Skip to main content

Lyfjafræði

Lyfjafræði

Heilbrigðisvísindasvið

Lyfjafræði

MS gráða – 120 einingar

Í meistaranámi í lyfjafræði eru kenndar hinar ýmsu sérgreinar lyfjafræðinnar auk þess sem nemendur vinna 40 eininga rannsóknaverkefni. Nemendur fá þjálfun í að vinna sjálfstætt að vísindarannsókn undir leiðsögn.

Að loknu námi og starfsþjálfun öðlast nemendur starfsleyfi lyfjafræðings.

Skipulag náms

X

Líftölfræði I (LÝÐ105F)

Inngangur að hagnýtri líftölfræði í lífvísindum. Yfirlit er gefið yfir tegundir breyta; flokkabreytur, strjálar og samfelldar talnabreytur. Lýsandi tölfræði; lýsistærðir og myndræn framsetning gagna. Fræðilegar líkindadreifingar; tvíkostadreifing, Poisson dreifing og normaldreifing. Skilgreiningar á slembiúrtaki og þýði. Dreifingar lýsistærða. Notkun á öryggisbilum og tilgátuprófum. Samanburður á meðalgildi hópa (samfelldar mælingar). Tölfræðipróf fyrir tíðnitöflur (flokkabreytur). Einföld og lógistísk aðhvarfsgreining og ROC greining. Lifunargreining með aðferð Kaplan Meier og Cox. Í fyrirlestrum og dæmatímunum verður notast við tölfræðiforritið R og RStudio umhverfið.

X

Lög og reglugerðir (LYF129F)

Í þessu námskeiði kynnast þáttakendur lögum, reglugerðum og öðrum stjórnvaldsfyrirmælum á heilbrigðissviði, með áherslu á lög og reglugerðir um lyf og lyfjafræðinga. Nemendur læra hvar þessar reglur er að finna og hvernig á að beita þeim.  Fyrirlestrar kennara og gestafyrirlesara veita nemendum innsýn í helstu undirstöðuatriði, en nemar vinna jafnhliða verkefni sem tengjast námsefninu.

X

Samþætt sjúkdóma- og lyfhrifafræði (LYF106F)

Fjallað verður um einkenni, orsakir, meingerð og meðferð sjúkdóma. Lögð er áhersla á verkunarhátt lyfja og áhrif þeirra á sjúklinga með hjartasjúkdóma, lungnasjúkdóma, nýrnasjúkdóma, blóðsjúkdóma, geðsjúkdóma og húðsjúkdóma. Að auki er fjallað um áhrif lyfja á aldraða. Ítarlega er farið yfir áhrif lyfja á sameindir, frumur, vefi og líffæri og tekin klínísk dæmi þar sem lyfin gegna mikilvægu hlutverki við meðferð. Einnig er fjallað um algengar aukaverkanir og milliverkanir lyfja.

X

Líftæknilyf (LYF122F)

Markmið námskeiðisins er að nemendur skilji grundvallaratriði í þróun og framleiðslu líftæknilyfja. Farið verður í framleiðsluferli líftæknilyfja byggða á frumuræktunum ásamt greiningaraðferðum sem fara fram bæði við þróun lyfsins og þegar lyfið er komið á markað. Fjallað verður um eftirfarandi tegundir líftæknilyfja: Mótefni (hefðbundin og einstofna), bólefni og peptíð- og próteinlyf. Útskýrt verður hvernig “Quality by design”(QbD) er notað í gegnum allt framleiðsuferlið ásamt þeim kröfum sem eru gerðar til líftæknilyfja samkvæmt góðum framleiðsluháttum í lyfjagerð (Annex 2 í EU GMP). Öryggi og eiturvirkni líftæknilyfja verða einnig rædd. Auk þess verður farið í nýjar aðferðir tengdar líftæknilyfjum eins og genameðferðir og notkun kirna (nucleotides). Í þessu námskeiði verður leitast við að hafa víðtækt samstarf við sérfræðinga úr líftækniiðnaðinum á Íslandi

X

Lyfjaeiturefnafræði (LYF213F)

Farið verður í gegnum ýmsa þætti sem tengjast lyfjaeiturefnafræði eins og eitranir, meinmynd þeirra og birtingarmynd t.d. í formi aukaverkana af völdum lyfja, sjúkdóma af völdum lyfja eða eitrunum. Farið verður í gegnum þær kröfur sem gerðar eru til lyfjaeiturefnafræðilegra prófana á lyfjum og áhættumati.  

