Skip to main content

Lögfræði

Lögfræði

Félagsvísindasvið

Lögfræði

BA gráða – 180 einingar

Með lögum skal land byggja.

Nám í lögfræði við Háskóla Íslands er allt í senn spennandi, skemmtilegt og gagnlegt en Lagadeild HÍ leggur áherslu á að miðla fræðunum eftir bestu leiðum sem þekkjast í nútíma kennsluaðferðum í lögfræði. Máttur virkrar samræðu milli kennara og nemenda er nýttur til hins ýtrasta í því samhengi og í kennslunni og námsmati er lögð áhersla á raunhæf dæmi.

Skipulag náms

X

Inngangur að lögfræði (LÖG101G)

Viðfangsefni námskeiðsins er stutt yfirlit yfir meginreglur og hugtök helstu sviða hins íslenska réttarkerfis, þ.e stjórnskipunarréttar, stjórnsýsluréttar, réttarfars, samninga- og kröfuréttar, skaðabótaréttar og refsiréttar. Tilgangur námskeiðsins er að veita nemendum innsýn í gildandi rétt áður en hafist er handa við að fjalla um hina lagalegu aðferð og grunnhugtök lögfræðinnar í "Almennri lögfræði". Námskeiðið er kennt á fyrstu 3-4 vikum haustmisseris og skal próf haldið í síðustu viku september og sjúkra og upptökupróf í lok verkefnaviku í október.

X

Almenn lögfræði ásamt ágripi af réttarsögu (LÖG103G)

Í námskeiðinu er fjallað ítarlega um hina lagalegu aðferð, ýmis grunnhugtök lögfræðinnar sem henni tengjast og nemendum kynnt valin efni um sögulega þróun íslensks réttar. Meginefni námskeiðsins er tvískipt: Í fyrri hluta, réttarheimildafræði, er fjallað um réttarheimildirnar, rétthæð þeirra og innbyrðis samband og nemendum kynnt valdir þættir í réttarsögu Íslands. Einnig er fjallað um réttarkerfið, birtingu laga, skil eldri laga og yngri og afturvirkni laga. Í síðari hluta námskeiðsins, lögskýringarfræði, er fjallað um kenningar og hugmyndir um túlkun lagaákvæða og farið ítarlega yfir þær lögskýringaraðferðir sem eru almennt viðurkenndar í íslenskri réttarframkvæmd. Námskeiðinu ætlað að gefa heildstæða mynd af því hvernig komist er að lagalegri niðurstöðu að íslenskum rétti. Sjúkra- og upptökupróf eru eingöngu haldin á vorpróftímabili en ekki á sumarpróftímabili.

X

Heimspekileg forspjallsvísindi (LÖG108G)

Markmið heimspekilegra forspjallsvísinda í Lagadeild er að veita nemendum innsýn inn í grundvöll vísinda og fræða með sérstakri áherslu á siðfræði og lögfræði. Í fyrri hluta námskeiðsins er fjallað almennt um grundvöll vísindalegrar aðferðar og megineinkenni vísinda, en því næst er gerð grein fyrir helstu kenningum á sviði siðfræði. Lögð er áhersla á þau atriði siðfræðinnar sem tengjast stöðu og þroska einstaklingsins í samfélagi manna. Í síðari hluta námskeiðsins er athyglinni beint að stöðu lögfræðinnar sem fræðigreinar og lagahugtakinu eða spurningunni "hvað eru lög?". Fjallað er um þau vandamál sem við er að eiga við afmörkun lagahugtaksins og helstu kenningar sem settar hafa verið fram um þetta efni. Í tengslum við þessar kenningar er einnig rætt um sígild efni réttarheimspeki, eins og tengsl laga og siðferðis, eðli lagalegra fullyrðinga, meðal annars með tilliti til spurningarinnar um einu réttu lagalegu niðurstöðu. Þá verður fjallað um valin efni á sviði stjórnspeki.

