Jarðfræði
Jarðfræði
BS gráða – 180 einingar
Þekking á jarðvísindum gegnir æ mikilvægari hlutverki í nútímaþjóðfélagi. Jarðvísindin fást m.a. við að auka skilning á loftslagsbreytingum, náttúruvá og umhverfisbreytingum.
Jarðvísindafólk beitir þekkingu sinni til að leysa hagnýt verkefni, svo sem neysluvatnsleit, nýtingu jarðhita, orkuöflun, undirbúning mannvirkjagerðar, leit að byggingarefnum, málmleit og eftirlit með umbrotum í jarðskorpunni.
Skipulag náms
- Haust
- Innri öfl jarðar
- Eðlisfræði B
- Almenn efnafræði 1
- Verkleg efnafræði 1a
- Stærðfræðigreining IB
- Stærðfræði NB
- Vinnustofa fyrir nýnema í jarðvísindumV
- Vor
- Ytri öfl jarðar
- Steindafræði
- Tölfræði og gagnavinnsla
- Almenn jarðeðlisfræði
Innri öfl jarðar (JAR101G)
Meginmarkmið námskeiðsins er að kynna nemendum kenningar varðandi myndun alheimsins, þróun hans og stöðu, tilurð sólkerfisins og jarðarinnar. Áhersla er á framvindu jarðfræðilegra ferla í tíma og rúmi. Myndun, rek og eyðingu meginlanda. Leitast er við að efla skiling nemenda á ferlum innrænnra afla og að þeir geti tjáð sig um þessi jarðfræðilegu ferli með hugtökum jarðfræðinnar, bæði á íslensku og ensku.
Helstu umfjöllunarefni námskeiðsins eru: Grunnnatriði í kenningu um uppruna alheimsins, vetrarbrauta, sólkerfa allt til þess tíma þegar sólkerfi okkar og jörðin mynduðust. Megindrættir innri gerðar jarðarinnar þar sem áhersla er lögð á lagskiptingu hennar og eiginleika hinna einstöku laga. Fjallað er um fyrstu tilgátur um landrek og þróun þeirra sem líkur með því að plötukenningin kemur fram og áhersla lögð á að skýra hvers vegna og hvernig innbyrðis afstaða platnanna og þar með meginlandanna er sífellt að breytast. Farið er yfir meginatriði í gerð steinda, berggerða og myndbreytingar. Eldvirkni er gerð skil, orsakir hennar,útbreiðslu og hættur með sérstöku tilliti til Íslands. Leitast er við að útskýra orsakir jarðskjálfta og útbreiðslu þeirra, mismunandi gerðir og hegðun jarðskjálftabylgna og hvernig hægt er að nýta sér þá þekkingu t.a.m. til að staðsetja og meta stærð jarðskjálfta. Fjallað er um byggingarlag jarðskorpunnar, misgengi, fellingar og fjallamyndun og þau öfl sem að baki búa. Áhersla er lögð á helstu drætti í byggingarlagi berggrunns Íslands og hvernig það verður til. Einnig er fjallað um tímatal og aldursákvarðanir og jarðsögutöflu, þ.e.a.s. skipan jarðlaga í tíma og rúmi. Auk almennrar umfjöllunar um efni námskeiðsins er leitast við og sérstök áhersla lögð á gerð og stöðu Íslands í jarðfræðilegu og jarðsögulegu tilliti.
Framkvæmd námskeiðsins: Námskeiðið er 7,5 ECTS og er hlutur fyrirlestra og æfinga jafn, 4f og 4æ á viku. Í stundatöflu námskeiðsins eru 6 viðverutímar, 4 fyrir fyrirlestra og 2 fyrir æfingar. Æfingahlutinn fer fram í kennslustofu og í nágrenni Háskólans og að hluta til er hann framkvæmdur í námsferðum (20-30 tímar). Námsferðirnar haust 2023 verða farnar fimmtudagana 24.ágúst, 7. september, og 14. september að öllu óbreyttu. Þetta eru heilsdagsferðir.
Um það bil vikulega glíma nemendur við rafrænpróf tengd einstökum köflum kennslubókarinnar. Tilgangur prófanna er að laða stúdentana til þess að lesa kennslubókina jafnóðum og farið er yfir efni hennar og líka til þess að þjálfa þá í notkun hugtaka jarðfræðinnar á erlendri tungu.
Námsferðir.Námsferðir eru mikilvægur partur af námi í jarðvísindum. Í þessu námskeiði eru þær skylda. Námsferðir er liður í að ná ákveðinni hæfni sem ekki er hægt að tileinka sér í kennslustofu eða fjarnámi.Námsferðirnar í JAR101G eru þrjár-fjórar; í Hvalfjörð, Reykjanes, Þingvelli-Nesjavelli og Höfuðborgarsvæðið.
Námsmat: Lokaeinkunn í námskeiðinu er samanlagður árangur í æfingum á Canvas vef námskeiðsins (25%), fyrir skýrslur (feltbók) (25%) og í skriflegu lokaprófi (50%).
Eðlisfræði B (EÐL101G)
Markmið þessa námskeiðs er að styrkja og breikka undirstöðuþekkingu nemenda á eðlisfræði þannig að þeir geti; a) sett fram og notað einföld líkön til að lýsa náttúrufyrirbærum, b) aflað sér frekari þekkingar þegar beita þarf eðlisfræði, c) lesið úr stærðfræðilegri lýsingu á náttúrulegum ferlum.
Námsefni: Aflfræði með áherslu á vinnu og orku, snúningshreyfingu og sveiflur. Vökvar. Varmafræði og varmaskipti. Hljóð og hljóðbylgjur. Rafkraftar, raf- og segulsvið.
Í verklegu æfingum kynnast nemendur ýmis konar búnaði, m.a. sveiflusjám, fjölmælum og litrófsgreini. Áhersla er lögð á þjálfun vinnulags við gagnasöfnun og gagnameðferð.
Námskeiðið er kennt á íslensku og ensku samkvæmt þörfum nemenda.
Almenn efnafræði 1 (EFN108G)
Grundvallarhugtök atómkenningarinnar; atóm sameindir og jónir. Hlutföll í efnahvörfum. Efnafræði vatnslausna; sýru/basa- oxunar/afoxunar- og fellihvörf. Eiginleikar lofttegunda. Varmafræði; vermi, frjáls Gibbs orka, óreiða. Hraðafræði; hraði og leiðir efnahvarfa. Rafefnafræði og varmafræði rafkera. Efnajafnvægi; sýru/basa jafnvægi leysnimargfeldi og myndunarfasti girðitengja. Eðliseiginleikar lausna.
Námsmat: Sjá nánar í kaflanum um námsmat.
Verkleg efnafræði 1a (EFN110G)
Mólrúmmál loftkenndra efna, Efnafræðileg varmafræði,Vermi hvarfa og lögmál Hess, hraði efnahvarfa, niðurbrot vetnisperoxíðs, Le Chatelier, ákvörðun jafnvægisfasta með ljósgleypnimælingum, ákvörðun jónunarfasta sýru.
Skyldumæting er í öryggisfyrirlestur í fyrstu kennsluvikunni.