X

Siðfræði (LYF215F)

Markmið þessa námskeiðs er að nemendur fái innsýn í siðfræði og þjálfun í siðfræðilegri hugsun við að greina og rökræða raunhæf úrlausnarefni í heilbrigðisþjónustu.
Námskeiðið er undirbúningur undir klínískt nám í apóteki og verklega klíníska lyfjafræði

X

Klínísk lyfjafræði (LYF217F)

Farið er í grunnhugtök notuð í klínískri lyfjafræði.  Áhersla er á kennslu í að taka nákvæma lyfjasögu og túlkun blóðrannsókna og hvernig þessar upplýsingar nýtast við að greina, leysa og fyrirbyggja lyfjatengd vandamál.  Farið er í flokkun lyfjatengdra vandamála, milliverkanir lyfja og kynningu á að veita gagnreyndar upplýsingar við fyrirspurnum er varða lyf. Í undirbúningi fyrir verknám eru kynntir helstu gagnagrunnar sem notaðir eru ásamt lyfjafyrirmæla- og sjúkraskrárkerfi Landspítalns.  Verknám námskeiðsins fer fram á Landspítalanum þar sem nemendur kynnast og taka þátt í klínískum störfum lyfjafræðinga.  Nemendur fá einnig þjálfun í uppsetningu og kynningu raunverulegra sjúkratilfella með áherslu á úrlausn lyfjatendgdra vandamála á hnitmiðaðan hátt.

X

Samskiptatækni (LYF219F)

Markmið þessa námskeiðs er að veita nemendum grunnþekkingu í viðtalstækni, samskiptum og upplýsingasöfnun í heilbrigðisþjónustu.

Námskeiðið er undirbúningur undir klínískt nám í apóteki og verklega klíníska lyfjafræði

X

Starfsnám lyfjafræðinema II (LYF222F)

Námskeiðið er til undirbúnings fyrir nemendur að vinna í apótekum. Umsjónarkennari námskeiðs finnur apótek og leiðbeinanda fyrir nemann sem starfar í samráði við Lyfjafræðideild HÍ. Lyfjafræðingur þessi leiðbeinir nemanum á tímabilinu. Neminn vinnur verkefni í því apóteki sem honum er úthlutað. 

X

Lyfjafaraldsfræði (LYF220F)

Markmið námskeiðsins er að kynna fyrir nemum grundvallaratriði í faraldsfræði og hvernig hún tengist tölfræði og heilbrigðisvísindum. Þessi vitneskja er notuð til að skoða nánar rannsóknarspurningar á sviði lyfjafaraldsfræði. Fyrirlestrar gefa helstu undirstöðuatriði, en nemar vinna jafnhliða verkefni sem tengjast námsefninu. Grundvallaratriði faraldsfræði og lyfjafaraldsfræð sem tekin eru fyrir: áhætta/vernd, útkoma, orsakatengsl, mæling á útbreiðslu sjúkdóma og mæling áhættu, rannsóknasnið, hlutverk tilviljunar, gruggunar og bjaga í faraldsfræði, lyfjanotkunarrannsóknir, réttmæti og áreiðanleiki, úrtak, spurningalistar, eigindlegar aðferðir, gagnagrunnar, kerfisbundin samantek og safngreining, siðfræði í faraldsfræðirannsóknum og lyfjagát (Pharmacovigilance).
Mikilvægar rannsóknarspurningar í lyfjafaraldsfræði.
Notagildi lyfjafaraldsfræði í ákvarðanatöku (klíník og stefnumörkun).
Gátlisti yfir gæði rannsókna í faraldsfræði og lyfjafaraldsfræði.

