Skip to main content

Iðnaðarverkfræði

Iðnaðarverkfræði

Verkfræði- og náttúruvísindasvið

Iðnaðarverkfræði

BS gráða – 180 einingar

Iðnaðarverkfræði er kerfisbundin nálgun við að leysa vandamál í víðasta samhengi. Námið byggir upp hæfni til að gera þetta með aðstoð vísindalegra aðferða.

Lögð er áhersla á nýsköpun og eru nemendur hvattir til að huga að samhengi verkfræði og tölvutækni við umhverfi, markað og samfélag.
Námið hentar þeim sem finnst gaman að starfa með fólki og hafa einnig gott vald á tækni og raungreinum.

Skipulag náms

X

Eðlisfræði 1 V (EÐL102G)

Markmið: Að kynna nemendum aðferðir og grundvallarlögmál aflfræði, stöðufræði og bylgjufræði til þeirrar hlítar að þeir geti beitt þeim við lausn dæma. Námskeiðinu er m.a. ætlað að vera undirstaða í þessum greinum fyrir frekara nám í verkfræði.

Námsefni: Hugtök, einingar, tölur, víddir. Vigrar. Gangfræði. Hreyfifræði agna, tregða, kraftar og lögmál Newtons. Núningur. Vinna og orka og varðveisla orkunnar. Skriðþungi, árekstrar. Agnakerfi, massamiðja. Snúningur stjarfhlutar. Hverfiþungi og hverfitregða. Stöðufræði. Þyngd. Storka og straumefni, jafna Bernoullis. Sveiflur: Hreinar, deyfðar og þvingaðar. Bylgjur. Hljóð.

Verklegt: Gerðar eru 3 verklegar æfingar þar sem viðfangsefnin eru einkum sótt í aflfræði og áhersla lögð á að kynna nemendum verklag við gagnasöfnun og úrvinnslu gagna.  Nemendur skila vinnubókum fyrir verklegu æfingarnar og fá einkunn.

Athugið að kennslubókin er aðgengileg nemendum í gegnum Canvas án endurgjalds.

X

Tæknistjórnun (IÐN103G)

Tilgangur námskeiðsins er að undirbúa nemendur undir störf í tæknifyrirtækjum og tæknimiðuðum skipuheildum. Farið verður í helstu þætti í reksti fyrirtækja og annarra skipuheilda og fjallað um hlutverk verkfræðinga og áskoranir sem þeir standa frammi fyrir. Nemendur kynnast greiningaraðferðum sem notaðar eru við ákvarðantöku, túlka niðurstöður þeirra og miðla munnlega og skriflega.

X

Stærðfræðigreining I (STÆ104G)

Þetta er grunnnámskeið um stærðfræðigreiningu í einni breytistærð. Æskilegur undirbúningur er að nemendur hafi lokið námskeiðum á framhaldsskólastigi sem fjalla um algebru, rúmfræði, hornaföll, diffrun og heildun. Námskeiðið leggur grunn að skilningi á greinum á borð við náttúrufræði, verkfræði, hagfræði og tölvunarfræði. Umfjöllunarefni námskeiðsins eru meðal annars:

  • Rauntölur.
  • Markgildi og samfelld föll.
  • Deildanleg föll, reglur um afleiður, hærri afleiður, hagnýtingar deildareiknings (útgildisverkefni, línuleg nálgun).
  • Torræð föll.
  • Meðalgildissetning, setningar l'Hôpitals og Taylors.
  • Heildun, ákveðin heildi og reiknireglur fyrir þau, stofnföll, óeiginleg heildi.
  • Undirstöðusetning stærðfræðigreiningarinnar.
  • Hagnýtingar heildareiknings: Bogalengd, flatarmál, rúmmál, þungamiðjur.
  • Venjulegar afleiðujöfnur: fyrsta stigs línulegar diffurjöfnur, annars stigs línulegar diffurjöfnur með fastastuðlum.
  • Runur og raðir, samleitnipróf.
  • Veldaraðir, Taylor-raðir.
X

Línuleg algebra (STÆ107G)

Einingar til BS-prófs gilda aðeins fyrir annaðhvort REI201G  Stærðfræði og reiknifræði eða STÆ107G Línuleg algebra.

Fjallað er um undirstöðuatriði línulegar algebru yfir rauntölurnar.

Viðfangsefni: Línuleg jöfnuhneppi,fylkjareikningur, Gauss-Jordan aðferð.  Vigurrúm og hlutrúm þeirra.  Línulega óháð hlutmengi, grunnar og vídd.  Línulegar varpanir, myndrúm og kjarni.  Depilfargfeldið, lengd og horn.  Rúmmál í margvíðu hnitarúmi og krossfeldi í þrívíðu.  Flatneskjur, stikaframsetning og fólgin framsetning.  Hornrétt ofanvörp og einingaréttir grunnar.  Aðferð Grams og Schmidts.  Ákveður og andhverfur fylkja.  Eigingildi, eiginvigrar og hornalínugerningur.

X

Tölvunarfræði 1 (TÖL101G)

Einingar til BS-prófs gilda aðeins fyrir annaðhvort TÖL101G Tölvunarfræði 1 eða TÖL105G Tölvunarfræði 1a.

Forritunarmálið Java verður notað til að kynnast grundvallaratriðum í tölvuforritun. Æfingar í forritasmíð verða á dagskrá allt misserið. Áhersla verður lögð á skipulegar og rökstuddar aðferðir við smíði forrita og góða innri skjölun. Helstu hugtök tengd tölvum og forritun. Klasar, hlutir og aðferðir. Stýrisetningar. Strengir og fylki, aðgerðir og innbyggð föll. Inntaks- og úttaksaðgerðir. Erfðir. Hugtök varðandi hönnun og byggingu kerfa og vinnubrögð við forritun. Ítrun og endurkvæmni. Röðun og leit.

