Lyfjafræði
Lyfjafræði
BS gráða – 180 einingar
Lyfjafræði er fræðigrein sem fjallar um lyf frá öllum hugsanlegum sjónarhornum, allt frá þróun nýrra lyfjaefna og lyfjaforma, að framleiðslu, notkun og verkun lyfjanna. Lyfjafræðinámið er fjölbreytt nám, samsett af bóklegri og verklegri kennslu í hinum ýmsu greinum líf- og raunvísinda, auk greina úr félagsvísindum.
Skipulag náms
- Haust
- Lífræn efnafræði 1
- Verkleg efnafræði 1a
- Almenn efnafræði L
- Frumulífeðlisfræði
- Öryggisnámskeið fyrir rannsóknarstofur
- Inngangur að lyfjafræði
- Stærðfræði N
- Vor
- Lífræn efnafræði 2
- Efnagreining
- Verkleg efnafræði 2a
- Verkleg lífræn efnafræði L
- Inngangur í þverfræðileg heilbrigðisvísindi - heilbrigðisvísindadagurinn
- Lífeðlisfræði
- Sameindalífvísindi B
Lífræn efnafræði 1 (EFN309G)
Lífræn efnafræði kemur við víðs vegar í lífinu okkar, bæði í lífheiminum okkar og í framleiðslu á hinum ýmsu vörum sem við notum dagsdaglega. Lífræn efnafræði kemur einnig fyrir í mörgum öðrum fögum, svo sem lífefnafræði, lyfjafræði, matvælafræði, og læknisfræði. Skilningur á lífrænu efnafræðinni getur hjálpað við að dýpka skilning okkar á framleiðsluferlum í efna- og matvælaiðnaði, ýmsum lífefnafræðiferlum, og virknihátt lyfja og framleiðslu þeirra.
Í þessu námskeiði verður farið yfir grunnatriði lífrænnar efnafræði. Farið verður yfir hina ýmsu virknihópa, helstu eiginleika þeirra og hvarfgirni með sérstakri áherslu á alkana, alkena, alkyna, alkýl halíða, og arómata. Einnig verður farið yfir rúmefnafræðileg atriði og efnagreiningar lífrænna efna með NMR, IR og MS.
Verkleg efnafræði 1a (EFN110G)
Mólrúmmál loftkenndra efna, Efnafræðileg varmafræði,Vermi hvarfa og lögmál Hess, hraði efnahvarfa, niðurbrot vetnisperoxíðs, Le Chatelier, ákvörðun jafnvægisfasta með ljósgleypnimælingum, ákvörðun jónunarfasta sýru.
Skyldumæting er í öryggisfyrirlestur í fyrstu kennsluvikunni.
Almenn efnafræði L (EFN112G)
Almenn og sérhæfð atriði um efnatengi og sameindabyggingu. Efnahvörf. Lofttegundir, vökvar, föst efni og lausnir. Varma- og hraðafræði efnahvarfa. Efnajafnvægi: sýru-basa, fellingar-, komplex- og afoxunar. Rafefnafræði og kjarnefnafræði.
Frumulífeðlisfræði (LYF102G)
Farið í byggingu og starfsemi frumna og frumulíffæra, lífsameindir, stjórnun orkubúskapar og efnaskipta, boðskipti á milli frumna, lífeðlisfræðilega starfsemi taugakerfa, hormónakerfa og vöðva. Kynning á vefjaflokkum mannslíkamans.
Verklegar æfingar: lyfhrif og vöðvar.
Öryggisnámskeið fyrir rannsóknarstofur (LYF110G)
Farið er yfir helstu atriði sem tengjast öryggismálum á rannsóknarstofum eins og meðhöndlun efna, viðbrögð við óhöppum og efnamengun og viðbrögð við slysum. Í námskeiðinu eru nokkur stutt verkleg verkefni á rannsóknarstofunni og námskeiðið endar á eldvarnaræfingu.
Námskeiðið er ávallt haldið í byrjun annar, áður en almenn kennsla hefst.
Nauðsynlegt er að sækja námskeiðið til að fá leyfi til að taka þátt í verklegum æfingum á rannsóknarstofum. Mögulegt upptökunámskeið er í byrjun janúar, næsta misseri.
