Iðnaðarverkfræði
Iðnaðarverkfræði
MS gráða – 120 einingar
Tveggja ára framhaldsnám í iðnaðarverkfræði við Iðnaðarverkfræði-, vélaverkfræði- og tölvunarfræðideild. Námið er 120 einingar og telst fullgilt MS-próf.
Þeir sem ljúka MS-próf í verkfræði frá deildinni geta sótt um leyfi til þess að nota starfsheitið verkfræðingur.
Skipulag náms
- Haust
- Inngangur að meistaranámi í iðnaðarverkfræði
- Verkefni í Kerfishugsun
- Aðgerðagreining 2
- Vöruþróun og hönnun framleiðslukerfa
- Vörustjórnun og umhverfismál
- Mannlegir þættir í verkfræðilegri hönnunV
- RýmishljóðhönnunVE
- Vor
- Verkefni í Aðgerðagreiningu
- Verkefni í Aðgerðastjórnun
- Gerð aðgerðaáætlana
- Hönnun þjónustukerfa
- Titringshljóð og tónlistVE
- Tækniþróun og nýsköpunV
- ÁrangursstjórnunV
- Framleiðni þekkingarstarfsmannaV
Inngangur að meistaranámi í iðnaðarverkfræði (IÐN122F)
Markmiðið með námskeiðinu er að veita nemendum yfirsýn yfir fræðasviðið iðnaðarverkfræði og undirbúa þau undir nám á meistarastigi, bæði fræðilegt og hagnýtt. Námskeiðið skiptist í þrjá hluta:
1) Fræðasviðið iðnaðarverkfræði og sérgreinar þess
2) Rannsóknaraðferðir
Verkefni í Kerfishugsun (IÐN127F)
Markmiðið með námskeiðinu er að æfa nemendur í að beita fræðasviðum iðnaðarverkfræðinnar við að leysa hagnýt verkefni.
Aðgerðagreining 2 (IÐN508M)
Í námskeiðinu er nemendum kynnt hvernig gera á skipulega mynd af ákvörðunar- og bestunarverkefnum í aðgerðagreiningu. Að námskeiði loknu eiga nemendur að hafa færni í að setja upp, greina og leysa stærðfræðileg líkön sem standa fyrir raunhæfum verkefnum og hvernig meta eigi lausn þeirra á gagnrýninn hátt. Tekin er fyrir heiltölu og slembin verkefni (e. Integer Programming and Stochastic Programming). Nemendur kynnast líkangerð með Python.
Vöruþróun og hönnun framleiðslukerfa (IÐN509M)
Markmiðið með námskeiðinu er að undirbúa nemendur til þátttöku í vöruþróun og hönnun framleiðslukerfa. Farið verður í vöruþróunarferlið og einstaka þætti þess, með sérstakri áherslu á framleiðanleika og hönnun framleiðslukerfa (flæði, útlagning, efnisflæði og geymslu). Lögð er áhersla á notkun ferla- og kerfisgreininga og reiknilíkana við ákvarðanatöku.
Vörustjórnun og umhverfismál (IÐN510M)
Tilgangur námskeiðsins er að fara í gegnum grundvallaratriði lokistik (vörustjórnunar), stjórnun aðfangakeðja og áhrif þeirra á umhverfið. Námskeiðið er í raun þríþætt þar sem byrjað er á að fara í gegnum þá þætti sem snúa að innkaupum á vörum og þjónustu ásamt stjórnun birgða. Því næst er tekið á þeim þáttum sem snúa að flutningum og dreifingu. Að lokum er áhrifum aðfangakeðja á umhverfi gert greinagóð skil og öllum þremur þáttunum steypt saman í eina heild sem styður sjálfbærni.
Námskeiðið er kennt með því fyrirkomulagi að haldnir eru fyrirlestrar til að útskýra fræðilega undirstöðu greinarinnar en til að fá aukinn skilning á einstökum þáttum verða reiknuð dæmi sem skila þarf inn til yfirferðar. Samhliða fyrirlestrum og dæmatímum verður unnið með fyrirtækjaspil í hópum auk þess að spila „The Beer game“ - þar sem þáttakendur leika hlutverk fyrirtækja sem og taka þátt í raunhæfum hlutverkum stjórnenda.