X

Aðgerðir í skipuheildum (IÐN201G)

Markmiðið með námskeiðinu er að undirbúa nemendur í að nálgast skipuheildir sem röð af aðgerðum.  Farið verður í hvernig lýsa megi skipuheildum sem safni af aðgerðum sem framkvæma virðisaukandi verk.  Fyrirtæki verða heimsókn og þeim lýst af nemendum.  Farið verður í aðferðir til að lýsa aðgerðum, greina aðgerðir og setja fram aðgerðayfirlit. Nemendur kynnast greiningaraðferðum sem notaðar eru við lýsingu og greiningu aðgerða, túlka niðurstöður þeirra og miðla munnlega og skriflega.

X

Verkfræðileg framsetning (IÐN202G)

Í námskeiðinu er farið yfir grunnaðferðir teiknifræðinnar.  Markmiðið er að nemendur öðlist fræðilega undirstöðu, færni í lestri teikninga og miðlun upplýsinga með teikningum. Áhersla er lögð á tengsl milli rúmfræði 3-víðra hluta og 2-víðra varpanna af þeim. Ennfremur er farið yfir framsetningu upplýsinga í máli og myndum þannig að nemendur öðlist þekkingu og færni í að ganga frá teikningum og texta í samræmi við kröfulýsingu. Við lausn verkefna er stuðst við teikniforritið AutoCAD.

X

Líkindareikningur og tölfræði (STÆ203G)

Grundvallarhugtök í líkindafræði og tölfræði, stærðfræðileg undirstaða þeirra og beiting með tölfræðihugbúnaðinum R. 

  • Líkindi, slembistærðir og væntigildi þeirra
  • Mikilvægar líkindadreifingar
  • Úrtök, lýsistærðir og úrtaksdreifing lýsistærða
  • Metlar og öryggisbil
  • Hugmyndafræði tilgátuprófa
  • Mikilvæg tilgátupróf
  • Línuleg aðhvarfsgreining

X

Stærðfræðigreining II (STÆ205G)

Í námskeiðinu er fengist við stærðfræðigreiningu falla af mörgum breytistærðum. Helstu hugtök sem koma vip sögu eru:

Opin mengi og lokuð. Varpanir, markgildi og samfelldni. Deildanlegar varpanir, hlutafleiður og keðjuregla. Jacobi-fylki. Stiglar og stefnuafleiður. Blandaðar hlutafleiður. Ferlar. Vigursvið og streymi. Sívalningshnit og kúluhnit. Taylor-margliður. Útgildi og flokkun stöðupunkta. Skilyrt útgildi. Fólgin föll og staðbundnar andhverfur. Ferilheildi, stofnföll. Heildun falla af tveimur breytistærðum. Óeiginleg heildi. Setning Greens. Einfaldlega samanhangandi svæði. Breytuskipti í tvöföldu heildi. Margföld heildi. Breytuskipti í margföldu heildi. Heildun á flötum. Flatarheildi vigursviðs. Setningar Stokes og Gauss.

X

Tölvunarfræði 2 (TÖL203G)

Fjallað er um gagnaskipan, reiknirit og huglæg gagnatög. Meðal gagnaskipana, sem farið er yfir, eru listar, hlaðar, biðraðir, forgangsbiðraðir, tré, tvítré, tvíleitartré og hrúgur auk viðkomandi reiknirita. Kynnt verða ýmis leitar- og röðunarreiknirit. Reiknirit eru greind, hvað þau taka langan tíma í vinnslu og hve mikið minnisrými. Lítil forritunarverkefni, sem nota áðurnefnda gagnaskipan og reiknirit, eru leyst í forritunarmálinu Java.

X

Greining ferla og kerfa (IÐN301G)

Markmiðið með námskeiðinu er að undirbúa nemendur í að greina ferla og kerfi. Farið verður í hvernig ferlum er lýst með það að markmiði að greina þá. Farið er í kortun ferla og hvernig uppgötva megi ferla. Farið verður í 3 aðferðir til að uppgötva ferla: staðreyndaleið, viðtalsleið og vinnustofuleið. Þegar ferlar liggja fyrir er hægt að greina þá. Farið er í bæði megindlegar og eigindlegar aðferðir við greiningu ferla. Kynntar verða eigindlegu aðferðirnar virðisgreining, rótargreining og áhættumat. Kynntar verða megindlegu aðferðirnar árangursmælingar, flæðisgreining, biðraðafræði og hermun.

Seinni hluti námskeiðsins fjallar um kerfi og greiningu kerfa. Fjallað verður um hvernig hægt er að lýsa heiminum sem kerfi. Farið verður í aðferðir til að lýsa kerfum eins og orsakarit og birgðir-og-flæði (e. stock and flow).  Í lok námskeiðs verða bæði ferli og kerfi hermd.

X

Upplýsingaverkfræði (IÐN302G)

Tilgangur námskeiðsins er að undirbúa nemendur fyrir nám og störf sem krefjast öflunar, meðhöndlunar, greiningar og framsetningu upplýsinga. Farið verður í grunnatriði stakrænnar stærðfræði (rökfræði, mengi, vensl, net), grunnatriði venslagagnasafna og SQL fyrirspurnamálsins, ásamt grunnatriðum í gagnagreiningu og sjónrænni framsetningu upplýsinga. Nemendur kynnast því hvernig upplýsingaverkfræði nýtist til greiningar á aðgerðum í skipuheildum og einfaldrar viðskiptagreiningar.  

X

Tæknileg kerfi (IÐN303G)

Tilgangur námskeiðsins er að gefa nemendum innsýn í greiningu og hönnun tæknilegra kerfa, þ.e. kerfa sem nýta sér orku, efni og upplýsingar til að ná gefnum markmiðum. Í námskeiðinu verður farið yfir eftirfarandi atriði:

1) Einfaldar rafrásir og notkun þeirra til mælinga á eðlisfræðilegum stærðum, svo sem færslu, þrýstingi, hitastigi og rennsli.

2) Einfalda hreyfla og notkun þeirra til færslu eða stýringar á vélrænum kerfum, t.d. þjörkum.

3) Grunnatriði sjálfvirkrar stýritækni og notkun afturvirkni við stýringar.

4) Notkun örgjörva til mælinga og stýringa á einföldum tæknilegum kerfum.

5) Vinnubrögð við hönnun tæknilegra kerfa, þ.m.t. markmiðssetning, greining, útfærsla, smíði, prófanir og endurbætur.

