Skip to main content

Landfræði

Landfræði

Verkfræði- og náttúruvísindasvið

Landfræði

BS gráða – 180 einingar

Landfræði fjallar um umhverfi og samfélag. Hún tengir saman þekkingu úr náttúruvísindum, félagsvísindum og hugvísindum og miðar að því að veita yfirsýn og skilning á samspili umhverfis og samfélags, bæði á Íslandi og á heimsvísu. Landfræðingar fást við greiningar á umhverfi og samfélagi og vinnslu landfræðilegra upplýsinga, sem er mikilvægur þáttur í margskonar áætlanagerð, stjórnun og ákvarðanatöku um framtíðina.

Skipulag náms

X

Náttúrulandfræði (LAN101G)

Markmið námskeiðsins er að nemendur kunni skil á undirstöðuatriðum líflandfræði, jarðvegs og jarðvegsmyndunar, auk umhverfissögu Íslands, þekki helstu hugtök og aðferðir sem beitt er og verði færir um að greina og túlka íslenskt umhverfi í ljósi þeirra. Fjallað verður um flokkunarfræði lífríkis, fæðukeðjur og fæðuþrep, dreifingu tegunda og farið verður yfir hringrásir orku og efna, útbreiðslu lífríkis og áhrifaþætti, búsvæðabelti, líffræðilega fjölbreytni og verndun lífríkis.

Farið verður í myndun jarðvegs og eiginleika hans, útbreiðslu jarðvegsgerða, jarðvegsrof og jarðvegsmengun. Rætt verður sérstaklega um áhrif nýtingar og ástand jarðvegs og gróðurs, orsakir og afleiðingar jarðvegseyðingar og hnignunar gróðurlenda, fyrr og nú.

Haldnir verða þrír fyrirlestrar á viku þar sem farið verður yfir meginefni námskeiðsins. Tveimur tímum á viku, að jafnaði, verður varið í verkefnavinnu þar sem nemendur munu vinna í hópum að úrlausn verkefna. Ein hálfs dags ferð er farin út fyrir Reykjavík til að framkvæma gróðurmælingar og safna jarðvegssýnum.

X

Kortagerð og kortahönnun (LAN102G)

“visualization is the process of making the invisible visible[...] the process of making the cognitive imagination visual using available and culturally dominant technologies is one of the most consistent behaviors of mankind.”

„Myndræn framsetning er að gera ósýnileg fyrirbæri sýnileg [eða] það að gera sjónrænt grein fyrir ímyndun hugans með tiltækri tækni og í samræmi við menningarleg viðmið. Þetta er eitt af því sem mannkynið hefur alltaf leitast við að gera.” - Cox, D. (2006). "Metaphoric Mappings: The Art of Visualization." MIT Press.

Kortagerð er einn af mikilvægum hlutum landupplýsingahönnunar.

Nemendur kynnast fræðilegri undirstöðu kortagerðar með hjálp stafrænnar tækni. Námskeiðinu er ætlað að veita nemendum greinargóðan skilning á hugtökum og hagnýtum atriðum sem snerta myndræna framsetningu á kortum og miðlun landfræðilegra upplýsinga. Það snertir ýmis mikilvæg svið í landfræði og skyldum greinum. Í gegnum fyrirlestra og umræður fá nemendur skilning á sögu kortagerðar, helstu kenningum og hugtökum á fagsviðinu og hlutverki landfræðilegra upplýsingakerfa við gerð korta nú á dögum. Fyrirlestrum er fylgt eftir með verkefnum sem hjálpa nemendum að skilja undirstöðuhugtök kortagerðar, sem og skipulegum æfingum í tölvuveri  þar sem nemendur læra að nýta sér landfræðileg upplýsingakerfi við einfalda greiningu og framsetningu landupplýsinga. Nemendur öðlast færni til að rýna eigin verk og annarra á gagnrýninn hátt og geta útskýrt og réttlætt eigin ákvarðanir varðandi myndræna framsetningu á korti.

X

Mannvistarlandfræði (LAN104G)

Kynnt verða hugtök og kenningastraumar í samfélagsvísindum, með áherslu á notkun og birtingarform í samtímarannsóknum í mannvistarlandfræði og ferðamálafræði. Markmið námskeiðsins er að nemendur öðlist skilning á notkun hugtaka í vísindalegri umræðu og þjálfun í meðferð þeirra. Má þar telja algeng hugtök eins og staður, rými, hnattrænt, staðbundið, hnattvæðing, sjálfbær þróun, náttúra, landslag, menning, sjálfsmynd, ímynd og samfélag. Kennsluform er blanda fyrirlestra og umræðutíma í smærri hópum, sem tengjast skilaverkefnum nemenda. Próftökuréttur er háður verkefnaskilum og þátttöku í umræðuhópum.

X

Vinnulag í landfræði og ferðamálafræði (LAN105G)

Námskeiðið tekur á ólíkum þáttum vinnulags í háskólanámi og rannsóknum og er ætlað að veita nemendum hagnýtan undirbúning að háskólanámi. Námskeiðið skiptist í nokkra hluta og munu ákveðin verkefni og æfingar tengjast hverjum hluta. Fjallað verður um forsendur og markmið rannsókna og hugmyndafræðilega strauma, heimilda- og tilvísananotkun, tjáningu og framsögn ásamt ritun, stíl og framsetningu. Jafnframt verður stoðkerfi nemenda (s.s. bókasafn og námsráðgjöf) kynnt. Áhersla er lögð á vinnu nemenda með það að markmiði að nemendur tileinki sér árangursrík vinnubrögð í háskólanámi.

Önnur vinnulagsnámskeið geta verið metin jafngild þessu námskeiði

X

Vinnustofa fyrir nýnema í land- og ferðamálafræði (LAN019G)

Aðstoðartímar í ýmsum námskeiðum fyrir nemendur í land- og ferðamálafræði

X

Tölfræði (LAN203G)

Í byrjun námskeiðsins eru grunnhugtök tölfræðinnar kynnt til sögunnar, svo sem þýði, úrtak og breyta. Nemendur kynnast hinum ýmsu lýsistærðum og myndrænni framsetningu gagna. Því næst verður farið í grundvallaratriði líkindafræðinnar og helstu líkindadreifingar kynntar.

Síðasti hluti námskeiðsins snýr að ályktunartölfræði þar sem skoðuð verða tilgátupróf og öryggisbil fyrir meðaltöl, dreifni og hlutföll og farið verður í fervikagreiningu og aðhvarfsgreiningu. Nemendur fá þjálfun í að reikna hinar ýmsu lýsistærðir í Excel ásamt því að útbúa gröf. Nemendur læra beitingu allra ofangreindra aðferða í tölfræðihugbúnaðinum SPSS.

X

Veður og loftslag (LAN219G)

Farið verður í grunndvallaratriði hitabúskapar á jörðinni, hvað hefur drifið langvarandi breytingar á hitabúskap hennar og hvernig það hefur birst í formi einstakra loftslagstímabila, nú síðast loftslagi á Nútíma (Holocene). Farið verður í undirstöðuatriði í veðurfræði (t.d. orkubúskapur, loftþrýstingur, vindar, stöðugleiki lofts, loftraki, skýjamyndun, úrkoma) til skilnings á stað- og svæðisbundnum einkennum loftslags (s.s. myndunar loftmassa, hæða og lægða) sem leiða til breytileika í myndun vistkerfa og búsetuskilyrða á jörðinni. Farið verður í hringrásir lofts í veðrahvolfinu og hafstrauma sem drifkrafta hitajöfnunar um jörðina. Hringrásum gróðurhúsalofttegunda verða gerð skil og hvernig maðurinn hefur haft áhrif á þær. Veðurfarslíkön sem varða smærri og stærri ferla í andrúmslofti verða til umfjöllunar í námskeiðinu. Sérstaklega verður farið í veður og loftslag á Íslandi og landfræðilegan breytileika í veðurfari.

Námskeiðið er kennt í formi fyrirlestra, verkefnavinnu, þema- og kaflaprófa og heimsókna á viðeigandi stofnanir þar sem veður og loftslag er til rannsókna og þar sem loftslagsbreytingar (gróðurhúsaáhrif) koma inn í störf rannsóknafólks.

Ekki er haldið lokapróf en allir þættir námskeiðs eru metnir til einkunnar, þema- og kaflapróf (60%), ritgerðir (30%), samantektir um lærdóm af heimsóknum (10%).