Mannlegir þættir í verkfræðilegri hönnun (IÐN128F)
Námskeiðið veitir yfirlit yfir mannlega þætti sem skipta máli við hönnun vara (e. products). Markmiðið er að nýta upplýsingarnar til að hanna vöru, ferli, kerfi eða umhverfi sem lágmarka mannleg mistök og eykur framleiðni. Á sama tíma er markmiðið að hámarka öryggi, heilsu og þægindi notenda og rekstraraðila. Til að ná þessu, þarf að styðjast við sálfræðilegar og lífeðlisfræðilegar aðferðir til að ákvarða mannlega eiginleika (getu, takmarkanir og hegðun). Meðal efnis sem fjallað verður um í námskeiðinu eru notendaprófanir, sáleðlisfræðileg próf, sálhljóðfræði, mannfræðilegar mælingar og líkamleg, vitsmunaleg og skipulagsleg vinnuvistfræði.
Rýmishljóðhönnun (IÐN129F)
Námskeiðið veitir yfirlit yfir sýndarhljóðvist (e. virtual acoustics) sem er einnig þekkt sem þrívíddarhljóð, þrívíddarhljóð, tvísýnt hljóð eða rýmisbundið hljóð. Efni námskeiðsins kemur frá mörgum undirgreinum hljóðfræði, þar á meðal sálhljóðfræði , efnislegri hljóðfræði, merkjavinnslu, virkri hljóðstýringu, byggingarhljóðvist, hljóðverkfræði og reiknilegri hljóðfræði.
Meðal efnis sem fjallað verður um eru líkamstengd yfirfærsluföll (HRTFs); grunnþættir sálhljóðfræði þrívíddarhljóða; „stereo tvípólinn“; hljóðmyndun (þar á meðal endurómunaráhrif); sýndarhljóðkerfi; lágmörkun milliheyrslu; ambisonics; staðbundið hljóðmyndunarferli; fjölrása hljóð; 3D líkanagerð og forrit tengd hljóðvinnslu.
Verkefni í Aðgerðagreiningu (IÐN231F)
Markmiðið með námskeiðinu er að æfa nemendur í að beita fræðasviðum iðnaðarverkfræðinnar við að leysa hagnýt verkefni.
Verkefni í Aðgerðastjórnun (IÐN232F)
Markmiðið með námskeiðinu er að æfa nemendur í að beita fræðasviðum iðnaðarverkfræðinnar við að leysa hagnýt verkefni.
Gerð aðgerðaáætlana (IÐN611M)
Tilgangur námskeiðs er að nemendur öðlist skilning á gerð aðgerðaáætlana í bæði framleiðslustjórnun og þjónustu. Nemendur nái valdi á bæði fræðilegum og hagnýtum aðferðum sem notaðar eru við gerð aðgerðaáætlana. Í framleiðslustjórnunarhluta er fjallað er um gerð spálíkana um eftirspurn, hvernig þau drífa gerð afurðaáætlana (bæði vörur og íhlutir), hvernig verkáætlanir og verkröðun deila auðlindum og hvernig aðgerðaáætlanir eru notaðar til að jafna breytileika. Í þjónustuáætlunum er fjallað um þjónustustig, notkun aðgerðaáætlana í þjónustu, vaktaáætlanir og fleira.
Hönnun þjónustukerfa (IÐN612M)
Tilgangur námskeiðsins er að undirbúa nemendur til þátttöku í hönnun þjónustukerfa. Farið verður í ferli þjónustuhönnunar og einstaka þætti þess, með sérstakri áherslu á þarfagreiningu og hönnun ferla og kerfa til að mæta þörfum viðskiptavina. Lögð er áhersla á fjölbreyttar aðferðir við kortlagninu þarfa (vinnustofur, rannsóknir), skapandi vinnubrögð, notkun frumgerða og innleiðingu.
Titringshljóð og tónlist (IÐN205M)
Þetta námskeið veitir ítarlega könnun á eðlisfræði og hljóðfræði klassískra hljóðfæra, yfirtóna þeirra og hvernig yfirtónar eru notaðir til að smíða tónstiga. Megináherslan er lögð á greiningu hljóðframleiðslu með strengjahljóðfærum (slá, toga og strjúka). Einnig verður fjallað um hljóðmyndun slagverks- (trommur, marimba), málmblásturs- (varareyr, sívalur hola, keilulaga hola) og tréblásturshljóðfæra (flautur, einn reyr , tvöfaldur reyr).
Meðal efnis sem fjallað verður um eru eiginleikar hljóðs - þ.e. geislunareiginleikar, dempunaraðferðir, tenging á milli hljóðvistar og byggingarhluta, tíðni tónnóta, hljóðhjúp og geðhljóð. Í námskeiðinu er gert er ráð fyrir að nemendur hafi grunnskilning á undirstöðuatriðum hljóðvistar og titrings.
