Íslensk málnefnd verðlaunar Vísindavefinn og Icelandic Online

Tvö verkefni innan Háskóla Íslands, Vísindavefurinn og Icelandic Online, fengu viðurkenningu Íslenskrar málnefndar fyrir vel unnin störf á sviði málræktar á Málræktarþingi sem fram fór í fyrirlestrarsal Þjóðminjasafnsins 26. september.
Íslensk málnefnd hefur starfað í 55 ár og hefur það hlutverk að veita stjórnvöldum ráðgjöf um málefni íslenskrar tungu á fræðilegum grundvelli og gera tillögur til ráðherra um málstefnu auk þess að álykta árlega um stöðu íslenskrar tungu. Málnefndin hefur einnig veitt viðurkenningar fyrir það sem vel er gert á svið málræktar eða er líklegt til að efla íslenska tungu.
Á Málræktrarþingi þann 26. september, sem haldið var undir yfirskriftinni „Hjálpartæki íslenskunnar“, fengu þrír aðilar viðurkenningar:
- Vísindavefur Háskóla Íslands fyrir skilvirka og vandaða þjónustu við almenning og miðlun þekkingar um margvísleg málefni á netinu á íslensku.
- Samtök ferðaþjónustunnar og Hæfnisetur ferðaþjónustunnar fyrir kennsluvefinn „Orðin okkar á íslensku“ sem ætlað er að auðvelda erlendu starfsfólki að tileinka sér þann orðaforða sem nauðsynlegastur er á hverju sviði.
- Icelandic Online fyrir íslenskunámskeiðið „Bjargir“ sem ætlað er að auðvelda innflytjendum að ná sem fyrst nauðsynlegum tökum á málinu til þátttöku í starfi og daglegu lífi.
Þau Jón Gunnar Þorsteinsson, ritstjóri Vísindavefsins, og Birna Arnbjörnsdóttir, prófessor í annarsmálsfræðum og einn af aðstandendum Icelandic Online, tóku við viðurkenningunum úr hendi Guðrúnar Kvaran, formanns Íslenskrar málnefndar.
Vísindavefurinn hefur verið í hópi vinsælustu vefja landsins undanfarin ár samkvæmt mælingum Modernus en hann var stofnaður árið 2000. Svörin á Vísindavefnum eru orðin rúmlega 12.000 og var síðum vefsins flett um þremur milljón sinnum á síðasta ári.
Icelandic Online er samstarfsverkefni Hugvísindasviðs Háskóla Íslands, Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur og Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Vefurinn geymir vefnámskeið í íslensku sem öðru máli og hefur verið í þróun allt frá árinu 2004. Notendur vefsins skipta tugum þúsunda og eru bæði hér á landi og víða annars staðar í heiminum.
Frá afhendingu viðurkenninga Íslenskrar málnefndar. Frá vinstri: Jón Gunnar Þorsteinsson, ritstjóri Vísindavefsins, Sveinn Aðalsteinsson hjá Hæfnisetri ferðaþjónustunnar, María Guðmundsdóttir hjá Samtökum ferðaþjónustunnar, og Birna Arnbjörnsdóttir, prófessor og einn af aðstandendum Icelandic online.