X

Umhverfislandfræði: Náttúra, samfélag og sjálfbærni (LAN221G)

Umhverfismál eru eitt mikilvægasta viðfangsefni okkar tíma. Umhverfishugtakið sjálft vísar til snertiflata náttúru og samfélags, sem er kjarnaviðfangsefni landfræðinnar. Samþætting náttúru- og samfélagsvísinda er nauðsynleg við leit að lausnum sem stuðlað geta að aukinni sjálfbærni.

Í þessu námskeiði er gerð grein fyrir ýmsum landfræðilegum sjónarhornum á umhverfismál og nokkur veigamikil hnattræn málefni sem snerta umhverfið krufin til mergjar. Nemendur fá þekkingu á marghliða orsökum og afleiðingum og brjóta heilann um mögulegar lausnir. Fjallað verður sérstaklega um fólksfjölda og fæðuöryggi. Hvert er samhengi fólksfjöldaþróunar, matvælaframleiðslu og ágangs á náttúruauðlindir og umhverfi? Hvernig er staðan og hverjar eru framtíðarhorfur í hinum ýmsu heimshlutum? Hvernig má tryggja fæðuöryggi og sjálfbærni fæðuframleiðslu á næstu áratugum? Áhrif af breyttri landnýtingu og síaukinni neyslu á lífverur og vistkerfi jarðar verða einnig skoðuð. Hvernig bregst lífkerfi jarðar við búsvæðabreytingum og mengun? Hvaða lausnir þyrfti til að koma auðlindanýtingu mannkyns í betra jafnvægi en nú er og leysa þau vandamál sem fylgt hafa tilkomu neyslusamfélaga okkar tíma? Loks verður hugað að samfélagslegum þáttum loftslagsbreytinga. Hvernig koma þessar afdrifaríku breytingar á gangverki náttúrunnar fram í ólíkum heimshlutum og hjá mismunandi samfélagshópum?

Í námskeiðinu er lögð áhersla á hið hnattræna sjónarhorn, en nemendur eru jafnframt hvattir til að tengja efni þess við eiginn veruleika. Farnar eru stuttar námsferðir og unnin verkefni í tengslum við þær.

X

Landfræðileg upplýsingakerfi 1 (UMV401G)

Stúdentar með UMV401G sem skyldunámskeið hafa forgang við skráningu. 

Markmið: Að gera stúdentum frá breiðum bakgrunni mögulegt að hagnýta landfræðileg upplýsingakerfi til kortagerðar og landfræðilegrar greiningar við skýrslu- og álitsgerð, kynningu verkefna, vinnu og rannsóknir. Að stúdentar öðlist þroska og þjálfun til að: 1) stýra verkefnum á sviði landfræðilegra upplýsinga, 2) meta hvernig landfræðileg greining og kort nýtast best fyrir fjölbreytt verkefni, 3) rita texta sem túlkar kort og lýsir landfræðilegri greiningu, 4) rita fagmannlega skýrslu um verkefni sem hagnýtir sér landfræðileg upplýsingakerfi, kort og landfræðilega greiningu. 

Efni: Stúdentar kynnast landfræðilegum upplýsingakerfum og landfræðilegum gögnum. Lærið gerð staðháttakorta og þemakorta. Notuð verða vektorgögn og rastagögn. Lærið val eftir eigindum og staðsetningu, og gerð kortalaga út frá vali. Lærið tengsl við töflugögn og landfræðileg tengsl. Æfðar verða fjölbreyttar aðgerðir með kortalög, t.d. klippa, sameina, flytja gögn á milli laga, auk teikningar og gerðar nýrra kortalaga. Tengið loftmynd við kortalög. Tengið GPS hnituð gögn við landakort. Framkvæmið landfræðilega greiningu gagna. Áhersla er á að stuðla að þroska nemenda við að velja innihald korta, aðgerðir og greiningartæki, hanna kort og túlka kort með texta. 

Kennsluhættir: Stúdentar kynnast og fá þjálfun í algengri hagnýtri notkun landfræðilegra upplýsingakerfa í verklegum kennslutímum í tölvustofu og við vinnu heimaverkefna og lokaverkefnis byggðum á raunverulegum gögnum. Verkefni eru hönnuð til að auka færni stúdenta í vali korta, innihalds og greiningartækni auk túlkunar korta.

Námsform

Námskeiðið er kennt í kennslustofu með beinu streymi og upptökur síðan gerðar aðgengilegar nokkrum dögum síðar. Hægt er að taka námskeiðið í staðnámi eða fjarnámi eða blandað. Ekki er gert ráð fyrir að hægt sé að taka námskeiðið sem netnámskeið án rauntímaþátttöku.

X

Innri öfl jarðar (JAR101G)

Meginmarkmið námskeiðsins er að kynna nemendum kenningar varðandi myndun alheimsins, þróun hans og stöðu, tilurð sólkerfisins og jarðarinnar. Áhersla er á framvindu jarðfræðilegra ferla í tíma og rúmi. Myndun, rek og eyðingu meginlanda. Leitast er við að efla skiling nemenda á ferlum innrænnra afla og að þeir geti tjáð sig um þessi jarðfræðilegu ferli með hugtökum jarðfræðinnar, bæði á íslensku og ensku.

Helstu umfjöllunarefni námskeiðsins eru: Grunnnatriði í kenningu um uppruna alheimsins, vetrarbrauta, sólkerfa allt til þess tíma þegar sólkerfi okkar og jörðin mynduðust. Megindrættir innri gerðar jarðarinnar þar sem áhersla er lögð á lagskiptingu hennar og eiginleika hinna einstöku laga. Fjallað er um fyrstu tilgátur um landrek og þróun þeirra sem líkur með því að plötukenningin kemur fram og áhersla lögð á að skýra hvers vegna og hvernig innbyrðis afstaða platnanna og þar með meginlandanna er sífellt að breytast. Farið er yfir meginatriði í gerð steinda, berggerða og myndbreytingar. Eldvirkni er gerð skil, orsakir hennar,útbreiðslu og hættur með sérstöku tilliti til Íslands. Leitast er við að útskýra orsakir jarðskjálfta og útbreiðslu þeirra, mismunandi gerðir og hegðun jarðskjálftabylgna og hvernig hægt er að nýta sér þá þekkingu t.a.m. til að staðsetja og meta stærð jarðskjálfta. Fjallað er um byggingarlag jarðskorpunnar, misgengi, fellingar og fjallamyndun og þau öfl sem að baki búa. Áhersla er lögð á helstu drætti í byggingarlagi berggrunns Íslands og hvernig það verður til. Einnig er fjallað um tímatal og aldursákvarðanir og jarðsögutöflu, þ.e.a.s. skipan jarðlaga í tíma og rúmi. Auk almennrar umfjöllunar um efni námskeiðsins er leitast við og sérstök áhersla lögð á gerð og stöðu Íslands í jarðfræðilegu og jarðsögulegu tilliti.

Framkvæmd námskeiðsins: Námskeiðið er 7,5 ECTS og er hlutur fyrirlestra og æfinga jafn, 4f og 4æ á viku. Í stundatöflu námskeiðsins eru 6 viðverutímar, 4 fyrir fyrirlestra og 2 fyrir æfingar. Æfingahlutinn fer fram í kennslustofu og í nágrenni Háskólans og að hluta til er hann framkvæmdur í námsferðum (20-30 tímar). Námsferðirnar haust 2023 verða farnar fimmtudagana 24.ágúst, 7. september, og 14. september að öllu óbreyttu. Þetta eru heilsdagsferðir. 

Um það bil vikulega glíma nemendur við rafrænpróf tengd einstökum köflum kennslubókarinnar. Tilgangur prófanna er að laða stúdentana til þess að lesa kennslubókina jafnóðum og farið er yfir efni hennar og líka til þess að þjálfa þá í notkun hugtaka jarðfræðinnar á erlendri tungu.

Námsferðir.Námsferðir eru mikilvægur partur af námi í jarðvísindum. Í þessu námskeiði eru þær skylda. Námsferðir er liður í að ná ákveðinni hæfni sem ekki er hægt að tileinka sér í kennslustofu eða fjarnámi.Námsferðirnar í JAR101G eru þrjár-fjórar; í Hvalfjörð, Reykjanes, Þingvelli-Nesjavelli og Höfuðborgarsvæðið.

Námsmat: Lokaeinkunn í námskeiðinu er samanlagður árangur í æfingum á Canvas vef námskeiðsins (25%), fyrir skýrslur (feltbók) (25%) og í skriflegu lokaprófi (50%).