Tækniþróun og nýsköpun (IÐN227F)
Markmiðið með námskeiðinu er að veita nemendum innsýn í rannsóknir um samspil tækniþróunar og nýsköpunar í samfélaginu. Farið verður yfir helstu hugtök, kenningar og álitamál á þessu sviði, nýlegar fræðigreinar rýndar og fjallað um þau mál sem eru í brennidepli á hverjum tíma. Sérstök áhersla verður lögð á notkun hermilíkana við rannsóknir á þessu sviði.
Árangursstjórnun (IÐN229F)
Í námskeiðinu eru hinar ýmsu hliðar árangurstjórnunar kynntar. Tveir meginpólar eru í námskeiðinu, árangursstjórnun séð frá viðskiptalegum sjónarhóli og árangursmælingar séð frá rekstrarfræðilegum sjónarhóli. Farið verður í grunn hugmyndafræði árangursstjórnunar, innleiðingarferli, helstu tæki og tól og svo neikvæðar hliðar slíkra kerfa. Námskeiðið inniheldur m.a. : lykilmælingar (KPI‘s), kerfisnálgun (PMS), framleiðni (productivity), árangursmælingar (performance measures) og hönnun mælinga. Nemendur kynnast framkvæmd árangurstjórnunar í íslenskum fyrirtækjum og stofnunum og vinna að raunhæfum verkefnum.
Framleiðni þekkingarstarfsmanna (IÐN230F)
Markmiðið með námskeiðinu er að veita nemendum innsýn í rannsóknir um framleiðni þekkingarstarfsmanna. Farið verður yfir helstu hugtök, kenningar og álitamál á þessu sviði, nýlegar fræðigreinar rýndar og fjallað um þau mál sem eru í brennidepli á hverjum tíma. Framleiðni þekkingarstarfsmann verður sett í samhengi við framleiðni verkamanna og sjálfvirknivæðingu nútímans.
- Haust
- Verkefni í Nýsköpunarstjórnun
- Verkefni í Tæknistjórnun
- Stjórnun sjálfbærra aðfangakeðjaVE
- Stefnumótun í aðfangakeðjumV
- Vor
- Lokaverkefni
Verkefni í Nýsköpunarstjórnun (IÐN132F)
Markmiðið með námskeiðinu er að æfa nemendur í að beita fræðasviðum iðnaðarverkfræðinnar við að leysa hagnýt verkefni.
Verkefni í Tæknistjórnun (IÐN133F)
Markmiðið með námskeiðinu er að æfa nemendur í að beita fræðasviðum iðnaðarverkfræðinnar við að leysa hagnýt verkefni.
Stjórnun sjálfbærra aðfangakeðja (IÐN130F)
Í námskeiðinu er lögð áhersla á að nemendur öðlist þekkingu í sjálfbærri stjórnun aðfangakeðja. Farið verður yfir mismunandi mismunandi þætti logistík út frá sjónarhóli sjálfbærni, allt frá vali á birgjum, innkaupum, birgðastjórnunar, flutninga og dreifingar auk áhrifa hringrásarhagkerfis á sjálfbærni, o.fl. Lögð er áhersla á nýsköpun þekkingar á afmörkuðu sviði vörustjórnunar með vali á verkefni sem unnið er að og ræðst af áhuga nemenda sem er gert kleift að vinna hópverkefni sem tengjast völdu sviði. Námskeiðið byggir á fyrirlestrum, málstofum og verkefnavinnu þar sem unnið er að raunhæfu verkefni, oft beint tengt fyrirtækjum og þeirra starfsemi. Námsmat byggir á símati og skil á verkefni.
Stefnumótun í aðfangakeðjum (IÐN131F)
Markmið námskeiðsins er að veita þátttakendum yfirgripsmikla þekkingu á stefnumótandi stjórnun á rekstrar- og aðfangakeðjum í skipuheildum mismunandi geira, bæði stofnana og fyritækja. Í námskeiðinu er raunveruleg dæmi notuð til að greina áhrif mismunandi aðferða á starfsemina. Mismunandi verkfæri eru notuð til að greina aðstæður og framtíðar uppsetningu valinnar aðfangakeðju, þar á meðal SCOR líkanið, SVÓT greiningu, virðisstraumagreiningu, almenna ferlagreiningu, o.s.frv. Þetta verður gert í hópvinnu og inniheldur fjölda málstofa og verkefna. Eftir að hafa staðist námskeiðið á nemandi að hafa þekkingu til að greina skipuheildir auk þess að hanna og stjórna aðfangakeðjur. Námsmat byggir á símati, skil á verkefnum og útkomu úr málstofum.