X

Stjórnskipunarréttur ásamt ágripi af þjóðarétti (LÖG201G)

Meginmarkmið námskeiðsins er að nemendur öðlist góða grunnþekkingu á stjórnskipun Íslands, kunni skil á megineinkennum hennar og helstu ákvæðum stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944 svo og helstu undirstöðuatriðum þjóðaréttarins. Nemendur verði færir um að leysa úr lögfræðilegum álitaefnum þar sem reynir á stjórnarskrána, með sérstakri áherslu á mannréttindaákvæði hennar og áhrif þjóðréttarsamninga í íslenskum rétti.

X

Fjölskyldu- og erfðaréttur (LÖG203G)

Markmið námskeiðsins er að nemendur öðlist góða þekkingu á helstu þáttum íslensks fjölskyldu- og erfðaréttar og verði færir um að leysa úr lögfræðilegum álitaefnum á því sviði. Farið verður yfir stöðu fjölskyldu- og erfðaréttar og tengsl þessara greina við aðrar greinar lögfræðinnar. Þeir efnisflokkar sem fjallað er um í námskeiðinu eru stofnun og slit hjúskapar og réttindi og skyldur hjóna, svo og staða þeirra sem stofnað hafa til staðfestrar samvistar. Sérstök áhersla er lögð á lagareglur um fjármál hjóna og fjárhagslegt uppgjör við slit hjúskapar og staðfestrar samvistar. Þá er fjallað um óvígða sambúð og lögð áhersla á reglur um fjármál sambúðarfólks. Fjallað er um réttarstöðu barna og lögð áhersla á faðerni, forsjá, búsetu, umgengni og framfærslu barns. Einnig verður fjallað um barnavernd, hlutverk barnaverndaryfirvalda og málsmeðferð barnaverndarmála. Þá er farið yfir meginreglur erfðaréttar, gerð grein fyrir lögerfðum, setu í óskiptu búi og bréferfðum sem og skiptum dánarbúa að nokkru leyti. Kennsla er í formi fyrirlestra og umræðutíma. Gert er ráð fyrir að nemendur taki fjarpróf sem gildir 20% af einkunn og skriflegt lokapróf sem gildir 80% af einkunn.

X

Evrópuréttur (LÖG206G)

Námskeiðið miðar að því að nemendur öðlist skýra innsýn í helstu meginatriði varðandi Evrópurétt (þ.e. ESB- og EES-rétt).  Útskýrð eru réttarkerfi Evrópusambandsins (ESB) og Evrópska efnahagssvæðisins (EES) með áherslu á aðild Íslands að EES-samningnum sem og á samskipti Íslands við ESB. Fjallað verður um sögu og uppbyggingu helstu stofnana ESB og EFTA (í tengslum við EES) og um helstu réttarheimildir ESB- og EES-réttar. Lögð er áhersla á að útskýra eðli ESB- og EES-réttar, helstu hugtök og grunnreglur ESB- og EES- réttar, sem og hvernig þeim er beitt í framkvæmd og áhrifin á landsrétt aðildarríkja. Enn fremur er leitast við að greina ýmis valin álitaefni sem helst eru í umræðunni hverju sinni í tengslum við Evrópusamvinnu, m.a. í hagnýtri verkefnavinnu.

X

Bótaréttur I (LÖG304G)

Í námskeiðinu er fjallað um meginatriði skaðabótaréttar, þ.e. þær reglur sem gilda um skaðabætur utan samninga. Í upphafi er fjallað um skaðabótarétt sem fræðigrein, muninn á skaðabótum utan og innan samninga og markmið og hlutverk skaðabótareglna. Næst er fjallað um svonefnd frumskilyrði skaðabótaábyrgðar en síðan um þær reglur sem gilda um bótagrundvöllinn, þ.e. sakarregluna, reglur um hlutlæga ábyrgð, regluna um vinnuveitandaábyrgð og sakarlíkindaregluna. Þá verður fjallað um mörk og takmarkanir skaðabótaábyrgðar og að endingu um tjónið og fjárhæð skaðabóta.

