Skip to main content
17. október 2017

Yfirþyrmandi náttúrukraftur smásagna Rómönsku-Ameríku

Út er komið annað bindi ritraðarinnar Smásögur heimsins sem hefur að geyma smásögur eftir ýmsa fremstu smásagnahöfunda Rómönsku-Ameríku, þar á meðal Jorge Luis Borges og Gabriel García Márquez. Smásagnaritun hefur verið mikilvæg í löndum álfunnar alla 20. öldina og fram á okkar daga og frá henni koma leiðandi höfundar í smásagnaskrifum. Í bókinni eru 22 smásögur frá sextán löndum og er elsta sagan frá 1917 en sú yngsta frá 2006.

Aðalritstjóri þessa bindis, Kristín Guðrún Jónsdóttir, segir langflestar sögurnar vera þýddar úr spænsku, en einnig séu sögur þýddar úr portúgölsku, frönsku og ensku. Sögurnar eru allar þýddar úr frummálinu og þrettán þýðendur unnu að útgáfunni. Meðritstjórar Kristínar eru Rúnar Helgi Vignisson og Jón Karl Helgason. Rómanska-Ameríka er stór heimsálfa og löndin eru mörg og ólík innbyrðis. Kristín Guðrún segir að því hafi ekki verið auðvelt að velja úr sögur til útgáfu, en lesendur fái að skyggnast sem snöggvast inn í lífið í Mexíkó, Mið-Ameríku, margra landa Suður-Ameríku og eyja Karíbahafsins.

Aðspurð segir Kristín að það sem einkenni smásögur frá Rómönsku-Ameríku sé m.a. knappur stíll og þær séu ósjaldan styttri en t.d. smásögur í ensku mælandi heiminum. Sumar þeirra séu ekki nema ein og hálf síða eða tvær og algeng lengd sé sex til tíu síður. „Það gerir það að verkum að sögurnar eru oft þrungnar spennu. Ég held að það megi segja að í Rómönsku-Ameríku sé gerð krafa til smásögunnar um eitthvað mjög kröftugt“, segir Kristín. „Annað einkenni sem má nefna er yfirþyrmandi náttúruskynjun og náttúrukraftur, eða þá að hugmyndir eru færðar eins og að endimörkum mannlegrar hugsunar, að eins konar þanmörkum eða þá út í fáránleikann. Það vill líka valda spennu. Þessar sögur eru kannski ekki beinlínis heimspekilegar en ég held að hægt sé að segja að þær séu frumspekilegar.“ Nánar er rætt við Kristínu á Hugrás.is, vefriti Hugvísindasviðs.

Smásögur heimsins verður fimm binda ritröð þar sem birtar verða þýðingar á smásögum úr öllum byggðum heimsálfum. Fyrsta bindið var safn smásagna frá Norður-Ameríku en næsta bindi verður með smásögum frá Asíu. Bókaforlagið Bjartur er útgefandi ritraðarinnar.

Ritstjórn Smásagna heimsins: Rúnar Helgi Vignisson, Kristín Guðrún Jónsdóttir og Jón Karl Helgason.