Vettvangsnám er góð leið til þess að kynnast atvinnulífinu og sjá tengingu námsins við mögulegan starfsvettvang. Enn fremur er vettvangsnám vænlegt til þess að þróa tengslanet og stuðla þannig að því að nemendur fái starf við hæfi að námi loknu. Á kennslualmanaki deilda Menntavísindasviðs koma fram upplýsingar um mikilvægar dagsetningar. Þar er m.a. hægt að sjá með góðum fyrirvara hvenær vettvangstímabil eru fyrirhuguð. Mikilvægar dagsetningar Deild faggreinakennslu Deild heilsueflingar, íþrótta og tómstunda Deild kennslu og menntunarfræði Deild menntunar og margbreytileika Vettvangsnám í kennaranámi Vettvangsnám er mikilvægur þáttur kennaramenntunar. Kennaranemar fara á vettvang í styttri eða lengri tíma, fylgjast með og taka þátt í starfi og kennslu með reyndum kennurum og spreyta sig á að prófa eigin hugmyndir í samvinnu við þá. Lengd vettvangsnáms og kennsla á vettvangi er háð fjölda vettvangseininga í námskeiði og hvar nemi er staddur í námi. Kennaranemar sem starfa í grunnskóla meðfram námi mega ekki stunda vettvangsnám á eigin vinnustað fyrr en á síðara ári í meistaranámi. Fyrir því liggja margs konar rök sem eru útlistuð nánar í handbókum um vettvangsnám í leik- og grunnskóla. Miðað er við að hver vettvangseining (Ve) feli í sér 15 klukkustunda heildarviðveru á vettvangi. Einnig er miðað við að dagleg viðvera kennaranema í vettvangsnámi séu 6 klukkustundir. Viðvera felur í sér áhorf og aðstoð á deild eða í kennslu, kennslu eftir skipulagi leiðsagnarkennarans og/eða eftir kennsluáætlun nemans, ígrundun með leiðsagnarkennara, fundarsetu, kynningar á skólastarfi og allt sem nema stendur til boða að taka þátt í. Fyrir hverja vettvangseiningu er gert ráð fyrir að nemar taki þátt í og skipuleggi 6-9 kennslustundir (40/60 mín). Ef tekið er dæmi um námskeið sem inniheldur tvær vettvangseiningar þá eru það 30 klukkustundir í heildarviðveru eða heil kennsluvika ef miðað er við að dagleg viðvera á vettvangi séu 6 klukkustundir á dag. Þá er hægt að miða við að þær stundir sem neminn á að taka þátt í og skipuleggja séu 12-18 talsins. Það getur hins vegar verið breytilegt eftir námskeiðum. Háskólakennari í hverju námskeiði fyrir sig gefur út viðmið varðandi hlutfall kennslustunda sem kennaranemi skipuleggur sjálfur. Það er 100% mætingarskylda í vettvangsnám. Ef upp koma veikindi á vettvangstímabilinu er reglan sú að vinna skal upp þann tíma sem féll niður. Það er gert í samráði við verkefnisstjóra vettvangsnáms og leiðsagnarkennara og fundinn flötur á því að lengja tímabilið sem nemur veikindadögum. Hafi nemandi ekki tök á að missa úr vinnu vegna vettvangsnáms þarf hann að fresta námskeiði með vettvangsnámi, en gera jafnframt ráðstafanir fram í tímann hvað það varðar í tengslum við vinnu. Grunnnám Á hverju skólaári eru tvö vettvangstímabil, annað að hausti og hitt að vori. Tímabilin eru mislöng og ráðast af vettvangseiningafjölda í hverju námskeiði fyrir sig. Verkefni á vettvangi tengjast sérhæfingu kennaranema, námssviðum og kennslugreinum skóla eða þeim fjölmörgu uppeldislegu viðfangsefnum sem kennarar sinna. Nánari upplýsingar um skipulag námskeiða, hæfniviðmið og námsmat sem tengjast vettvangsnámi í grunnnámi er að finna í kennsluskrá. Framhaldsnám Háskóli Íslands