Inngangur að lyfjafræði (LYF113G)
Námskeiðið er hugsað sem þverfagleg kynning á lyfjafræðistarfinu og helstu sérgreinum lyfjafræðinnar. Nemendur fá stutta kynning á lyfjalögum, lyfjastefnu, lögum um heilbrigðisþjónustu, sérlyfjaskrá og lyfjaverðskrá. Fjallað verður um ýmsar stofnanir lyfjamála og það sem þeim tengist s.s heilbrigðisráðuneytinu, Lyfjastofnun, Sjúkratryggingar Íslands, Tryggingastofnun og fleira. Fjallað verður stuttlega um vísindasvið lyfjafræðinnar, lyfhrifafræði, lyfjahvarfafræði, lyfjagerðafræði o.s.frv.
Nemendur fara í starfskynningar í apótek, heildsölur, lyfjaframleiðslufyrirtæki og fleiri stofnanir og skila skýrslum þar um. Nemendur fá kynningu á Lyfjafræðifélagi Íslands og farið verður í vettvangsferð í Lyfjafræðisafnið. Farið er í helstu atriði úr sögu lyfjafræðinnar, siðareglur lyfjafræðinga, þagnarskyldi, ábyrgð og fagmennsku.
Stærðfræði N (STÆ108G)
Í námskeiðinu er fjallað um undirstöðuatriði stærðfræðigreiningarinnar auk fylkjareiknings. Meginviðfansefni eru fallahugtakið, helstu föll stærðfræðigreiningarinnar (lograr, veldisvísisföll, hornaföll), markgildi, samfelldni, deildanleg föll, reglur um afleiður, afleiður af hærra stigi, stofnföll, notkun deildareiknings (svo sem útgildisverkefni og línuleg nálgun), meðalgildissetningin, heildun, ákveðin heildi og reiknireglur fyrir þau, undirstöðusetning stærðfræðigreiningarinnar, heildunartækni, óeiginleg heildi, afleiðujöfnur, vigrar og fylkjareikningur.
Lífræn efnafræði 2 (EFN406G)
Í þessu námskeiði verður fjallað ítarlega um efni sem tilheyra efnaflokkum arómatískra efnasambanda (kafli 16), alkohóla og fenóla (kafli 17), etera og epoxíða (kafli 18), þíóla og súlfíða (kafli 18), aldehýða og ketóna (kafli 19), karboxýlsýra og nítríla (kafli 20), karboxýlsýruafleiða (kafli 21), karbonynsambanda (kafli 22 og 23), auk amína og einfaldra heteróhringsambanda (kafli 24). Í gegnum fyrirlestra, dæmatíma, heimadæmi, og kaflapróf, verður lögð áhersla á hvarfganga, efnahvörf, hvarfsemi, hvarfgirni, og efnasmíðar ofangreindra efnaflokka.
Í námskeiðinu verður stuðst við WebAssign (stafrænn vettvangur heimanáms). Nemendur verða að kaupa aðgang (nánari upplýsingar verða á heimasíðu námskeiðsins).
Bókin Organic Chemistry er aðgengileg án kostnaðar í gegnum openstax.org:
https://openstax.org/details/books/organic-chemistry
Efnagreining (EFN208G)
Efnagreining er sú grein efnafræðinnar sem fjallar um aðferðir til að greina efni og efnablöndur, bæði magnbundið og þáttbundið. Notkun efnagreiningar er því mjög víða, m.a. við gæðaeftirlit í matvæla-, snyrtivöru- og lyfjageiranum, við mælingar á mengandi efnum í andrúmslofti og við réttarvísindi.
Í upphafi námskeiðsins eru rifjuð upp undirstöðuatriði úr almennri efnafræði sem nemendur þurfa að hafa góð tök á. Farið verður yfir ýmis efnajafnvægi í vatnslausnum og flóknari kerfi þar sem tvö eða fleiri efnajafnvægi eru til staðar. Jafnframt verður skoðað hvaða áhrif jónir og styrkur þeirra hefur á efnajafnvægi, svokallaðir virknireikningar. Nemendur kynnast klassískum greiningaraðferðum sem byggjast á títrun, fellihvörfum, oxunar/afoxunarhvörfum, rafgreiningu og flókamyndun.