X

Lyfjaefnafræði /Lyfjahönnun (LYF302F)

Í námskeiðinu er fjallað um ýmis grunnhugtök lyfjaefnafræðinnar og þær aðferðir sem eru notaðar við hönnun og efnafræðilega þróun á nýjum lyfjum. Í fyrirlestrum verður fjallað um eðli og einkenni lyfjaviðtaka, virknimælingar, uppruna lyfjaefna, hendni lyfja, lyfjakjarna, aðferðir til að hámarka virkni, sameindahermun í tölvum, hönnun og skilgreining efnasafna, frásogs-umbrots-dreifingar-útskilnaðar-eiturefnafræðilegir (ADMET) eiginleikar og nokkur dæmi um lyfjaþróun. Námskeiðið samanstendur af fyrirlestrum og verkefni.

Verkefnið er að gera Wikipedia síðu um efni sem tengist lyfjahönnun.

X

Náttúrulyf /Náttúruvörur (LYF310F)

Algeng náttúrulyf/náttúruvörur sem seld eru hér á landi; ­ Jónsmessurunni, valeriana, ginseng, ginkgó, freyspálmi, engifer, hvítlaukur, sólhattur, mjólkurþistill, o.fl. Rætt er um notkun, innihaldsefni, vísindarannsóknir á virkni, aukaverkanir, milliverkanir við lyfseðilsskyld lyf, frábendingar. Mikilvægi ábyrgrar upplýsingamiðlunar til neytenda og fagfólks heilbrigðisstétta. Gæðaeftirlit. Lög og reglugerðir er varða náttúrulyf/náttúruvörur.

X

Meistaraverkefni í lyfjafræði (LYF301L)

Lokaverkefni til MS prófs í lyfjafræði er einstaklingsverkefni sem nemandi vinnur sjálfstætt undir leiðsögn leiðbeinanda. Nemendur skila inn ritgerð og kynna verkefni sitt.

Fyrri hluti meistaraverkefnisins er 10 ects.að hausti og 30 ects. að vori.  

X

Þverfræðileg samvinna í heilbrigðisvísindum (HVS501M)

Námskeiðið er ætlað nemendum á þriðja námsári eða síðar sem lokið hafa a.m.k. tveimur árum grunnnáms í greinum heilbrigðisvísinda.  Hugmyndafræði þverfræðilegrar samvinnu verður lögð til grundvallar í námskeiðinu þar sem nemendur vinna saman að sameiginlegum markmiðum.  Nemendur munu vinna saman í þverfræðilegum teymum og fá tækifæri til að æfa fagmennsku, teymisvinnu, og efla samskipti. Nemendur í hverjum hóp eru úr nokkrum heilbrigðisvísindagreinum.

Námsmat (staðið/fallið) byggist á  verkefnavinnu, virkni í verkefnavinnu og prófum sem verða á rafrænu formi í kennslulotunni.
 
Kennslutilhögun:
Nemendum er skipt í þverfaglega námshópa í byrjun annar sem síðan skipuleggja fundartíma sínir sjálfir og skila lokaverkefnum fyrir lok október. 

X

Mannauðsstjórnun (VIÐ194F)

Námskeiðið miðar að því að gera nemendum kleift að tileinka sér nýjustu og helstu kenningar á sviði mannauðsstjórnunar og að nemendur öðlist skilning og þjálfun í notkun helstu kenninga í stjórnun mannauðs. Kenningum um mannauðsstjórnun er gerð ítarleg skil og er markmiðið að nemendur skilji mikilvægi mannauðsstjórnunar sem fræðigrein og sem mikilvægan þátt innan skipulagsheildarinnar. Kynntir verða helstu þættir mannauðsstjórnunar og er mikilvægt að nemendur geti tileinkað sér efni þeirra í kennslu- og dæmatímum þar sem fengist er við úrlausn raunhæfra dæma.