Meginmarkmið námskeiðsins er að nemandi geti, að námskeiði loknu, beitt viðurkenndri lögfræðilegri aðferð til að greina lögfræðileg álitaefni á sviði skaðabótaréttar og leyst úr þeim álitaefnum á ábyrgan hátt á grundvelli viðurkenndrar lagalegrar aðferðar. Nemandi sem lokið hefur námskeiðinu skal einnig hafa burði til að takast á við viðfangsefni á sviði skaðabótaréttar í frekara námi eða í störfum á fræðilegum vettvangi.

X

Samningaréttur (LÖG303G)

Samningaréttur er námskeið sem kennt er á haustmisseri annars árs í BA námi í Lagadeild. Í námskeiðinu er fjallað ítarlega um réttarreglur sem gilda um samninga. Lýst er almennum reglum um stofnun samninga, umboð, ógilda löggerninga o.fl. Megin áherslan verður á umfjöllun um lög nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga og þau fordæmi sem fyrir liggja og hafa þýðingu við skýringu á ákvæðum laganna. Þá verður fjallað um dóma og raunhæf álitaefni eftir því sem við á. Samningaréttur er eitt af grundvallarfögum lögfræðinnar og nauðsynlegur grunnur fyrir flest svið hennar. Lögð eru verkefni fyrir nemendur til úrlausnar og er sérstaklega farið yfir þau verkefni í umræðu- og verkefnatímum, sem á að þjálfa nemendur í að beita reglum samningaréttar við úrlausn raunhæfra álitaefna. Námskeiðinu er ætlað að gefa heildstæða mynd af því hvernig komist er að lagalegri niðurstöðu að íslenskum samningarétti. Skriflegt próf fer fram í desember.  

Meginmarkmið námskeiðsins er að nemendur öðlist góða grunnþekkingu á helstu þáttum samningaréttar sem er ein undirgreina fjármunaréttar. Nemandinn á að vera fær um að skilja og greina lögfræðileg álitaefni tengd stofnun samninga, umboðum og reglum um ógildingu samninga, m.a. á grundvelli þeirra almennu reglna sem gilda um samningarétt.

X

Stjórnsýsluréttur I (LÖG306G)

Í Stjórnsýslurétti I er fjallað um (i) innra skipulagi opinberrar stjórnsýslu (framkvæmdarvaldsins) og réttarreglur um það, (ii) helstu verkefni stjórnvalda, (iii) helstu stjórntæki þeirra, (iv) grunnregluna um að stjórnsýslan sé lögbundin og (v) stjórnsýslulögin nr. 37/1993 og áhrifum þeirra þegar stjórnvöld á fyrsta stjórnsýslustigi taka til meðferðar einstök mál þar sem ætlunin er, eða til greina kemur, að taka stjórnvaldsákvörðun. Aðaláhersla námskeiðsins er á hið síðastnefnda. Markmið námskeiðsins er að nemendur öðlist þekkingu á réttarreglunum sem gilda um nefnda þætti og jafnframt að þeir geti beitt viðurkenndri lagalegri aðferð til úrlausnar á raunhæfum lögfræðilegum álitamálum sem varða uppbyggingu og skipulag stjórnsýslukerfisins annars vegar og hefðbundna meðferð stjórnsýslumála hins vegar. Öll prófverkefni í námskeiðinu eru raunhæf verkefni.

X

Eignaréttur I (LÖG305G)

Í námskeiðinu er fjallað um almenn atriði eignaréttar. Í upphafi er fjallað um eignarétt sem fræðigrein, þ. á m. viðfangsefni eignaréttar, stöðu hans í fræðikerfi lögfræðinnar, fjármunaréttindi, skiptingu fjármunaréttar í eignarétt og kröfurétt, ásamt eignarrétti og íslensku forráðasvæði. Þá er fjallað um eignarráð og takmarkanir þeirra, beinan eignarrétt og óbein eignarréttindi og andlag eignarréttar. Loks verður fjallað í ágripsformi um hugverka- og auðkennarétt.

 Meginmarkmið námskeiðsins er að nemandi geti, að námskeiði loknu, beitt viðurkenndri lögfræðilegri aðferð til að greina álitaefni á sviði eignaréttar og leyst úr þeim álitaefnum á ábyrgan hátt á grundvelli viðurkenndrar lagalegrar aðferðar. Nemandi sem lokið hefur námskeiðinu skal einnig hafa burði til að takast á við viðfangsefni á sviði eignaréttar í frekara námi eða í störfum á fræðilegum vettvangi. 