Farið er í inngang að rafefnafræði, markspennumælingar og rafmassamælingar.
Verkleg efnafræði 2a (EFN211G)
Stöðlun á pípettu, magngreining á Ni í stáli, kalsíum í mjólk og natríum í vatni og víni. Magngreining á ediksýru og vetnisperoxíði með títrun. Tvíþáttagreining á lausn með ljósmælingu. Magngreining á flúoríði í tannkremi og tei.
Verkleg lífræn efnafræði L (EFN215G)
Mörg þeirra efna sem við notum í okkar daglega lífi (plast, lyf, lím o.fl.) eru framleidd fyrir tilstilli lífrænnar efnafræði. Lyfjaiðnaðurinn er gott dæmi þar sem nauðsynlegt er að geta smíðað rétt efni, einangrað/hreinsað þau og borið kennsl á hvort rétt efni hafi verið smíðað.
Í þessu námskeiði munu nemendur fá þjálfun í grunnaðferðunum sem notaðar eru í verklegri lífrænni efnafræði og nýtist í efnaiðnaði. Einnig munu nemendur öðlast þjálfun í greiningu á niðurstöðum og skrifum á vísindalegum skýrslum.
Inngangur í þverfræðileg heilbrigðisvísindi - heilbrigðisvísindadagurinn (HVS202G)
Námskeiðið er ætlað nemendum á fyrsta námsári í greinum heilbrigðisvísinda. Sameiginlegur heilbrigðisvísindadagur nýnema allra deilda á Heilbrigðisvísindasviði í janúar ár hvert. Fjallað er um þverfaglegt samstarf og mikilvægi þess. Farið verður í grundvallarþætti samstarfsins svo sem sameiginlega sýn á réttindi til heilsu, samskipti og siðfræði. Einnig er fjallað um hlutverk og ábyrgð heilbrigðisvísinda.
Lífeðlisfræði (LYF201G)
Fyrirlestrar. Lífeðlisfræðileg starfsemi miðtaugakerfis, skynfæra, blóðrásar- og öndunarfærakerfis, nýrna , meltingar- og æxlunarfæra. Stjórnun orkubúskapar, efnaskipta og vaxtar. Viðbrögð mannslíkamans við áreynslu.
Verklegar æfingar. Hjarta og blóðrás, nýrnastarfsemi og viðbrögð við áreynslu. Skylt er að mæta í allar æfingar og umræðutíma þeim tengdum, skila niðurstöðuskýrslum og taka netpróf úr efni æfinganna.
Áfangapróf. Þrjú áfangapróf verða lögð fyrir á misserinu úr efni námskeiðsins eins og nánar er tilgreint í kennsluáætlun.
Sameindalífvísindi B (LÆK408G)
Námskeiðið er fyrir nemendur á 2. ári í lyfjafræði, næringarfræði og tannlæknisfræði. Í námskeiðinu er lögð áhersla á efnaskipti og þá þætti efnaskipta sem hafa sérstaka þýðingu fyrir þessa nemahópa. Fjallað verður um háorkusambönd, efnaskipti kolvetna, fitu og amínósýra. Samhæfing efnaskipta, núkleótíð, járn, hem, lifur, hormón og næringu. Í síðasta hluta námskeiðsins sem er einungis fyrir lyfjafræðinema og tannlæknanema verður fjallað um meltingu, upptöku og virkni næringarefna með áherslu á áhrif þeirra á heilsu.
Umræðutímar: Efnaskipti
Verklegar æfingar: Einangrun próteins á súlu, mæling á próteinstyrk, rafdráttur próteina, ónæmismæling (ELISA).
- Haust
- Sýkla-, veiru- og örverufræði
- Starfsnám lyfjafræðinema I
- Eðlislyfjafræði
- Aðgengisfræði og þróunarferli lyfja
- Sameindalífvísindi A
- Vor
- Lyfjagreining
- Gæðakröfur og regluverk í lyfjaframleiðslu
- Ónæmisfræði
- Verkleg lyfjagreining og eðlislyfjafræði
- Lyfjaefnafræði I
- Lyfjahvarfafræði
Sýkla-, veiru- og örverufræði (LYF301G)
Námskeiðið er í tveimur meginþáttum, sýklafræði og smitsjúkdómafræði. Þessir þættir samtvinnast og eru grundvöllur þekkingar og skilnings á eiginleikum sýkla og tengslum þeirra við smitsjúkóma, varnir gegn þeim og meðferð.