X

Hnattvæðing efnahagslífsins (LAN305G)

Fjallað er um helstu einkenni á efnahagslífi heimsins, í ljósi hnattvæðingar viðskipta, stjórnmála og menningar á undanförnum áratugum. Athugað er hvernig þungamiðja heimshagkerfisins hefur færst til og hvernig hin ýmsu svæði og lönd tengjast því með mismunandi hætti. Teknir eru til athugunar helstu gerendur og stofnanir sem hafa áhrif á hnattvæðinguna, þar á meðal fjölþjóðafyrirtæki, alþjóðastofnanir og ríki. Dæmi eru tekin úr ólíkum geirum atvinnulífs, skoðað hvernig keðjur framleiðslu og neyslu hafa tekið breytingum með hnattvæðingu og greint hvaða áhrif slíkt hefur haft á staði og svæði.

X

Aðferðir við rannsóknir í náttúrulandfræði (LAN307G)

Markmið námskeiðsins er að nemendur tileinki sér aðferðir til að framkvæma sjálfstæðar rannsóknir í náttúrulandfræði. Það nær m.a. til lýsinga og mælinga á jarðvegi (þurrlendi/votlendi) og seti samkvæmt alþjóðlegum stöðlum, gróðri og gróðurlendum samkvæmt íslenskum flokkunum, auk sýnatöku og gagnaöflunar sem varðar ofangreind atriði.

Námskeiðið veitir þjálfun í aðferðum sem notaðar eru í rannsóknum í náttúrulandfræði og sem krefjast öflunar og úrvinnslu gagna af vettvangi.

Námskeiðið samanstendur af fjögurra daga ferð í vikunni fyrir upphaf kennslu á haustmisseri. Í ferðinni eru nemendum kynntar aðferðir og tækjabúnaður sem gjarnan er notaður þegar safna þarf sýnum og öðrum upplýsingum, til rannsókna á breytingum á eðli og yfirborði lands sem ná yfir mismunandi tíma- og rýmiskvarða. 
Að ferð lokinni vinna nemendur verkefni sem snúa að úrvinnslu þeirra gagna sem aflað var í ferðinni og skipulagi og framkvæmd tiltekinna rannsóknaverkefna sem gögnin tengjast. Sú vinna fer fram á rannsóknastofu og í verkefnatímum. Nemendur skila skýrslum um verkefnin og halda fyrirlestra um þau í fyrri hluta nóvember.

Námsmat byggir á skýrslum, fyrirlestrum og þátttöku og virkni nemenda í vettvangsferð og á rannsóknastofu.

X

Ytri öfl jarðar (JAR202G)

Áhersla er á ferli útrænna afla, þ.e. þau ferli sem sem liggja að baki myndunnar einstakra landforma og landslagsheilda á þurrlendi Jarðar og hvernig þessi form breytast (þroskast) og eyðast í tíma og rúmi. Lögð áhersla á að nemendur geti tjáð sig um þessi jarðfræðilegu ferli með hugtökum jarðfræðinnar, bæði á íslensku og ensku.

Helstu umfjöllunarefni námskeiðsins eru: Grunnatriði í setlagafræði með aðaláherslu á breytingar á kornastærð og kornastærðadreifingu bergmols, og áferð og lögun korna við flutning þeirra t.a.m. með rennandi vatni, jöklum og vindi. Vatnshringrás jarðar gegnir veigamiklu hlutverki við mótun þurrlendis jarðarinnar, jafnt við veðrun, flutning bergmols og upphleðslu þess. Rennandi vatn er veigamesta ferlið við mótun þurrlendis jarðar, bæði hvað varðar rof og flutning bergmols. Á ströndum jarðar, mörkum láðs og lagar eiga sér stað átök sem valda því að strendur þurrlendisins taka sífelldum breytingum, hröðum og hægum. Fjallað er um hvaða þættir eru helst ráðandi um þróun stranda. Fjallað er um grunnvatn, þátt þess í mótun lands, mikilvægi þess við öflun neysluvatns og hvernig komast má hjá því að spilla þessari mikilvægu auðlind. Hringrás lofthjúps jarðarinnar ræður miklu um dreifingu úrkomu á jörðinni, legu og útbreiðslu þurra og gróðurlítilla svæða. Fjallað er um helstu rof- og setmyndunarferli og landmótun þeirra hérlendis. Einnig er fjallað um helstu ástæður jöklamyndunar og breytilegrar stærðar þeirra með áherslu á jöklunarsögu síðasta jökulskeiðs ísaldar. Einnig er fjallað um ólífrænar og lífrænar auðlindir jarðar, myndun þeirra og útbreiðslu, vinnslu þeirra og notkun, förgun, endurnýjun og endurnýtingu. Áhersla er lögð á að tengja fræðilegan hluta námskeiðsins við Ísland með því að fjalla jöfnum höndum um sambærileg fyrirbæri hérlendis.

Kennslusýn/Teaching statement

Til þess að ná góðum árangri í námskeiðinu þurfa nemendur að taka virkan þátt í fyrirlestrum og verkefnavinnu. Nemendur öðlast þekkingu í fyrirlestrum og við lestur námsefnis, en nauðsynlegt er að gera verkefni og taka þátt í námsferðum til að auka skilning á hugtökum og þjálfa aðferðir. Kennarar munu gera hugtök og efni námskeiðs aðgengilegt en ætlast er til þess að nemendur læri sjálfstætt og spyrji spurninga ef eitthvað er óljóst eða óskýrt.  Kennarar leggja áherslu á að nemendur taki þátt í kennslukönnunum til þess að bregðast við ef eitthvað þarf að bæta. Farið verður yfir miðmisseriskönnun með nemendum að henni lokinni.

Kennslufyrirkomulag: Námskeiðið er 7,5 ECTS og spannar 14 vikur. Námsefni er kynnt í fyrirlestrum, völdu lesaefni, og 5 daga námsferð um suðurland og Vestmannaeyjar. Um það bil vikulega glíma nemendur við rafrænpróf tengd einstökum köflum kennslubókarinnar.

Megintilgangur námsferðar er að koma nemendumí beina snertingu við þau ferli og landform sem fjallað hefur verið um á vettvangi námskeiðsins um veturinn. Námsferðin er farin strax að loknum vorprófum, námsferðin er skylda. Nemendur að greiða fyrir fæði í ferðinni.

Námsmat: Námsmatið er þríþætt og verður að ljúka öllum þáttum með 5 í einkunn að lágmarki til að standast námskeiðið.

  • Rafrænkaflapróf : 25%
  • Feltbók úr námsferð um Suðurland  15%
  • Skriflegt lokapróf 60%
X

Kannanir, viðtöl og vettvangsathuganir (LAN411G)

Markmið námskeiðsins er að veita nemendum fræðilega undirstöðu og hagnýta þjálfun til að þeir geti beitt algengum félagsvísindalegum aðferðum við rannsóknir í landfræði og ferðamálafræði.

Fjallað verður um þekkingarfræðilegan grunn félagsvísindalegra rannsókna, rannsóknarsiðferði, og algengar rannsóknaraðferðir, bæði eigindlegar og megindlegar.

Sérstök áhersla verður lögð á: a) framkvæmd viðtalsrannsókna, þar með talið undirbúning og gerð viðtalsramma, val viðmælenda, framkvæmd viðtals, afritun, lyklun, greiningu og túlkun; b) framkvæmd spurningakannana, þar með talið skipulagningu spurningakannana, úrtaksgerð, gerð spurningalista, réttmæti og áreiðanleika, orðalag spurninga, gerð gagnagrunns og úrvinnslu; og c) samþættingu aðferða.

Fyrirlestrar og verkefnatímar í námskeiðinu þjóna því hlutverki að byggja undir og styðja við rannsóknarverkefni sem nemendur vinna yfir misserið.

X

Fjarkönnun og umhverfisvöktun (LAN616G)

Lögmál og grundvallaratriði fjarkönnunar. Rafsegulgeislun, víxlverkun við lofthjúp og yfirborð jarðar. Endurvarp og eigingeislun. Eiginleikar ljósmynda, hitamynda, örbylgju- og ratsjármynda. Yfirlit yfir annars konar fjarkönnun: LIDAR, bylgjuvíxlmyndir, fjölgeisla- og jarðsjármælingar, fjarkönnun á öðrum reikistjörnum.

Fjarkönnunargögn og aðferðir við öflun þeirra. Nemar og skannar um borð í gervitunglum og flugvélum. Upplausn mynda: rúmfræðileg, rófgreinihæfni, geislastyrkur, tími. Saga fjarkönnunar á 20. og 21. öld.