Lokaverkefni (IÐN441L)
- Efni lokaverkefnis skal valið í samráði við leiðbeinanda (leiðbeinendur) úr hópi fastra kennara deildar. Lokaverkefnið er 30 einingar. Sérhverjum meistaranema er frá upphafi náms úthlutað umsjónarkennara sem leiðbeinir um skipulag námsins. Ef nemandi er ekki komin með leiðbeinanda fyrir lokaverkefni þá ber honum að snúa sér til umsjónarkennara til að fá aðstoð við það
- Val viðfangsefnis er fyrst og fremst á ábyrgð nemandans en í samráði við leiðbeinanda. Þess skal gætt að verkefnið tengist viðfangsefnum viðkomandi námsleiðar
- Meistaranemandi skrifar meistararitgerð skv. sniðmáti sviðsins og ver ritgerðina í meistaravörn (prófi).
- Próf lokaverkefnis skiptist í tvo hluta: Munnlegt próf og opinberan fyrirlestur
- Viðstaddir í munnlegu prófi er nemandi, leiðbeinandi, prófdómari og meðlimir meistaranámsnefndar. Nemandinn heldur stutta kynningu um verkefnið sitt.
- Nemandinn skilar meistararitgerð og veggspjaldi.
- Samkvæmt reglum meistaranám sviðsins þurfa allir nemendur sem hyggjast brautskrást frá Verkfræði- og náttúruvísindasviði að halda opinberan fyrirlestur um lokaverkefnið sitt.
- Skil þarf rafrænu eintaki af lokaverkefni í Skemmuna sem er stafrænt varðveislusafn lokaverkefna við alla háskóla á Íslandi.
- Samkvæmt reglum Háskóla Íslands eiga allar MS ritgerðir að vera opnar eftir að þeim hefur verið skilað inn á skemmuna.
Hæfniviðmið:
Að MS-ritgerð lokinni á nemandi að geta:
- Mótað verkfræðilegt hönnunarverkefni/rannsóknarspurningu
- Greint og leyst verkfræðileg verkefni á sérhæfðu sviði.
- Framkvæmt vandaða heimildaöflun og heimildarýni.
- Sýnt frumkvæði og sjálfstæða skapandi hugsun.
- Nýtt hefðbundnar aðferðir til þess að svara tiltekinni rannsóknarspurningu
- Dregið saman þekkingu á fræðasviðinu og unnið rannsókn sem felur í sér framlag til þess
- Unnið úr niðurstöðum, greint óvissuþætti og takmarkanir og túlkað niðurstöður.
- Metið umfang rannsóknarefnis og skipulagt vinnu sína í samræmi við það
- Sett fram rannsóknaniðurstöður, rökstutt þær og tengt við stöðu þekkingarinnar á fræðasviðinu
- Haust
- Fjármálastærðfræði II (Hagfræði og stærðfræði fjármálamarkaða)V
- GæðastjórnunVE
- ReiknigreindVE
- TímaraðagreiningV
- GervigreindV
- Orkufrek framleiðsluferliVE
- Hönnun og bestunV
- Lokaverkefni: verkefnastjórnun, ritfærni og kynningV
- Vor
- Nýsköpun og gerð viðskiptaáætlanaVE
- VerkefniV
- Nýsköpun og viðskiptaþróun í framkvæmd (II)V
- VerkefniV
- Nýsköpun og viðskiptaþróun í framkvæmd (I)V
- HermunV
- Straumlínustjórnun - Virði, sóun og umbótamenningV
- ViðskiptagreindVE
- Tæknileg iðnhönnunVE
- Tölvustýrður vélbúnaðurV
- Tölvuvædd hönnunV
- Fiskiðnaðartækni 2VE
Fjármálastærðfræði II (Hagfræði og stærðfræði fjármálamarkaða) (HAG122M)
Í námskeiðinu verður farið yfir helstu atriði tölfræði og verðlagningar í fjármálum. Lögð er áhersla á kynna nemendum fyrir notkun töl- og stærðfræðilegra aðferða til að greina, verðleggja og afla upplýsinga um fjármálagerninga. Lögð er áhersla á raunveruleg dæmi þar sem nemendur fá þjálfun í að leysa verkefni lík þeim sem þau gætu þurft að leysa á vinnustað.
Í tölfræðihluta námskeiðsins verður farið yfir tímaraðagreiningu. Þar verða líkön á borð við sjálfsaðhverf líkön (e. Auto regressive model, AR model) og líkön með hlaupandi meðaltöl (e. Moving-average model, MA model) kynnt til leiks. Einnig samsetning þeirra ARMA, ARIMA og SARIMA líkön. Að lokum verður farið yfir líkön með skilyrða misdreifni eða ARCH og GARCH líkön.
