Skip to main content

Hjúkrunarfræði fyrir fólk með annað háskólapróf

Hjúkrunarfræði fyrir fólk með annað háskólapróf

Heilbrigðisvísindasvið

Hjúkrunarfræði fyrir fólk með annað háskólapróf

BS gráða – 240 einingar

Sjö missera nám í hjúkrunarfræði fyrir þau sem hafa lokið öðru háskólanámi. Nemendur læra að meta heilsu fólks á öllum aldri og veita viðeigandi meðferð, ráðgjöf og þjónustu. Námið er fjölbreytt, krefjandi og samanþjappað. Námið veitir undirbúning fyrir hjúkrunarstörf af margvíslegum toga og stjórnunarstörf.

Skipulag náms

X

Örveru- og sýklafræði (HJÚ142G)

Markmið námskeiðsins er að kynna mikilvægi sýkla og smitvarna við umönnun og meðferð sjúklinga og önnur störf á vettvangi hjúkrunar. Lögð er áhersla á fræðilegan undirbúning nemenda til þess að þeir geti hámarkað öryggi sjúklinga og umönnunaraðila við störf sín. Þannig geti þeir tekist á við þekkta og nýja sýkla, spítalasýkingar og útbreiðslu sýklalyfjaónæmis. Mikilvægir orsakavaldar sýkinga og smitsjúkdóma eru kynntir, helstu eiginleikar þeirra, varnir gegn þeim og meðferð.

X

Líkaminn – Bygging og þroskun (HJÚ130G)

Markmið kennslu í líffæra- og fósturfræði er að veita nemendum almenna og víðtæka þekkingu á grundvallaratriðum í byggingu og þroskun líkamans. Í námskeiðinu er farið í fyrirlestrum yfir grundvallaratriði fósturfræði og gerð mannslíkamans skýrð með tilvísun til uppruna hans. Þannig þekki verðandi hjúkrunarfræðingar byggingu og innbyrðis afstöðu þátta stoðkerfisins, vöðva, líffæra og líffærakerfa. Þessi grunnur veitir grundvallarskilning á uppbyggingu líkamans, en gerir nemendum jafnframt kleift að afla sér viðbótarþekkingar á þessu sviði.

X

Frumulíffræði (HJÚ131G)

Inngangur að frumulíffræði.

Að loknu námskeiðinu mun nemandinn hafa öðlast þekkingu til að geta lýst og gert í grundvallaratriðum grein  fyrir eftirfarandi þáttum og hugtökum.

Bygging og þróun heilkjörnunga. Efnafræði frumna og orkubúskapur, gerð og eiginleikar stórsameinda eins og próteina og kjarnsýra. Bygging og hlutverk frumuhluta sem dæmi frumuhimnu, kjarna, hvatbera, frumugrindar, golgíkerfis, leysikorna og oxunarkorna. Grunnatriði í erfðafræði og genastjórnun. Stjórnkerfi og boðleiðir innan frumu og samskipti milli fruma ásamt frumusérhæfingu og krabbameinum.

X

Félags- og sálfræði (HJÚ114G)

Í félagsfræðihluta: Gerð er grein fyrir hugtökunum heilbrigði, sjúkdómur, veikindi og sjúklingur. Fjallað er um virkni-, álags- og lífsstílsskýringar á heilsuvandamálum. Gerð er grein fyrir tengslum viðhorfa og hegðunar og kynnt fræðileg líkön um þau tengsl. Langvinn heilsuvandamál eru skilgreind og rætt um sálrænar, félagslegar og efnahagslegar afleiðingar þeirra.

Í sálfræðihluta: Fjallað verður um hvernig skilja má hugarstarf og hegðun einstaklinga og hópa út frá sjónarhorni sálfræðinnar. Kynnt eru mikilvægt hugtök, helstu kenningar og niðurstöður rannsókna. Fjallað verður um sálfræði sem vísindagrein með áherslu á gagnrýna hugsun og fagleg vinnubrögð. Markmiðið er að nemendur öðlist þekkingu og skilning á mikilvægum undirstöðuatriðum sálfræðinnar og hagnýtum nálgunum innan hennar.

