Hugvísindaþing fagnar 20 ára afmæli

Hugvísindaþing, sem haldið verður dagana 11. og 12. mars í Háskóla Íslands, fagnar nú 20 ára afmæli. Þingið er ætlað fræðasamfélaginu jafnt sem almenningi og er fjölbreytt að vanda. Dagskrá þingsins í ár endurspeglar bæði rótgróin rannsóknasvið hugvísinda og nýrri viðfangsefni, en spurningar um umhverfis- og loftslagsmál eru áberandi í ár. Þingið verður opnað 11. mars kl. 12:30 í Aðalbyggingu Háskóla Íslands með fyrirlestri Stevens Hartmans prófessors um nýja framtíðarsýn umhverfishugvísinda.
Á Hugvísindaþingi 2016 verður enn fremur boðið upp á 150 fyrirlestra í tæplega 40 málstofum. Auk umhverfishugvísinda má nefna málstofur um framtíð íslenskunnar, sögu kvenna og hinsegin sögu, Íslendinga í Kaupmannahöfn og Vesturheimi, valdarán, vísindabyltingar, fötlun, fátækt, tungumálanám og –kennslu, áhrif nýrrar tækni og tóla í málvísindum, fornleifafræði og menningarmiðlun, samþættingu hugvísinda og læknisfræði og dægurmenningu, bókmenntir og listir frá ótal sjónarhornum, að ógleymdum sjálfum dauðanum.
Þetta eru einungis nokkur dæmi sem gefa til kynna fjölbreytni þingsins. Samhliða því halda samtök norrænna leiklistarfræðinga (Association of Nordic Theatre Scholars) og Bókmennta- og listfræðastofnun ráðstefnuna Theatre and the Popular. Ráðstefnan hefst föstudaginn 11. mars kl. 10.00 og lýkur sunnudaginn 13. mars kl. 16.30.
Dagskrá þingsins er birt á heimasíðu Hugvísindastofnunar og kynning á málstofum hefur einnig farið fram á fésbókarsíðu stofnunarinnar og twitter.