X

Rekstur og heilbrigðisþjónusta (HJÚ142F)

Markmið námskeiðsins er að veita nemendum innsýn í fræðilega nálgun ýmissa hagrænna þátta sem hafa áhrif á starfsumhverfi í heilbrigðisþjónustu. Þessir þættir eru óumflýjanlegir í öllum rekstri stórum og smáum, hvort sem er opinber rekstur eða einkarekstur.  Í námskeiðinu er farið yfir með hvaða hætti þættirnir birtast og hvernig hægt er að hafa áhrif á þá rekstrinum til góða.  Meðal hugtaka sem farið verður yfir:

  • Framboð, eftirspurn, framleiðsluþættir, teygni
  • Breytilegur-, fastur-, beinn- og óbeinn kostnaður.
  • Áhrif skattheimtu og utanaðkomandi áhrif. Einkagæði og sameiginleg gæði.
  • Viðskipti og hlutfallslegir yfirburðir. Hringrás efnahagslífsins.
  • Framfærslukostnaður, vísitölur og þjóðhagsreikningar.
  • Fjárhagsbókhald, rekstrar- og efnahagsreikningur.
  • Rekstrarbókhald, mismunandi rekstrargreiningar.
X

Lífræn efnafræði 3 (EFN515M)

Í fyrirlestrum verður fjallað um myndun og hvörf enólatanjóna, þ.m.t. alkýlun ketóna og 1,3-díkarbónýlefna, C- og O-alkýlun, aldól-þéttingu og asýlun kolefna. Einnig verður farið yfir afkarboxýlun, myndun tvítengja og fjallað um málmlífræna efnafræði. Þá verður einnig fjallað um notkun litrófsaðferða í við greiningu á lífrænum efnasamböndum og fjallað um notkun gagnagrunna (Scifinder). Skila ber 75% af þeim verkefnum (heimadæmum) sem lögð verða fyrir svo próftökuréttur fáist.

X

Sjálfbær þróun, stefnumótun umhverfismála og stjórnun náttúruauðlinda (UAU101F)

Ýmsum aðferðum má beita til að hafa áhrif á lífsstíl fólks og hegðun til að draga úr óæskilegum áhrifum á umhverfið og stuðla að sjálfbærri þróun. Þetta námskeið fjallar um umhverfis og auðlindastjórnun sem hefur að markmiði sjálfbæra þróun. Námskeiðinu er skipt í þrjá hluta. Í þeim fyrsta er fjallað um sjálfbæra þróun og hugtakið skilgreint frá ýmsum sjónarhornum. Sérstaklega er rætt hvort hagvöxtur samrýmist sjálfbærri þróun, hvernig megi samræma hin mörgu markmið sem felast í sjálfbærri þróun, umhverfisvísar og framkvæmd markmiða sjálfbærrar þróunnar. Í öðrum hluta verður fjallað um aðferðir sem notaðar eru við ákvarðanatöku í umhverfis og auðlindastjórnun svo sem ákvarðanagreiningu, og kostnaðar-og ábatagreiningu sem og mat á virði nátturuauðs. Í síðasta hluta námskeiðsins verða ýmis stjórntæki sem notuð eru til umhverfis- og auðlindastjórnunar kynnt og krufin til mergjar í alþjóðlegu samhengi, bæði hvað varðar hugmyndafræðilegan grunn þeirra og þær aðferðir sem þau byggja á. Þau dæmi sem tekin eru breytast ár frá ári og byggja á áhuga þeirra nemenda sem taka námskeiðið hvert ár, svo sem kvótakerfi, skilagjöld, mengunarskattar og fjölmarkmiða stjórnun.

X

Inngangur að umhverfis- og auðlindafræði (UAU102F)

Hin öra fjölgun mannkynsins og umsvifin sem henni fylgja hafa á undanförnum áratugum haft gríðarleg og sívaxandi áhrif á náttúruauðlindir og umhverfi. Til þess að skilja þessi áhrif og og geta valið réttu leiðirnar til að takast á við þau, þarf að beita þverfræðilegum aðferðum, þar sem gripið er jöfnum höndum til náttúrufræði, félagsfræði, hagfræði,verkfræði og fleiri greina. Áður en nemendur læra um þverfræðilegar aðferðir til að nálgast aðsteðjandi vanda, þurfa þeir að átta sig á því í hverju vandinn er fólginn en það er einmitt markmið þessa námskeiðs. Fjallað verður um umhverfi og auðlindir almennt með áherslu á gildi þeirra fyrir mannkynið og helstu orsakir umhverfisvandamála og þýðingu þeirra bæði í íslensku og alþjóðlegu samhengi. Einkum verður farið yfir eftirtalda efnisflokka: Fólksfjölgun, tækni og hagvöxt. Líffræðilega fjölbreytni og útrýmingu tegunda. Jarðveg og jarðvegseyðingu. Landbúnað og umhverfisáhrif. Mengun og heilsu . Loftmengun, vatnsmengun og jarðvegsmengun. Helstu mengunarvalda í andrúmslofti og áhrif þeirra. Eyðingu ósonlagsins og loftslagsbreytingar. Sorp og spilliefni. Ferskvatnsauðlindir. Auðlindir sjávar. Auðlindir skóga og votlendis. Orkuauðlindir. Orkunýtingu og umhverfisáhrif.

