustofum með virkri þátttöku nemenda. Efni verður oft miðlað með upptökum á fyrirlestrum til að geta nýtt meiri tíma í kennslustofu fyrir umræður og virka þátttöku nemenda.
Námskeiðið er kennt í samstarfi við Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og fara nemendur í heimsókn á stofnunina til að kynnast safnkosti og vinnuaðstöðu og skoða handrit.
Kennsluáætlun
Vika 1
(1) Inngangur
Námskeiðið kynnt: kennslufyrirkomulag, lesefni, verkefni, námsmat.
Viðfangsefnið kynnt: Íslensk miðaldahandrit.
(2) Elstu handrit og upphaf ritunar á Íslandi
Ágrip af sögu latínuleturs og elstu handrit á íslensku. Hvar lærðu Íslendingar að nota latínuletur? Hvaða stafsetning var notuð? Helstu einkenni miðaldastafsetningar og notkun styttinga.
Vika 2
(3) Rafrænar útgáfur norrænna forntexta
Hvernig er hægt að miðla fornum textum með rafrænum hætti? Textamerkingarmálið XML, TEI, MENOTA, MUFI og fleira því tengt. Við spreytum okkur á að skrifa upp og merkja texta í XML.
(4) Stafsetning elstu handrita og Fyrsta málfræðiritgerðin
Notkun latínustafrófsins við að skrifa íslensku: áskoranir — og lausnir höfundar Fyrstu málfræðiritgerðarinnar um miðja tólftu öld.
Vika 3
(5) Íslensk skrift og stafsetning á þrettándu öld
Munurinn á íslenskri og norskri skrift og stafsetningu á tólftu öld. Hvað breyttist á þrettándu öld?
(6) Ólíkar tegundir prentútgáfna: fræðilegar útgáfur
Hversu nákvæmar eiga prentaðar útgáfur að vera? Á að prenta hvern stafkrók úr handritinu? Hvað er „samræmd stafsetning forn“? Hverjar eru þarfir notenda? Hvert er hlutverk útgefandans?
Vika 4
(7) Norsk áhrif á skrift, stafsetningu og mál í handritum á Íslandi
Hvernig birtast norsk áhrif? Hve djúpt ristu þau? Hve lengi má finna þau í íslensku ritmáli?
(8) Aldursgreining handrita: skrift, stafsetning og mál
Hvernig er unnt að aldursgreina miðaldahandrit? Fjallað um nokkur einkenni í skrift, stafsetningu og máli er að gagni geta komið.
Vika 5
(9) Íslensk skrift og stafsetning á fjórtándu öld
Helstu einkenni og helstu breytingar.
(10) Ein rithönd eða margar?
Að sjá handa skil: Nokkur greinimörk. Íslenska hómilíubókin frá um 1200: Einn skrifari eða fjórtán?
Vika 6
(11) Bókagerð: skinn, blek, band og forvarsla
Hvernig var skinn verkað til bókfells? Hvernig var blek unnið? Hönnun bókar og bókband. Viðgerð bóka í nútímanum og varðveisla til framtíðar.
(12) Bókagerð: skinn, blek, band og forvarsla
Heimsókn á Stofnun Árna Magnússonar: Handrit skoðuð og handfjötluð undir ströngu eftirliti. Gripið í fjaðrapenna, oddur skorinn og dýft í blek.
— VERKEFNAVIKA —
Vika 7
(13) Skrifarar, skrifaraskólar, útflutningur bóka
Um atvinnuskrifara, samvinnu skrifara og mikla bókaframleiðslu. Skrifuðu Íslendingar bækur til útflutnings á þrettándu og fjórtándu öld?
(14) Íslensk skrift og stafsetning á fimmtándu og sextándu öld
Helstu einkenni og helstu breytingar.
Vika 8
(15) Textafræði
Handrit verður til af handriti; textinn tekur breytingum. Um textageymd, lesbrigði, skyldleika handrita og stemmu.
(16) Textafræði
Lesið og skrifað upp úr íslenskum miðaldahandritum, handrit borin saman og lesbrigðum safnað.