Notkun og túlkun loftmynda og gervitunglamynda. Myndvinnsla og greining: forvinna, upprétting, strekking, vinnsla með fjölda banda, stýrð og sjálfvirk flokkun, landgreiningar og rannsóknir á breytingum, líkangerð. GPS. Samfelling gagna og landupplýsinga. Framsetning og miðlun fjarkönnunargagna.

Umhverfisvöktun og gildi fjarkönnunar á ýmsum fræðasviðum: landfræði, jarðfræði og líffræði. Umhverfisvöktunarkerfi vegna snöggra og hægfara umhverfisbreytinga, náttúruvár, atburða og kortagerðar. Öflun og vinnsla rauntímagagna.

Kennslufyrirkomulag: Fyrirlestarar, umræðutímar og vikuleg verkefni í tölvuveri í öflun, greiningu og túlkun fjarkönnunargagna. Unnið verður með landupplýsingakerfi, einkum ArcGIS og QuantumGIS, svo og ýmis myndvinnsluforrit.

X

Byggðaþróun og atvinnulíf (LAN514G)

Fjallað er um kenningar og stefnumótun varðandi þróun byggða og svæða og það efni sett í samhengi við íslenskar aðstæður. Farið er í fólksfjöldaþróun, þróun  atvinnulífs og aðrar forsendur búsetu, í mismunandi byggðarlögum á Íslandi, með áherslu á 21. öldina.  Skoðuð eru markmið, leiðir og ágreiningsefni um  byggðastefnu. Að námskeiðinu loknu eiga nemendur að kunna skil á sérstöðu hinna ýmsu landshluta og byggðarlaga á Íslandi og vera færir um að sjá stöðu þeirra í stærra samhengi þróunar í heiminum.

X

Sjónarhorn landfræðinnar (LAN517G)

Markmið námskeiðsins er að veita nemendum yfirlit yfir viðfangsefni og viðmið í landfræðilegum rannsóknum. Fjallað er um sögu landfræðinnar og sérstöðu hennar innan vísinda. Helstu tegundir þekkingar- og aðferðafræði í landfræðirannsóknum eru bornar saman. Lesin eru verk valinna fræðimanna og rýnt í kenningar þeirra. Fjallað er um nýjar áherslur í bæði náttúrulandfræði og mannvistarlandfræði. Nemendur fá ennfremur þjálfun í að móta eigið rannsóknarverkefni.

X

Skipulag byggðar og lands (LAN610M)

Í námskeiðinu eru kynntar helstu kenningar, hugtök og viðfangsefni skipulagsfræði, söguleg þróun skipulagsgerðar og stjórnkerfi skipulagsmála.

Megináhersla námskeiðsins er á hagnýtar aðferðir við skipulagsgerð, sérstaklega fyrir skipulag stærri landfræðilegra heilda, eins og þéttbýlisstaða, sveitarfélaga eða landshluta. Nemendur kynnast og þjálfast í að beita ólíkum aðferðum við gagnaöflun, greiningu og túlkun á byggð, samfélagi, náttúrufari og ólíkum hagsmunum varðandi þróun byggðar og nýtingu lands, vegna skipulags tiltekins svæðis. Farið er yfir aðferðir til að leggja mat á aðstæður, áskoranir og tækifæri á skipulagssvæðinu. Einnig aðferðir við mótun og framsetningu skipulagstillagna og stefnu í skipulagi.

Fyrirlestrar, umræðutímar og verkefnavinna. Einstaklings- og hópverkefni.

X

BS-verkefni í landfræði ( 2ja manna verkefni) (LAN218L, LAN219L)

Við lok grunnnáms vinna nemendur að sjálfstæðu rannsóknarverkefni á áhugasviði sínu innan ferðamálafræði. Almennt er gert ráð fyrir samvinnuverkefni tveggja nemenda en einnig má vinna það sem einstaklingsverkefni. Meginreglan er sú að verkefnið sé unnið á vormisseri en það má einnig vinna að hausti, og mögulega að sumri ef aðstæður leyfa. Í öllum tilvikum er gerð krafa um að skyldunámskeiðum 1. og 2. árs sé lokið áður en hafist er handa við BS verkefni.

Markmiðið er að veita þjálfun í að skipuleggja og framkvæma eigin rannsókn. Nemendur búa til rannsóknaráætlun þar sem viðfangsefnið er afmarkað, rannsóknarsnið er mótað, rannsóknarspurningar eru settar fram, fræðilegur rammi rannsóknarinnar er skilgreindur, sem og aðferðafræðileg nálgun. Rannsóknin er unnin á grundvelli áætlunarinnar og skulu henni gerð skil í heild sinni í ritgerð sem gengið er frá samkvæmt reglum Líf- og umhverfisvísindadeildar um rannsóknarritgerðir.

Vinna við BS verkefni er sett upp sem námskeið þar sem umsjónarkennari miðlar hagnýtum upplýsingum sem varða BS ferlið og verkefnavinnuna almennt. Hverju rannsóknarverkefni er jafnframt fenginn faglegur leiðbeinandi úr hópi kennara við námsbrautina. Undirbúningur hefst undir lok misserisins á undan með sameiginlegum fundi. Nemendur setja í kjölfarið fram hugmynd að rannsóknarverkefni og á grundvelli hennar er þeim fenginn leiðbeinandi. Nemendur ráðfæra sig við leiðbeinanda um mótun rannsóknaráætlunar sem síðan er skilað í byrjun misseris. Gert er ráð fyrir þremur sameiginlegum fundum með umsjónarkennara. Fjöldi funda með leiðbeinanda er samkomulagsatriði. Gerð er krafa um sjálfstæð vinnubrögð nemenda.

X

BS-verkefni í landfræði (einstaklingsverkefni) (LAN218L, LAN219L)

Við lok grunnnáms vinna nemendur að sjálfstæðu rannsóknarverkefni á áhugasviði sínu innan landfræði. Almennt er gert ráð fyrir samvinnuverkefni tveggja nemenda en einnig má vinna það sem einstaklingsverkefni. Meginreglan er sú að verkefnið sé unnið á vormisseri en það má einnig vinna að hausti, og mögulega að sumri ef aðstæður leyfa. Í öllum tilvikum er gerð krafa um að skyldunámskeiðum 1. og 2. árs sé lokið áður en hafist er handa við BS verkefni.

Markmiðið er að veita þjálfun í að skipuleggja og framkvæma eigin rannsókn. Nemendur búa til rannsóknaráætlun þar sem viðfangsefnið er afmarkað, rannsóknarsnið er mótað, rannsóknarspurningar eru settar fram, fræðilegur rammi rannsóknarinnar er skilgreindur, sem og aðferðafræðileg nálgun. Rannsóknin er unnin á grundvelli áætlunarinnar og skulu henni gerð skil í heild sinni í ritgerð sem gengið er frá samkvæmt reglum Líf- og umhverfisvísindadeildar um rannsóknarritgerðir.

Vinna við BS verkefni er sett upp sem námskeið þar sem umsjónarkennari miðlar hagnýtum upplýsingum sem varða BS ferlið og verkefnavinnuna almennt. Hverju rannsóknarverkefni er jafnframt fenginn faglegur leiðbeinandi úr hópi kennara við námsbrautina. Undirbúningur hefst undir lok misserisins á undan með sameiginlegum fundi. Nemendur setja í kjölfarið fram hugmynd að rannsóknarverkefni og á grundvelli hennar er þeim fenginn leiðbeinandi. Nemendur ráðfæra sig við leiðbeinanda um mótun rannsóknaráætlunar sem síðan er skilað í byrjun misseris. Gert er ráð fyrir þremur sameiginlegum fundum með umsjónarkennara. Fjöldi funda með leiðbeinanda er samkomulagsatriði. Gerð er krafa um sjálfstæð vinnubrögð nemenda.

X

Hreyfanleiki og rými (LAN520G)

Markmið námskeiðsins er að nemendur öðlist þekkingu á samspili landfræðilegs hreyfanleika fólks og rýmis. Áherslan er annars vegar á búferlaflutninga milli landa og  svæða heimsins , með sérstaka áherslu á Ísland og einnig búferlaflutninga fólks innan Íslands. Hins vegar er rýnt í hreyfanleika fólks í sínu nærumhverfi. Fjallað er um efnið út frá fræðilegri umræðu í mannvistarlandfræði og m.a. velt upp spurningum um breytileika í hreyfanleika samfélagshópa staðbundið og hnattræn, og hvernig hreyfanleiki fólks mótar staði í samtímanum.  Horft er sérstaklega til áhrifa þátta eins og kyngervis, þjóðernis og kynvitundar á hreyfanleika og aðgengi einstaklinga og hópa að stöðum.