X

Eignaréttur II (LÖG404G)

Í framhaldi af námskeiðinu LÖG305G Eignaréttur I er í þessu námskeiði fjallað um meginatriði eignaréttar, þ.e. grundvallaratriði fræðigreinarinnar ásamt þeim reglum sem gilda um eignarréttindi á íslensku forráðasvæði. Í upphafi er fjallað um eignarráð og takmarkanir þeirra, beinan eignarrétt og óbein eignarréttindi, andlag eignarréttar, eignaraðild og eignarform. Næst er fjallað um stofnunarhætti eignarréttarinda. Þá er fjallað um eignarnám.

Meginmarkmið námskeiðsins er að nemandi geti, að námskeiði loknu, beitt viðurkenndri lögfræðilegri aðferð til að greina lögfræðileg álitaefni á sviði eignaréttar og leyst úr þeim álitaefnum á ábyrgan hátt á grundvelli viðurkenndrar lagalegrar aðferðar. Nemandi sem lokið hefur námskeiðinu skal einnig hafa burði til að takast á við viðfangsefni á sviði eignaréttar í frekara námi eða í störfum á fræðilegum vettvangi.

X

Stjórnsýsluréttur II (LÖG405G)

Viðfangsefni námskeiðsins eru í grundvallaratriðum fimm. Sum þeirra eru framhald eða dýpkun á umfjöllunarefnum í Stjórnsýslurétti I. Í fyrsta lagi verður fjallað um réttarheimildir stjórnsýsluréttarins, uppbyggingu stjórnsýslukerfisins og valdmörk stjórnvalda (valdbærni). Umfjöllun um þetta viðfangsefni er einnig að hluta í Stjórnsýslurétti I. Í öðru lagi verður fjallað um almennar efnisreglur stjórnsýsluréttarins, s.s. jafnræðisregluna, réttmætisregluna, meðalhófsregluna og regluna um bann við misbeitingu valds við val á leiðum til úrlausnar máls. Reglurnar eru settar í samhengi við hina almennu lögmætisreglu stjórnsýsluréttar. Í þriðja lagi er fjallað um breytingu og leiðréttingu á stjórnvaldsákvörðunum, endurupptöku máls, afturköllun, stjórnsýslukæru, frumkvæðiseftirlit, eftirlit umboðsmanns Alþingis svo og dómstólaeftirlit. Í fjórða lagi er fjallað um réttaráhrif annmarka á stjórnvaldsákvörðunum, s.s. ógildingu ákvarðana, stjórnsýsluviðurlög og refsiviðurlög opinberra starfsmanna. Og loks, í fimmta lagi, verður fjallað um upplýsingarétt, þ.e. rétt almennings til aðgangs að gögnum hjá stjórnvöldum samkvæmt upplýsingalögum og öðrum lagareglum. Þrátt fyrir rík tengsl á milli Stjórnsýsluréttar I og Stjórnsýsluréttar II, þá er Stjórnsýsluréttur I ekki nauðsynleg forkrafa til þátttöku í námskeiðinu.

X

Bótaréttur II (LÖG403G)

Í námskeiðinu er fjallað um meginatriði vátryggingaréttar (hins almenna hluta) og bótareglna félagsmálaréttar. Meðal annars verður fjallað um þær reglur sem gilda um gerð og túlkun vátryggingarsamninga, helstu skyldur vátryggjanda og vátryggingartaka/vátryggða, helstu tegundir vátrygginga og skilyrði þeirra fyrir greiðslu. Þá verður einnig m.a. fjallað um bótareglur almannatrygginga (þ.e. slysatrygginga, og sjúkratrygginga að því leyti sem sjúkdómur getur talist skaðabótaskyldur) og þær reglur sem gilda um rétt til greiðslu örorkulífeyris úr lífeyrissjóðum.