Stærðfræðigreining I (STÆ104G)
Þetta er grunnnámskeið um stærðfræðigreiningu í einni breytistærð. Æskilegur undirbúningur er að nemendur hafi lokið námskeiðum á framhaldsskólastigi sem fjalla um algebru, rúmfræði, hornaföll, diffrun og heildun. Námskeiðið leggur grunn að skilningi á greinum á borð við náttúrufræði, verkfræði, hagfræði og tölvunarfræði. Umfjöllunarefni námskeiðsins eru meðal annars:
- Rauntölur.
- Markgildi og samfelld föll.
- Deildanleg föll, reglur um afleiður, hærri afleiður, hagnýtingar deildareiknings (útgildisverkefni, línuleg nálgun).
- Torræð föll.
- Meðalgildissetning, setningar l'Hôpitals og Taylors.
- Heildun, ákveðin heildi og reiknireglur fyrir þau, stofnföll, óeiginleg heildi.
- Undirstöðusetning stærðfræðigreiningarinnar.
- Hagnýtingar heildareiknings: Bogalengd, flatarmál, rúmmál, þungamiðjur.
- Venjulegar afleiðujöfnur: fyrsta stigs línulegar diffurjöfnur, annars stigs línulegar diffurjöfnur með fastastuðlum.
- Runur og raðir, samleitnipróf.
- Veldaraðir, Taylor-raðir.
Stærðfræði N (STÆ108G)
Í námskeiðinu er fjallað um undirstöðuatriði stærðfræðigreiningarinnar auk fylkjareiknings. Meginviðfansefni eru fallahugtakið, helstu föll stærðfræðigreiningarinnar (lograr, veldisvísisföll, hornaföll), markgildi, samfelldni, deildanleg föll, reglur um afleiður, afleiður af hærra stigi, stofnföll, notkun deildareiknings (svo sem útgildisverkefni og línuleg nálgun), meðalgildissetningin, heildun, ákveðin heildi og reiknireglur fyrir þau, undirstöðusetning stærðfræðigreiningarinnar, heildunartækni, óeiginleg heildi, afleiðujöfnur, vigrar og fylkjareikningur.
Vinnustofa fyrir nýnema í jarðvísindum (JAR045G)
Aðstoðartímar í ýmsum námskeiðum fyrir nemendur í jarðvísindum
Ytri öfl jarðar (JAR202G)
Áhersla er á ferli útrænna afla, þ.e. þau ferli sem sem liggja að baki myndunnar einstakra landforma og landslagsheilda á þurrlendi Jarðar og hvernig þessi form breytast (þroskast) og eyðast í tíma og rúmi. Lögð áhersla á að nemendur geti tjáð sig um þessi jarðfræðilegu ferli með hugtökum jarðfræðinnar, bæði á íslensku og ensku.
Helstu umfjöllunarefni námskeiðsins eru: Grunnatriði í setlagafræði með aðaláherslu á breytingar á kornastærð og kornastærðadreifingu bergmols, og áferð og lögun korna við flutning þeirra t.a.m. með rennandi vatni, jöklum og vindi. Vatnshringrás jarðar gegnir veigamiklu hlutverki við mótun þurrlendis jarðarinnar, jafnt við veðrun, flutning bergmols og upphleðslu þess. Rennandi vatn er veigamesta ferlið við mótun þurrlendis jarðar, bæði hvað varðar rof og flutning bergmols. Á ströndum jarðar, mörkum láðs og lagar eiga sér stað átök sem valda því að strendur þurrlendisins taka sífelldum breytingum, hröðum og hægum. Fjallað er um hvaða þættir eru helst ráðandi um þróun stranda. Fjallað er um grunnvatn, þátt þess í mótun lands, mikilvægi þess við öflun neysluvatns og hvernig komast má hjá því að spilla þessari mikilvægu auðlind. Hringrás lofthjúps jarðarinnar ræður miklu um dreifingu úrkomu á jörðinni, legu og útbreiðslu þurra og gróðurlítilla svæða. Fjallað er um helstu rof- og setmyndunarferli og landmótun þeirra hérlendis. Einnig er fjallað um helstu ástæður jöklamyndunar og breytilegrar stærðar þeirra með áherslu á jöklunarsögu síðasta jökulskeiðs ísaldar. Einnig er fjallað um ólífrænar og lífrænar auðlindir jarðar, myndun þeirra og útbreiðslu, vinnslu þeirra og notkun, förgun, endurnýjun og endurnýtingu. Áhersla er lögð á að tengja fræðilegan hluta námskeiðsins við Ísland með því að fjalla jöfnum höndum um sambærileg fyrirbæri hérlendis.
Kennslusýn/Teaching statement
Til þess að ná góðum árangri í námskeiðinu þurfa nemendur að taka virkan þátt í fyrirlestrum og verkefnavinnu. Nemendur öðlast þekkingu í fyrirlestrum og við lestur námsefnis, en nauðsynlegt er að gera verkefni og taka þátt í námsferðum til að auka skilning á hugtökum og þjálfa aðferðir. Kennarar munu gera hugtök og efni námskeiðs aðgengilegt en ætlast er til þess að nemendur læri sjálfstætt og spyrji spurninga ef eitthvað er óljóst eða óskýrt. Kennarar leggja áherslu á að nemendur taki þátt í kennslukönnunum til þess að bregðast við ef eitthvað þarf að bæta. Farið verður yfir miðmisseriskönnun með nemendum að henni lokinni.
Kennslufyrirkomulag: Námskeiðið er 7,5 ECTS og spannar 14 vikur. Námsefni er kynnt í fyrirlestrum, völdu lesaefni, og 5 daga námsferð um suðurland og Vestmannaeyjar. Um það bil vikulega glíma nemendur við rafrænpróf tengd einstökum köflum kennslubókarinnar.
Megintilgangur námsferðar er að koma nemendumí beina snertingu við þau ferli og landform sem fjallað hefur verið um á vettvangi námskeiðsins um veturinn. Námsferðin er farin strax að loknum vorprófum, námsferðin er skylda. Nemendur að greiða fyrir fæði í ferðinni.
Námsmat: Námsmatið er þríþætt og verður að ljúka öllum þáttum með 5 í einkunn að lágmarki til að standast námskeiðið.
- Rafrænkaflapróf : 25%
- Feltbók úr námsferð um Suðurland 15%
- Skriflegt lokapróf 60%
Steindafræði (JAR211G)
Inngangur að kristallafræði og steindafræði. Fyrirlestrar fjalla um fjögur megin svið: 1) kristallafræði; 2) ljósfræði kristalla; 3) kristalefnafræði; 4) kerfisbundna steindafræði þar sem nemendur læra um efnasamsetningu og eðliseiginleika helstu bergmyndandi steinda.
Í verklegum æfingum verða notaðar kristalgrindur, kristallíkön og bergfræðismásjár og steindir verða greindar í handsýnum.
Nemendur eiga þess kost að vinna að hópverkefnum og kynna hóparnir niðurstöður verkefnanna í lok námskeiðsins.