X

Verkefnastjórnun (IÐN503G)

Í námskeiðinu eru kennd grunnatriði í verkefnastjórnun. Farið verður yfir grunnhugtök, umhverfi og val verkefna, áætlunargerð, eftifylgni, stjórnun verkefnateyma og lok verkefna. Nemendur fá þjálfun í gerð verkefnaáætlana og að takast á við áskoranir við framkvæmd og lok verkefna. Sérstök áhersla er á notkun verkefnastjórnunar við tækninýsköpun í skipuheildum.

X

Stærðfræðigreining III (STÆ302G)

Í námskeiðinu er fjallað undistöðuatriði um tvö svið stærðfræðigreiningar, tvinnfallagreiningu og afleiðujöfnur, með áherslu á hagnýtingu og útreikninga á lausnum.

Viðfangsefni: Tvinntölur og varpanir á svæðum í tvinntalnasléttunni. Föll af einni tvinnbreytistærð. Fáguð föll. Veldisvísisfallið, lograr, rætur og horn. Cauchy-setningin og Cauchy-formúlan. Samleitni í jöfnum mæli. Veldaraðir. Laurent-raðir. Leifareikningur. Hagnýtingar á tvinnfallagreiningu í straumfræði. Venjulegar afleiðujöfnur og afleiðujöfnuhneppi. Línulegar afleiðujöfnur  með fastastuðlum. Ýmsar aðferðir til að reikna út sérlausnir. Green-föll fyrir upphafsgildisverkefni. Línuleg afleiðujöfnuhneppi. Veldisvísisfylkið. Veldaraðalausnir og aðferð Frobeniusar. Laplace-ummyndun og notkun hennar við lausn á afleiðujöfnum. Leifaformúlur fyrir Fourier-myndir og andhverfar Laplace-myndir.

X

Efnis- og orkujafnvægi (EVF401G)

Kynning á ferlum og almennt um efnis- og orkujafnvægi í iðnaðarferlum. Greining á hegðun gastegunda, gas-vökvakerfa og fasajafnvægi. Massa- og orkujafnvægi í kerfum með og án efnahvarfa.

X

Þróun hugbúnaðar (HBV401G)

Í þessu námskeiði stíga nemendur skrefið frá því að forrita sjálfir lítil forrit til að leysa vel skilgreind afmörkuð verkefni yfir í að vinna í hópi með öðrum að gerð stærri forritakerfa sem uppfylla stundum óljósar kröfur viðskiptavina. Námskeiðið fjallar um ýmsar grunnhugmyndir hugbúnaðarverkfræði til að fást við slík stærri kerfi, svo sem lipur hugbúnaðarferli, hugbúnaðarferli byggð á áætlunum, þarfaverkfræði, mat á vinnumagni, hlutbundna greiningu og hönnun, högun hugbúnaðar og þróun byggða á prófunum. Notkun þessara hugtaka er æfð í hópvinnuverkefnum þar sem nemendur þróa kerfi sem eru samsett úr minni þáttum og forrituð í Java.

X

Aðgerðagreining (IÐN401G)

Í námskeiðinu er nemendum kynnt hvernig gera á skipulega mynd af ákvörðunar- og bestunarverkefnum í aðgerðagreiningu.
Að námskeiði loknu eiga nemendur að hafa færni í að setja upp, greina og leysa stærðfræðileg líkön sem standa fyrir raunhæfum verkefnum og hvernig meta eigi lausn þeirra á gagnrýninn hátt. Tekin eru fyrir línuleg bestun og Simplex aðferðin, auk skyld fræðileg efni.
Námskeiðið kynnir auk þess stærðfræðileg líkön fyrir einstök verkefni; flutningsverkefni, úthlutunarverkefni, netverkefni og heiltölubestun. Nemendur kynnast einnig sérhæfðu forritunarmáli við líkangerð fyrir línulega bestun.

X

Vinnusálfræði (IÐN404G)

Tilgangur námskeiðsins er að kynna fyrir nemendum grunnatriði og aðferðir mannauðsstjórnunar. Hagnýt nálgun er tekin með því að sameina atferlisfræði og tæknilegar nálganir við að framkvæma mannauðsaðgerðir eins og: starfsgreiningar, val og ráðningar, frammistöðu og frammistöðumat, hvatningu, starfsskipulag og fleira.

X

Hönnun og framkvæmd tilrauna (IÐN405G)

Tilgangur námskeiðs er að þjálfa verkfræðilega nálgun á tilraunir og tilraunahugsun. Farið er í hönnun tilrauna, framkvæmd þeirra, söfnun gagna og úrvinnsla þeirra með tölfræðilegum aðferðum. Að lokum er farið í hvernig draga megi ályktanir út frá gögnum / upplýsingum við notkun tilrauna við til dæmis vöruhönnun og hönnun og rekstur framleiðslukerfa.

Námsefni: Línuleg og ólínuleg aðhvarfsgreining. Fervika- og þáttagreining. Hönnun tilrauna. Tölfræðilegt gæðaeftirlit. Stikalaus próf sem beita má við úrvinnslu á gögnum. Notkun tölfræðiforrita við lausn á verkefnum.

X

Hagverkfræði (IÐN502G)

Markmið námskeiðsins er að gera nemendur færa um:

1. Að skilja helstu hugtök bókhalds, kostnaðarreiknings og fjárfestingarfræði.

2. Að nota aðferðir til að meta hagkvæmni verktæknilegra kosta.

3. Að gera reiknilíkan til að meta arðsemi fjárfestinga, virði fyrirtækja og verðleggja hlutabréf og skuldabréf.

Meðal námsefnis er  bókhald, kostnaðarreikningar, greining á fjárstreymi, fjárfestingarfræði, mælikvarðar á arðsemi, þar á meðal núvirði og innri vextir, og gerð  arðsemilíkana. Námskeiðinu lýkur með hópverkefnum þar sem nemendur æfa arðsemimat verkefna.

