HÍ aðili að samtökum til varnar frelsi í vísindum

Háskóli Íslands hefur sótt um aðild að Scholars at Risk (SAR), alþjóðlegum samtökum háskóla og einstaklinga sem hafa það að markmiði að vernda fræðafólk og háskólasamfélög sem eiga undir högg að sækja. Samtökin vinna einnig að akademísku frelsi sem er einn af hornsteinum framsækins háskólasamfélags.
Víða um heim er sótt að vísinda- og fræðimönnum vegna rannsókna þeirra, kennslu eða annarra starfa í þágu vísinda, svo sem þegar þeir reyna að nýta mál- eða félagafrelsi sitt og sérþekkingu innan þeirra samfélaga sem þeir starfa. Sums staðar standa fræðimenn frammi fyrir hótunum, víðtæku eftirliti, ferðatakmörkunum, upptöku rannsóknargagna af hálfu stjórnvalda, líkamlegum og kynferðislegum ógnunum og jafnvel lögsóknum, fangelsunum, pyntingum og líflátshótunum fyrir það eitt að sinna vísindastörfum.
Slíkar ógnanir ná jafnvel til heilu háskólasamfélaganna sem sæta ýmiss konar þrýstingi og ritskoðun stjórnvalda eða tilraunum þeirra til þröngva í gegn hugmyndafræði sem stangast á við vísindalega hugsun. Enn fremur eru nýleg dæmi þess að stjórnvöld hóti að loka háskólum sem ekki starfa í takt við hugmyndafræði ráðandi afla.
Markmið SAR er að veita þessum hópum og samfélögum skjól með ýmsum hætti, svo sem með því að bjóða vísindamönnum sem eiga undir högg að sækja gistikennarastöður, tímabundna rannsóknaaðstöðu eða til fyrirlestrahalds. Einnig hafa skólar innan samtakanna staðið fyrir viðburðum og átaksverkefnum til þess að vekja athygli á þröngri stöðu vísindanna á tilteknum stöðum í heiminum og jafnvel ýtt af stað rannsóknaverkefnum sem snúa að árásum á akademískt frelsi í ýmsum myndum.
SAR-samtökin hafa á síðustu 16 árum fengið yfir 2000 beiðnir um aðstoð frá vísindamönnum í yfir 120 löndum. Alls hafa samtökin aðstoðað meira en 700 vísindamenn með ýmsum hætti. Stærstur hluti þess hóps sem leitar aðstoðar er frá Miðausturlöndum og Norður-Afríku en einnig frá Afríkulöndum sunnan Sahara og löndum í Suður-Asíu.
Aðild að SAR-samtökunum eiga yfir 500 háskólar um allan heim, þar á meðal flestir fremstu háskólar heims, auk þess sem háskólasamtök eins og EUA og UNICA koma að samtökunum. Þá má geta þess að innan skamms verða allir samstarfsskólar Háskóla Íslands í Aurora-samstarfsnetinu þátttakendur í samtökunum.
Með aðild að SAR opnast m.a. möguleiki fyrir Háskóla Íslands á að bjóða til landsins fræðimönnum sem samtökin styðja, m.a. til að kynna sín vísindastörf og til að fræða háskólasamfélagið og almenning um mikilvægi frjálsra háskóla og hvernig frelsi þeirra er sums staðar teflt í tvísýnu.
Tengiliður Háskóla Íslands við SAR er jafnréttisfulltrúi HÍ, Arnar Gíslason, jafnretti@hi.is.