Tölfræði og gagnavinnsla (STÆ209G)
Í byrjun námskeiðsins eru grunnhugtök tölfræðinnar kynnt til sögunnar, svo sem þýði, úrtak og breyta. Nemendur kynnast hinum ýmsu lýsistærðum og myndrænni framsetningu gagna. Því næst verður farið í grundvallaratriði líkindafræðinnar og helstu líkindadreifingar kynntar.
Síðasti hluti námskeiðsins snýr að ályktunartölfræði þar sem skoðuð verða tilgátupróf og öryggisbil fyrir meðaltöl, dreifni og hlutföll og farið verður í fervikagreiningu og aðhvarfsgreiningu. Nemendur læra beitingu allra ofangreindra aðferða í tölfræðihugbúnaðinum R.
Almenn jarðeðlisfræði (JEÐ201G)
Námskeiðið er inngangur að jarðeðlisfræði hinnar föstu jarðar. Fjallað er um byggingu jarðar, lögun hennar og snúning, þyngdarsvið og þyngdarmælingar, flóðkrafta, segulsvið, segulsviðsmælingar og bergsegulmagn, jarðskjálfta, jarðskjálftamælingar og jarðskjálftabylgjur, bylgjubrots- og endurkastsmælingar auk varmaleiðni og hita í iðrum jarðar. Rannsóknir í jarðeðlisfræði á Íslandi verða kynntar.
Verklegar æfingar fara fram innan og utanhúss á formi vikulegra dæmatíma og þjálfunar í notkun jarðeðlisfræðilegra mælitækja. Nemendur skrifa einnig ritgerð um valið efni í jarðeðlisfræði.
- Haust
- Þróun jarðar 1
- Tektóník
- Setlagafræði og setberg
- Storkuberg
- Vor
- Þróun jarðar 2
- Fjarkönnun og landupplýsingar í jarðfræðilegum athugunum
- Almenn jarðefnafræði
- Almenn haffræði 1
- Námsferð til útlandaVE
Þróun jarðar 1 (JAR314G)
Markmið námskeiðsins er að auka skilning á jarðsögu frá upphafsöld til miðlífsaldar, sem og uppruna lífs og þróun þess á jörðinni.
Helstu umfjöllunarefni eru myndunar- og þróunarsaga jarðar frá upphafsöld til loka miðlífsaldar. Myndun jarðar, jarðskorpu, úthafa og lofthjúps. Undirstöðuatriði jarðlagafræði, tímatal í jarðsögu, myndun meginlandsfleka, flekahreyfingar, myndunarsaga troga og fellingafjalla, jöklunar- og loftslagssaga, þróun og saga lífsins. Vitnisburður steingervinga um þróun lífs á jörðinni, umhverfisþróun og aldauðaviðburðir. Jarðsögulega athyglisverð landsvæði, svo sem Miklagjá (Grand Canyon), Norðursjávarsvæðið og Svalbarði verða kynnt sérstaklega í fyrirlestrum.
Framkvæmd námskeiðsins: Meginefni námskeiðsins er kynnt í fyrirlestrum. Verklegur þáttur námskeiðsins er þríþættur: Skriflegar æfingar sem tengjast efni lesefnis og fyrirlestra undangenginnar viku, ritgerðir og erindi. Nemendur velja jarðsöguleg viðfangsefni, skrifa um það ritgerð og halda 10-12 mínútna erindi sem kynnir efni ritgerðar.
Tektóník (JEÐ301G)
Strúktúrjarðfræði og jarðskorpuhreyfingar í heiminum, með sérstakri áherslu á hreyfingar á Íslandi. Rúmfræði jarðfræðilegra strúktúra, bæði flata og lína.
Æfingar í notkun hvolfvörpunar. Frumstrúktúrar og vefta í bergi. Hnígandi aflögun, fellingar og fellingamyndun. Flekakenningin, afstæðar og algildar flekahreyfingar, líkanreikningar. Fjaðrandi hegðun bergs í jarðskorpunni og möttli jarðar. Brotahreyfingar í stökkri jarðskorpu, sprungur og misgengi. Flekaskil og aflögun umhverfis þau, fráreksbelti, hjáreksbelti. Jarðskjálftar og misgengishreyfingar, brotlausnir skjálfta. Mælingar á jarðskorpuhreyfingum, GPS-landmælingar, InSAR-mælingar, hæðar- og hallamælingar.
Rannsóknarverkefni, sprungur á virku sprungusvæði eru kortlagðar.
Fyrirlestrar og umræður eru tvisvar í viku, dæma- og verkefnatímar einu sinni í viku. Nemendur skila úrlausnum verkefna í stuttum skýrslum. Unnið er rannsóknarverkefni þar sem nemendur fara út í tvo daga og kortleggja sprungur og sprungutengd fyrirbrigði með GPS-tækjum og skila skýrslu um það.
Síðustu 10 vikur námskeiðsins eru fyrirlestrar sameiginlegir með námskeiðinu Current Crustal Movements.
Setlagafræði og setberg (JAR308G)
Fjallað er um grunneiginleika sets og setbergs, setásýndir, ásýndafylki og umhverfislíkön í setlagafræði með tilvísun til íslensks sets. Almenn umfjöllun um eiginleika setlaga og umhverfin fer fram í fyrirlestratímum. Nemendum er ætlað að taka fyrir ákveðnar tímaritsgreinar sem koma inn á einkenni hvers setmyndunarumhverfis og gera grein fyrir þeim í stuttum fyrirlestrum. Lögð er áhersla á bein tengsl milli fyrirlestra og æfingatíma.
Æfingar byggja á vettvangsferðum í nágrenni Reykjavíkur, þar sem nemendur eru látnir vinna að lýsingu, mælingu og túlkun á setlögum. Markmiðið er að nemendur kynnist aðferðum við ásýndargreiningu og túlkun setmyndunarumhverfa.
Storkuberg (JAR312G)
Markmið námskeiðsins er að kynna og gefa yfirlit yfir grunnatriðin í bergfræði storkubergs – aðferðir, kenningar og viðfangsefni.
Fjallað er um flokkun storkubergs, eiginleika bráðar og kviku, myndun og þróun bergbráða í ljósi efnakerfa (fasarita), aðal- og snefilefna, svo og samsæta. Jafnframt er farið yfir vensl storkubergtegunda við tektóník, bergfræði úthafsskorpunnar, bergfræði eyjaboga og meginlanda og bergfræði djúpbergs. Bergfræði Íslands – eldstöðvakerfum, bergsyrpum og sambandi þeirra við jarðfræðileg umhverfi – eru einnig gerð skil.
Verklegar æfingar fela í sér flokkun bergs út frá steinda- og efnasamsetningu, fasarit í þunnsneiðum, normútreikninga, veftu og steindasamsetningu úrbasísks og basísks, ísúrs og súrs bergs og íslenskra bergtegunda. Sýni af steindum og bergi eru skoðuð og greind í bergfræðismásjá. Nemendur vinna að sjálfstæðu bergfræðiverkefni þar sem þeir kynnast efnagreiningum með rafeindasmásjá og örgreini.