Meginmarkmið námskeiðsins er að nemandi geti, að námskeiði loknu, beitt viðurkenndri lögfræðilegri aðferð til að greina lögfræðileg álitaefni á sviði vátryggingaréttar og bótakerfis félagsmálaréttar og leyst úr þeim álitaefnum á ábyrgan hátt á grundvelli viðurkenndrar lagalegrar aðferðar. Nemandi sem lokið hefur námskeiðinu skal einnig hafa burði til að takast á við viðfangsefni á framangreindum sviðum í frekara námi eða í störfum á fræðilegum vettvangi.

X

Refsiréttur I (LÖG502G)

Réttarreglur um afbrot og skilyrði refsiábyrgðar: Hugtakið afbrot og rýmkað brotahugtak, flokkun afbrota, tilraun til afbrota og afturhvarf, hlutdeild og samverknaður, sakhæfi. Réttarreglur um viðurlög við afbrotum: Yfirlit um viðurlagakerfið, hugtakið refsing, réttlæting refsingar og markmið, fangelsi sem refsitegund, öryggisgæsla og skyld úrræði, ákvörðun refsingar, ítrekun og brotasamsteypa, lok refsiábyrgðar og brottfall viðurlaga (yfirlit).

Að námskeiðinu loknu eiga stúdentar að hafa öðlast grundvallarþekkingu á réttarreglunum um afbrot og refsingar og önnur viðurlög við brotum og geta notað þær til að leysa úr refsiréttarlegum álitaefnum.

X

Réttarfar I (LÖG503G)

Í námskeiðinu er fjallað ítarlega um réttarreglur um dómstólaskipan og meðferð einkamála. Lýst er einkenni á réttarfari sem fræðigrein og undirgreinum réttarfars og skipan dómstóla, einkum hinna almennu dómstóla, sem og reglum um dómara. Þá er gerð ítarleg grein fyrir meginreglum einka­málaréttarfars, m.a. að teknu tilliti fyrirmæla alþjóðlegra mannréttindasáttmála, sér í lagi Mannréttinda­sáttmála Evrópu.  Ennfremur er gerð grein fyrir reglum um eftirgreind efnisatriði: Aðild að einkamálum, fyrirsvar fyrir þá aðila sem ekki eru málflutningshæfir, málsóknar- og málflutnings­umboðum,  sakarefni, þ. á m. hvaða úrlausnarefni lúta úrskurðarvaldi  dómstóla og hvaða úrlausnarefni eru undanþegin því, varnarþing og lögsögu íslenskra dómstóla til að leysa úr málum, efni stefnu og birtingu hennar, meðferð einkamála fyrir dómi, þ.m.t. sönnunar­gögnum og sönnunarfærslu, og dóma og aðrar dómsúrlausnir. Kennslan er að stórum hluta byggð á nýlegum dómum Hæstaréttar og úrlausnum annarra dómstóla, eftir því sem við á. Fer kennslan fram í fyrirlestrum, en samhliða er rætt um einstök atriði og leyst úr tilbúnum raunhæfum verkefnum, þar sem reynir á þær reglur sem fjallað er um á námskeiðinu,  í sérstökum  umræðu- og verkefnatímum. Þá munu nemendur taka þátt í sviðsettum réttarhöldum þar sem þeir skila inn stefnu og greinargerð auk þess að flytja málið fyrir dómurum. Í heild er námskeiðinu ætlað að gefa heildstæða mynd af íslenskri dómstólaskipan og meðferð einkamála fyrir dómstólunum. Námskeiðinu lýkur með skriflegu prófi sem fer fram í desember. Námsmat er í tvennu lagi, annars vegar vegur einkunn fyrir sviðsettu réttarhöldin 20% af lokaeinkunn og hins vegar vegur skriflega lokaprófið 80% af lokaeinkunn. 