X

Náttúruvá: Atburðir og eðli þeirra (LAN513M)

Í námskeiðinu er fjallað um hina ýmsu atburði og ferla í náttúrunni sem skapað geta vá. Náttúruvá er skilgreind og hugað að sögu umfjöllunar á þessu mikilvæga fræðasviði í ýmsum greinum náttúruvísinda. Gerð er grein fyrir náttúrufræðilegum orsökum og eðli náttúruvár af ólíku tagi. Fjallað er um yfirstandandi loftslagsbreytingar sem náttúruvá, sem og um samhengi ýmissa veður- og loftslagstengdra atburða við loftslagsbreytingar. Fjallað verður um ferli náttúruvárvöktunar á Veðurstofu Íslands og ferli hættumats í tengslum við náttúruvá.

Nemendur fara í 1 dags ferð um Suðurland í byrjun september, þar sem ummerki atburða sem flokka má sem náttúruvá eru skoðuð og rædd.

X

Starfsþjálfun í landfræði og ferðamálafræði (LAN018G)

Markmið starfsþjálfunar er að nemendur kynnist störfum sem tengjast landfræði og/eða ferðamálafræði og hljóti þjálfun í þeim undir faglegri handleiðslu reyndra stjórnenda hjá fyrirtækjum eða opinberum stofnunum. Verkefni nemenda eru fjölbreytt og liggja á sviði umhverfismála, sjálfbærni, markaðsmála, skipulagsvinnu, kortagerðar, gagnagreiningar og úrvinnslu, nýsköpunar, þjónustustjórnunar, ferðahönnunar og áætlunargerðar svo eitthvað sé nefnt. Verkefni nemenda skulu þannig reyna á þá þekkingu og færni sem þeir hafa þegar aflað sér í grunnnámi í landfræði eða ferðamálafræði.

Starfstími er 150 klst. (6 ECTS) og skal starfsþjálfun lokið innan 12 vikna frá því að hún hófst. Að auki er gert ráð fyrir viðbótartíma sem felst í dagbókar- og skýrsluskrifum. Lokaafurð starfsþjálfunar skal skilgreina í náms- og starfsmarkmiðum í samráði við umsjónarkennara og forsjáraðila fyrirtækis/stofnunar.

 

Í lok starfstímans skal skila til umsjónarkennara:

  • Lokaskýrslu nemanda (skv. skilgreiningu í verkefnislýsingu).
  • Dagbók sem nemandi hefur haldið meðan á starfsþjálfun stóð. Dagbókin skal fela í sér vikulegt yfirlit þar sem fram kemur hver verkefni vikunnar voru og hve miklum tíma var varið í einstök verkefni.
  • Staðfesting umsjónarmanns á ástundun nemanda og verkefnavinnu í lok starfsþjálfunar.

Umsjónarkennari skal yfirfara skýrslu og dagbók nemanda svo og staðfestingu umsjónarmanns fyrirtækis/stofnunar.

Einkunn er gefin sem staðist/fallið og ekki er gefin töluleg einkunn.

ATH: Nemendur geta ekki skráð sig sjálfir í þetta námskeið heldur eru þeir skráðir í námskeiðið þegar þeir hafa tryggt sér starfsþjálfunarstöðu hjá fyrirtæki eða stofnun.

Allar starfsþjálfunarstöður verða auglýstar sérstaklega á Tengslatorgi (www.tengslatorg.hi.is ) í upphafi hvers kennslumisseris og nemendur sækja sérstaklega um að komast í starfsþjálfun.  Umsókn ásamt ferilskrá og kynningarbréfi, þar sem nemendur tilgreina hvers vegna þeir hafa áhuga á að komast í starfsþjálfun hjá viðkomandi fyrirtæki skal senda á von-starfsthjalfun@hi.is

X

Ferðamennska og umhverfi (LAN308G)

Í námskeiðinu verður fjallað um náttúru og landslag sem auðlind ferðamennsku. Áhersla verður lögð á samspil manns og náttúru. Farið verður yfir sögu náttúruverndar og staða náttúruverndar í dag skoðuð í alþjóðlegu samhengi. Fjallað verður um skipulag og stjórnun þjóðgarða og annarra friðlýstra svæða og skoðaðar aðferðir við gildismat náttúrunnar. Áhrif ferðamennsku á umhverfi verða rædd með áherslu á álag ferðamanna og þolmörk umhverfis. Gefin verður innsýn í náttúrusiðfræði og viðhorf og umgengni ferðamanna við náttúruna rædd. Sérstök áhersla verður lögð á sjálfbæra ferðamennsku og möguleikar þróunar slíkrar ferðamennsku hér á landi verða ræddir í ljósi skipulagningar og stjórnunar ferðamennsku.

Námskeiðið mun samanstanda af fræðilegum fyrirlestrum, umræðuverkefnum og æfingum. Stúdentar þurfa að standast alla prófþætti námskeiðsins.

X

Jarðvegsfræði (LAN516G)

Námskeiðið hentar nemendum á öðru og þriðja námsári
Námskeiðið felur í sér eftirfarandi helstu þætti:

  • Jarðvegsmyndandi ferla
  • Eðlis- og efnaeiginleika jarðvegs
  • Flokkun jarðvegs og hnattræna dreifingu
  • Hlutverk jarðvegs í vistkerfum
  • Áhrif utan að komandi þátta (t.d. gróðurs og loftslags) á jarðveg og næringarefnainnihald
  • Jarðvegsrof og landhnignun
  • Íslenskur jarðvegur og einkenni hans
  • Áhrif fólks á jarðveg og gróður
  • Jarðvegur sem rannsóknarefni varðandi mannvist og umhverfissögu

Námskeiðið samanstendur af fyrirlesturum, vettvangs- og rannsóknastofuvinnu og ritgerðaskrifum.

X

Ferðamennska og víðerni (LAN521G)

Fjallað er um víðerni sem félagslega smíð og hlutlæga tilveru víðerna. Gefið er yfirlit yfir sögu víðernishugmyndarinnar í menningar- og sögulegu samhengi. Skoðuð eru markmið með verndun víðerna og helstu átök um varðveislu þeirra. Kynntar eru hugmyndir um skipulag og stjórnun víðerna fyrir ferðamennsku og útivist. Varpað er ljósi á tengsl milli ferðamennsku, víðerna og stefnu í stjórnun þeirra. Námskeiðið hefst á fimm daga ferð um víðerni Íslands.

X

Borgir og borgarumhverfi (LAN512M)

Í námskeiðinu er fjallað um helstu kenningar og aðferðir borgarlandfræði og borgarhönnunar við greiningu á lífi og umhverfi í borgum, með áherslu á bæjarrými, nærumhverfið og hverfi innan borga og bæja.

Fjallað er um sögulega þróun borga frá upphafi borgamyndunar til okkar daga. Þá er fjallað um helstu viðfangsefni borgarlandfræði og borgarhönnunar við greiningu og stefnumótun um borgir og borgarumhverfi, svo sem um ólíka félagshópa og búsetu, atvinnu og samgöngur í borg, upplifun og gæði bæjarrýma, list og menningu í bæjarrýmum, náttúruna í borginni og mörkun staða. Einnig um áskoranir borga á okkar samtíma, svo sem tengt loftslagsmálum, sjálfbærni og fjórðu iðnbyltingunni.

Fyrirlestrar, umræðutímar og verkefnavinna. Einstaklings- og hópverkefni.

X

Inngangur að ferðamálafræði (FER101G)

Kynnt eru helstu viðfangsefni, hugtök og kenningar ferðamálafræða. Fjallað er um samfélagslegar orsakir ferðamennsku og áhrif ferðamennsku á umhverfi, samfélag og hagkerfi. Fjallað er um upphaf og þróun ferðamennsku og ferðalaga og hvert straumar ferðamanna liggja. Stúdentar þurfa að standast alla prófþætti námskeiðsins.

X

Menningartengd ferðaþjónusta (FER507G)

Í námskeiðinu verður hugað að þýðingu og skilgreiningu hugtaksins menningar í menningartengdri ferðaþjónustu með sérstöku tilliti til framsetningar og miðlunar ímynda og menningar á mismunandi vettvangi. Velt verður upp pólitískum og siðferðilegum spurningum hvað varðar söfnun, framsetningu og miðlun menningar í mismunandi samhengi og á mismunandi vettvangi, erlendis og hérlendis. Einnig verða skoðuð tengsl ferðaþjónustu við skapandi greinar. Spurningum varðandi eignarhald á menningararfleifð verða íhugaðar svo og í höndum hvers það að skapa menningararfleifð er.