Þróun jarðar 2 (JAR421G)
Saga lífs og jarðar á nýlífsöld, með áherslu á ferli sem hafa leitt til stórfelldra hnattrænna umhverfisbreytinga og haft áhrif á þróun lífs. Vitnisburður steingervinga um þróun, með áherslu á þróun spendýra og sérstaklega á þróun prímata og mannsins. Flekahreyfingar, með áherslu á opnun Norður Atlantshafs og myndun Alpa- og Himalayafjalla. Jarðsöguleg þróun Íslands og nágrannalandanna á tertíer og kvarter. Ísöld, síðjökultími og nútími. Jarðsaga áhugaverðra svæða utan Íslands.
Nemendur vinna að sjálfstæðum verkefnum sem tengjast námsefni og fyrirlestrum, og flytja erindi um valið efni.
Verklegt: Vikulegar skriflegar æfingar, erindi og ritgerðir nemenda um ýmis jarðsöguleg efni.
Í apríl er farin tveggja daga námsferð á Snæfellsnes eða tvær dagsferðir á Reykjanes og Vesturland.
Markmiðið er að auka skilning nemenda á þeim ferlum sem hafa stýrt þróun lands og lífs á nýlífsöld og auka skilning þeirra á stórum rannsóknarspurningum sem varða jarðsögu nýlífsaldar. Þá fá þeir þjálfun í að vinna með rannsóknarspurningar, greina niðurstöður og túlka bæði í formi fyrirlestra og ritgerða.
Fjarkönnun og landupplýsingar í jarðfræðilegum athugunum (JAR420G)
Markmið: Að nemendur í jarðfræði öðlist fræðilegan bakgrunn og hæfni í að nýta fjarkönnun, kortagerð og landupplýsingakerfi í rannsóknum sínum og störfum og séu færir um að miðla upplýsingum í rituðu máli, með kortum og gagnagrunnum. Undirbúningur fyrir vettvangsferðir á sviði jarðvísinda.
Námsefni: Grundvallar lögmál fjarkönnunar: Plancks, Stefan-Boltzman, Wien. Rafsegulbylgjur og víxlverkun rafsegulgeislunar við yfirborð jarðar og áhrif lofthjúps á geislun. Rúmfræðileg upplausn og rófgreinihæfni, geislunarstyrkur, tímakvarði og breytingar. Mismunandi gerðir skanna og brauta gervitungla. Túlkun loftmynda og gervitunglamynda (ljós-, hita- og ratsjármynda) út frá jarðfræðilegum eiginleikum yfirborðs.
Helstu myndvinnsluaðferðir og flokkun yfirborðs með sjálfvirkum og stýrðum aðferðum og út frá breytingum og mynstri. Greining á bergtegundum, lausum jarðlögum og tektónik. Nýting í rauntíma mati á náttúruhamförum og vá, sem og langtíma umhverfisbreytingum. Áreiðanleiki flokkunar, gagna og kvörðunar. Samþætting við önnur gögn, kort og mælingar.
Grundvallar eiginleikar landupplýsingakerfa og byggingareiningar: Vigrar, rastar, eigindir. Helstu greiningaraðferðir í jarðvísindum: Val út frá eigindum eða staðsetningu, brúun, uppétting, hæðar- og landgreiningar, rúmmálsútreikningar, rastareikningar og líkangerð. Grannfræði. Uppbygging stafræns gagnasafns um jarðfræðileg fyrirbæri og ferla. Jarðfræðikortagerð, staðlar og framsetning fyrirbæra og ferla á kortum.
Kortlagning jarðlaga og ýmsar greiningar þeim tengdar.
Kennsluhættir: Vikulegir fyrirlestrar og verkefnatímar í tölvuveri. Nemendur velja sjálfstætt lokaverkefni á sviði jarðfræða og fjarkönnunar og útfæra í samstarfi við kennara. Nemendur kynna verkefni sín og skila skýrslu og LUK gagnagrunni.
Námsmat: Vikuleg verkefni: 70% Sjálfstætt lokaverkefni, kynning og gagnagrunnur: 30%
Nemendur þurfa að standast alla prófhluta.
Almenn jarðefnafræði (JAR419G)
Fjallað verður um grunnatriði jarðefnafræðinnar m.a. dreifingu frumefna á jörðinni, jarðefnafræðilegar hringrásir, fasajafnvægi, varmafræði og vatnsefnafræði. Einnig verður farið í gegnum kjarnasamruna og uppruna sólkerfisins, þýðingu snefilefna, geislavirkra og stöðugra samsæta og hvernig slíkt nýtist við rannsóknir í jarðvísindum.
Almenn haffræði 1 (JAR414M)
Markmið námskeiðs er að nemendur öðlist yfirsýn á undirstöðum almennrar haffræði, gerð hafsbotns, eðlis- og efna- og lífefnafræði sjávar. Ennfremur hvernig samspil þessara þátta mótar aðstæðurnar í höfunum. Viðfangsefnið er skipting lands og sjávar, heimshöfin, stærð og landfræðileg einkenni, botnlögun. Tæki og aðferðir í hafrannsóknum. Eðliseiginleikar sjávar, selta. Ljós og hljóð í hafinu. Breytingar eiginleika vegna sveims og strauma. Orkubúskapur og vatnshagur. Dreifing sjávarhita og seltu, sjógerðir og hita-seltuhringrásin. Ágrip af stöðu- og hreyfifræði hafsins. Efnafræði sjávar: Jarðefnafræðileg hringrás, aðalefni, snefilefni og uppleystar lofttegundir í sjó. Næringarsölt í sjó og tengsl þeirra við kolefni og súrefni. Áhrif eðlis- og efnafræðilegra eiginleika á frjósemi hafsvæða. Hafið við Ísland.
Verklegar æfingar ná yfir dæmaæfingar, skýringar dæma, úrvinnslu og túlkun haffræðilegra gagna og heimsókn í Hafrannsóknarstofnun og í rannsóknaskip.
Námsferð til útlanda (JAR615G)
Jarðfræði Íslands markast öðru fremur af því að landið er jarðfræðilega mjög ungt (<16 milljón ár), og liggur um flekaskil (rekbelti) sem fer saman við heitan reit. Ísland markast því öðru fremur af eldvirkni í tímans rás, þar sem eldgos (um fram allt basisk gos) hafa hlaðið upp jarðlagastaflann. Þetta er mjög frábrugðið jarðfræði meginlandanna, sem markast af langri jarðsögu (hundruðir miljóna eða milljarðir ára), vitnisburði um endurtekna flekaárekstra, oft flókinni sögu jarðhniks, setmyndunar og rofs.
Námsferð til útlanda í 10 daga er farin til að kynnast jarðfræði og jarðsögu á völdum svæðum. Sótt verður til nágrannalanda Íslands, Danmerkur og Svíþjóðar, en þar má í lykilopnum kynnast langri og flókinni jarðsögu á tiltölulega takmörkuðum svæðum. Markmið námsferðatinnar er að nemendur kynnist jarðfræði og jarðsögu meginlandsskjaldar, með áherslu á að þeir læri að þekkja hinar ýmsu berggerðir sem algengar eru á meginlöndunum (svo sem granít og gnæs, kvartsít, kalkstein), ummerki flekaárekstra í formi fellingafjalla og stórfelldrar höggunar, og algenga leiðarsteingervinga. Verkefnum verður úthlutað og skýrslum skilað.