X

Kröfuréttur I (LÖG504G)

Kröfuréttur I er námskeið sem kennt er á haustmisseri þriðja árs í BA námi í Lagadeild. Í námskeiðinu er fjallað ítarlega um réttarreglur sem gilda um kröfuréttindi. Lýst er helstu hugtökum kröfuréttar. Megináherslan verður á réttarreglur sem lúta að stofnun, inntaki og lögvernd kröfuréttinda og þau fordæmi sem fyrir liggja og þýðingu hafa við skýringu á þessum reglum. Þá verður fjallað um áhættuskiptareglur kröfuréttar, efndir kröfu, greiðsludrátt, galla og vanheimild. Loks verður fjallað um vexti, réttarreglur um aðilaskipti að kröfuréttindum og viðskiptabréf. Kröfuréttur er eitt af grundvallarfögum lögfræðinnar og nauðsynlegur grunnur fyrir flest svið hennar. Lögð eru fyrir nemendur verkefni til úrlausnar og er sérstaklega farið yfir þau verkefni í umræðu- og verkefnatímum sem á að þjálfa nemendur í að beita reglum kröfuréttar við úrlausn raunhæfra álitaefna. Námskeiðinu er ætlað að gefa heildstæða mynd af því hvernig komist er að lagalegri niðurstöðu að íslenskum kröfurétti. Skriflegt próf fer fram í desember. 

Meginmarkmið námskeiðsins er að nemendur öðlist góða grunnþekkingu á helstu þáttum kröfuréttar sem er ein undirgreina fjármunaréttar. Nemendur eiga að vera færir um að skilja og greina lögfræðileg álitaefni tengd stofnun, inntaki og lögvernd kröfuréttinda, m.a. á grundvelli þeirra almennu reglna sem gilda um kröfurétt.

X

Kröfuréttur II (LÖG603G)

Kröfuréttur II er námskeið sem kennt er á vormisseri þriðja árs í BA námi í Lagadeild. Í námskeiðinu er fjallað ítarlega um réttarreglur sem gilda um kröfuréttindi. Megináherslan verður á réttarreglur réttarreglur er varða vanefndir og lok kröfuréttinda og þau fordæmi sem fyrir liggja og þýðingu hafa við skýringu á þessum reglum. Þá verður fjallað um réttaráhrif vanefnda, m.a. efndir in natura, riftun, hald á eigin greiðslu, afslátt, skaðabætur og samningsbundin vanefndaúrræði. Þá er fjallað um viðtökudrátt og réttarreglur um greiðslu kröfu, fyrningu og skuldajöfnuð. Kröfuréttur er eitt af grundvallarfögum lögfræðinnar og nauðsynlegur grunnur fyrir flest svið hennar. Lögð eru fyrir nemendur verkefni til úrlausnar og er sérstaklega farið yfir þau verkefni í umræðu- og verkefnatímum, sem á að þjálfa nemendur í að beita reglum kröfuréttar við úrlausn raunhæfra álitaefna. Námskeiðinu er ætlað að gefa heildstæða mynd af því hvernig komist er að lagalegri niðurstöðu að íslenskum kröfurétti. Skriflegt próf fer fram í desember.  

Meginmarkmið námskeiðsins er að nemendur öðlist góða grunnþekkingu á helstu þáttum kröfuréttar sem er ein undirgreina fjármunaréttar. Nemendur eiga að vera færir um að skilja og greina lögfræðileg álitaefni tengd er varða vanefndir og lok kröfuréttinda, m.a. á grundvelli þeirra almennu reglna sem gilda um kröfurétt.

X

Refsiréttur II (LÖG604G)

Réttarreglur um skilyrði refsiábyrgðar: Refsiheimildir og refsinæmi verknaðar, skýring refsilaga, ólögmæti verknaðar og hlutrænar refsileysisástæður, grundvallarreglan um saknæmi og afbrigðileg refsiábyrgð, ásetningur og staðreyndavilla, hvatir og þokukenndur ásetningur, gáleysi.

Að námskeiðinu loknu eiga stúdentar að kunna skil á reglunum um ofangreind efnisatriði og geta notað þær til að leysa úr refsiréttarlegum álitaefnum.