X

Hjúkrunarfræði og starfsvettvangur hjúkrunarfræðinga (HJÚ127G)

Viðfangsefnum námskeiðsins er skipt í þrjá meginhluta sem hver hefur sína áhersluþætti:

1. Hjúkrunarstarfið:Fjallað um hvað í því felst að vera hjúkrunarfræðingur. Saga hjúkrunar og starfsumhverfi hjúkrunarfræðinga á Íslandi skoðað. Sjónum beint að hlutverki hjúkrunarfræðinga og sérsvið hjúkrunar kynnt.

2. Hjúkrunarfræðin:Fjallað um grunnkenningar í hjúkrunarfræði og þekkingu sem hjúkrunarstarfið byggir á. Rýnt í samhengið milli skjólstæðings, umhverfis, heilbrigðis og hjúkrunar. Sérstaklega verður fjallað um tengslakenningar, þarfakenningar og umhyggjukenningar. Siðareglum og grunngildum hjúkrunar verða gerð skil og fjallað sérstaklega um gagnrýna hugsun í samhengi við hjúkrunarfræði.

3. Heildræn hjúkrun í þágu skjólstæðinga, aðstandenda og samfélags: Samskipti í samhengi við hjúkrun verða skoðuð, einnig fjölmenning og inngilding og áhrifin sem þau hafa á störf hjúkrunarfræðinga. Hinsegin heilbrigðisþjónusta verður til umfjöllunar. Sérstaklega verður fjallað um hlutverk hjúkrunarfræðinga í geðvernd auk þess sem ofbeldi og áföll og áhrif þess á heilsu fólks verða gerð skil. Jafnframt verður umfjöllun um með hvaða hætti hjúkrunarfræðingar geta hlúð að eigin heilsu og vellíðan og í kjölfarið tekist á við krefjandi starf í síbreytilegum heimi.

Meginmarkmið námskeiðsins eru eftirfarandi:

  • að nemendur fái innsýn og þekkingu á hugtökum og kenningum sem móta starfsumhverfi og starfsvettvang hjúkrunarfræðinga.
  • að nemendur öðlist þekkingu á hjúkrun sem fræðigrein og sem starfsgrein með áherslu á gagnrýna hugsun, fagmennsku, starfsþróun, sjálfræði, samvinnu og hlutverk hjúkrunarfræðinga.
  • að nemendur öðlist þekkingu á helstu siðareglum, lögum og reglugerðum sem skapa ramma og móta starf hjúkrunarfræðinga.
  • að nemendur öðlist þekkingu á sögu hjúkrunar á Íslandi.
  • að nemendur öðlist þekkingu á áhrifum heilsu og sjúkdóma á líðan fólks og aðstæður.
  • að nemendur öðlist þekkingu á geðvernd, sem er ein af meginundirstöðum hjúkrunar. Umfjöllun á námskeiðinu mun beinast að hugtökum sem tengjast tilgangi og aðferðum geðverndar og geðræktar, og verður tengd við gagnreyndar aðferðir sem stuðla að farsælli úrvinnslu lífsbreytinga, efla þrautseigju og vellíðan. Sjónum verður sérstaklega beint að daglegum lifnaðarháttum einstaklinga og hópa í nútíma samfélagi.
  • að nemendur öðlist þekkingu á áföllum og ofbeldi með áherslu á afleiðingar áfalla og ofbeldis á heilsu.
  • að nemendur öðlist þekkingu á aðferðum sem geta stuðlað að vellíðan þeirra í námi sem hjúkrunarnemar og í starfi sem hjúkrunarfræðingar.
X

Inngangur í þverfræðileg heilbrigðisvísindi - heilbrigðisvísindadagurinn (HVS202G)

Námskeiðið er ætlað nemendum á fyrsta námsári í greinum heilbrigðisvísinda.  Sameiginlegur heilbrigðisvísindadagur nýnema allra deilda á Heilbrigðisvísindasviði í janúar ár hvert. Fjallað er um þverfaglegt samstarf og mikilvægi þess. Farið verður í grundvallarþætti samstarfsins svo sem sameiginlega sýn á réttindi til heilsu, samskipti og siðfræði. Einnig er fjallað um hlutverk og ábyrgð heilbrigðisvísinda.