Nemendur bera allan kostnað við ferð og uppihald.
ATH: ferðin er á dagskrá með fyrirvara varðandi covid
- Haust
- Jarðfræðikortagerð
- Jarðeðlisfræðileg könnun BV
- Varmafræði og inngangur að safneðlisfræði VV
- Tölvunarfræði 1aV
- FornvatnafræðiVE
- Jarðeðlisfræðileg könnun AV
- JarðhitiV
- BS-verkefni í jarðfræðiV
- JarðskjálftafræðiVE
- GrunnvatnsfræðiV
- EldfjallafræðiV
- Aflfræði og varmaflutningur í samfelldum efnumV
- Orka og auðlindir jarðarVE
- Umhverfi á kvarter tímabiliV
- Vor
- Jarðfræði fyrir verkfræðingaV
- EfnagreiningV
- Verkleg efnafræði 2V
- BS-verkefni í jarðfræðiV
- Jöklar og landmótunV
- Almenn efnafræði 2V
- Námsferð til útlandaVE
- Myndbreyting, ummyndun og veðrunV
- Bergfræði 2V
- Hagnýt jarðfræðiVE
Jarðfræðikortagerð (JAR513G)
Námskeið haldið á tveggja vikna tímabili á hverju sumri í ágúst (dagsetningar ákveðnar í samráði við nemendur) þar sem kennd eru grundvallaratriði í vettvangsathugun og jarðfræðikortagerð.
Vettvangstímar = tvær vikur (10 dagar). Fyrstu fimm dagarnir eru notaðir til þess að fara í gegnum aðferðarfræði og mæliaðferðir vettvangskönnunar og seinni fimm dagarnir eru notaðir í jarðfræðikortlagningu á fyrirfram völdum svæðum.
Jafnframt er reiknað með að nemendur eyði allt að 100 stundum í að setja saman formlega skýrslu um athuganir og mælingar framkvæmdar á vettvangi sem skilað er í lok 7. viku haustmisseris.
Jarðeðlisfræðileg könnun B (JEÐ507M)
Námskeiðið er ætlað nemendum sem hafa tekið fyrsta námskeið í jarðeðlisfræði og þekkja til helstu jarðeðlisfræðilegra mælinga og hagnýtingar þeirra. Námskeiðið skiptist í tvo hluta:
- a) Fjögurra til fimm daga mælingar í upphafi haustmisseris. Margvíslegum jarðeðlisfræðilegum aðferðum beitt til að kanna jarðlagaskipan á tilteknu svæði.
- b) Farið yfir aðferðir jarðeðlisfræðilegrar könnunar og hagnýtingu þeirra við rannsóknir á jarðlögum, orkulindum og jarðefnum, fræðilegan grunn, aðferðafræði mælinga, meðferð gagna og úrvinnslu. Aðferðir sem teknar eru fyrir: Bylgjubrots- og endurkastsmælingar, þyngdar- og segulmælingar, viðnáms- og jarðleiðnimælingar, borholumælingar. Í námskeiðinu eru dæma- og reikniæfingar þar sem m.a. verður unnið niðurstöðum úr mæliferðinni auk þess sem nemendur skrifa skýrslu um mælingarnar og niðurstöður þeirra, í samræmi við hæfniviðmið.
Varmafræði og inngangur að safneðlisfræði V (EFN315G)
Grunnhugtök og stærðfræðilegar aðferðir í varmafræði, lögmál varmafræðinnar, varmafræðileg mætti, Maxwell vensl, jafnvægi, fasabreytingar, tölfræðileg varmafræði, kjörgas og raungas sameinda, eðlisvarmi, slembigangur og sveim.
Allt skriflegt efni er á ensku. Námskeiðið er kennt í 11 vikur.
Tölvunarfræði 1a (TÖL105G)
Einingar til BS-prófs gilda aðeins fyrir annaðhvort TÖL101G Tölvunarfræði 1 eða TÖL105G Tölvunarfræði 1a.
Forritun í Python (sniðið að verkfræðilegum og raunvísindalegum útreikningum): Helstu skipanir og setningar (útreikningur, stýri-setningar, innlestur og útskrift), skilgreining og inning falla, gagnatög (tölur, fylki, strengir, rökgildi, færslur), aðgerðir og innbyggð föll, vigur- og fylkjareikningur, skráavinnsla, tölfræðileg úrvinnsla, myndvinnsla. Hlutbundin forritun: klasar, hlutir, smiðir og aðferðir. Hugtök tengd hönnun og smíði tölvukerfa: Forritunarumhverfi, vinnubrögð við forritun, gerð falla- og undirforritasafna og tilheyrandi skjölun, villuleit og prófun forrita.
Fornvatnafræði (JAR515M)
Námskeiðið gefur innsýn í rannsóknir á seti stöðuvatna, aðferðafræði og túlkun. Farið verður í einkenni setmyndana í stöðuvötnum, bæði ólífræna og lífræna setmyndun og svörun við umhverfis- og loftslagsbreytingum. Æfingar snúast um lýsingu og greiningu á setkjörnum, þunnsneiðum af seti, meðhöndlun sýna, greiningu og skoðun á lífrænum leifum sem finnast í setinu. Farið verður í hvernig unnt er að endurbyggja fornumhverfi byggt á greiningunum. Námskeiðið verður kennt sjö síðustu vikur misseris.
Jarðeðlisfræðileg könnun A (JEÐ506M)
Námskeiðið er ætlað nemendum sem ekki hafa tekið fyrsta námskeið í jarðeðlisfræði en vilja kynnast jarðeðlisfræðilegum mælingum og hagnýtingu þeirra. Námskeiðið skiptist í tvo hluta:
- a) Fjögurra til fimm daga mælingar í upphafi haustmisseris. Margvíslegum jarðeðlisfræðilegum aðferðum beitt til að kanna jarðlagaskipan á tilteknu svæði.
b) Kynning á undirstöðum þeirra aðferða sem notaðar eru við jarðeðlisfræðilega könnun. Farið yfir aðferðir og hagnýtingu þeirra við rannsóknir á jarðlögum, orkulindum og jarðefnum, fræðilegan grunn, aðferðafræði mælinga, meðferð gagna og úrvinnslu. Aðferðir sem teknar eru fyrir: Bylgjubrots- og endurkastsmælingar, þyngdar- og segulmælingar, viðnáms- og jarðleiðnimælingar og borholumælingar. Í námskeiðinu eru dæma- og reikniæfingar þar sem m.a. verður unnið niðurstöðum úr mæliferðinni auk þess sem nemendur skrifa skýrslu um mælingarnar og niðurstöður þeirra í samræmi við hæfniviðmið námskeiðsins.