ber faglega ábyrgð á vettvangsnámi/starfsnámi kennaranema á lokaári til M.Ed. eða MT-gráðu í samvinnu við skólana þar sem þeir starfa. Markmiðið er að efla tengsl kennaramenntunar við starfsvettvang og auka færni nýrra kennara til að takast á við áskoranir kennarastarfsins til framtíðar í þágu barna og ungmenna. Fyrir leik- og grunnskólakennaranema á lokaári til M.Ed. eða MT-gráðu er tvenns konar fyrirkomulag vettvangsnáms í boði. Vettvangsnám Starfsnám Vettvangsnám sem er skipulagt af Menntavísindasviði sem sér um að finna skóla sem hæfir þeirri sérhæfingu sem kennaraneminn menntar sig til. 50 % launað starfsnám sem byggir á því að kennaranemi hafi sjálfur ráðið sig til kennslu við leik- eða grunnskóla og fengið samþykki umsjónarkennara námskeiðsins við Menntavísindasvið til að tengja starfið og námið. Kennaranemi hefur frumkvæði að því að leita að kennarastöðu og ræður sig til starfa að fenginni staðfestingu um að staðan uppfylli skilyrði í reglum mennta- og menningarmálaráðuneytis um launað starfsnám, grein 3.5.: Kennaranemi í launuðu starfsnámi sinnir kennslu og menntun leik- og/eða grunnskólabarna á grundvelli sérhæfingar í námi, auk þess fær hann tækifæri til að takast á við önnur verkefni er tengjast kennarastarfinu. Ráðning kennaranema er alla jafna frá 1. ágúst til 31. júlí. Reglur mennta- og menningarmálaráðuneytis um fyrirkomulag launaðs starfsnáms kennaranema. Nánari upplýsingar um skipulag námskeiða, hæfniviðmið og námsmat sem tengjast vettvangsnámi/starfsnámi í framhaldsnámi er að finna í kennsluskrá. Handbækur Í handbókum má finna hagnýtar upplýsingar um skipulag og áherslur í vettvangsnámi. Einnig er fjallað um hlutverk og ábyrgð þeirra sem koma að leiðsögn kennaranema. Handbækurnar eru ætlaðar kennaranemum, leiðsagnarkennurum og háskólakennurum. Vettvangsnám í leikskóla Vettvangsnám í grunnskóla Vettvangsnám í Deild heilsueflingar, íþrótta og tómstunda Í vinnslu... Vettvangsnám í þroskaþjálfafræði Nemar í þroskaþjálfafræði fara tvisvar sinnum í vettvangsnám á námsleiðinni sem telur fjögur ár. Annars vegar á öðru ári (5 vikur) og hins vegar á fjórða ári (6 vikur). Þroskaþjálfar á vettvangi gegna mikilvægu hlutverki þegar kemur að menntun nemenda í þroskaþjálfafræði þar sem námið er bæði bóklegt og hagnýtt. Bóknámskennsla námsins, sem fram fer innan háskólans, felst m.a. í að kynna ýmiss verkfæri sem notuð eru á vettvangi en það er svo hlutverk þroskaþjálfa á vettvangi að fara betur yfir þau verkfæri sem nýtt eru á viðkomandi vettvangsstað og gefa nema færi á að spreyta sig á þeim eins og hægt er. Þessi tenging á milli háskóla og vettvangs er mikilvægur hlekkur í námi nemenda og því til mikils að vinna að góð samvinna ríki á milli skóla og vettvangs. Í vettvangsnámi gefst þroskaþjálfum færi á að hafa áhrif á nám nemenda og veita þeim dýrmæt tækifæri til að dýpka þekkingu sína, bæði fræðilega og hagnýta þekkingu. 