X

Lífeðlisfræði I (HJÚ212G)

Markmið kennslu í lífeðlisfræði er veita nemendum almenna og víðtæka þekkingu á grundvallaratriðum í starfsemi mannslíkamans. Þannig öðlist verðandi hjúkrunarfræðingar grundvallarskilning á líffræðilegum forsendum heilbrigðis og orsökum sjúkdóma og geti betur metið ástand og þarfir sjúklinga. Jafnframt eigi nemendur auðveldara með að afla sér viðbótarþekkingar á þessu sviði í framtíðinni. Þannig er staðgóð þekking í þessum greinum nauðsynleg undirstaða fyrir nám í almennum og sérhæfðum hjúkrunargreinum.
Viðfangsefni: Vöðvar, taugakerfi, stjórn hreyfinga. Inkirtlar og hormónar. Hjarta og æðakerfið. Öndun.

X

Tölfræði (HJÚ214G)

Í námskeiðinu eru kennd undirstöðuatriði hagnýtrar tölfræði. Að megin efni er fjallað um tölfræðilega úrvinnslu, túlkun á niðurstöðum og framsetningu. Helstu efnisþættir eru: Mælingar á miðlægni og dreifingu í talnasöfnum, stöðlun, normaldreifing, öryggismörk, marktækni (z-, t- og x2-próf) og fylgni (líkindahlutfall, fí, Spearman's r og Pearson's r.

X

Ónæmis- og meinafræði (HJÚ224G)

Markmið kennslu í ónæmisfræði er að veita nemendum almenna og víðtæka þekkingu á grundvallaratriðum í starfsemi ónæmiskerfisins. Þannig öðlist verðandi hjúkrunarfræðingar grundvallarskilning á líffræðilegum forsendum heilbrigðis og orsökum sjúkdóma og geti betur metið ástand og þarfir sjúklinga. Jafnframt eigi nemendur auðveldara með að afla sér viðbótarþekkingar á þessu sviði í framtíðinni. Þannig er staðgóð þekking í þessum greinum nauðsynleg undirstaða fyrir nám í almennum og sérhæfðum hjúkrunargreinum.

Viðfangsefni: Ónæmiskerfið, líffæri og frumur. Ósérhæfðar varnir, átfrumur, magnakerfið og bólgusvar. Sérhæfðar varnir gegn sýkingum og krabbameini, þroskun og sérhæfing eitilfrumna, og ónæmisminni. Grundvöllur ónæmissvars, sjálfsþols og stjórnunar. Tilurð, greining og meðferð meðfæddra og áunnra ónæmisbilana. Tilurð, greining og meðferð ofnæmis- og sjálfsofnæmissjúkdóma. Ónæmisfræðilegur grundvöllur líffæraflutninga. Sértækar meðferðir byggðar á forsendum ónæmisfræðinnar (bólusetningar, afnæmingar, líftæknilyf).

Farið er í grundvallaratriði í almennri meinafræði. Fjallað er um frumuáverka, bráða- og króníska bólgu, græðslu, blóðsega og blóðrek, hjarta- og æðasjúkdóma og góðkynja- og illkynja æxlisvöxt.

X

Almenn hjúkrun I (HJÚ225G)

Í þessu námskeiði er fjallað um grunn almennrar hjúkrunar og hjúkrunarferlið, allt frá mati á skjólstæðingum, greiningu hjúkrunarviðfangsefna, áætlun, meðferð og framvindu skjólstæðings. Kennd verða grunnhugtök og -viðfangsefni hjúkrunar með áherslu á skjólstæðinga með skerta sjálfsbjargar- og hreyfigetu þar með talið aðhlynningu slíkra skjólstæðinga. Lykilviðfangsefni eru upplýsingasöfnun, sýkingavarnir, þrýstingssáravarnir, áhrif rúmlegu, vinnutækni, næringarástand, útskilnaður, lífsmörk og öryggi við lyfjagjafir. Nemendur læra einnig flóknari viðfangsefni tengd hjúkrun eldra fólks og þeim líkamlegu og sálfélagslegu breytingum sem fylgja öldrun. Sem dæmi er kennt um færni- og heilsumat vegna flutnings á hjúkrunarheimili, mat á heilsufari íbúa á hjúkrunarheimilum og vísbendingar um gæði þjónustu á hjúkrunarheimilum.

