Nýnemadagar í Háskóla Íslands

Það verður líf og fjör á háskólasvæðinu dagana 28. ágúst - 1. september þegar Nýnemadagar fara fram í Háskóla Íslands. Boðið er upp á fjölbreytta dagaskrá alla vikuna þar sem fræðsla og fjör ræður ríkjum.
Mánudaginn 28. ágúst kl. 11.30-13.00 verður glæsileg kynning á þeirri þjónustu sem nemendum stendur til boða á Háskólatorgi. Þarna er kjörið tækifæri til að fá hinar ýmsu upplýsingar beint frá rétta fólkinu. Nemendur geta til að mynda hitt starfsfólk frá Náms- og starfsráðgjöf, Skrifstofu alþjóðasamskipta, jafnréttisnefnd, jafnréttisfulltrúa og fagráði og ráði um málefni fatlaðs fólks. Á staðnum verða líka fulltrúar frá Stúdentaráði, Landsbókasafni, Tungumálamiðstöð, Ritveri, Háskólakórnum, Háskóladansinum og sérfræðingar í Smáuglunni – appi Háskóla Íslands.
Stúdentaráð býður nýnemum í gönguferð um háskólasvæðið kl. 12.30 og einnig verður upplýsingaborð fyrir nýnema opið alla vikuna, frá kl. 10-16 mánudag til miðvikudags og 10-14 fimmtudag og föstudag á Háskólatorgi.
Þriðjudaginn 29. ágúst kl. 12 syngur Háskólakórinn fyrir gesti og gangandi á Háskólatorgi og kynnir starfssemi sína. Stúdentaráð býður aftur upp á gönguferð þennan dag um háskólasvæðið kl. 12.30. Það er um að gera að slást í för með ráðinu og kynnast bæði háskólasvæðinu og öðrum nemendum í leiðinni.
Miðvikudaginn 30. ágúst verða meðlimir Háskóladansins með glæsilega danssýningu á Háskólatorgi kl. 12. Þau kynna einnig starfsemi sína þannig að dansunnendur ættu ekki að láta þennan viðburð fram hjá sér fara. Þá býður Skrifstofa alþjóðasamskipta upp á örkynningu á skiptinámi og starfsþjálfun kl. 12-12.30 í stofu HT-104. Milli kl. 13.00-13.30 verður svo örnámskeiðið „Tungumálanám með öðru námi í HÍ: Hvar, hvernig og af hverju?“ í Tungumálamiðstöð sem finna má í Veröld – húsi Vigdísar.
Fimmtudaginn 31. ágúst kl. 12 verður boðið upp á lifandi tónleika á Háskólatorgi og verður upplýst fljótlega hvaða hljómsveit stígur á stokk.
Föstudaginn 1. september lýkur Nýnemadögum með árlegu Nýnemamóti Stúdentaráðs þar sem keppt verður í brennó og fótbolta á túninu fyrir framan Aðalbyggingu. Nemendafélög skólans etja þar kappi og er þátttaka opin öllum nemendum Háskólans. Hvert nemendafélag má vera með nokkur lið en skylda er að það séu að minnsta kosti tveir nýnemar í hverju liði. Allt að 15 manns eru í hverju brennóliði og sjö manns í hverju fótboltaliði. Skráning fer fram í gegnum nemendafélögin.
Upplýsingaborðið verður sem fyrr opið kl. 10-14 fyrir nýnema og aðra sem vilja nýta sér það að spyrja hina alvitru Stúdentaráðsliða spjörunum úr. Dregið verður í spurningaleik fyrir nýnema kl. 14 og spennandi að komast að því hverjir hreppa hinu glæsilegu vinningana sem í boði eru. Hægt er að taka þátt í spurningaleiknum til kl. 13.00 föstudaginn 1. september á Uglunni.
Allir nýnemar og aðrir stúdentar eru hvattir til að taka þátt í dagskrá Nýnemadaga.