Verklag:
Kennslan er í formi fyrirlestra og verkkennslu. Auk þess takast nemendur á við efnið með verkefnum sem flest eru hópverkefni. Námskeiðinu er skipt upp í eftirfarandi hluta:
- Bakteríufræði – grunnatriði
- Bakteríufræði - bakteríutegundir/hópar og bakteríusýkingar í mismunandi líffærum/líffærakerfum
- Veirufræði og veirusjúkdómar
- Sveppafræði og sveppasýkingar
- Sníkjudýrafræði og sníkjudýrasýkingar
Nemendaverkefnum er skilað með kynningum og/eða rannsóknaskýrslum. Próf eru tekin í hverjum námskeiðshluta meðan á þeim stendur eða í kjölfar þeirra.
Starfsnám lyfjafræðinema I (LYF307G)
Námskeiðið er hugsað sem kynning á starfsemi apóteka. Umsjónarkennari námskeiðs finnur apótek og leiðbeinanda fyrir nemann, í samráði við Lyfjafræðideild HÍ. Í upphafi námskeiðs verða fyrirlestrar um lausasölulyf og síðan mun neminn fara í apótek sem honum hefur verið úthlutað í starfsnám. Verkefni verða framkvæmd samhliða verknámi. Í þessu námskeiði er skyldumæting.
Eðlislyfjafræði (LYF308G)
Í námskeiðinu er farið yfir þann grunneiginleika lyfjaefna (leysni) sem mestu máli skiptir fyrir virkni þeirra í líkamanum og hvernig hægt er að hafa áhrif á hann til að leysa algeng vandamál sem koma upp við þróun nýrra lyfjaefna og lyfjaforma.
Námskeiðið byggir á þekkingu nemenda úr efnafræði og stærðfræði af 1. ári. Námskeiðið er nauðsynlegur grunnur fyrir lyfjagerðarfræði og frásog lyfja og dreifingu (lyfjahvarfafræði).
Námskeiðið 2019 er samsett úr tveimur öðrum námskeiðum, eðlislyfjafræði I og II og er því 10 ECTS. Í námskeiðinu er byrjað á að fara stutt yfir nokkur atriði svo sem kristalbyggingar og eiginleika fastra efna, varmafræði og virkni (tvö hlutapróf úr þessu efni). Í lok 3. viku byrjar einn af þremur kjörnum námskeiðsins sem er jónun lyfja. Næsti kjarni byrjar í viku 5 en það er leysni lyfja.
Efni sem tengist leysni lyfja er tekið fyrir í viku 7 og svo byrjar síðasti kjarni námskeiðsins sem er stöðugleiki og niðurbrot lyfjasameinda (vika 8-9). Að lokum er svo farið fyrir nokkuð stóran kafla um fjölliður. Í námskeiðinu er mikilvægt að nemendur geti tengt námsefnið við lífræna efnafræði sem var kennd á 1. námsári og beitt útreikningum sem byggja á 1. árs stærðfræði.
Aðgengisfræði og þróunarferli lyfja (LYF309G)
Námskeiðið er framhald af LYF308G eðlislyfjafræði og undanfari fyrir lyfjahvarfafræði og lyfjagerðarfræði.
Í fyrri hluta námskeiðs er farið yfir þær leiðir sem eru færar til að koma lyfjum á verkunarstað. Sérstök áhersla er á frásog lyfja frá meltingarvegi. Aðrar leiðir til lyfjagjafar verða einnig skoðaðar. Þá verður farið í hvað felst í lyfjagjöf til barna og aldraðra og að lokum er ósamrýmanleiki lyfja skoðaður.
Í seinni hluta námskeiðsins er farið yfir forklínískar prófanir, þar með talið dýratilraunir, og yfir klínískar prófanir í mönnum (fasa 1-4).