Í verðlagningahluta verður farið í tvíliðutré, Wiener-ferli, hjálparsetningu Ito, líkan Black-Scoles-Merton og verðlagningu á valréttum á hlutabréf og gjaldeyri.
Gæðastjórnun (IÐN101M)
Markmið: Nemendur fái skilning á uppruna og þróun gæðastjórnunar og hvernig fyrirtæki og stofnanir geta byggt upp stjórnkerfi á grundvelli alþjóðlegs gæðastjórnunarstaðals. Í námskeiðinu er meðal annars fjallað um gæðahugtakið, innri og ytri viðskiptavini, gæðabrag, umbótaferli, liðsvinnu, gæðakostnað og gæðahringhrás og samhengi gæðastjórnunar og hönnunar og notkun tölfræði í gæðastjórnun. Sérstök áhersla er lögð á umfjöllun um ISO9001 gæðastaðalinn og nemendur fást við hann í hópvinnu með því að skoða kröfur hans í samhengi við starfandi fyrirtæki.
Reiknigreind (IÐN102M)
Við hönnun á greind kerfa er þörf fyrir sjálfvirk kerfi sem læra að taka góðar ákvarðanir. Í námskeiðinu er kynnt fyrir nemendum reiknirit sem endurbætast sjálfvirkt með reynslu. Þessi reiknirit þurfa enga leiðsögn aðra en umbun fyrir teknum ákvörðunum. Hugmyndafræði er kölluð styrkingalærdómur (e. reinforcement learning) og er snertiflötur ólíkra fræða; aðgerðgreiningu, gervigreind og stýritækni. Að námskeiði loknu eiga nemendur að hafa færni í að setja upp, greina og leysa stærðfræðileg líkön sem standa fyrir ákvörðunarverkefnum. Tekin eru fyrir Markov-ákvörðunarferli, kvik-bestun, Monte-Carlo aðferðir, ákvörðunarstefnur, áætlanagerð og trjáleit, ásamt djúpum tauganetum. Nemendur kynnast einnig forritunarmálinu Python.
Tímaraðagreining (IÐN113F)
Markmið: Að veita bæði hagnýta og fræðilega þekkingu í gerð líkana, mati á stikum og spám í kvikum kerfum. Námsefni: ARMAX og önnur hliðstæð ferli og helstu eiginleikar þeirra. Meðhöndlun á óstöðnuðum ferlum. Sjálffylgni- og samfylgniföll. Mismunandi aðferðir við rófgreiningar. Mat á stikum, þar á meðal aðferð minnstu kvaðrata og sennileikaaðferðin. Tölulegar aðferðir við lágmörkun markfalla. Fjallað er um ýmis vandamál sem geta komið upp við líkangerð, svo sem ef mælingar vantar eða þær eru óeðlilegar. Inngangur að ólínulegum tímaraðalíkönum. Stakræn kerfi á ástandsformi. Lögð er áhersla á að leysa hagnýt verkefni.
Gervigreind (REI505M)
Fjallað er um hugtök, aðferðir og reiknirit á sviði gervigreindar, með áherslu á studdan og óstuddan lærdóm. Forvinnsla og myndræn framsetning gagna. Mat á gæðum líkana og val á líkönum. Línuleg aðhvarfsgreining, næstu nágrannar, stoðvigravélar, tauganet, ákvarðanatré og safnaðferðir. Djúpur lærdómur. Þyrpingagreining og k-means aðferðin. Nemendur útfæra einföld reiknirit í Python og læra á sérhæfða forritspakka. Námskeiðinu lýkur með hagnýtu verkefni.
Orkufrek framleiðsluferli (VÉL102M)
Markmið: Að nemendur fræðist um framleiðsluferli í efnistækni. Að hvetja nemendur til að hugsa um möguleika Íslands til að hagnýta endurnýjanlega orku. Farið verður yfir framleiðsluferli í íslenskum framleiðslufyrirtækjum, t.d. framleiðslu kísiljárns, rafgreiningu áls, framleiðslu steinullar og fleira. Kynnt verða ýmis stærri framleiðsluferli í efnistækni, með sérstakri áherslu á þau ferli sem þykja fýsilegur kostir á Íslandi. Lögð verður áhersla á að nemendur fái yfirsýn yfir framleiðsluferlin, hráefni, orkugjafa/orkuþörf, framleiðsluaðferðir, mengun, afurðir o.fl. Einnig verður rætt um efnahagslegan bakgrunn, þ.e. kostnað, hagnað og markaðssveiflur. 1-2 stór hagnýt verkefni eru unnin samhliða fyrirlestrum allt misserið og farið er í vettvangsferðir.