X

Lýðheilsa: Vísindi, stjórnmál, forvarnir (LÝÐ101F)

Í námskeiðinu er farið yfir skilgreiningar, sögu, markmið, gildissvið, siðfræði og aðferðir lýðheilsuvísinda svo og íslensk- og alþjóðleg lög og sáttmála sem tengjast lýðheilsu. Nokkur áhersla er lögð á lýðheilsu og heilbrigðisvísa í alþjóðlegu samhengi en einnig á íslenska heilbrigðiskerfið, stjórnun og fjármögnun þess svo og samanburð við heilbrigðiskerfi annara þjóða. Ennfremur er farið yfir söfnun heilbrigðisupplýsinga á Íslandi sem á alþjóðavísu og nýtingu þeirra til rannsókna og stefnumótunar í heilbrigðismálum. Einnig er lögð áhersla á þau svið lýðheilsu sem eru á döfinni hverju sinni.

X

Aðferðafræði verkefnastjórnunar (VIÐ172F)

Markmið námskeiðsins er tvíþætt. Í fyrsta lagi að kynna fyrir nemendum helstu kenningar og aðferðir, sem þróaðar hafa verið á sviði verkefnastjórnunar. Takmarkið er, að nemendur öðlist góðan skilning á þætti verkefnavinnu og verkefnastjórnunar í rekstri fyrirtækja annars vegar, og hæfni til stjórnunar einstakra verkefna hins vegar. Nemendur kynnist þeim þáttum, sem stuðla að markvissri og skilvirkri verkefnastjórnun. Nemendur kynnist uppbyggingu áætlunar, framvindu og lúkningu í verkefnum. Nemendur kynnast jafnframt hugbúnaði og tækni sem nýta má við verkefnastjórnun. Nemendur fái kynningu á verkefnum í alþjóðlegu umhverfi og Agile hugmyndafræði.

Athugið, nemendur þurfa að stofna sér aðgang og kaupa bókina Project Management, The Managerial Proces á heimasíðu McGraw - Hill. Nánari upplýsingar má finna á Canvas síðu námskeiðsins.

X

Nýsköpunar- og frumkvöðlafræði (VIÐ186F)

Markmiðið með námskeiðinu er að veita nemendum yfirsýn um fræðasviðið nýsköpunar- og frumkvöðlafræði og undirbúa þá undir frekara nám, bæði fræðilegt og hagnýtt.

Farið verður í helstu kenningar og álitamál innan sviðsins, nýlegar fræðigreinar rýndar og kynnt verkfæri sem nota má til að greina helstu strauma og stefnur nýsköpunar í atvinnulífinu.

X

Inngangur að hagfræði fyrir meistaranema (HAG124F)

Markmið námskeiðsins er að kynna nemandum fyrir grundvallaratriðum nútíma hagfræði, bæði rekstrarhagfræði og þjóðhagfræði. Í rekstrarhagfræðihlutanum er fjallað um neytendur og eftirspurn á markaði, teygni eftirspurnar, fyrirtæki og mismunandi markaðsform, neytendaábata, framleiðandaábata og velferð. Í þjóðhagfræðihlutanum er fjallað um helstu hugtök í efnahagsumræðu eins og hagvöxt, verðbólgu og atvinnuleysi. Fjallað er um lögmál efnahagslífsins og helstu grundvallarkenningar þjóðhagfræðinnar um þróun hagstærða til skamms og langs tíma.