Vettvangstímar fara fram innan höfuðborgarsvæðisins.

X

Skipulag og stefnumótun í ferðamennsku (FER510G)

Viðfangsefni þessa námskeiðs er skipulagning og stefnumótun í ferðamennsku út frá umhverfis-, félags- og efnahaglegum þáttum. Í víðum skilningi snerta skipulagsmál alla þætti ferðamennsku. Nemendur læra um hugmyndafræðilegar forsendur skipulagsvinnu, sögulega þróun stefnumótunar á Íslandi og á alþjóðlegum vettvangi með sérstakri áherslu á sjálfbæra þróun og Heimsmarkmið Sameinuðu Þjóðanna. Í námskeiðinu fá nemendur í hendur verkfæri til að lýsa, greina og meta forsendur, mótun og innleiðingu skipulags- og stefnumótunarvinnu í ferðaþjónustu þar sem lagt er upp úr að brúa milli fræðilegrar umræðu og hagnýtingar. Kennsla byggir á virkri þátttöku nemenda og námsmat reynir bæði á sjálfsstæði nemenda og hæfni þeirra til að vinna saman.

Vettvangstímar fara fram innan höfuðborgarsvæðisins.

X

Eldfjallafræði (JAR514M)

Eldgos eru eitt þeirra meginferla sem skapar og mótar svipmót jarðar. Eldgos geta leitt af sér hamfarir og valdið verulegu tjóni á mannvirkjum. Kvikugösin sem rísa upp frá eldspúandi gígunum viðhalda andrúmslofti jarðar, sem og hafa veruleg áhrif á eiginleika andrúmsloftsins og loftstrauma þess. Kvikuvirkni neðanjarðar, og í sumum tilfellum eldvirknin ofan jarðar, hefur myndað beint eða óbeint stóran hluta að þeim málmum sem við nemum úr jörðu. Þannig að fyrirbærið eldgos hefur bein og óbein áhrif á mannkynið sem og tengsl við margar af undirgreinum jarðvísindanna. Af þeim sökum er grunnskilningur á því hvernig eldfjöll og eldstöðvakerfi virka og framlag eldvirkninar til hringrásaferla jarðar góð undirstaða fyrir alla nemendur í jarðvísindum.

Í þessu námskeiði verður farið í grunnatriði eldfjallafræðinnar; ferðalag kviku upptakastað til yfirborðs og almenn ferli sem stjórna eldvirkni á yfirborði og dreifingu gosefna. Fjallað verður líka um grunnatriði eldgosavár og hnattrænna áhrifa eldgosa.

Verklegar æfingar eru vikulega og beinast að því að leysa vandamál með útreikningum, greiningu gagna og rökstuðningi. Ein vettvangsferð á Reykjanes.

X

Verkleg efnafræði L (EFN113G)

Mólrúmmál loftkenndra efna, Efnafræðileg varmafræði, Vermi hvarfa og lögmál Hess, Hraði efnahvarfa, niðurbrot vetnisperoxíðs, Le Chatelier, ákvörðun jafnvægisfasta með ljósgleypnimælingum, ákvörðun jónunarfasta sýru.

 Skyldumæting er í öryggisfyrirlestur í fyrstu kennsluvikunni.

X

Almenn efnafræði L (EFN112G)

Almenn og sérhæfð atriði um efnatengi og sameindabyggingu. Efnahvörf. Lofttegundir, vökvar, föst efni og lausnir. Varma- og hraðafræði efnahvarfa. Efnajafnvægi: sýru-basa, fellingar-, komplex- og afoxunar. Rafefnafræði og kjarnefnafræði.

X

Eðlisfræði B (EÐL101G)

Markmið þessa námskeiðs er að styrkja og breikka undirstöðuþekkingu nemenda á eðlisfræði þannig að þeir geti; a) sett fram og notað einföld líkön til að lýsa náttúrufyrirbærum, b) aflað sér frekari þekkingar þegar beita þarf eðlisfræði, c) lesið úr stærðfræðilegri lýsingu á náttúrulegum ferlum.

Námsefni: Aflfræði með áherslu á vinnu og orku, snúningshreyfingu og sveiflur. Vökvar. Varmafræði og varmaskipti. Hljóð og hljóðbylgjur. Rafkraftar, raf- og segulsvið.

Í verklegu æfingum kynnast nemendur ýmis konar búnaði, m.a. sveiflusjám, fjölmælum og litrófsgreini. Áhersla er lögð á þjálfun vinnulags við gagnasöfnun og gagnameðferð.

Námskeiðið er kennt á íslensku og ensku samkvæmt þörfum nemenda.

X

Grasafræði (LÍF102G)

Plöntur sem lífverur. Bygging og starfsemi plöntufrumna. Ljóstillífun. Innri og ytri bygging plantna, vöxtur og æxlun. Ættliðaskipti, þróun, lífsferlar og einkenni helstu hópa plantna. Fjallað verður um mosa og útdauðar og núlifandi æðplöntur en mest áhersla lögð á blómplöntur. Þróun og gerð fræja, blóma og aldina. Helstu lífbelti jarðar. Gróður á Íslandi.

Verklegar æfingar: Dæmi skoðuð af ytri og innri byggingu plantna úr helstu hópum. Frumu- og vefjagerðir, fræ, blóm og aldin. Áhrif umhverfis á ytri og innri gerð plantna.

Próf: Verklegt (20%) og skriflegt próf (80% heildareinkunnar). Lágmarkseinkunnar er krafist í báðum prófhlutum.

X

Vistfræði (LÍF311G)

Fyrirlestrar: Inngangur. Þróun. Atferli. Söguleg og vistfræðileg líflandafræði. Stofnar: Dreifing einstaklinga, fæðingartölur, dánartölur, aldursdreifing, líftöflur, vöxtur stofna, stjórnun stofnstærðar, stofnsveiflur, far. Samspil tegunda: Samkeppni, afrán, aðrar samskiptagerðir. Nýting stofna. Stjórnun skaðlegra stofna. Samfélög: Lýsing, tegundasamsetning, tegundafjölbreytni, fæðuvefir, stöðugleiki, framvinda. Vistkerfi: Hringrás efna, orkurás, framleiðni, næringarkeðjur, neysluþrep, vistfræðileg nýtni. Vistfræði þurrlendis, sjávar og fersks vatns; kynning á íslenskum vistkerfum.

Verklegar æfingar: Æfingar fara fram á rannsóknarstofu og úti við, eftir því sem aðstæður leyfa. Lögð er áhersla á beitingu vísindalegrar aðferðar í vistfræði, breytileika og meðferð gagna. Gerðar eru m.a. athuganir á stofnvexti bifdýrastofna, athuganir á gróðri og dýralífi þurrlendis, á beltaskiptingu í fjöru og á straumvatni.  Mætingarskylda: í allar verklegar æfingar. 

Námsmat: Verklegar æfingar og málstofur vega 50% af lokaeinkunn, þar af ein viðameiri skýrsla sem kynna á munnlega. Tíu skriflegar æfingar gilda 50%. Lágmarkseinkunnar er krafist úr öllum námshlutum.

X

Umhverfisfræði (LÍF516M)

Landnýting. Ólífrænar auðlindir, nýting og umhverfisáhrif. Sjálfbær þróun. Líffræðileg fjölbreytni í tíma og rúmi. Eyðing búsvæða, útdauði og válistar. Ágengar tegundir. Jarðvegur og eyðimerkurmyndun. Verndun landslags og víðerna. Siðfræði og saga náttúruverndar, íslensk náttúruverndarlöggjöf. Hagnýting vistfræðilegrar þekkingar til að leysa umhverfisvandamál, vistheimt, mat á umhverfisáhrifum framkvæmda, rammaáætlun um vernd og nýtingu náttúrusvæða. Hnattrænar loftslagsbreytingar. Ein dagsferð á laugardegi í september. Nemendafyrirlestrar.

X

Áfangastaðurinn Ísland (FER209G)

Markmið námskeiðsins er að veita nemendum undirstöðuþekkingu á ferðamannalandinu Íslandi og helstu áfangastöðum og ferðaleiðum sem þar er að finna. Jafnframt er leitast við að veita nemendum hagnýta þjálfun til að þeir geti skipulagt ferðir um landið og notað til þess aðgengilegar aðferðir kortagerðar og unnið með með einfaldar landupplýsingar. Ferðaleiðir verða skoðaðar með tilliti til aðdráttarafls þeirra, afþreyingarmöguleika og upplifunar ferðamanna. Dregið verður saman það helsta um hverja leið með tilliti til samfélags þess svæðis sem ferðast er um, náttúru, sögu og menningu.