Hönnun og bestun (VÉL113F)
Markmið: Að gera nemendur færa um að beita aðferðum bestunarfræðinnar við hönnun. Námsefni: Línuleg og ólínuleg bestun. Þróunaraðferðir, tauganet og óskýr rökfræði við verkfræðilega hönnun. Hönnun dreifikerfa, framleiðslukerfa, vélbúnaðar og burðarvirkja.
Lokaverkefni: verkefnastjórnun, ritfærni og kynning (VON001F)
Námskeiðið fjallar um inngang að vísindalegum aðferðum, siðfræði vísinda í háskólasamfélaginu. Einnig verður farið í hlutverk nemanda, leiðbeinanda og prófdómara. Tekin verða fyrir árangursrík og heiðarleg samskipti sem og gerð fræðilegrar umfjöllunar með notkun gagnasafna og réttri heimildanotkun. Gerð rannsóknaráætlunar og rannsóknaðferðir verða kynntar og einnig hagnýt framsetning tölulegra gagna. Farið verður í verklag við gerð fræðiritgerða, hvernig skipta á stóru verkefni niður í smærri einingar, gerð áætlunar og tímalínu og hvernig á að fylgja þeim. Lífið eftir brautskráningu og vinnumarkaðurinn.
Nýsköpun og gerð viðskiptaáætlana (IÐN202M)
Markmið: Gera nemendur færa um að skilja eðli og ferli nýsköpunar, einkenni og virkjun frumkvæðis og skrifa viðskiptaáætlun fyrir tiltekna hugmynd. Fjallað verður um öll atriði er tengjast gerð viðskiptaáætlana. Þar er einkum um að ræða; hugmyndaleit, hugmyndamat og skilgreining á viðskiptahugmynd (þörf og lausn). Markaðsmál, sölumál og samkeppni varðandi hugmyndina og framsetning eftirpurnarfalls. Tæknin sem lausnin byggir á og tæknileg sérstaða lausnarinnar. Gerð framkvæmdaáætlunar fyrir tæknilega útfærslu lausnarinnar (verk- og tímaáætlun). Vernd hugverka og einkaleyfi. Gerð stofnkostnaðar- og fjármögnunaráætlunar. Gerð fjárhagsáætlana; rekstrar- og greiðsluáætlun ásamt áætlun um efnahagsreikning og arðsemis- og andvirðismat. Útreikningur ýmissa lykiltalna. Umfjöllun um stofnendur, eigendur og stjórnskipulag. Verkefnavinna: Þátttakendur vinna verkefni á grundvelli hugmyndaleitar og hugmyndamats. Verkefnin eru annað hvort sprottin úr hugmyndum þátttakenda eða tengjast starfandi fyrirtækjum. Verkefnin eru unnin í þriggja manna hópum og skila nemendur 4 áfangaskýrslum og verja verkefnin munnlega í lok misseris. Lokaskýrsla skal vera fullmótuð viðskiptaáætlun ásamt arðsemismati og tillögum um hvernig verkefninu skuli hrint í framkvæmd.
Verkefni (IÐN214F)
Meistaranemum er gefinn kostur á að vinna að verkefni, sem tengist véla- og/eða iðnaðarverkfræði. Verkefnið er unnið undir umsjón a.m.k. eins fastráðins kennara deildarinnar.
Nýsköpun og viðskiptaþróun í framkvæmd (II) (IÐN216F)
Námskeiðið er framhald af námskeiðinu IÐN222F Nýsköpun og viðskiptaþróun í framkvæmd (I)“ og er kennt á vikum 8-14 á vormisseri. Þessi hluti námskeiðsins felst í ítarlegri þróun viðskiptalíkans fyrir tiltekið viðskiptatækifæri. Sú þróun fer fram í hópum þar sem áhersla er lögð á að leiða saman einstaklinga með bakgrunn í viðskiptum og stjórnun og einstaklinga með fagþekkingu á því sviði nýsköpunar sem viðskiptatækifærið byggir á. Uppruni verkefnanna getur verið í sjálfstæðu viðskiptatækifæri eða innan samstarfsfyrirtækja. Í báðum tilvikum er lögð áhersla á að verkefnin feli í sér afurðaþróun byggða á fagþekkingu þar sem viðskiptalegar forsendur tækifærisins og prófun þeirra eru í forgrunni.