Jarðhiti (JAR508M)
Jarðhitakerfi og uppbygging þeirra, orkubúskapur jarðar, hita-/orkuflutningur til yfirborðs jarðar. Uppruni og efnafræði jarðhitavökva, efnaskipti bergs og vökva, borholumælingar, endurnýjun jarðhitakerfa, aðferðir í jarðhitaleit, forðamat, nýting jarðhita og umhverfisáhrif hennar. Námskeiði er kennt á 7 vikna tímabili í upphafi haustmisseris. Það samanstendur af fyrirlestrum, verklegum æfingum, nemendafyrirlesturm, nemendaveggspjöldum, ritgerð og prófum. Námskeiðið er kennt á ensku.
BS-verkefni í jarðfræði (JAR265L)
Námskeiðið er unnið með leiðsögn kennara.
Upplýsingar um skil á verkefni
Skil eru í maí fyrir júníbrautskráningu
Skil eru í september fyrir októberbrautskráningu
Skil eru í janúar fyrir febrúarbrautskráningu
Í upphafi misseris koma nemandi og leiðbeinandi sér upp tímalínu um skil á verkefni
Skil á fullbúnu verkefni til leiðbeinanda/umsjónarkennara er 10. maí/ september/ janúar
Skil nemanda inn á Skemmu eru í síðasta lagi 30. maí/ september/ janúar og senda þarf staðfestingu um samþykkt skil á nemvon@hi.is
Einkunn frá leiðbeinanda á að hafa borist skrifstofu í síðasta lagi 30. maí/ september/ janúar
Jarðskjálftafræði (JEÐ505M)
Spennu- og aflögunarþinir, öldulíkingar fyrir P-og S-bylgjur. Rúmbylgjur og leiddar bylgjur. Helstu jarðskjálftabylgjur: P-, S-, Rayleigh- og Love-bylgjur. Frjálsar sveiflur jarðar. Gerð og eiginleikar jarðskjálftamæla. Upptök jarðskjálfta: Brotlausn, vægi, stærð, orka, tíðniróf, áhrif. Dýpi jarðskjálfta, dreifing þeirra um jörðina og samband við jarðfræði. Jarðskjálftabylgjur og innri gerð jarðarinnar.
Námskeiðið er ýmist kennt með hefðbundnum hætti (fyrirlestrar, heimadæmi, verkefni) eða sem lesnámskeið þar sem nemendur kynna sér efnið og gera því skil skriflega og í umræðutímum.
Grunnvatnsfræði (JEÐ502M)
Sjö vikna námskeið (kennt fyrri 7 vikur haustmisseris). Námskeiðið verður kennt ef þátttaka er nægileg. Námskeiðið kann að verða kennt sem lesnámskeið
Grunnvatn í jörðu, vatn í jarðvegi, gerðir og eiginleikar vatnsleiðara (poruhluti, heldni, gæfni, forðastuðlar, opnir, lokaðir og lekir vatnsleiðarar, einsleitir vatnsleiðarar, stefnuóháð og stefnuháð lekt). Eiginleikar grunnvatnsflæðis, lögmál Darcy, grunnvatnsmætti, lektarstuðull, vatnsleiðni, innri lekt. Lektarstuðull í bæði einsleitum og stefnuháðum vatnsleiðurum, straumlínur og straumlínunet, stöðugt og óstöðugt flæði um opna, lokaða og leka vatnsleiðara. Almennar flæðijöfnur grunnvatns. Grunnvatnsflæði að borholum, niðurdáttur, dæluprófanir, eiginleikar vatnsleiðara út frá dæluprófunum, nýting grunnvatnsborholna, ferskvatnslinsur og jarðsjór, flutningur efna með grunnvatni, gæði grunnvatns, mengun. Dæmi um grunnvatn og nýtingu þess á Íslandi, reiknilíkön af grunnvatnsflæði. Nemendur vinna þverfaglegt verkefni um grunnvatn og nýtingu þess.
Eldfjallafræði (JAR514M)
Eldgos eru eitt þeirra meginferla sem skapar og mótar svipmót jarðar. Eldgos geta leitt af sér hamfarir og valdið verulegu tjóni á mannvirkjum. Kvikugösin sem rísa upp frá eldspúandi gígunum viðhalda andrúmslofti jarðar, sem og hafa veruleg áhrif á eiginleika andrúmsloftsins og loftstrauma þess. Kvikuvirkni neðanjarðar, og í sumum tilfellum eldvirknin ofan jarðar, hefur myndað beint eða óbeint stóran hluta að þeim málmum sem við nemum úr jörðu. Þannig að fyrirbærið eldgos hefur bein og óbein áhrif á mannkynið sem og tengsl við margar af undirgreinum jarðvísindanna. Af þeim sökum er grunnskilningur á því hvernig eldfjöll og eldstöðvakerfi virka og framlag eldvirkninar til hringrásaferla jarðar góð undirstaða fyrir alla nemendur í jarðvísindum.
Í þessu námskeiði verður farið í grunnatriði eldfjallafræðinnar; ferðalag kviku upptakastað til yfirborðs og almenn ferli sem stjórna eldvirkni á yfirborði og dreifingu gosefna. Fjallað verður líka um grunnatriði eldgosavár og hnattrænna áhrifa eldgosa.
Verklegar æfingar eru vikulega og beinast að því að leysa vandamál með útreikningum, greiningu gagna og rökstuðningi. Ein vettvangsferð á Reykjanes.
Aflfræði og varmaflutningur í samfelldum efnum (JEÐ503M)
Markmið: Að kynna aflfræði samfelldra efna, vökvaaflfræði og varmaflutning og beitingu fræðanna á vandamál í eðlisfræði og jarðeðlisfræði. I. Spenna og aflögun, spennusvið, spennutensor, sveiging platna, efniseiginleikar, líkön: Fjaðrandi efni, seigt efni, plastískt efni.- II. Seigir vökvar, lagstreymi, iðustreymi, samfellujafna, jafna Navier-Stokes.- III. Varmaflutningur: Varmaleiðing, hræring vatns, varmaburður og jarðhiti. Dæmi tekin úr ýmsum greinum eðlisfræði, einkum jarðeðlisfræði.
Kennslusýn: Til að standa sig vel í námskeiðinu þurfa nemendur að taka virkan þátt í umræðum, mæta í fyrirlestra, halda sjálf nemendafyrirlestra og skila verkefnum sem sett eru fyrir. Nemendur öðlast þekkingu í fyrirlestrunum en það er nauðsynlegt að gera verkefnin til að skilja og þjálfa notkun hugtakanna. Verkefnin eru samþættuð textanum í kennslubókinni og því er ráðlagt að gera æfingarnar þegar textinn er lesinn. Kennari munu reyna að gera hugtök og tungutak aðgengilegt, en það er ætlast til að nemendur læri sjálfstætt og spyrji spurninga ef eitthvað er óljóst eða óskýrt. Til að bæta námskeiðið og innihald þess er óskað eftir að nemendur taki þátt í kennslukönnunum, bæði miðmisseriskönnun og í lok annar.