X

Aðgerðagreining 2 (IÐN508M)

Í námskeiðinu er nemendum kynnt hvernig gera á skipulega mynd af ákvörðunar- og bestunarverkefnum í aðgerðagreiningu. Að námskeiði loknu eiga nemendur að hafa færni í að setja upp, greina og leysa stærðfræðileg líkön sem standa fyrir raunhæfum verkefnum og hvernig meta eigi lausn þeirra á gagnrýninn hátt. Tekin er fyrir heiltölu og slembin verkefni (e. Integer Programming and Stochastic Programming). Nemendur kynnast líkangerð með Python.

X

Vöruþróun og hönnun framleiðslukerfa (IÐN509M)

Markmiðið með námskeiðinu er að undirbúa nemendur til þátttöku í vöruþróun og hönnun framleiðslukerfa. Farið verður í vöruþróunarferlið og einstaka þætti þess, með sérstakri áherslu á framleiðanleika og hönnun framleiðslukerfa (flæði, útlagning, efnisflæði og geymslu). Lögð er áhersla á notkun ferla- og kerfisgreininga og reiknilíkana við ákvarðanatöku.

X

Vörustjórnun og umhverfismál (IÐN510M)

Tilgangur námskeiðsins er að fara í gegnum grundvallaratriði lokistik (vörustjórnunar), stjórnun aðfangakeðja og áhrif þeirra á umhverfið. Námskeiðið er í raun þríþætt þar sem byrjað er á að fara í gegnum þá þætti sem snúa að innkaupum á vörum og þjónustu ásamt stjórnun birgða. Því næst er tekið á þeim þáttum sem snúa að flutningum og dreifingu. Að lokum er áhrifum aðfangakeðja á umhverfi gert greinagóð skil og öllum þremur þáttunum steypt saman í eina heild sem styður sjálfbærni.

Námskeiðið er kennt með því fyrirkomulagi að haldnir eru fyrirlestrar til að útskýra fræðilega undirstöðu greinarinnar en til að fá aukinn skilning á einstökum þáttum verða reiknuð dæmi sem skila þarf inn til yfirferðar. Samhliða fyrirlestrum og dæmatímum verður unnið með fyrirtækjaspil í hópum auk þess að spila „The Beer game“ - þar sem þáttakendur leika hlutverk fyrirtækja sem og taka þátt í raunhæfum hlutverkum stjórnenda.

X

Gæðastjórnun (IÐN101M)

Markmið: Nemendur fái skilning á uppruna og þróun gæðastjórnunar og hvernig fyrirtæki og stofnanir geta byggt upp stjórnkerfi á grundvelli alþjóðlegs gæðastjórnunarstaðals. Í námskeiðinu er meðal annars fjallað um gæðahugtakið, innri og ytri viðskiptavini, gæðabrag, umbótaferli, liðsvinnu, gæðakostnað og gæðahringhrás og samhengi gæðastjórnunar og hönnunar og notkun tölfræði í gæðastjórnun. Sérstök áhersla er lögð á umfjöllun um ISO9001 gæðastaðalinn og nemendur fást við hann í hópvinnu með því að skoða kröfur hans í samhengi við starfandi fyrirtæki.

X

Reiknigreind (IÐN102M)

Við hönnun á greind kerfa er þörf fyrir sjálfvirk kerfi sem læra að taka góðar ákvarðanir. Í námskeiðinu er kynnt fyrir nemendum reiknirit sem endurbætast sjálfvirkt með reynslu. Þessi reiknirit þurfa enga leiðsögn aðra en umbun fyrir teknum ákvörðunum. Hugmyndafræði er kölluð styrkingalærdómur (e. reinforcement learning) og er snertiflötur ólíkra fræða; aðgerðgreiningu, gervigreind og stýritækni. Að námskeiði loknu eiga nemendur að hafa færni í að setja upp, greina og leysa stærðfræðileg líkön sem standa fyrir ákvörðunarverkefnum. Tekin eru fyrir Markov-ákvörðunarferli, kvik-bestun, Monte-Carlo aðferðir, ákvörðunarstefnur, áætlanagerð og trjáleit, ásamt djúpum tauganetum. Nemendur kynnast einnig forritunarmálinu Python.

X

Gerð aðgerðaáætlana (IÐN611M)

Tilgangur námskeiðs er að nemendur öðlist skilning á gerð aðgerðaáætlana í bæði framleiðslustjórnun og þjónustu. Nemendur nái valdi á bæði fræðilegum og hagnýtum aðferðum sem notaðar eru við gerð aðgerðaáætlana.  Í framleiðslustjórnunarhluta er fjallað er um gerð spálíkana um eftirspurn, hvernig þau drífa gerð afurðaáætlana (bæði vörur og íhlutir), hvernig verkáætlanir og verkröðun deila auðlindum og hvernig aðgerðaáætlanir eru notaðar til að jafna breytileika.  Í þjónustuáætlunum er fjallað um þjónustustig, notkun aðgerðaáætlana í þjónustu, vaktaáætlanir og fleira.

X

Hönnun þjónustukerfa (IÐN612M)

Tilgangur námskeiðsins er að undirbúa nemendur til þátttöku í hönnun þjónustukerfa. Farið verður í ferli þjónustuhönnunar og einstaka þætti þess, með sérstakri áherslu á þarfagreiningu og hönnun ferla og kerfa til að mæta þörfum viðskiptavina. Lögð er áhersla á fjölbreyttar aðferðir við kortlagninu þarfa (vinnustofur, rannsóknir), skapandi vinnubrögð, notkun frumgerða og innleiðingu.