Sameindalífvísindi A (LÆK310G)
Námskeið í sameindalífvísindum fyrir nemendur á 2. ári í lyfjafræði, næringarfræði og tannlæknisfræði. Farið verður yfir hugtök og aðferðir í erfðafræði, lífefnafræði og sameindalíffræði. Í inngangsfyrirlestrum verður gefið yfirlit yfir þessar fræðigreinar og samþættingu þeirra. Fyrirlestrar fjalla um erfðamengi, erfðaefni, litninga, mítósu og meiósu, gen, mendelskar-, mítókondríu- og fjölþátta erfðir, helstu efnaskipti DNA og erfðatækni. RNA sameindir, tjáningu gena og umritun. Amínósýrur, peptíðtengi, nýmyndun og niðurbrot próteina. Myndbygging próteina, próteinlyf, ensím og ensímhvötuð efnahvörf. Einnig verður fjallað um transgenísk tilraunadýr, lífupplýsingafræði, sameindaerfðafræði veira og genalækningar. Lögð verður áhersla á notkun þessara fræðigreina í heilbrigðisþjónustu.
Umræðutímar: Nemendasértækir umræðutímar fyrir hvern nemendahóp.
Verklegar æfingar: Einangrun og greining á DNA úr blóði.
Lyfjagreining (LYF403G)
Markmið námskeiðsins er að veita nemendum innsýn inn í notkun sérhæfðra lyfjagreiningaaðferða. Lyfjagreiningar eru notaðar við auðkenningu og magnákvörðun virkra efna og umbrotsefna í lyfjum og lífsýnum. Þessar aðferðir eru títranir, litrófsgreiningar (UV-Vis, IR, AAS, AES), vökvagreiningar (TLC, HPLC, UPLC), gasgreiningar (GC), rafdráttur (CE) og massagreiningar (MS).
Gæðakröfur og regluverk í lyfjaframleiðslu (LYF406G)
Markmið námskeiðisins er að nemendur skilji þær kröfur sem gerðar eru til lyfjaframleiðslu í dag og mikilvægi þess að þessum kröfum sé fylgt til hins ítrasta. Farið verður í uppbyggingu Evrópsku lyfjaskráarinnar (Ph.Eur) og þær gæðakröfur sem hún inniheldur. Kröfur um góða framleiðsluhætti (good manufacturing practice, GMP) í lyfjagerð innan Evrópu verða teknar vel fyrir. Mismunandi skráningarferla og uppbyggingu skráningarganga sem liggja til grundvallar markaðsleyfis innan EU verða kynntir. Mikilvægi lyfjagátar verður kynnt nemendum. Jafnframt verður farið stuttlega í ISO staðla, góða dreifingarhætti (GDP) og lækningatæki. Námskeiðið byggir á fyrirlestrum sem og minni verkefnum í tímum byggð á teymisnámi til að nemendur fái dýpri skilning á námsefninu auk fyrirtækjaheimsóknar í lyfjafyrirtæki
Ónæmisfræði (LYF407G)
Inngangur að ónæmisfræði. Ósérhæft ónæmi. Vakaþekking B og T eitilfrumna. Myndun vakaviðtaka. Kynning vaka handa T frumum. Boðferli í ónæmiskerfinu. Þroskun eitilfrumna. T frumu miðlað ónæmi. Vessabundið ónæmi. Ferli ónæmissvarsins. Slímhúðarónæmi. Ónæmisbilanir. Ofnæmi. Sjálfsofnæmi. Vefjaígræðslur. Ónæmisíhlutanir og bólusetningar. Ónæmisaðferðir.
Verkleg lyfjagreining og eðlislyfjafræði (LYF408G)
Sérhæfðar efnagreiningaraðferðir sem notaðar eru við lyfjamælingar verða kynntar. Efnagreiningaraðferðir sem notaðar eru við einangrun og auðkenningu lyfja ásamt aðferðum sem notaðar eru við magngreiningu lyfja. Rafeindaróf í sýnilegu og útfjólubláu ljósi, ljósmæling og vökvagreining (LC).
Núlltastigs, fyrstastigs, annarsstigs og þriðjastigs efnahvörf. Áhrif hitastigs og sýrustigs á efnahvörf. Áhrif salta, lausnarefnis og yfirborðsvirkra efna á efnahvörf. Vatnssækni og fitusækni. Flæði lyfja í gegnum lífrænar himnur.