Vika 9
(17) Lýsingar í handritum
Um skreytta upphafsstafi og myndlist í miðaldahandritum; listamenn, handbragð og fyrirmyndir.
(18) Handritaskrár og handritaskráning
Við kynnumst helstu handritaskrám og ferlinu við skráningu handrits.
Vika 10
(19) Íslensk skrift og stafsetning á sautjándu og átjándu öld
Helstu einkenni og helstu breytingar.
(20) Textar í uppskriftum: forngripur eða lifandi texti?
Hvernig breyttist tungumálið í meðförum skrifara sem skrifuðu upp gömul handrit? Njáls saga er talin skrifuð undir lok þrettándu aldar. Hvaða mál er á Njáls sögu á sautjándu og átjándu öld?
Vika 11
(21) Fornfræðaáhugi, handritasöfnun og uppskriftaöld
Á sextándu öld kviknaði mikill áhugi á fornum fræðum, gömlum handritum var safnað og þau skrifuð upp af kappi.
(22) Ólíkar tegundir prentútgáfna: alþýðlegar útgáfur
Hvernig á að búa forna texta í hendur almenningi? Á að halda fornum einkennum í máli og stafsetningu eða á að færa allt til nútímahorfs? Um trúnað við handrit og trúnað við lesendur.
Vika 12
(23) Handritasöfn og handritasafnarar
Ævi og starf Árna Magnússonar.
(24) Handritamálið og heimkoma handritanna
Leitin að Skarðsbók postulasagna og kaup á æsispennandi uppboði, handritamálið og heimkoma handritanna.
— Þetta yfirlit er birt með fyrirvara um breytingar. —
Lesefni
Listi yfir lesefni er að finna á Canvas. Efni þar er (oftast) skipt í þrjá flokka:
(a) Skyldulesning: Textar sem ætlast er til að allir nemendur lesi.
(b) Valfrjálst viðbótarlesefni: Þetta er viðbótarlesefni fyrir þá sem vilja kafa dýpra.
(c) Fyrir þá sem vilja enn þá meira! Hér eru ábendingar um ýmiss konar lesefni. Þessi hluti er mest til uppýsingar en gæti komið að gagni við rannsóknaverkefnið.
Drjúgur hluti skyldulesefninu (og nokkuð af valfrjálsa viðbótarlesefninu) er á Canvas. Lesefni sem ekki er á Canvas er hægt að nálgast á rannsóknabókasafni Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum í Eddu og á Landsbókasafni-Háskólabókasafni í Þjóðarbókhlöðu.
Forkröfur
Námskeiðið er á meistarastigi en opið grunnnemum sem lokið hafa að minnsta kosti 90 ECTS einingum með fyrstu einkunn (M-námskeið). Kunnátta í íslensku er nauðsynleg.
Kennslufyrirkomulag
Námskeiðið er kennt með blöndu af fyrirlestrum og vinnustofum með virkri þátttöku nemenda. Efni verður oft miðlað með upptökum á fyrirlestrum til að geta nýtt meiri tíma í kennslustofu fyrir umræður og virka þátttöku nemenda (vendikennsla).
Vinnumál: Námskeiðið situr blandaður hópur nemenda hvaðanæva úr heiminum og því eru notuð tvö vinnumál, íslenska og enska. Fyrirlestrar eru teknir upp bæði á íslensku og ensku (að frátöldum gestafyrirlesurum sem flytja sitt mál á ensku), skrifleg verkefni eru bæði á íslensku og ensku, lesefni er á íslensku, ensku og Norðurlandamálum. Umræður í kennslustofu eru að mestu á ensku en íslensku má einnig nota í umræðum. — Sjá sérstakt minnisblað um vinnumál og vinnulag í kennslustofu.
Kröfur og námsmat
Lokaeinkunn í námskeiðinu verður byggð á eftirfarandi þáttum:
(1) Uppskriftir texta úr handritum: 30%
(2) Verkefni í handritaskráningu: 10%
(3) Verkefni í aldursgreining handrits: 10%
(4) Kynning á handriti dagsins: 10%
(5) Rannsóknarritgerð: 30%
(6) Virkni í kennslustundum: 10%
Skriflegum verkefnum verður öllum skilað í gegnum Canvas. Nánari fyrirmæli um verkefni og skilafresti er að finna á Canvas.