X

Nýsköpun og gerð viðskiptaáætlana (IÐN202M)

Markmið: Gera nemendur færa um að skilja eðli og ferli nýsköpunar, einkenni og virkjun frumkvæðis og skrifa viðskiptaáætlun fyrir tiltekna hugmynd. Fjallað verður um öll atriði er tengjast gerð viðskiptaáætlana. Þar er einkum um að ræða; hugmyndaleit, hugmyndamat og skilgreining á viðskiptahugmynd (þörf og lausn). Markaðsmál, sölumál og samkeppni varðandi hugmyndina og framsetning eftirpurnarfalls. Tæknin sem lausnin byggir á og tæknileg sérstaða lausnarinnar. Gerð framkvæmdaáætlunar fyrir tæknilega útfærslu lausnarinnar (verk- og tímaáætlun). Vernd hugverka og einkaleyfi. Gerð stofnkostnaðar- og fjármögnunaráætlunar. Gerð fjárhagsáætlana; rekstrar- og greiðsluáætlun ásamt áætlun um efnahagsreikning og arðsemis- og andvirðismat. Útreikningur ýmissa lykiltalna. Umfjöllun um stofnendur, eigendur og stjórnskipulag. Verkefnavinna: Þátttakendur vinna verkefni á grundvelli hugmyndaleitar og hugmyndamats. Verkefnin eru annað hvort sprottin úr hugmyndum þátttakenda eða tengjast starfandi fyrirtækjum. Verkefnin eru unnin í þriggja manna hópum og skila nemendur 4 áfangaskýrslum og verja verkefnin munnlega í lok misseris. Lokaskýrsla skal vera fullmótuð viðskiptaáætlun ásamt arðsemismati og tillögum um hvernig verkefninu skuli hrint í framkvæmd.

X

Hermun (IÐN403M)

Farið er yfir stakræna atburða hermun, tölfræðilega líkanagerð, hönnun hermilíkana, gerð tilrauna, prófanir líkana og túlkun niðurstaðna hermana. Fjallað er um sennileikamat á líkindadreifingum út frá mælingum. Námskeiðið kynnir auk þess fræðin á bak við gerð slembuframkallara og prófun þeirra. Farið er í grunnforritun á hermilíkönum og sérhæfðir hermihugbúnaðir kynntir. Nemendur vinna raunhæft hermiverkefni þar sem áhersla er lögð á hönnun og greiningu á framleiðslukerfi eða þjónustukerfi.

X

Straumlínustjórnun - Virði, sóun og umbótamenning (IÐN601M)

Á námskeiðinu er farið ítarlega í aðferðir straumlínustjórnunar (Lean Management). Markmið Lean er að hámarka virði til viðskiptavina með því að vinna að stöðugum umbótum (Kaizen) á framleiðslu- og þjónustuferli, staðla vinnubrögð og jafna álag á vélar og fólk (Heijunka). Nemendur læra hvernig hægt er að beita aðferðarfræðinni til að hámarka gæði, lágmarka framleiðslutíma og minnka kostnað. Farið er yfir hvernig stöðugt flæði (Just-in-time) styttir framleiðslutímann ásamt því að auðkenna samstundis þau vandamál sem koma upp í ferlinu (Jidoka). Nemendur læra að teikna upp virðisstraum (value stream mapping) fyrir framleiðslu- og þjónustuferli, rótargreiningu vandamála ásamt öðrum þekktum umbótatólum svo sem 5S, Kaizen Blitz, A3, sýnilegri stjórnun, Kanban og SMED. Fjallað verður um fyrirtæki sem hafa tileinkað sér Lean með góðum árangri þar á meðal Toyota, Intel og Nike

X

Viðskiptagreind (IÐN610M)

Viðskiptagreind nær yfir aðferðir og tækni sem fyrirtæki nota til að safna gögnum, túlka þau og nýta við ákvarðanatöku. Í þessu námskeiði er farið út fyrir skýrslur og mælaborð og sýnt hvernig gervigreind er notuð til að öðlast innsýn í starfsemina og útbúa tillögur að úrbótum. Námskeiðið samanstendur af fimm námseiningum: 1) Aðhvarfsgreining og flokkun sem byggir á merktum gögnum, 2) flokkun hálfmerktra og ómerktra gagna á grundvelli þess hversu lík þau eru, 3) greining atburða í ferlum, 4) málvinnsla og 5) gagnasiðfræði. Í hverri námseiningu undirbúa nemendur sig fyrir kennslustundir og vinna saman í teymum við að leysa raunhæf verkefni sem fylgt er eftir með einstaklingsmati.
X

Verkefni (IÐN504G)

Nemendum á þriðja ári er gefinn kostur á að vinna að verkefni sem tengist véla- og/eða iðnaðarverkfræði. Verkefnið er unnið undir umsjón a.m.k. eins fastráðins kennara deildarinnar. Verkefninu lýkur með samningu ritgerðar eða munnlegu prófi, sem metin er til einkunnar.

X

Gervigreind (REI505M)

Fjallað er um hugtök, aðferðir og reiknirit á sviði gervigreindar, með áherslu á studdan og óstuddan lærdóm. Forvinnsla og myndræn framsetning gagna. Mat á gæðum líkana og val á líkönum. Línuleg aðhvarfsgreining, næstu nágrannar, stoðvigravélar, tauganet, ákvarðanatré og safnaðferðir. Djúpur lærdómur. Þyrpingagreining og k-means aðferðin. Nemendur útfæra einföld reiknirit í Python og læra á sérhæfða forritspakka. Námskeiðinu lýkur með hagnýtu verkefni.

X

Hagnýtt línuleg tölfræðilíkön (STÆ312M)

Í námskeiðinu er fjallað um einfalda og fjölvíða aðhvarfsgreiningu ásamt fervikagreiningu (ANOVA) og samvikagreiningu (ANCOVA). Að auki er farið í tvíkosta aðhvarfsgreiningu (binomial regression) og rætt um hugtök því tengt, svo sem gagnlíkindi (odds) og gagnlíkindahlutfall (odds ratio).
Námskeiðið er framhald af dæmigerðu grunnnámskeiði í tölfræði sem kennd eru á hinum ýmsu sviðum skólans. Farið verður í aðferðir til að meta stika í línulegum líkönum, hvernig smíða má öryggisbil og kanna tilgátur fyrir stikana, hverjar forsendur líkananna eru og hvað hægt sé að gera sé þeim ekki fullnægt. Verkefni eru unnin í tölfræðihugbúnaðinum R.

X

Vefforritun 1 (TÖL107G)

Kenndur er grunnur í vefsmíði með áherslu á framenda: HTML, CSS og JavaScript. Staðlar, venjur og það sem þarf til að útbúa góða vefi. Hönnun, útlit og að vinna með hönnunarskjöl. Forritun í túlkaða forritunarmálinu JavaScript, tenging þess við vafra og tól tengdum því. HTTP staðallinn kynntur. Verkefni felast í smíði vefja þar sem nýta skal það sem kennt er.