Verklegar æfingar: Aðgreining og magngreiningar með HPLC, ákvörðun á pKa-gildum, hýdrólýsa, fasadreifing og frásog í gegnum himnu.
Skýrslur: Hver nemandi/hópur skilar skýrslum úr hverri æfingu.
Kröfur: Nemandi á að kunna að reikna bestu beinu línu (linear regression) og framkvæma einfalda tölfræðileg úrvinnslu gagna með hugbúnaði (td. excel).
Lyfjaefnafræði I (LYF409G)
Helstu lyfjaflokkar verða kynntir og farið yfir grunnatriði í lyfjaþróun. Fjallað verður um verkunarmáta lyfja, tengsl byggingar og virkni og notkun kynnt.
Efni fyrirlestra: Lyfjaþróun, samband byggingar og virkni, Líftæknilyf og prótein, skuggaefni og geislaefni, adrenvirk lyf, kólínvirk lyf, serótónínvirk lyf og lyf sem verka á amínósýru viðtaka, blóðþrýstingslyf, blóðfitulækkandi lyf, segavarnarlyf, svæfingalyf og svefnlyf , róandi lyf, flogaveikilyf, geðdeyfðarlyf og geðrofslyf, fíkniefni og sterk verkjalyf
Lyfjahvarfafræði (LYF410G)
Eins, tveggja og þriggja hólfa kerfi. Dreifirúmmál og helmingunartími. Frásog lyfja. Aðgengi og frásogspróf. "Clearance". "First-pass" áhrif og útskilnaður lyfja um lifur. Áhrif próteinbindingar á dreifingu og útskilnað lyfja. Innrennslislyf. Fjölskömmtun, upphafsskammtur og viðhaldsskammtur. Áhrif þéttni lyfs á útskilnað þess. Útreikningar á lyfjaskömmtum. Lyfhrif, aukaverkanir og eiturverkanir. Langvirk lyfjaform. Áhersla verður lögð á stærðfræðilega útreikninga og notagildi þeirra. Umbrot lyfja í líkamanum, cytochrome P-450 ensím og flokkun þeirra, flutningsprótein fyrir lyf.
Forkröfur: Nemandi verður að kunna að reikna bestu línu (linear regression) og beita einfaldri tölfræði með notkun vasareiknivélar.
- Haust
- Lyfjagerðarfræði
- Lyfjaefnafræði II
- Klínísk aðgengisfræði
- Verkleg lyfjagerðarfræði
- Verkleg lyfjaefnafræði
- Nanótækni í lyfjafræði
- Vor
- Lyfja- og efnafræði náttúruefna
- Nýskráð lyf
- BS verkefni
- Verkleg lyfja- og efnafræði náttúruefna
Lyfjagerðarfræði (LYF514G)
Markmið námskeiðisins er að fjalla um helstu gerðir lyfjaforma og mismunandi lyfjaleiðir. Farið verður í hönnun lyfjaforma (preformulation) og þætti sem liggja til grundvallar lyfjagerð eins og dreifð kerfi, flæði vökva, hreinsun vökva, síun og hjálparefni við lyfjagerð (rotvarnarefni, andoxunarefni, bragðefni, litarefni). Munu nemendur kynnast lausnum, fleytum, dreifum, stílum, lyfjum í öndunarfæri, lyfjaformum á húð, augnlyfjaformum, samsetningu þeirra og þeim kröfum sem eru gerðar til þeirra samkvæmt Evrópsku lyfjaskránni (Ph.Eur). Jafnframt verður farið í mismunandi aðferðir til að dauðhreinsa lyf og lyfjaumbúðir ætlaðar til gjafar fram hjá meltingarkerfinu (parenteral lyfjaform) ásamt því að farið verður ítarlega í töfluslátt en einnig komið inn á framleiðslu hylkja. Farið verður í með nemendum hvernig framleiðsla taflna fer fram. Atriði eins og kornastærð og eiginleikar agna, áhrif blöndunar á töfluslátt , val á hjálparefnum og húðun taflna verða kennd. Einnig verður farið sérstaklega í gæðaeftirlit með töfluframleiðslu og kröfur sem eru settar fram af Ph.Eur til töfluframleiðslu. Tekið verður fyrir einkaleyfi á lyfjum og lyfjaformum.