Sérstök áhersla verður lögð á þjálfun í:

  • Að afla gagna til að skipuleggja ferðir um Ísland fyrir ólíka hópa ferðamanna.
  • Miðlun upplýsinga til ferðamanna og pistlagerð.
  • Rýmistengdri hugsun og notkun landfræðilegra upplýsinga við skipulagningu ferða.

Farið verður sýndarferðalög víðsvegar um landið. 

X

Starfsþjálfun í landfræði og ferðamálafræði (LAN018G)

Markmið starfsþjálfunar er að nemendur kynnist störfum sem tengjast landfræði og/eða ferðamálafræði og hljóti þjálfun í þeim undir faglegri handleiðslu reyndra stjórnenda hjá fyrirtækjum eða opinberum stofnunum. Verkefni nemenda eru fjölbreytt og liggja á sviði umhverfismála, sjálfbærni, markaðsmála, skipulagsvinnu, kortagerðar, gagnagreiningar og úrvinnslu, nýsköpunar, þjónustustjórnunar, ferðahönnunar og áætlunargerðar svo eitthvað sé nefnt. Verkefni nemenda skulu þannig reyna á þá þekkingu og færni sem þeir hafa þegar aflað sér í grunnnámi í landfræði eða ferðamálafræði.

Starfstími er 150 klst. (6 ECTS) og skal starfsþjálfun lokið innan 12 vikna frá því að hún hófst. Að auki er gert ráð fyrir viðbótartíma sem felst í dagbókar- og skýrsluskrifum. Lokaafurð starfsþjálfunar skal skilgreina í náms- og starfsmarkmiðum í samráði við umsjónarkennara og forsjáraðila fyrirtækis/stofnunar.

 

Í lok starfstímans skal skila til umsjónarkennara:

  • Lokaskýrslu nemanda (skv. skilgreiningu í verkefnislýsingu).
  • Dagbók sem nemandi hefur haldið meðan á starfsþjálfun stóð. Dagbókin skal fela í sér vikulegt yfirlit þar sem fram kemur hver verkefni vikunnar voru og hve miklum tíma var varið í einstök verkefni.
  • Staðfesting umsjónarmanns á ástundun nemanda og verkefnavinnu í lok starfsþjálfunar.

Umsjónarkennari skal yfirfara skýrslu og dagbók nemanda svo og staðfestingu umsjónarmanns fyrirtækis/stofnunar.

Einkunn er gefin sem staðist/fallið og ekki er gefin töluleg einkunn.

ATH: Nemendur geta ekki skráð sig sjálfir í þetta námskeið heldur eru þeir skráðir í námskeiðið þegar þeir hafa tryggt sér starfsþjálfunarstöðu hjá fyrirtæki eða stofnun.

Allar starfsþjálfunarstöður verða auglýstar sérstaklega á Tengslatorgi (www.tengslatorg.hi.is ) í upphafi hvers kennslumisseris og nemendur sækja sérstaklega um að komast í starfsþjálfun.  Umsókn ásamt ferilskrá og kynningarbréfi, þar sem nemendur tilgreina hvers vegna þeir hafa áhuga á að komast í starfsþjálfun hjá viðkomandi fyrirtæki skal senda á von-starfsthjalfun@hi.is

X

Listin að ferðast (LAN205G)

Þetta námskeið fjallar um mismunandi tegundir ferðamennsku og birtingarmyndir ferðaþjónustu á ólíkum svæðum. Námskeiðið skoðar tiltekna strauma ferðamennsku eins og massaferðamennsku, fátækraferðamennsku og bakpokaferðamennsku ásamt því að kynna kenningar um drifkrafta ferðalaga. Umfjöllunin er tengd ákveðnum landsvæðum og sett í samhengi við samfélagslega þróun þeirra. Þannig er lögð áhersla lögð á að veita innsýn í landfræðilegt samhengi ferðaþjónustu í heiminum í dag ásamt þeim álitamálum og úrlausnarefnum sem ferðamennska á við að etja á ólíkum stöðum.

X

Námsferð til útlanda (LAN615G)

Vettvangsnámskeið í landfræði og ferðamálafræði, sem að felur í sér undirbúningstíma á misserinu og um tíu daga vettvangsferð eftir próf í maí. Nemendur bera kostnað af þátttöku í vettvangsferðinni.

Vettvangsferð til Western Cape héraðs í Suður-Afríku, í samstarfi við Landfræði- og umhverfisdeild Stellenbosch háskóla, þar sem ferðamennska er einnig meðal viðfangsefna í rannsóknum kennara. Sambærileg námsferð var farin árið 2019 og 2023. 

X

Landfræðileg upplýsingakerfi 2 (LAN617G)

Námskeiðið er verkefnamiðað,nemendur vinna sjálfstætt að verkefnum undir leiðsögn kennara. Leiðsögn kennara felst einkum í tæknilegri og fræðilegri úrfærslu verkefna út frá landupplýsingafræðilegu (LUK) sjónarhorni. Stærri hluta af önninni vinna nemendur sín eigin verkefni, oft í tengslum við lokaverkefni (BS). Verkefni nemenda geta verið úr hvaða vísindagrein sem er, en með LUK sjónarhorn sem þarf að leysa.

Efni námskeiðsins: Hnit og varpanir. Landræn fyrirbæri, eigindi og gagnagrunnar, grannfræði og landræn svið. Landrænar greiningar og brúanir, framsetning og miðlun landrænna gagna, 3D. Lýsigögn og varðveisla. Opinn hugbúnaður.

Áfanginn er próflaus en einkunn verður gefin fyrir lokaskýrslu og minni verkefni. Í upphafi annar þurfa nemendur að hafa á reiðum höndum lýsingu á verkefninu sem þeir ætla að vinna að ásamt mati á þeim landfræðilegum gögnum sem þarf til verksins.

X

Landslag og orkumál (LAN621G)

Kennt annað hvert ár þegar ártal er slétt tala.

Landslagshugtakið er skoðað á gagnrýninn hátt út frá sjónarhorni mannvistarlandfræði. Breytingar á landnýtingu, orsakir þeirra og afleiðingar fyrir landslag eru ræddar. Sérstök áhersla verður lögð á vinnslu, flutning og nýtingu endurnýjanlegrar orku og landslagsáhrif mismunandi tegunda slíkrar orku. Greind eru dæmi um átök vegna ólíkra hagsmuna og/eða sýnar á náttúruna í tengslum við endurnýjanlega orku. Samspil orkuvinnslu, ferðaþjónustu og friðlýsingar svæða á Íslandi verður skoðað með tilliti til landslags. Einnig er rætt hvernig ákvarðanir um orkunýtingu eru teknar og að hve miklu leyti sjónarmið almennings koma við sögu.

Farin er vettvangsferð til að skoða núverandi og áformuð orkuvinnslusvæði.

X

Friðlýst svæði, landvarsla og stjórnun (LAN622G)

Markmið námskeiðsins er að efla þekkingu nemenda á grundvallarþáttum náttúruverndar, og hlutverki stjórnunar og skipulags í náttúruvernd hér á landi með tilliti til ferðamennsku innan friðlýstra svæða. Áhersla verður lögð á samspil verndunar og ferðamennsku, með sérstakri áherslu á líffræðilega og jarðfræðilega fjölbreytni. Farið yfir helstu álitamál um landnýtingu og náttúruvernd, sem og helstu ákvæði friðlýsingar og náttúruverndarlaga. Jafnframt verður skipulag ferðamennsku innan friðlýstra svæða rædd ásamt öryggismálum ferðamannastaða í náttúru Íslands. Kennd verða grundvallaratriði umhverfistúlkunar og leiðsagnar um náttúrusvæði. Nemendur munu enn fremur fá hagnýta reynslu í umhverfistúlkun og landvörslu og þar með talið móttöku gesta og þjónustuhlutverk landvarða.

Farnar verða fjórar vettvangsferðir á námskeiðstímanum. Ferðir og uppihald kosta nemendur sjálfir. Til að ljúka námskeiðinu þurfa nemendur að mæta í allar ferðirnar.

Námskeiðið er unnið í samvinnu við Umhverfisstofnun. Lokapróf í námskeiðinu, ásamt BS prófi í jarðfræði, líffræði, landfræði eða ferðamálafræði, veitir starfsréttindi Umhverfisstofnunar sem landvörður.