Að loknu námi í refsirétti I og II eiga stúdentar að hafa öðlast þekkingu og þjálfun til að inna af hendi hefðbundin störf lögfræðinga að opinberum málum (sem ákærendur, verjendur og dómarar), fást við refsiréttarleg málefni á sviði stjórnsýslu (t.d. fangelsismál) og vera undirbúnir fyrir frekara vísindalegt nám í kjörgreinum sem boðið er upp á í áherslusviði um refsirétt í meistaranámi í Lagadeild.

X

Réttarfar II (LÖG605G)

Í námskeiðinu er fjallað ítarlega um réttarreglur um meðferð sakamála. Farið er yfir ýmis almenn atriði, sem lúta að sakamálaréttarfari og greina það frá einkamálaréttarfari, auk þess sem lýst er skipan dómstóla hér á landi þegar leyst er úr sakamálum og hún borin stuttlega saman við dómstólaskipan erlendis, einkum þar sem kviðdómar tíðkast. Þá er gerð ítarleg grein fyrir meginreglum sakamála­réttarfars, m.a. að teknu tilliti fyrirmæla alþjóðlegra mannréttindasáttmála, sér í lagi Mannréttinda­sáttmála Evrópu. Ennfremur er gerð grein fyrir reglum um eftirgreind efnisatriði: Ákæruvaldið, sakborning (ákærða) og verjanda hans, brotaþola og réttargæslumann hans, rannsókn, þ.m.t. þvingunarráðstafanir í þágu rannsóknar, ákvörðun um saksókn og loks meðferð sakamála fyrir dómi, þ.m.t. sönnunar­gögnum og sönnunarfærslu. Kennslan er að stórum hluta byggð á nýlegum dómum Hæstaréttar og úrlausnum annarra dómstóla, eftir því sem við á. Fer kennslan fram í fyrirlestrum, en samhliða er rætt um einstök atriði og leyst úr tilbúnum raunhæfum verkefnum, þar sem reynir á þær reglur sem fjallað er um á námskeiðinu,  í sérstökum  umræðu- og verkefnatímum. Þá munu nemendur taka þátt í sviðsettum réttarhöldum þar sem þeir skila inn ákæruskjali og greinargerð auk þess að flytja málið fyrir dómurum. Í heild er námskeiðinu ætlað að gefa heildstæða mynd af rannsókn sakamála og meðferð þeirra fyrir dómstólunum. Skriflegt próf fer fram í apríl/maí. Námsmat er í tvennu lagi, annars vegar vegur einkunn fyrir sviðsettu réttarhöldin 20% af lokaeinkunn og hins vegar vegur skriflega lokaprófið 80% af lokaeinkunn.

X

BA-ritgerð í lögfræði (LÖG261L, LÖG261L, LÖG261L)

Lokaritgerð í lögfræði - allar nánari upplýsingar um ritgerðina

X

BA-ritgerð í lögfræði (LÖG261L, LÖG261L, LÖG261L)

Lokaritgerð í lögfræði - allar nánari upplýsingar um ritgerðina

X

BA-ritgerð í lögfræði (LÖG261L, LÖG261L, LÖG261L)

Lokaritgerð í lögfræði - allar nánari upplýsingar um ritgerðina

Öll fög eru skyldufög nemaVValfagBBundið val er háð skilyrðum ENámskeiðið er ekki kennt á misserinuNámsleiðin í Kennsluskrá

Hvað segja nemendur?

María Rún Bjarnadóttir
Ivana Anna Nikolic
Diljá Mist Einarsdóttir
Elvar Austri Þorsteinsson
María Rún Bjarnadóttir
Lögfræðingur og doktorsnemi við Háskólann Í Sussex

Ég átti frábæran tíma í Lagadeild Háskóla Íslands þar sem ég  eignaðist félaga og vini fyrir lífstíð. Það sem stendur upp úr frá árunum þar er að hafa fengið að vera í fyrirsvari fyrir Orator, félag laganema og að taka þátt í Norrænu málflutningskeppninni. Námið var að mörgu leyti gagnlegt og skemmtilegt. Úrval námskeiða í meistaranáminu hentaði mér vel og ég bý enn að góðum grunni í almennri lögfræði og stjórnskipunarrétti úr B.A. náminu. Umhverfið var hvetjandi og vinalegt – svo vinalegt að meira að segja Sigga úr kaffiteríunni er vinur minn á facebook næstum 10 árum eftir útskrift. Ég mæli hiklaust með því að allir sem hafa áhuga á samfélags- og þjóðmálum afli sér lagamenntunar, enda er lögfræði frábær grundvöllur fyrir störf á hinum ýmsu sviðum – fyrir utan hvað hún er skemmtileg!