X

Meistaraverkefni í lyfjafræði (LYF301L)

Lokaverkefni til MS prófs í lyfjafræði er einstaklingsverkefni sem nemandi vinnur sjálfstætt undir leiðsögn leiðbeinanda. Nemendur skila inn ritgerð og kynna verkefni sitt.

Fyrri hluti meistaraverkefnisins er 10 ects.að hausti og 30 ects. að vori.  

Öll fög eru skyldufög nemaVValfagBBundið val er háð skilyrðum ENámskeiðið er ekki kennt á misserinuNámsleiðin í Kennsluskrá

Hvað segja nemendur?

Sigríður Ásta Guðmundsdóttir
Þorsteinn Gíslason
Guðjón Trausti Skúlason
Agnar Þór Hilmarsson
Sigríður Ásta Guðmundsdóttir
Sérfræðingur í þróun lyfjaforma hjá OCULIS

Atvinnumöguleikarnir eru miklir og fjölbreyttir eftir námið. Námið sjálft er líka skemmtilegt sem skiptir miklu máli og það skapast góð stemmning milli nemenda. Helstu verkefni mín hjá Oculis er að þróa ný augnlyf við hinum ýmsu sjúkdómum. Við erum að þróa augndropa sem koma í stað þess að þurfa að stinga með nál í gegnum augað. Þannig að við komum lyfinu inn í augað án þess að þurfa að stinga í það.

Magdalena Margrét Jóhannsdóttir
Lyfjafræði - MS nám

Gott nám byggir ekki eingöngu góðan grunn hjá nemendum á faginu heldur undirbýr þá til þess að takast á við raunveruleg verkefni á almennum vinnumarkaði eftir útskrift. Á þetta sérstaklega vel við um svo lifandi fræðigrein og lyfjafræðin er, en hún er sífellt að þróast og breytast. Að mínu mati tókst Lyfjafræðideild Háskóla Íslands mjög vel til í þessum efnum og get ég því svo sannarlega mælt með henni.

Þorsteinn Gíslason
Lyfjafræði - MS nám

Ég mæli alveg hiklaust með námi í lyfjafræði. Til að byrja með er náttúrulega félagslífið alveg einstaklega frábært. Mikið að gera allt árið um kring. Námið sjálft er náttúrulega tvískipt, þú færð að kynnast verklegri kennslu þannig að þú ert ekki bara að læra á bókina.

Guðjón Trausti Skúlason
Lyfjafræðingur hjá ÍSLANDSAPÓTEKI

Þetta er frábært nám, mikið bóklegt en alltaf verklegt á móti. Þannig að þú færð að vinna með alla þá þekkingu sem þú aflar þér, hvort sem er á rannsóknarstofu eða klínísk tilfelli á spítalanum. Þannig að þetta er mjög heildstætt nám sem menntar þig vel. Þegar ég útskrifaðist var nánast allur árgangurinn þegar byrjaður að vinna einhversstaðar í lyfjageiranum.

Agnar Þór Hilmarsson
Forstöðumaður gæðaeftirlits hjá ALVOTECH

Ég mæli eindregið með námi við Lyfjafræðideild HÍ. Það er bæði fjölbreytt og opnar á marga spennandi möguleika á vinnumarkaði. Námið er vissulega krefjandi en að sama skapi mjög skemmtilegt. Þegar ég var að klára námið, þá var ris Alvotech að hefjast og ég hafði alltaf viljað fara í lyfjaiðnaðinn og þar af leiðandi endaði ég þar, en það voru margir aðrir möguleikar í boði.

Hafðu samband

Skrifstofa Lyfjafræðideildar
Haga, Hofsvallagötu 53, 3. hæð
Sími 525 4353
Netfang: lyf@hi.is

Opið virka daga kl. 10-12 og 13-15

Hagi - bygging Háskóla Íslands

Hjálplegt efni

Ertu með fleiri spurningar? Hér finnurðu svör við ýmsum þeirra og upplýsingar um ýmislegt annað sem gott er að hafa í huga þegar þú velur nám.