X

Uppbygging fyrirtækja og starfshæfni í ferðaþjónustu (FER208G)

Viðfangsefni námskeiðsins snýr að stjórnun og uppbyggingu þjónustu og innra gæðastarfs hjá ferðaþjónustufyrirtækjum og stofnunum. Fjallað verður um hvernig þessi atriði hafa bein og / eða óbein áhrif á árangur fyrirtækja og stofnanna, sem meta má á fjölbreyttan hátt. Nemendur vinna að raunverkefni með fyrirtæki að eigin vali, þar sem innri starfsþættir og uppbygging fyrirtækis eru greind. Hluti námskeiðsins er helgaður starfsþróun, þar sem gefin er innsýn í störf á ferðaþjónustumarkaði og nemendur taka fyrstu skrefin í uppbyggingu ferilskrár og starfsferilmöppu.   

X

Kenningar í ferðamálafræði (FER409G)

Á áttunda áratugnum byrjuðu fræðimenn að velta fyrir sér tilgangi, þróun og mikilvægi ferðamennsku í heiminum. Spurningar eins og „hver er ferðamaður?“, „hver er tilgangur þess að ferðast?“ og „hvað skilgreinir ferðalög?“ voru algengar framan af og enn þann dag í dag velta fræðimenn upp þessum sömu spurningum, þó með breyttum áherslum í síbreytilegum félagslegum og pólitískum aðstæðum.

Þessi áfangi leggur áherslu á helstu kenningar ferðamálafræðinnar og gefur innsýn í ólíkar nálganir og áherslur fræðanna. Krafa verður gerð á nemendur um að þeir velti fyrir sér mismunandi áherslum fræðimanna og setji fram eigin rannsóknarspurningar og móti hugsanlegar nálganir hvað varðar uppsetningu verkefnis í ferðamálafræðum.

X

Landvistkerfi (LÍF660M)

Fjallað verður um eftirfarandi efni:

Fæðuvefir og samfélög landvistkerfa bæði ofanjarðar og neðan. Hlutverk lífvera og annarra þátta við mótun búsvæða á landi. Samband líffræðilegrar fjölbreytni og vistkerfisferla, m.a. frumframleiðslu og hringrás næringarefna. Áhrif einstakra lífveruhópa og eiginleika þeirra, einkum plantna og grasbíta, á vistkerfisferla, stöðugleika og þanþol vistkerfa. Áhrif loftslagsbreytinga og landnýtingar á vistkerfi, með áherslu á norðurslóðir. Sérstaða íslenskara vistkerfa. Endurheimt hruninna og hnignaðra vistkerfa. Helstu aðferðir við rannsóknir á landvistkerfum.

X

Örverufræði (LÍF201G)

Í námskeiðinu kynnast nemendur þeim hluta lífheimsins sem er almennt ekki sjáanlegur með berum augum.  Þeir fá tækifæri til að öðlast grundvallar þekkingu á eiginleikum baktería, arkea, veira og heilkjarna örvera.  Í námskeiðinu verður m.a. annars fjallað um hvernig örverur eru undirstaða lífs á jörðinni, hlutverk þeirra í vistkerfum, hvernig sumar þeirra valda sjúkdómum eða eru mikilvægar í rannsóknum og iðnaði.  Nemendur fá innsýn í störf örverufræðinga og verklega þjálfun sem er nauðsynleg fyrir hvers kyns störf á rannsóknarstofum

X

Gróðurríki Íslands og jarðvegur (LÍF615M)

Kennt á móti LÍF 606M og ráða skráningar hvort námskeiðið er kennt. Íslenska háplöntuflóran; samsetning, fjölbreytni, staða í flóruríki jarðar. Heimskautaflóran: uppruni, kerfisfræði, vistfræði. Líflandafræði flórunnar við Norður Atlantshaf. Ísöld á norðurhveli, ísaldarlok á Íslandi og í Evrópu og gróðursaga á nútíma. Tilgátur um aldur og uppruna íslensku flórunnar og heimskautaflóru á norðurhveli. Íslenskur jarðvegur; myndun, sérkenni, eyðimerkurmyndun. Gróðurbreytingar eftir landnám. Flóra Íslands og útbreiðsla um landið, búsvæði og líffræðileg fjölbreytni. Válistategundir. Aðferðir til að lýsa og flokka gróður. Íslensk gróðurlendi: flokkun, útbreiðsla, umhverfi og nýting. Verkleg kennsla fer að hluta til fram að sumari til: 4 daga sumarnámskeið.

X

Fornvistfræði (FOR405G)

Námskeiðið skiptist í þrjá hluta: 1. Almennur inngangur að fornvistfræði, markmiðum hennar og notagildi. 2. Aðferðir fornvistfræðinnar þ.m.t. sýnatökutækni, aldursgreiningar, greining lífveruleifa og túlkunarmöguleikar. 3. Rannsóknarvettvangur fornvistfræðinnar (land, ferskvatn, sjór, andrúmsloft, bólstaðir og menningarlandslag). Fjallað er með dæmum um rannsóknarspurningar sem svarað er með fornvistfræðilegum aðferðum. Kennsla fer fram með fyrirlestrum og verklegum æfingum. Æfingar fara fram í kennslustofu, en farinn verður einn borleiðangur í nærliggjandi stöðuvatn.

X

Efnismenning og samfélag: Hlutirnir, heimilið, líkaminn (ÞJÓ205G)

Í námskeiðinu verður efnisleg hversdagsmenning tekin til gagngerrar umfjöllunar. Gefið verður yfirlit yfir þetta þverfaglega rannsóknarsvið og rýnt jöfnum höndum í dæmi úr samtímanum og frá fyrri tíð, íslensk og erlend. Meðal annars verður fjallað um föt og tísku, matarhætti, hlutina sem umkringja okkur í daglega lífinu, rusl og hreinlæti, handverk og neyslumenningu, hús og garða, heimilið, borgarlandslag, söfn og sýningar. Um leið kynnast nemendur ýmsum kenningum og sjónarhornum sem leggja t.a.m. áherslu á mannslíkamann, kyngervi, neyslu, rými og stað.

Öll fög eru skyldufög nemaVValfagBBundið val er háð skilyrðum ENámskeiðið er ekki kennt á misserinuNámsleiðin í Kennsluskrá

Hvað segja nemendur?

Erla Diljá Sæmundardóttir
Lísbet Perla Gestsdóttir
Erla Diljá Sæmundardóttir
Nemandi í landfræði

Landfræði er þverfaglegt, persónulegt, fjölbreytt og skemmtilegt nám sem sameinar áhuga minn á náttúru og fólki fullkomlega. Ég gæti ekki hugsað mér að vera í neinu öðru námi og svo skemmir ekki fyrir að félagslífið er frábært. Fjöldi valáfanga gefur nemendum svo rými og tækifæri til þess að finna út hvar þeirra áhugasvið liggur, dýpka þekkingu sína á ákveðnu sviði eða prófa ólíka en áhugaverða áfanga. Námið gefur góða yfirsýn yfir fjölbreytt málefni en kennarar leggja sig alla fram við að tengja námsefnið við það sem er í gangi í samfélaginu hverju sinni. Gott samband er á milli nemenda og kennara en þau eru alltaf til í að hjálpa og gefa góðar ráðleggingar.

Lísbet Perla Gestsdóttir
Nemandi í landfræði

Ég valdi landfræði vegna þess hve þverfaglegt námið og gefur góðan og víðan grunn hvort sem er fyrir áframhaldandi nám eða atvinnulífið. Það sem heillaði mig mest var að námið er samsett af fjölþættum áföngum sem snúa bæði að umhverfi og náttúru ásamt fjölbreytileika mannlegs samfélags. Það sem gerir námið ekki síður skemmtilegt er mismunandi reynsla og skoðanir bæði samnemenda og kennara sem gera það að verkum að maður lærir eitthvað nýtt á hverjum degi.

Hafðu samband

Nemendaþjónusta VoN
s. 525 4466 - ​nemvon@hi.is
Opið virka daga frá 09:00-15:30

Einnig er hægt að hafa samband í gegnum netspjall hér á síðunni (í samræmi við þjónustutíma)

​Tæknigarður - Dunhaga 5, 107 Reykjavík
Askja - Sturlugata 7, 102 Reykjavík

Fylgstu með Verkfræði- og náttúruvísindasviði:

""

Hjálplegt efni

Ertu með fleiri spurningar? Hér finnurðu svör við ýmsum þeirra og upplýsingar um ýmislegt annað sem gott er að hafa í huga þegar þú velur nám.