Orka og auðlindir jarðar (JAR513M)
Sjálbær nýting náttúruauðlinda og endurnýjanleg orkuframleiðla eru undirstaða sjálfbærrar þróunar. Til að nálgast sjálfbærni þarf að hafa heildstæða sýn sem tekur tillit til grunnstoðanna þriggja sem eru umhverfi, efnahagur og samfélag. Í námskeiðinu verður farið yfir orkubúskap jarðar, myndun og nýtingu jarðefnaeldsneytis, óendalegar og endurnýjanlegar orkuauðlindir. - þar með taldar óendurnýjanlegu auðlindirnar kol, olía, gas, úran og þóríum. Einnig verður farið yfir orkuauðlindir sem nýta þarf með gát - jarðhita, vatnsafl og líforku. Annað efni námskeiðsins er um endurnýjanlega orku sem byggð er á sólinni, vindi, sjávarföllum og ölduafli. Einnig verður gert yfirlit yfir helstu auðlindir jarðar sem nýttar eru til tæknivæðingar, uppbyggingar innviða samfélagsins og í landbúnaði, svo sem málma, áburð, jarðveg og vatn. Námskeiðið fjallar um hvernig þessar auðlindir myndast, eru nýttar, hve lengi þær endast og hvaða áhrif nýtingin hefur á umhverfið, efnahaginn og samfélagið. Að skilja samfélags- og efnahagskerfið sem knýr áfram neyslumynstur náttúruauðlinda er lykillinn að mati á sjálfbærri auðlindastjórnun. Í umfjölluninni er þess vegna einnig endurvinnsla óendurnýjanlegra auðlinda og auk þess er farið yfir nýja hagsældar hugsun sem að byggir á hringhagkerfi og velsældarhagkerfi.
Umhverfi á kvarter tímabili (JAR516M)
Fjallað er um helstu umhverfis- og loftslagsbreytingar sem átt hafa sér stað á kvartertímabilinu, helstu orsakir breytinga og svörun. Sérstök áhersla er lögð á umhverfis- og loftslagsbreytingar á Íslandi og Norður Atlantshafssvæðinu á tímabilinu. Fjallað er um einkenni kvarter tímabilsins og jarðfræðilegan vitnisburð loftslagsbreytinga á tímabilinu, breytingar á braut jarðar og áhrif á veðurfar, aldursgreiningar, vitnisburð loftslagsbreytinga á landi og í sjó, eldvirkni og umhverfisbreytingar og sögu jöklabreytinga á jörðu. Námsmat: Lokaverkefni 35%, verkefni unnin á misserinu 30%, erindi 15%, heimapróf 20%. Hluti lokaverkefnis er leit að heimildum sem nýtast í verkefninu og erindi tengdu því.
Jarðfræði fyrir verkfræðinga (UMV203G)
Tengsl jarðfræði við umhverfis- og byggingarverkfræði. Farið er í helstu þætti í almennum jarðvísindum. Innri öfl: Innri gerð jarðar, kvika og bergtegundir, jarðskorpuhreyfingar, jarðskjálftar, eldvirkni. Ytri öfl: Veðrun, rof (jökulrof, árrof, sjávarrof), setmyndun / setmyndunarumhverfi, hringrás vatns (grunnvatn). Fjallað er um jarðsögu Íslands og N-Atlantshafsins. Farið er yfir helstu þætti í náttúruvá á Íslandi, s.s. eldgos, jarðskjálfta, ofanflóð, flóð, ofasaveður. Fjallað um mat á umhverfisáhrifum framkvæmda. Fjallað er um hagnýt jarðefni, s.s. jarðefni sem byggingarefni og í vegagerð, fylliefni í steypu, jarðefni í sement, annað fylliefni, frostnæmi, síur, stórgrýti, önnur hagnýt jarðefni, bergtækni, prófanir á bergi og berggæðamat. Helstu rannsóknaraðferðir í verkfræðilegri jarðfræði og jarðeðlisfræðilegri könnun kynntar. Rannsóknir vegna undirbúnings ýmis konar mannvirkja: virkjanir, jarðgöng, hafnir, brýr, vegir, flugvellir, raflínur og skipulag þéttbýlis. Ýmis dæmi um jarðfræðilegan undirbúning og áhrif hans á hönnun og byggingu. Nemendum er boðið upp á tvær til þrjár heimsóknir í fyrirtæki og stofnanir á önninni og að auki er farið í tveggja daga námsferð þar sem jarðfræðileg og umhverfis- og byggingaverkfræðileg verkefni verða skoðuð.
Efnagreining (EFN208G)
Efnagreining er sú grein efnafræðinnar sem fjallar um aðferðir til að greina efni og efnablöndur, bæði magnbundið og þáttbundið. Notkun efnagreiningar er því mjög víða, m.a. við gæðaeftirlit í matvæla-, snyrtivöru- og lyfjageiranum, við mælingar á mengandi efnum í andrúmslofti og við réttarvísindi.
Í upphafi námskeiðsins eru rifjuð upp undirstöðuatriði úr almennri efnafræði sem nemendur þurfa að hafa góð tök á. Farið verður yfir ýmis efnajafnvægi í vatnslausnum og flóknari kerfi þar sem tvö eða fleiri efnajafnvægi eru til staðar. Jafnframt verður skoðað hvaða áhrif jónir og styrkur þeirra hefur á efnajafnvægi, svokallaðir virknireikningar. Nemendur kynnast klassískum greiningaraðferðum sem byggjast á títrun, fellihvörfum, oxunar/afoxunarhvörfum, rafgreiningu og flókamyndun.
Farið er í inngang að rafefnafræði, markspennumælingar og rafmassamælingar.
Verkleg efnafræði 2 (EFN210G)
Stöðlun á pípettu, magngreining á Ni í stáli, kalsíum í mjólk og natríum í vatni og víni. Magngreining á ediksýru og vetnisperoxíði með títrun, greining á óþekktri amínósýru með spennutítrun og tvíþáttagreinig á lausn bæði með títrun og ljósmælingu. Magngreining á flúoríði í tannkremi og tei.
BS-verkefni í jarðfræði (JAR265L)
Námskeiðið er unnið með leiðsögn kennara.
Upplýsingar um skil á verkefni
Skil eru í maí fyrir júníbrautskráningu
Skil eru í september fyrir októberbrautskráningu
Skil eru í janúar fyrir febrúarbrautskráningu
Í upphafi misseris koma nemandi og leiðbeinandi sér upp tímalínu um skil á verkefni
Skil á fullbúnu verkefni til leiðbeinanda/umsjónarkennara er 10. maí/ september/ janúar
Skil nemanda inn á Skemmu eru í síðasta lagi 30. maí/ september/ janúar og senda þarf staðfestingu um samþykkt skil á nemvon@hi.is
Einkunn frá leiðbeinanda á að hafa borist skrifstofu í síðasta lagi 30. maí/ september/ janúar
Jöklar og landmótun (JAR033M)
Jöklar eru nátengdir loftslagskerfinu þar sem þeir bregðast hratt við breytingum í því og hafa áhrif á það. Jöklar vinna við rof, setmyndun og landmótun. Þetta námskeið fjallar um jökla og landmótun jökla með áherslu á samspil jökla við bæði andrúmsloftið og undirlag þeirra. Fjallað verður um útbreiðslu og flokkun jökla í heiminum, myndun jökulíss, afkomu jökla, vatnafar og hreyfingu, rof, setmyndun, aflögun, landform og ferli við jökuljaðar ásamt jöklunarsögu út frá dreifingu og eðli mismunandi jökulrænna landforma og setmyndanna. Áhersla verður lögð á íslenska jökla, landmótun þeirra og jöklunarsögu.