X

Hönnun og smíði rafknúins kappakstursbíls - hluti A (VÉL503M)

Valnámskeið fyrir BS- og MS-nemendur í verkfræði og raunvísindum.

Markmið:
Að taka þátt í hinu alþjóðlega Formula Student verkefni með því hanna og smíða rafknúinn kappakstursbíl frá grunni með það í huga að taka þátt í alþjóðlegum keppnum háskóla. Bíllinn er af Go-Kart gerð. Kröfur sem gerðar eru til slíks farartækis eru miklar og því mun það veita nemendum víðtæka reynslu af lausnum verkfræðilegra vandamála, sem er meginmarkmið verkefnisins.

Nemendum verður skipt í teymi sem hér segir: Stoðgrind/fjöðrun, vél/drif, rafbúnaður/skynjarar, bremsur/stýring og verkefnastjórnun/hönnunarsamræming. Einn leiðsögumaður úr hópi kennara verður tengiliður hvers teymis. Teymin vinna sjálfstætt en leiðsögumaður er teymum til halds og trausts og ber ábyrgð á námsmati.

Hluti A snýst um undirbúning verkefnisins, áætlanagerð og hönnun bílsins.

X

Sjálfvirk stýrikerfi (VÉL504G)

Helstu aðferðir hefðbundinnar sjálfvirkrar stýritækni. Líkön ýmissa kerfa á formi yfirfærslufalla og ástandsjafna, hermun, tíma- og tíðnisvörun kerfa. Eiginleikar stýrikerfa með afturvirkni, stöðugleiki, næmni, þol gegn truflunum, skekkjustuðlar. Stöðugleikagreining, regla Routh. Greining og hönnun með rótarferlum og í tíðnirúmi, fasaflýtir, fasaseinkari, PID stýringar. Tölvustýrð kerfi, A/D og D/A breytur, vörpun á samfelldum stýringum yfir á stakrænt form. Greining og hönnun stakrænna kerfa.

X

Inngangur að markaðsfræði (VIÐ101G)

Viðfangsefni námskeiðs eru markaðshugtakið, markaðsáherslur og tengsl markaðsfræðinnar við stjórnun og stefnumótun. Einnig er fjallað um greiningu á markaðsumhverfinu, greiningu á kauphegðun, stefnumótun markaðsmála, samkeppni og samkeppnisforskot. Að síðustu er fjallað um með hvaða hætti á að útfæra markaðsstarf svo árangur náist. Gert er ráð fyrir virkri þátttöku nemenda í fyrirlestrum, umræðum og verkefnavinnu.

X

Verkefni (IÐN601G)

Nemendum á þriðja ári er gefinn kostur á að vinna að verkefni sem tengist véla- og/eða iðnaðarverkfræði. Verkefnið er unnið undir umsjón a.m.k. eins fastráðins kennara deildarinnar. Verkefninu lýkur með samningu ritgerðar eða munnlegu prófi, sem metin er til einkunnar.

X

Vefforritun 2 (HBV403G)

Framhald af vefforritun I þar sem farið er í umhverfi bakendaforritunar í node.js, smíði og tengingar við vefþjónustur og tengingar við gagnagrunna. Framenda forritasöfn/framework notuð til að setja upp framenda (React, Ember, Vue). Öryggismál sem huga þarf að þegar vefverkefni eru unnin. Verkefni felast í smíði vefja þar sem nýta skal það sem kennt er.

X

Nám og hönnun: Verkfræðileg sálfræði (LVG023G)

Í þessu námskeiði verða viðfangsefni verkfræðilegrar sálfræði og mannþáttarfræða kynnt fyrir nemendum. Verkfræðileg sálfræði fjallar um hvernig hægt er að hagnýta sálfræðilega þekkingu við hönnun og notkun tóla, tækni og umhverfis. Sérstaklega hvernig skilningur á færni og takmörkunum mannsins, með hliðsjón af rannsóknum á skynjun, hugsun og hegðun, getur nýst til að búa til notendavænt og aðgengilegt umhverfi. Áherslan í námskeiðinu verður á að skoða hvernig nám og hönnun fer saman. Það er, hvernig hönnun á námsaðstæðum og námsefni hefur áhrif á nám og einnig hvernig hönnun verður að taka tillit til fyrri þekkingar og byggja á námi notenda.

Vinnulag: Námskeiðið byggist á heimalestri, umræðum og sjálfstæðri verkefnavinnu. Gert er ráð fyrir að nemendur leggi af mörkum til viðfangsefnis námskeiðsins og þeirra umræðna sem þar fer fram.

Námskeiðið ætti að eiga erindi við nemendur í menntavísindum, sálfræði og verkfræði.

X

Töluleg greining (STÆ405G)

Einingar til BS-prófs gilda aðeins fyrir annaðhvort REI201G Stærðfræði og reiknifræði eða STÆ405G Töluleg greining.

Undirstöðuhugtök um nálgun og skekkjumat. Lausn línulegra og ólínulegra jöfnuhneppa. PLU-þáttun. Margliðubrúun, splæsibrúun og aðhvarfsgreining. Töluleg nálgun afleiða og heilda. Útgiskun. Töluleg lausn upphafshafsgildisverkefna fyrir venjuleg afleiðujöfnuhneppi. Fjölskrefaaðferðir. Töluleg lausn jaðargildisverkefna fyrir venjulegar afleiðujöfnur.

Gefin er einkunn fyrir skriflegar úrlausnir á forritunarverkefnum og vegur hún 30% af heildareinkunn. Stúdent verður að hafa lágmarkseinkunn 5 bæði fyrir verkefni og lokapróf.

X

Tölvustýrður vélbúnaður (VÉL205M)

Markmið: Að kenna nemendum að hanna vélbúnað sem byggir á stýritækni, rafbúnaði og aflliðum. Að tengja saman stýritækni, rafmagnsfræði og vélhlutafræði. Námsefni: Aflgjafar, drifbúnaður, færslukerfi, mælinemar, reglar og tölvustýringar. Vökvaþrýstikerfi, loftþrýstikerfi, færibönd, flutningakerfi og fiskvinnsluvélar.