Verkefni (IÐN219F)
Nemendum er gefinn kostur á að vinna að verkefni að umfangi 1,5 einingu sem tengist öðru 6,0 eininga námskeiði sem nemandi hefur utan námsbrautar í iðnaðarverkfræði og valið í samráði við umsjónarkennara. Tilgangur námskeiðins er að tengja hið valda 6,0 eininga námskeið sviði iðnaðarverkfræðinnar. Verkefnið byggir á lýsingu á viðfangsefni, söfnun gagna, greiningu og mótun niðurstöðu. Verkefnið er valið og unnið undir umsjón a.m.k. eins fastráðins kennara deildarinnar.
Nýsköpun og viðskiptaþróun í framkvæmd (I) (IÐN222F)
Þetta námskeið er fyrri hluti af tveimur námskeiðum á sama misseri og gert er ráð fyrir að nemendur taki báða hlutana (IÐN222F og IÐN216F) Þessi fyrri hluti námskeiðsins, IÐN222F Nýsköpun og viðskiptaþróun í framkvæmd (I), er kenndur á vikum 1-7 á vormisseri. Í námskeiðinu er farið á praktískan hátt yfir ferli nýsköpunar í viðskiptum. Farið er yfir fæðingu viðskiptahugmyndar og fyrsta mat á viðskiptatækifærinu, þróun og prófun viðskiptalíkans. Þessi hluti námskeiðsins byggir á fyrirlestrum og dæmisögum sem taka á ýmsum þáttum nýsköpunar- og viðskiptaþróunar: Greining viðskiptatækifæra, mat á markaðsstærð og einingaframlegð, stjórnun nýsköpunareininga, fjármögnun og fleira. Einnig eru unnin verkefni þar sem þar sem nemendur beita aðferðum námskeiðsins á afmörkuð verkefni í afurða- og viðskiptaþróun bæði í nýjum og starfandi fyrirtækjum.
Hermun (IÐN403M)
Farið er yfir stakræna atburða hermun, tölfræðilega líkanagerð, hönnun hermilíkana, gerð tilrauna, prófanir líkana og túlkun niðurstaðna hermana. Fjallað er um sennileikamat á líkindadreifingum út frá mælingum. Námskeiðið kynnir auk þess fræðin á bak við gerð slembuframkallara og prófun þeirra. Farið er í grunnforritun á hermilíkönum og sérhæfðir hermihugbúnaðir kynntir. Nemendur vinna raunhæft hermiverkefni þar sem áhersla er lögð á hönnun og greiningu á framleiðslukerfi eða þjónustukerfi.
Straumlínustjórnun - Virði, sóun og umbótamenning (IÐN601M)
Á námskeiðinu er farið ítarlega í aðferðir straumlínustjórnunar (Lean Management). Markmið Lean er að hámarka virði til viðskiptavina með því að vinna að stöðugum umbótum (Kaizen) á framleiðslu- og þjónustuferli, staðla vinnubrögð og jafna álag á vélar og fólk (Heijunka). Nemendur læra hvernig hægt er að beita aðferðarfræðinni til að hámarka gæði, lágmarka framleiðslutíma og minnka kostnað. Farið er yfir hvernig stöðugt flæði (Just-in-time) styttir framleiðslutímann ásamt því að auðkenna samstundis þau vandamál sem koma upp í ferlinu (Jidoka). Nemendur læra að teikna upp virðisstraum (value stream mapping) fyrir framleiðslu- og þjónustuferli, rótargreiningu vandamála ásamt öðrum þekktum umbótatólum svo sem 5S, Kaizen Blitz, A3, sýnilegri stjórnun, Kanban og SMED. Fjallað verður um fyrirtæki sem hafa tileinkað sér Lean með góðum árangri þar á meðal Toyota, Intel og Nike
Viðskiptagreind (IÐN610M)
Viðskiptagreind nær yfir aðferðir og tækni sem fyrirtæki nota til að safna gögnum, túlka þau og nýta við ákvarðanatöku. Í þessu námskeiði er farið út fyrir skýrslur og mælaborð og sýnt hvernig gervigreind er notuð til að öðlast innsýn í starfsemina og útbúa tillögur að úrbótum. Námskeiðið samanstendur af fimm námseiningum: 1) Aðhvarfsgreining og flokkun sem byggir á merktum gögnum, 2) flokkun hálfmerktra og ómerktra gagna á grundvelli þess hversu lík þau eru, 3) greining atburða í ferlum, 4) málvinnsla og 5) gagnasiðfræði. Í hverri námseiningu undirbúa nemendur sig fyrir kennslustundir og vinna saman í teymum við að leysa raunhæf verkefni sem fylgt er eftir með einstaklingsmati.