Á námskeiðinu munu nemendur læra tungutak og hugtök sem gera þeim kleift að skilja og taka þátt í umræðum um hlutverk jökla í loftslagskerfinu í samhengi við fyrri útbreiðslu jökla eins og hún er túlkuð út frá setfræðilegum og landmótunarfræðilegum einkennum jökulumhverfa. Þekking á framhaldsskóla eðlisfræði og stærðfræði er gagnleg, sem og setlagafræði og náttúrulandafræði. Að námskeiði loknu verður farið í 4-5 daga námsferð að jöklum á Suðurlandi þar sem mæliaðferðir verða kynntar og afkomumælingarvír boraður í Sólheimajökul, auk þess sem nemendur læra að þekkja og skrásetja algeng ferli landmótunar jökla og helstu landform og setlög.
Almenn efnafræði 2 (EFN202G)
Námskeiðið fjallar um uppbyggingu lotukerfisins og lotubundna eiginleika frumefnanna. Farið er yfir náttúrulegt form frumefnanna, einangrun hreinna frumefna og algeng efnahvörf þeirra. Bygging atómsins er kennd sem undirstaða efnaeiginleika frumefnanna og efnahvarfa þeirra. Farið er í kenningar Bohrs um vetnisatómið og nýrri kenningar til nútíma sýn á atómbyggingu. Farið er yfir rafeindaskipan frumefnanna, og myndun efnatengja. Gildistengjakenningin (valence bond theory), fráhrindikraftar gildisrafeindapara (VSEPR) og byggingu sameinda. Farið er í sameindasvigrúmakenninguna (molecular orbital theory). Farið er í málmvinnslu og málmblendi, eiginleika málmlíkja og málmleysingja. Kynnt verður efnafræði hliðarmálmanna (Coordination chemistry), leysni, jafnvægi og girðitengi þeirra við jónir og rafeindagjafa. Farið er yfir kjarnaklofnun, kjarnahvörf og geislavirkni.
Námsferð til útlanda (JAR615G)
Jarðfræði Íslands markast öðru fremur af því að landið er jarðfræðilega mjög ungt (<16 milljón ár), og liggur um flekaskil (rekbelti) sem fer saman við heitan reit. Ísland markast því öðru fremur af eldvirkni í tímans rás, þar sem eldgos (um fram allt basisk gos) hafa hlaðið upp jarðlagastaflann. Þetta er mjög frábrugðið jarðfræði meginlandanna, sem markast af langri jarðsögu (hundruðir miljóna eða milljarðir ára), vitnisburði um endurtekna flekaárekstra, oft flókinni sögu jarðhniks, setmyndunar og rofs.
Námsferð til útlanda í 10 daga er farin til að kynnast jarðfræði og jarðsögu á völdum svæðum. Sótt verður til nágrannalanda Íslands, Danmerkur og Svíþjóðar, en þar má í lykilopnum kynnast langri og flókinni jarðsögu á tiltölulega takmörkuðum svæðum. Markmið námsferðatinnar er að nemendur kynnist jarðfræði og jarðsögu meginlandsskjaldar, með áherslu á að þeir læri að þekkja hinar ýmsu berggerðir sem algengar eru á meginlöndunum (svo sem granít og gnæs, kvartsít, kalkstein), ummerki flekaárekstra í formi fellingafjalla og stórfelldrar höggunar, og algenga leiðarsteingervinga. Verkefnum verður úthlutað og skýrslum skilað.
Nemendur bera allan kostnað við ferð og uppihald.
ATH: ferðin er á dagskrá með fyrirvara varðandi covid
Myndbreyting, ummyndun og veðrun (JAR625M)
Fyrirlestrar fjalla um grunnatriði og fasarit, myndbreytingahamir, hita- og þrýstimæla, myndbreytingu storkubergs, myndbreytingu setbergs, myndbreytingarumhverfin. Flokkun, vefta og steindasamsetning myndbreytts storkubergs, vefta og steindasamsetning myndbreytts setbergs, fjölstiga myndbreyting.
Æfingar: Greining bergs í handsýnum og smásjá. Meðferð og túlkun efnagreininga.
Ferð til að skoða borkjarna frá jarðhitasvæði.
Bergfræði 2 (JAR603M)
Í þessu námskeiði mun nemandinn fræðast um uppruna, myndun og þróun kviku á jörðinni. Sérstök áhersla verður lögð á að auka skilning á því hvernig kvika breytist við tilfærslu og viðstöðu í skorpunni.
Fyrirlestrar munu taka fyrir eðlis- og efnafræði kviku ásamt mikilvægustu fasabreytingum sem kvika verður fyrir við flutning upp í gegnum skorpuna.
Í verklegum tímum verður farið í eðlis- og efnafræðilegar aðferðir sem notaðar eru við að meta uppruna kviku og þróun. Í því felst m.a. fasajafnvægi, efnavarmafræði, útreikningar á þrýstingi og hitastigi, og líkanreikningar á hlutbráðnun og hlutkristöllun. Sérstök áhersla er lögð á túlkun gagna og skilning á óvissu í gögnum.
Námskeiðið stendur í 7 vikur á fyrri hluta vormisseris (vikur 1-7) og samanstendur af 3 fyrirlestrum og 4 verklegum tímum í hverri viku.
Hagnýt jarðfræði (JAR616G)
Kennt á vormisseri þegar ártal er oddatala. Jarðefni: Gerð og uppruni berggrunns, spennur og sprungur í bergi. Uppruni og dreifing setlaga. Jarðtæknilegir og hagnýtir eiginleikar bergs og lausra jarðlaga og gæðaflokkun þeirra við mannvirkjagerð. Notkun jarðfræðirannsókna við skipulagningu og gerð mannvirkja. Hagnýting jarðefna og auðlinda. Ferli: Umhverfisáhrif mannsins og mat á umhverfisáhrifum búsetu og mannvirkja á afrennsli og grunnvatnsborð, efnistöku og förgun sorps og frárennsli. Áhrif veðurfars- og loftlagsbreytingar á jarðfræðileg ferli sem snerta mannvirki og búsetu t. d. á hafnir og strendur.
Hafðu samband
Nemendaþjónusta VoN
s. 525 4466 - nemvon@hi.is
Opið virka daga frá 09:00-15:30
Einnig er hægt að hafa samband í gegnum netspjall hér á síðunni (í samræmi við þjónustutíma)
Tæknigarður - Dunhaga 5, 107 Reykjavík
Askja - Sturlugata 7, 102 Reykjavík
Fylgstu með Verkfræði- og náttúruvísindasviði:
Hjálplegt efni
Ertu með fleiri spurningar? Hér finnurðu svör við ýmsum þeirra og upplýsingar um ýmislegt annað sem gott er að hafa í huga þegar þú velur nám.