Lyfjaefnafræði II (LYF515G)
Helstu lyfjaflokkar og þróun þeirra kynntir. Farið er í verkunarmáta lyfja, tengsl byggingar og virkni og notkun kynnt. Efni fyrirlestra: Sýkingalyf, krabbameinslyf, verkjalyf, bólgueyðandi lyf, sterar, histamín og andhistamín, sykursýkislyf, skjaldkirtils- og beinþynningarlyf.
Klínísk aðgengisfræði (LYF516G)
Farið verður í klíníska lyfjahvarfafræði og lyfhrifafræði (pharmacokinetics og pharmacodynamics) og þá þætti sem hafa áhrif á frásog, dreifingu, próteinbindingu, umbrot, útskilnað og lyfhrifafræði lyfja. Þetta eru þættir eins og aldur, kyn, erfðir, sjúkdómar (t.d. nýrna- og lifrarsjúkdómar) og önnur lyf (t.d. milliverkandi lyf). Skoðuð verða lyfjahvarfafræði og lyfhrifafræði lyfja áhrif einstakra líffæra. Farið verður í klíníska skömmtun lyfja eins og warfarín, digoxín, blóðfitulækkandi lyf, insúlín o.fl. og notkun blóðgilda við skömmtun lyfja.
Verkleg lyfjagerðarfræði (LYF517G)
Yfirgripsmikill verklegur áfangi þar sem unnið verður við grundvallaraðferðir við lyfjaframleiðslu. Almenn og sérhæfð atriði tengd helstu lyfjaformum og lyfjaframleiðslu á lausnum, dreifum, fleytum, smyrslum, kremum, áburðum, stílum, hylkjum, töflum. Ýmis hjálparefni verða notuð við lyfjagerð svo sem rotvarnarefni, andoxunarefni, bragðefni og litarefni. Framleiðsla sæfðra augnlyfjaforma. Blöndun duftefna, kornastærð, þurrkun, eiginleikar duftefna.
Verklegar æfingar: Almennar aðferðir samkvæmt verkhefti. Framleiðsla lyfjaforma samkvæmt forskriftum og lyfseðlum. Notast verður við lyfjastaðla og lyfjaskrár við framkæmd. Gæðaeftirlit; efnafræðilegt, örverufræðilegt og tæknilegt mat á lyfjum og hjálparefnum til lyfjaframleiðslu samkvæmt gildandi lyfjastöðlum.
Verkleg lyfjaefnafræði (LYF518G)
Markmið námskeiðsins er að kynna aðferðir sem eru notaða í lyfjaefnafræði og lyfjaþróun. Námskeiðið er sett upp eins sýnishorn af lyfjaþróunarferlinu (mini-drug development). Nemendur eiga að framkvæma einfaldar efnasmíðar á líffræðilega virkum efnum. Hreinsa efnin og ákvarða hreinleika þeirra. Gera greiningar til að staðfesta efnabyggingu. Framkvæma síðan líffærðilega próf og greina samanband byggingar og virkni sem byggir á niðurstöðum fyrir efni sem nemendur hafa sjálfir smíðað og efni sem aðrir hafa smíðað. Nemendur munu einnig fá öryggisþjálfun, læra á rannsóknatæki, um úrvinnslu á rannsóknagögnum og notkun rafrænnar vinnubókar. Nemendur fá einnig að verkefni að gera stutt myndband sem fjallar um ákveðna aðferð eða efnasmíði.