X

Tölvuvædd hönnun (VÉL206M)

Í námskeiðinu kynnast nemendur hugtökum og aðferðum við stikaframsetningu ferla s.s. Bezier-, Hermite- og NURBSferla.  Auk þess kynnast nemendur aðferðum við framsetningu þrívíðra þráð-, yfirborðs- og rúmmálslíkana.  Farið verður yfir notkun stikaframsetningar við þrívíða líkanagerð, gerð samsetningateikninga með pörunaraðferðum og samskipti mismunandi hugbúnaðslausna. 

Nemendur öðlast góða yfirsýn yfir þann hugbúnað sem býðst fyrir verkfræðilega hönnun og framleiðslu.  Auk þessa munu nemendur kynnast því nýjasta sem er að gerast á fagsviðinu, s.s. í greiningu,hermun, frumgerðasmíði og tölvustýrðri framleiðslu.  Nemendur kynnast þessu í gegnum gestafyrirlestra, heimsóknir og smáráðstefnu þar sem nemendur skrifa greinar og kynna nýjar og spennandi rannsóknaniðurstöður eða nýja tækni (út frá ritrýndum vísindagreinum).  

Samhliða fyrirlestrum beita nemendur efni námskeiðsins á opið hönnunarverkefni, smíða frumgerð, skila skýrslu og kynna verkefnið.

X

Fiskiðnaðartækni 2 (VÉL601M)

ATH: námskeiðið verður ekki kennt vorið 2022. 

Markmið: Gera nemendur færa um að beita þverfaglegri þekkingu á helstu sviðum vélaverkfræðinnar til að hanna fiskvinnslurásir/flutningsferla. Námsefni m.a.: Vinnsluþrep og búnaður við vinnslu ferskfisks, frystingu, söltun, þurrkun, fiskmjölsvinnslu, lýsisgerð, meltugerð o.fl. Orku- og massavægi. Hönnunarforsendur fyrir fiskvinnslufyrirtæki. Vinnsluvélar, pökkunar- og geymsluaðferðir,  greining á starfsumhverfi sjávarútvegsfyrirtækja, markaðsmál, hreinni framleiðslutækni, samkeppnisstaða, arðsemi, gæðamál, tæknivæðing o.fl.

Geymsluskilyrði (ljós, raki, hiti, samsetning lofts, o.s.frv.) og lykilþættir sem áhrif hafa á breytingar fiskafurða við geymslu, flutning og sölu/dreifingu. Stöðug og tímaháð varmaflutningsfræði, hagnýting Heisler- og Mollier-rita. 

Verklegt: Fiskvinnslurás/fiskvinnslufyrirtæki greint og/eða endurhannað.

X

Hönnun og smíði rafknúins kappakstursbíls - hluti B (VÉL606M)

Valnámskeið fyrir BS- og MS-nemendur í verkfræði og raunvísindum.

Markmið:
Að taka þátt í hinu alþjóðlega Formula Student verkefni með því hanna og smíða rafknúinn kappakstursbíl frá grunni með það í huga að taka þátt í alþjóðlegum keppnum háskóla. Bíllinn er af Go-Kart gerð. Kröfur sem gerðar eru til slíks farartækis eru miklar og því mun það veita nemendum víðtæka reynslu af lausnum verkfræðilegra vandamála, sem er meginmarkmið verkefnisins.

Nemendum verður skipt í teymi sem hér segir: Stoðgrind/fjöðrun, vél/drif, rafbúnaður/skynjarar, bremsur/stýring og verkefnastjórnun/hönnunarsamræming. Einn leiðsögumaður úr hópi kennara verður tengiliður hvers teymis. Teymin vinna sjálfstætt en leiðsögumaður er teymum til halds og trausts og ber ábyrgð á námsmati.

Í hluta B fer sjálf smíði bílsins fram en sömu hópar sem unnu að áætlanagerð og hönnun starfa áfram að smíðavinnu og stjórnun verkefnisins skv. áætlun.  Einnig verður í hluta B lagt á ráðin um þátttöku í alþjóðlegri kappaksturskeppni háskóla.

X

Fjármál II (VIÐ402G)

Góðir stjórnarhættir og sérstaklega vönduð fjármálastjórnun hafa úrslitaáhrif á  rekstrarárangur fyrirtækja. Fjármál II er framhald af Fjármálum I þar sem meginviðfangsefnið er fyrirtækið sjálft og hvernig það er rekið í fjármálalegu tilliti.  Þá er farið yfir hvað eru góðir stjórnarhættir, hvernig hvatarnir liggja innan fyrirtækja og hvaða áhrif þeir kunna að hafa á fjárhagslega afkomu félagsins.  Meginviðfangsefni námskeiðsins er fjármálastjórnun, þ.e. fjármagnsskipan félagsins, skammtíma fjármögnun og langtímafjármögnun, gerð fjármögnunaráætlana, arðgreiðslur til hluthafa,  fjárfestingarákvarðanir félagsins, hlutskipti og hegðan þess á fjármálamarkaðnum sjálfum.  Þá verður einnig farið yfir þær ákvarðanir sem stjórnendur standa frammi fyrir þegar verulegir fjárhagserfiðleikar eiga sér stað.

X

Stjórnun og skipulagsheildir (VIÐ415G)

Markmiðið er að nemendur öðlist þekkingu og skilning á því hvað skipulagsheild er og á því umhverfi sem skipulagsheildir starfa í. Fjallað er um hagsmunaaðila og hvernig má auka líkurnar á því að ná árangri og virðisauka í rekstri skipulagsheilda. Farið er yfir áhrifaþætti og áskoranir er varða hönnun skipu­­lags og siðferðislegar og samfélagslegar áskoranir. Komið er inn á hvernig ýmsar breytingar og þróun geta haft áhrif á ákvarðanatöku, skipu­lag, stefnu, starfsfólk og menningu. Einnig  er fjallað um umbreyt­ingar og líftíma skipu­lags­heilda, sem og ágreining og völd. Þá verður getið um áhrif gervigreindar á skipulag og starfshætti skipulagsheilda.