Ivana Anna Nikolic
laganemi

Námið við Lagadeild Háskóla Íslands er mjög krefjandi og krefst mikils metnaðar og dugnaðar. Leiðin að góðum einkunnum og góðum skilningi á efninu felst að mínu mati fyrst og fremst í því að hafa áhuga á því sem maður er að læra, tileinka sér efnið vel og vera duglegur að sinna náminu yfir önnina. Við deildina eru gerðar miklar kröfur til nemenda sem skilar sér að mínu mati í góðum lögfræðingum út í atvinnulífið. Ég tel mig afskaplega vel undirbúna fyrir framtíðina sem lögfræðingur eftir nám mitt við Lagadeild Háskóla Íslands.

Kamilla Kjerúlf
laganemi

Námið í Lagadeild Háskóla Íslands er mjög góður undirbúningur fyrir að starfa sem lögfræðingur. Kennararnir eru sérfræðingar á sínu sviði og góðir í að miðla vitneskju sinni til nemenda og vekja áhuga þeirra á námsefninu. Þetta er krefjandi nám en samt sem áður mjög skemmtilegt og áhugavert. Námið í lagadeildinni hefur reynst mér afar vel og leitt af sér ýmis spennandi tækifæri fyrir mig. Það sem stendur upp úr er sumarnám við Stanford háskóla í Bandaríkjunum, þáttaka í málflutningskeppnum og félags- og nefndarstörf sem ég hef unnið fyrir Lagadeildina og Orator félag laganema. Þá hef ég einnig eignast frábæra vini og myndað gott tengslanet fyrir framtíðina.

Diljá Mist Einarsdóttir
Meistaranemi í LL.M í auðlindarétti og alþjóðlegum umhverfisrétti

I chose the LL.M. program at the University of Iceland to expand my knowledge in this specialized area. It was then a pleasant surprise to find out that a large part of the program was useful basic European law. In addition to exciting subjects, the program offers ambitious teaching and highly motivated professors. I was therefore very pleased with my choice and feel I have expanded my horizons greatly.

Elvar Austri Þorsteinsson
laganemi

Ég hef alla tíð haft áhuga á samfélaginu og regluverki þess, sem og mannlegum samskiptum. Í mínum augum eru lög og reglur tæki manna sem ætlað er að láta samfélagið okkar ganga upp. Mér þótti virkilega spennandi að kanna þessi tæki og fá tækifæri til að vinna með þau, þekkja þau og beita þeim dags daglega. Ótalmargir árekstrar eiga sér stað í samfélaginu á degi hverjum og kemur lögfræðin þar inn. Leitast hún meðal annars við að leysa úr flækjum og álitamálum og er í stöðugri þróun til að takast á við ört þróandi og flóknara samfélag. Ég taldi lögfræðina þannig alltaf koma til með að skapa tækifæri fyrir metnaðarfulla einstaklinga sem eru tilbúnir til að takast á við áskoranir. Þess vegna lét ég verða af því að skrá mig í laganámið.

Hafðu samband

Nemenda- og kennsluþjónusta Félagsvísindasviðs er á
Þjónustutorgi í Gimli
s. 525 4500 
Netfang: nemFVS@hi.is

Opið virka daga frá 09:00 - 15:00 
Gimli - Sæmundargötu 10, 102 Reykjavík

Bóka viðtal við nemenda- og kennsluþjónustu Félagsvísindasviðs

Lagadeild á samfélagsmiðlum

 Instagram   Facebook

""

Hjálplegt efni

Ertu með fleiri spurningar? Hér finnurðu svör við ýmsum þeirra og upplýsingar um ýmislegt annað sem gott er að hafa í huga þegar þú velur nám.