Háskóli Íslands starfar í fjölmörgum byggingum á þremur svæðum, í Vatnsmýri, Vesturbæ og í Stakkahlíð. Samtals er húsnæði skólans 73.000 fermetrar. Háskólinn er lifandi samfélag sem býður nemendum og starfsfólki fyrsta flokks starfsaðstöðu. Í flestum byggingum er góð les- og hópavinnuaðstaða auk þess sem fjölda tölvuvera er að finna víða um svæðið.
Hér má skoða upplýsingar um byggingar háskólans.
Fjölbreytt þjónusta í boði
Bókasöfn og bóksölur eru starfrækt víða á háskólasvæðinu.
Kaffistofur eru í mörgum byggingum en þar geta bæði stúdentar, starfsfólk og gestir keypt mat og drykki. Háma á Háskólatorgi er stærst mötuneyta og býður upp á heitan mat í hádeginu. Stúdentakjallarinn, sem einnig er á Háskólatorgi, er opinn frá morgni til kvölds og þar er bæði boðið upp á fjölbreyttan matseðil og fjöruga dagskrá fyrir stúdenta.
Íþróttaaðstaða er til fyrirmyndar og hafa nemendur aðgang að tækjasal og fjölbreyttri leikfimisaðstöðu og -tímum gegn vægu gjaldi.
Félagsstofnun stúdenta rekur Stúdentagarða með allt frá einstaklingsíbúðum upp í stórar fjölskylduíbúðir og á leikskólum stúdenta geta börn allt frá 6 mánaða aldri fengið pláss.