100% mætingarskylda er í vettvangsnám. Ef upp koma veikindi á vettvangstímabilinu er reglan sú að vinna skal upp þann tíma sem féll niður. Það er gert í samráði við umsjónarkennara vettvangsnáms og leiðsagnarkennara og fundinn flötur á því að lengja tímabilið sem nemur veikindadögum. Hafi nemandi ekki tök á að missa úr vinnu vegna vettvangsnáms þarf hann að fresta námskeiði með vettvangsnámi, en gera jafnframt ráðstafanir fram í tímann hvað það varðar í tengslum við vinnu Grunnnám Á öðru ári fara nemendur í 5 vikna vettvangsnám á vormisseri. Gert er ráð fyrir vettvangsnámi á dagvinnutíma, 6 klukkustundir á dag og því þurfa nemendur að gera ráð fyrir þeim tíma í sínu skipulagi. Viðfangsefni vettvangnámsins er að tengja saman fræði og framkvæmd og er áherslan á einstaklings-og fjölskyldumiðaða þjónustu. Nemendur sækja vettvangsnám sitt á valda vettvangsstaði og nema undir leiðsögn starfandi þroskaþjálfa. Þeir taka virkan þátt í störfum leiðbeinenda sinna í samræmi við leiðsagnaráætlun og greina vinnulag við framkvæmd einstaklingsbundinnar og persónumiðaðrar þjónustu. Í vettvangsnáminu er miðað að því að nemendur kynnist innra starfi viðkomandi stofnunar, þjónustunni sem hún veitir ásamt þeirri hugmyndafræði og lagalega ramma sem hún starfar eftir. Nemendur sækja vikulega leiðsagnarfundi til leiðbeinenda sinna. Auk þess skapa leiðbeinendur nemendum tækifæri til heimsókna á aðra þjónustustaði. Framhaldsnám Á fjórða ári fara nemendur í 6 vikna vettvangsnám á vormisseri. Gert er ráð fyrir vettvangsnámi á dagvinnutíma, 6 klukkustundir á dag og því þurfa nemendur að gera ráð fyrir þeim tíma í sínu skipulagi. Í vettvangsnámi fá nemendur tækifæri til þess að dýpka starfstengda þekkingu á sínu kjörsviði og tengja við fræðilegan og faglegan grunn sem og eigin starfskenningu. Áhersla er lögð á virka þátttöku í öllum þeim þáttum er felast í starfi þroskaþjálfa, þar sem sjónum er beint að réttindagæslu-, ráðgjafar- og leiðtogahlutverki þroskaþjálfa, teymisvinnu, þverfaglegu samstarfi og samráði við notendur þjónustu. Leiðbeinendur í vettvangsnámi eru þroskaþjálfar sem starfa á kjörsviði nemanda. Þeir hafa umsjón með námi og verkefnum nemanda á vettvangi í samstarfi við umsjónarkennara vettvangsnámsins. Nemendur vinna starfstengd verkefni í samræmi við kröfur vettvangsnámsins sem lúta að ábyrgð og skyldum þroskaþjálfa, faglegum og fræðilegum forsendum sem og beinni þátttöku í starfi á völdu sviði. Jafnframt því fá nemendur aðstöðu til að vinna að starfstengdum verkefnum í námskeiðum á sínu kjörsviði sem þeir sækja samhliða vettvangsnámi. Á vettvangstímabilinu er gert ráð fyrir að um 30 klst. fari í vettvangstengd verkefni í tengslum við kjörsvið, sem er annað hvort: ÞRS206F Árangursríkur stuðningur og hagnýting matstækja ÞRS207F Valdeflandi leiðir Í þessu námskeiði er fjallað um árangursríkan stuðning við félags- og tilfinningafærni (e. social-emotional learning) nemenda á ýmsum aldri, bæði í hópum og á einstaklingsgrundvelli, með áherslu á hlutverk þroskaþjálfa, inngildandi samfélag og mannréttindi. Viðfangsefni námskeiðsins eru valdeflandi leiðir og aðferðir í þjónustu við fólk með fjölþættar stuðningsþarfir. Fjallað er um hugmyndafræði og hagnýtingu leiðanna með áherslu á persónumiðaða starfshætti, sjálfræði, notendasamráð og fulla þátttöku í samfélagi og eigin lífi. Handbók Í handbók má finna hagnýtar upplýsingar um skipulag og áherslur í vettvangsnámi sem og ítarlegar upplýsingar um hlutverk, ábyrgð og skyldur ólíkra aðila í vettvangsnámi. Handbók um vettvangsnám í þroskaþjálfafræði facebooklinkedintwitter