X

Markaðsáætlanagerð (VIÐ602G)

Umfjöllunarefni námskeiðsins er gerð stefnumiðaðra markaðsáætlana. Farið er ítarlega í þá aðferðafræði sem tengist gerð markaðsáætlunar, allt frá greiningu markaðstækifæra til aðgerðaáætlunar. Fjallað er um aðferðir við að greina stöðu vöru eða þjónustu á markaði, hvernig móta á markaðsstefnu og hvernig samvali söluráðanna skuli hátta. Nemendur vinna stefnumiðaða
markaðsáætlun fyrir vöru eða þjónustu, 4 í hóp og er ætlað að koma sjálfir með tillögu að verkefnum fyrir skipulagsheild sem þeir vinna undir handleiðslu kennara.

X

Stefnumótun fyrirtækja (VIÐ609G)

Í upphafi námskeiðs er áherslan á umfjöllun um fagið og skilgreiningar á lykilhugtökum. Markmiðið er að nemandinn nái vel utan um þekkinguna og þau viðfangsefni sem fagið spannar. Síðan er viðfangsefnið greining á ytra umhverfi fyrirtækja og innra umhverfi þeirra. Markmiðið þar er að nemendur nái skilningi og færni í að meta stöðu fyrirtækjanna, þ.m.t styrkleika þeirra og þau tækifæri sem þeim bjóðast. Þá er farið yfir það sem ná þarf utan um í stefnumótun fyrirtækis, sérstaklega heildarstefnu og viðskiptastefnu. Að lokum er farið yfir það sem tryggir árangursríka framkvæmd stefnu. Nýttir verða fjölbreyttir kennsluhættir; fyrirlestrar, umræður, verkefnavinna,  þar sem leitast er við að ýta undir áhuga, vikni og þátttöku nemenda.

Öll fög eru skyldufög nemaVValfagBBundið val er háð skilyrðum ENámskeiðið er ekki kennt á misserinuNámsleiðin í Kennsluskrá

Hvað segja nemendur?

Sverrir Arnórsson
Elísa Ósk Jónsdóttir
Ágúst Heiðar Sveinbjörnsson
Jessý Rún Jónsdóttir
Sverrir Arnórsson
Iðnaðarverkfræði

Ég valdi iðnaðarverkfræði því mig langar að vinna í umhverfi sem snýst um fólk, en á sama tíma nýta áhuga minn á tækni og raunvísindum. Námið veitir manni fjölbreytta þekkingu, en þjálfar ekki síður góð vinnubrögð sem nýtast vel í framtíðarstörfum. Valáfangarnir hafa síðan hjálpað mjög mikið við að þróa áhugasviðið mitt og komast að því hvað mig langar að takast á við í framtíðinni. Mér hefur þótt mjög skemmtilegt að taka þátt í nemendafélaginu, bæði að kynnast samnemendum mínum og heimsækja mörg af flottustu fyrirtækjum landsins í vísindaferðum.

Elísa Ósk Jónsdóttir
Nemandi í iðnaðarverkfræði

Ég valdi iðnaðarverkfræði vegna þess að mér þótti námið spennandi og það heillaði mig hvað það opnaði á marga möguleika til framhaldsnáms og í atvinnulífinu. Í náminu eru tekin fyrir raunveruleg vandamál og við úrlausn á þeim öðlast nemendur kunnáttu sem ég trúi að muni nýtast vel við nám og störf í framtíðinni. Ég er mjög ánægð í náminu og áhugi minn á því hefur aukist með hverju verkefninu. Félagslífið er fjölbreytt og aðgengilegt og ég mæli eindregið með að taka þátt í því. Ég tók til dæmis þátt í Team Spark, en þar kynntist ég mögnuðu fólki og öðlaðist dýrmæta reynslu. Ég mæli eindregið með námi í iðnaðarverkfræði!

Ágúst Heiðar Sveinbjörnsson
Nemandi í iðnaðarverkfræði

Ég sótti um í iðnaðarverkfræði þar sem námið er gífurlega praktískt og í takt við síbreytilegan umheiminn. Braut iðnaðarverkfræðinnar hefur sérstöðu í félagslífi og hefur myndast eiginlegur bekkjarandi innan hennar, sem gerir skólagönguna margfalt skemmtilegri! Námið opnar marga möguleika þegar maður kemst á atvinnumarkað, sérstaklega í ljósi endurskipulagningar námsins sem átti sér stað fyrir stuttu. Í stuttu máli má segja að iðnaðarverkfræði sé öflugt nám sem gefur manni tækin og tólin til að leysa vandamál á skipulagðan og verkfræðilegan máta, sem er mjög aðlaðandi kostur hvað varðar atvinnutækifæri. Ég hvet því alla metnaðarfulla aðila að kynna sér hvað námið hefur upp á að bjóða, þú munt ekki sjá eftir því!

Jessý Rún Jónsdóttir
BS í iðnaðarverkfræði

Ég fór í iðnaðarverkfræði af því að námið er praktískt og gefur opna möguleika, bæði á atvinnumarkaði og í áframhaldandi námi. Mér finnst námið áhugavert og fjölbreytt. Það tekur á raunverulegum vandamálum sem ég sé fyrir mér að nýta mér í starfi í framtíðinni. Ég hef tekið virkan þátt í félagslífinu og finnst það ekki síður mikilvægt en námið. Ég hvet þig eindregið að kynna þér nám í iðnaðarverkfræði!

Hafðu samband

Nemendaþjónusta VoN
s. 525 4466 - ​nemvon@hi.is
Opið virka daga frá 09:00-15:30

Einnig er hægt að hafa samband í gegnum netspjall hér á síðunni (í samræmi við þjónustutíma)

​Tæknigarður - Dunhaga 5, 107 Reykjavík
Askja - Sturlugata 7, 102 Reykjavík

Fylgstu með Verkfræði- og náttúruvísindasviði:

""

Hjálplegt efni

Ertu með fleiri spurningar? Hér finnurðu svör við ýmsum þeirra og upplýsingar um ýmislegt annað sem gott er að hafa í huga þegar þú velur nám.