Víkingaaldarfornleifafræði (FOR102F)
Yfirlit um sögu víkingaaldar og sögu rannsókna á víkingaöld. Áhersla er lögð á fornleifaheimildir, byggingaleifar og gripi, og hvernig þær hafa verið notaðar til að varpa ljósi á þetta tímabil. Sérstök áhersla er lögð á lýsingu hagkerfa á víkingaöld, álitamál um þjóðerni og uppruna ríkisvalds.
Miðaldafornleifafræði (FOR812F)
During the last decades, medieval archaeology has experienced significant growth as a discipline concerned with material culture. Initially, the use of material culture was marginalized to the role of confirming or refuting historical knowledge about this period but today it is understood as having equal historical importance to the archived material. The course is thus intended to improve student’s understanding of Medieval Europe during the period 800–1600 AD through the study of material culture. It deals with general themes in medieval archaeology, such as identity, social status, rural and urban landscapes, religion, life and death, rather than the historical development of the Middle Ages in chronological order. The aim is to give students insight into the different fields of theory and method of medieval archaeology through both material and documentary evidences in accordance with the current state of research. A special emphasis will be put on medieval Iceland, as a part of European culture and society, but even on how medieval archaeologists gather their sources, analyse them and reach conclusions of historical importance.
Norræn trú (ÞJÓ203F)
Trúarlíf manna á norðurslóðum er tekið fyrir og heimildir allt frá elstu tímum, eins og grafir, rúnasteinar, hellaristur og aðrar fornminjar verða skoðaðar. Einnig verða lesnar lýsingar á norrænum trúarathöfnum í verkum eftir Tacitus, Adam frá Brimum, Saxo Grammaticus og í fornritum Íslendinga eins og Eddukvæðum og Konungasögum. Auk norrænnar trúar verður fjallað um seið og sjamanisma. Örlagatrú er tekin til ítarlegrar umfjöllunar sem meginþáttur í forkristnum átrúnaði á Norðurlöndum. Loks er vikið að því hvernig kristindómur hefur fallið að norrænum lífsháttum og hugsunarhætti. Námskeiðið er kennt á ensku.
Vinnulag
Kennsla fer fram í fyrirlestrum, og umræðum um fyrirlestra.
Bergmál alþjóðlegra miðalda í samtímasögu (SAG413M)
Námskeiðið „Echoes of a Global Medieval Ages in Contemporary History“ kannar mót miðalda og samtímans, með því að skoða hvernig minningar, tákn og frásagnir miðalda halda áfram að móta núverandi hugmyndafræði, sjálfsmyndir og hnattræn sjónarmið. Með þematískri rannsókn á ákveðnum svæðum greinir námskeiðið hvernig ólík samfélög í dag endurtúlka og endurbyggja miðaldafortíð sína en einnig munum við fjalla um arfleifð heimsvaldastefnu, þjóðernishyggju og samskipti á milli menningarheima. Lykilatriði eru meðal annars áhrif stjórnarhátta, menningartákna, viðskiptaneta og hugmyndafræðilegra átaka miðalda á málefni samtímans.
Meistararitgerð í íslenskri miðaldafræði (MIS431L)
Meistararitgerð í íslenskri miðaldafræði
Hafðu samband
Þjónustuborð Hugvísindasviðs
s.525 4400 hug@hi.is.
Opið virka daga frá kl 10:00–12:00 og 13:00–15:00.
3. hæð Aðalbyggingar.
Sæmundargötu 2, 102 Reykjavík.
Nemendur á Hugvísindasviði geta einnig nýtt sér þjónustuborð á Háskólatorgi.
Fylgstu með Hugvísindasviði

Hjálplegt efni
Ertu með fleiri spurningar? Hér finnurðu svör við ýmsum þeirra og upplýsingar um ýmislegt annað sem gott er að hafa í huga þegar þú velur nám.