Nýtt diplómanám í vefmiðlun

Í haust verður í fyrsta sinn í boði 60 eininga diplómanám í vefmiðlun, í samstarfi þriggja miðlunargreina, meistaranáms í blaða- og fréttamennsku, hagnýtri menningarmiðlun og hagnýtri ritstjórn og útgáfu. Diplómanámið er hýst hjá hagnýtri menningarmiðlun, en greinarnar þrjár leggja allar til námskeið.
Námið er eins árs (tveggja missera) hagnýtt þverfaglegt framhaldsnám í vefmiðlun innan hagnýtrar menningarmiðlunar. Allir sem lokið hafa BA-prófi með fyrstu einkunn (7,25) í hugvísindum, félagsvísindum eða skyldum greinum geta sótt um að innritast. Umsóknarfrestur er til 5. júní.
Diplómanám í vefmiðlun er hugsað sem góður undirbúningur fyrir þá sem hafa áhuga á að vinna við vefmiðlun, vefstjórnun og rafræna þjónustu í fyrirtækjum og stofnunum. Í náminu er stefnt að því að taka á helstu þáttum sem sérfræðingar í rafrænni þjónustuí fyrirtækjum og stofnunum sinna. Eftirspurn eftir reynslu og þekkingu fólks af notendaupplifun, vefmiðlun og vefstjórn fer mjög vaxandi á Íslandi. Sífellt fleiri fyrirtæki og stofnanir fjárfesta meira í vefnum og þurfa starfsfólk á þessu sviði til að sinna vefmálum og annarri rafrænni þjónustu.