Tæknileg iðnhönnun (VÉL203M)
Markmið: Að gera nemendur færa um að þróa og hanna framleiðsluvörur og vinnslukerfi. Námsefni: Hönnunaraðferðir og huglæg hönnun: Þarfagreining aðgerðagreining, matsskilyrði, jaðarskilyrði, lausnarrúm og ákvörðunartaka. Hlutlæg hönnun: Form, samtengingar og víddir. Ákvörðunartaka, kerfisgreining og þekkingarkerfi. Tölvustudd hönnun: Þráðlíkan, yfirborðslíkan, rúmmálslíkan, framsetning og frágangur. Flutningakerfi, vörumeðhöndlun, vinnsla og pökkun. Vörugæði, ending og urðun.
Tölvustýrður vélbúnaður (VÉL205M)
Markmið: Að kenna nemendum að hanna vélbúnað sem byggir á stýritækni, rafbúnaði og aflliðum. Að tengja saman stýritækni, rafmagnsfræði og vélhlutafræði. Námsefni: Aflgjafar, drifbúnaður, færslukerfi, mælinemar, reglar og tölvustýringar. Vökvaþrýstikerfi, loftþrýstikerfi, færibönd, flutningakerfi og fiskvinnsluvélar.
Tölvuvædd hönnun (VÉL206M)
Í námskeiðinu kynnast nemendur hugtökum og aðferðum við stikaframsetningu ferla s.s. Bezier-, Hermite- og NURBSferla. Auk þess kynnast nemendur aðferðum við framsetningu þrívíðra þráð-, yfirborðs- og rúmmálslíkana. Farið verður yfir notkun stikaframsetningar við þrívíða líkanagerð, gerð samsetningateikninga með pörunaraðferðum og samskipti mismunandi hugbúnaðslausna.
Nemendur öðlast góða yfirsýn yfir þann hugbúnað sem býðst fyrir verkfræðilega hönnun og framleiðslu. Auk þessa munu nemendur kynnast því nýjasta sem er að gerast á fagsviðinu, s.s. í greiningu,hermun, frumgerðasmíði og tölvustýrðri framleiðslu. Nemendur kynnast þessu í gegnum gestafyrirlestra, heimsóknir og smáráðstefnu þar sem nemendur skrifa greinar og kynna nýjar og spennandi rannsóknaniðurstöður eða nýja tækni (út frá ritrýndum vísindagreinum).
Samhliða fyrirlestrum beita nemendur efni námskeiðsins á opið hönnunarverkefni, smíða frumgerð, skila skýrslu og kynna verkefnið.
Fiskiðnaðartækni 2 (VÉL601M)
ATH: námskeiðið verður ekki kennt vorið 2022.
Markmið: Gera nemendur færa um að beita þverfaglegri þekkingu á helstu sviðum vélaverkfræðinnar til að hanna fiskvinnslurásir/flutningsferla. Námsefni m.a.: Vinnsluþrep og búnaður við vinnslu ferskfisks, frystingu, söltun, þurrkun, fiskmjölsvinnslu, lýsisgerð, meltugerð o.fl. Orku- og massavægi. Hönnunarforsendur fyrir fiskvinnslufyrirtæki. Vinnsluvélar, pökkunar- og geymsluaðferðir, greining á starfsumhverfi sjávarútvegsfyrirtækja, markaðsmál, hreinni framleiðslutækni, samkeppnisstaða, arðsemi, gæðamál, tæknivæðing o.fl.
Geymsluskilyrði (ljós, raki, hiti, samsetning lofts, o.s.frv.) og lykilþættir sem áhrif hafa á breytingar fiskafurða við geymslu, flutning og sölu/dreifingu. Stöðug og tímaháð varmaflutningsfræði, hagnýting Heisler- og Mollier-rita.
Verklegt: Fiskvinnslurás/fiskvinnslufyrirtæki greint og/eða endurhannað.
Hafðu samband
Nemendaþjónusta VoN
s. 525 4466 - nemvon@hi.is
Opið virka daga frá 09:00-15:30
Tæknigarður - Dunhaga 5, 107 Reykjavík
Askja - Sturlugata 7, 102 Reykjavík
Fylgstu með Verkfræði- og náttúruvísindasviði
Hjálplegt efni
Ertu með fleiri spurningar? Hér finnurðu svör við ýmsum þeirra og upplýsingar um ýmislegt annað sem gott er að hafa í huga þegar þú velur nám.