Nanótækni í lyfjafræði (LYF519G)
Í þessu námskeiði fá nemendur að kynnast nanótækni í lyfjafræði sem og grunn í hönnun tilrauna (DoE). Nemendur læra sem dæmi um lyfjaform á nanóskala með það að markmiði að beita markvissri lyfjagjöf (e. passive and active targeting). Teknir verða fyrir nanólyfjaberar með fitugrunn, fjölliðugrunn, prótein-tegnda og svo líftæknihannaða (utanfrumubólur). Nýting þessara nanólyfjabera gagnvart ákveðnum sjúkdómum verður rædd og þau lyf sem eru á markaði í dag verða tekin fyrir. Greiningaraðferðir á nanólyfjaberum og reglugerðarþætti varðandi eiturverkun og öryggi þessara nanólyfjabera verða tekin fyrir
Lyfja- og efnafræði náttúruefna (LYF616G)
Efnafræði, uppgötvun, uppruni, lífmyndun, vinnsla og notkun náttúruefna í lyfjafræði verða tekin fyrir í námskeiðinu. Nýting þeirra sem virk lyfjaefni, sem fyrirmyndir lyfja og sem tæknileg hjálparefni við framleiðslu lyfja. Farið er í náttúruefni eftir lífmyndunarlegum uppruna og helstu flokka þeirra sem hafa þýðingu í lyfjafræði. Í fyrsta stigs efnasamböndum er farið yfir lífmyndun, efnafræði og notkun sykra, fita og amínósýra. Einnig er lögð stór áhersla á annars stigs efnasambönd sem eru mjög stór uppspretta lyfjaeða eiturefna. og flokka þeirra á borð við arómatísk efni, pólýketíð, terpena og alkalóíða sem telja ótal mörg lyf. Til nánari upptalningar má nefna efnaflokka eins og: Sykrur (einsykrur, tvísykrur, fjölsykrur og glýkósíð efnasambönd). Arómatísk efnasambönd leidd út frá Shikimín sýru (t.d. fenýlprópön, kúmarín og fúrókúmarín, lignön og tannín). Fituefni (fitusýrur, olíur, vöx og prostaglandin). Pólýketíð efnasambönd eins og makrólíða, anthrasýklín, tetrasýklín, statín, polyene makrólíða fúkalyf og náttúruleg litarefni). Flavonóíðar. Terpen sambönd (mónó-, seskví-, dí-, trí-, tetraterpen og plöntusterar). Valin peptíð, protein og ensím. Alkalóíðar (alkalóíð amínur, trópan-, ópíum- og ergot alkalóíðar ásamt fleiru). Púrín og pyrimidín efnasambönd (vítamín, kófaktorar og xanthín afleiður).
Nýskráð lyf (LYF617G)
Einstaklingsverkefni um nýskráð lyf. Undirbúnings- og verkefnatímar, nemafyrirlestrar, heimildaritgerð og fyrirlestur. Hver nemandi skrifar heimildaritgerð um eitt nýskráð sérlyf. Nemendur kynna einnig verkefni sitt með fyrirlestri fyrir alla þátttakendur námskeiðsins og svara spurningum frá spyrli, kennara og öðrum nemendum. Hver nemandi er spyrill í einu verkefni og metur frammistöðu þess nemanda með kennaranum. Mætingarskylda er í alla nemafyrirlestra.
BS verkefni (LYF618G)
Markmið BS verkefnis er að takast á við áskoranir sem fylgja þróun lyfjaforma. Áskoranir felast m.a. í því að lyfjaefni og hjálparefni hafa ólíka eiginleika og þegar hanna á lyfjaform þarf að taka mið af þeim þáttum. Nemendur beita ólíkum aðferðum í verkefninu til að útbúa lyfjaform sem uppfyllir kröfur og markmið sem leiðbeinandi setur í upphafi námskeiðs.
Verkleg lyfja- og efnafræði náttúruefna (LYF619G)
Markmið námskeiðsins er að nemendur kynnist algengum aðferðum sem notaðar eru við einangrun og auðkenningu lyfjavirkra náttúruefna. Nemendur fá verkefni sem felst í að einangra efni og prófa lyfjavirkni þess með ensímprófi. Notast verður við skiljunaraðferðir, skiljumælingar og efnagreiningaraðferðir eins og t.d. TLC, VLC, SPE og HPLC ásamt UV og NMR.
Hafðu samband
Skrifstofa Lyfjafræðideildar
Haga, Hofsvallagötu 53, 3. hæð
Sími 525 4353
lyf@hi.is
Opið virka daga kl. 10-12 og 13-15
Hjálplegt efni
Ertu með fleiri spurningar? Hér finnurðu svör við ýmsum þeirra og upplýsingar um ýmislegt annað sem gott er að hafa í huga þegar þú velur nám.