Ritið:1/2016 - Loftslagsbreytingar

Þema fyrsta heftis Ritsins á þessu ári er loftslagsbreytingar, frásagnir og hugmyndafræði. Í þemagreinum er fjallað um frásagnir af loftslagsbreytingum og sögurnar sem við segjum af mögulegum lausnum vandans, auk þess sem farið er í hugmyndafræðina sem mótar frásagnirnar. Meðal efnis eru ljóð átta íslenskra skálda um loftslagsbreytingar og þemagreinar eftir Guðrúnu Elsu Bragadóttur, Magnús Örn Sigurðsson og Sólveigu Önnu Bóasdóttur. Guðni Elísson ritstýrði.
Í fyrstu þemagreininni „‚Að kjósa að sleppa því‘. Olíuleit, aðgerðaleysi og hinsegin möguleikar“ setur Guðrún Elsa Bragadóttir olíuleit á Drekasvæðinu í samhengi við rökvísi kapítalisma og nýfrjálshyggju, kröfuna um endalausan efnahagsvöxt og athafnasemi. Guðrún Elsa gengur út frá frásögn bandaríska rithöfundarins Hermans Melville um ritarann Bartleby, er segir frá starfsmanni á lögfræðiskrifstofu á Wall Street sem hættir einn góðan veðurdag að hlýða fyrirmælum yfirmanns síns með orðunum „ég myndi kjósa að sleppa því“. Þögult aðgerðaleysi Bartlebys hefur truflandi áhrif á hina virku þátttakendur atvinnulífsins og Guðrún Elsa spyr sig hvernig hægt sé að miðla tilgangsríku aðgerðaleysi í stað kröfunnar um að dæla upp meiri olíu þegar ljóst sé hverjar afleiðingar þess yrðu. Guðrún Elsa sækir í skrif ítalska heimspekingsins Giorgio Agambens og í hinsegin fræði, jafnt til þess að varpa ljósi á hvernig hafa megi áhrif á heiminn með fræðilegri aðferð og til að hjálpa einstaklingum við að ganga ekki ríkjandi viðmiðum á hönd þegar mikið liggur við.
Andófið gegn neysluhyggju og kapítalisma er einnig ráðandi í greiningu Magnúsar Arnar Sigurðssonar „„Ýttu á hnappinn. Bjargaðu hnettinum.“ Frásagnir, nýfrjálshyggja og villandi framsetning loftslagsbreytinga“. Magnús einblínir á stórsögu nýfrjálshyggjunnar í nokkrum bandarískum auglýsingum sem allar eiga það sameiginlegt að kalla eftir tæknilegum lausnum á loftslagsvandanum. Magnús sýnir í grein sinni hvernig þessar lausnarfrásagnir gefa villandi mynd af loftslagsvandanum og grafa þannig undan raunverulegum leiðum til þess að takast á við vandamálið. Með hliðsjón af bandarísku fræðikonunni Lauren Berlant greinir Magnús þessa afstöðu sem „grimmilega bjartsýni“, sem birtist „í endurteknum tilraunum fólks til þess að ná markmiðum sínum óháð líkunum á því að aðgerðirnar séu til bóta“. Í samhengi loftslagsumræðunnar telur Magnús þessa bjartsýni pólitískan ásetning, í raun aðeins birtingarmynd nýfrjálshyggjunnar í vestrænum samfélögum.
Þriðja greinin í þemahlutanum er eftir prófessor Sólveigu Önnu Bóasdóttur og ber nafnið „Trú og loftslagsbreytingar. Yfirlýsingar trúarleiðtoga og kirknasamtaka í aðdraganda COP21“. Sólveig Anna fjallar um nýlegar áskoranir kristinna trúarsamtaka sem settar voru fram í aðdraganda COP21 í París 2015, m.a. ýmis konar skrif á vegum Lútherska heimssambandsins, umburðarbréf Frans páfa Laudato si´(Lof sé þér) sem birt var í maí 2015 og yfirlýsingu kaþólskra biskupa frá öllum heimsálfum frá 26. október 2015. Eins og Sólveig Anna bendir á hefur kristin trú haft afgerandi hugmyndafræðileg áhrif á vestrænan skilning á manni, heimi og náttúru og orðræða yfirlýsinganna snýst í meginatriðum um endurskoðun hefðbundinnar kristinnar náttúrusýnar og mannskilnings, þar sem ráðandi miðlægni mannsins er umbreytt í líf- og guðsmiðaða umhverfissiðfræði.
Grein Gunnars Theodórs Eggertssonar „Raunsæisdýr og náttúruvísindaskáldskapur: Dýrasagan í eftirmálum darwinismans“ er ekki hluti af þema heftisins. Þó eru fjölmargar tengingar milli greiningar Gunnars og þemagreinanna. Greinin er byggð á kafla í doktorsritgerð Gunnars sem hann hefur þegar lagt fram til varnar, og fjallar um raunsæislegu dýrasöguna sem hófst til vegs og virðingar í vestrænum samfélögum á síðari hluta nítjándu aldar, en slíkar sögur gera reynsluheim dýrsins að meginviðfangsefni. Gunnar telur dýrasöguna vera róttæka og boðandi bókmenntagrein sem sé mikilvægt að endurmeta og hefja á nýjan leik til vegs og virðingar í menningarumræðu samtímans. Rétt eins og í greiningu þemahöfundanna eru siðferðilegu spurningarnar fyrirferðarmiklar í lestri Gunnars.
Hin greinin sem er utan þema heftisins er eftir Kristjönu Kristinsdóttur og ber nafnið „Lénsreikningur reikningsárið 1647–1648“ og snýst um endurskoðun lénsreikninga í rentukammeri fyrir umrædd ár og uppgjör konunglegs fógeta. Reikningarnir veita innsýn í hvernig Ísland var stjórnsýslulega tengt Danmörku sem eitt af lénum konungs og sýna hvaða aðferðum var beitt við endurskoðun lénsreikninga og uppgjör lénsmanns.