Í færnisetri kynnast og þjálfa nemendur vinnubrögð sín í viðfangsefnum sem fjallað hefur verið um í fræðilegri kennslu. Nemandinn fær þjálfun í notkun kvarða við mat á sjálfsbjargargetu og ástandi skjólstæðinga og kynnist leiðum til að tryggja öryggi þeirra í daglegri umönnun.

Í tveggja vikna klínísku námi á hjúkrunardeild er lögð áhersla á þjálfun í að veita aðhlynningu og aðra grunnhjúkrun, þar með talið færni við samskipti, mat á ástandi skjólstæðinga, greiningu viðfangsefna, áætlun um meðferð einkenna og framkvæmd viðeigandi hjúkrunar.

X

Aðferðafræði (HJÚ243G)

Markmið námskeiðsins er að nemendur öðlist skilning á helstu hugtökum í aðferðafræði sem og þekkingu á algengustu rannsóknaaðferðum sem beitt er í hjúkrunarrannsóknum.

X

Lífeðlisfræði II (HJÚ309G)

Markmið kennslu í lífeðlisfræði er að veita nemendum almenna og víðtæka þekkingu á grundvallarstarfssemi mannslíkamans. Þannig öðlast verðandi hjúkrunarfræðingar grunnskilning á líffræðilegum forsendum heilbrigðis og forsendum sjúkdóma og geta betur metið ástand og þarfir sjúklinga. Jafnframt eiga nemendur auðveldara með að afla sér viðbótarþekkingar á þessu sviði í framtíðinni. Þannig er staðgóð þekking í þessum greinum nauðsynleg undirstaða fyrir nám í almennum og sérhæfðum hjúkrunargreinum.

Viðfangsefni: nýrnastarfsemi, bygging og starfsemi meltingarfæra, stjórn efnaskipta, orkujafnvægi, stjórn líkamshita, lífeðlisfræði vaxtar, skynjun, meðvitund, atferli, æxlunarlífeðlisfræði og fósturþroskun.

X

Samskipti og fræðsla (HJÚ314G)

Námskeiðið er kennt á 2. ári í grunnnámi í hjúkrunarfræði og er í námskeiðinu byggt ofan á þá þekkingu sem nemendur hafa öðlast í námskeiðum um siðfræði og hjúkrunarfræði. Markmið námskeiðsins er að leggja grunn að færni nemenda til 1) samskipta sem einkennast af gæðum, 2) að mynda árangursríkt meðferðarsamband, 3) að veita notendum heilbrigðisþjónustunnar fræðslu með gagnreyndum aðferðum 4) að skilja hvernig ofangreind færni tengist öryggi notenda heilbrigðisþjónustunnar. Á námskeiðinu verður fjallað um samskipti frá ýmsum hliðum og fá nemendur fjölmörg tækifæri til æfingaí kennslustundum og utan þeirra. Þar verður lögð áhersla á að skoða og þjálfa virka hlustun, viðbrögð í erfiðum samskiptum og uppbyggjandi leiðir til samskipta við notendur heilbrigðisþjónustunnar. Fjallað verður um hugtakið virðingu, ábyrgð heilbrigðisstarfsfólks og fagmennsku. Hugtakið meðferðarsamband verður sérstaklega tekið fyrir og „erfiðir sjúklingar“ræddir út frá tilkalli allra til heilbrigðisþjónustu. 

Á námskeiðinu er ennfremur er fjallað um tilgang heilbrigðisfræðslu/sjúklingafræðslu og tengsl fræðslu við útkomu og árangur meðferðar. Helstu kenningar er tengjast heilbrigðisfræðslu og námi fullorðinna verða kynntar svo og hugtakið heilsulæsi. Farið verður í fræðsluferlið í ljósi mismunandi þarfa skjólstæðinga og nemendur æfa sig í skipuleggja og veita fræðslu. Skoðaðar verða mismunandi kennsluaðferðir og kennslumiðlar og hvernig þekking, færni og viðhorf hjúkrunarfræðinga geta haft áhrif á árangur fræðslu til skjólstæðinga.

X

Almenn hjúkrun II (HJÚ318G)

Haldið verður áfram að fjalla um hjúkrunarfræðileg hugtök, auka færni nemenda í flóknari hjúkrunarviðfangsefnum s.s. að vinna við dauðhreinsaðar aðstæður, lyfja-, vökva. Áhersla er lögð á ábyrgð hjúkrunarfræðinga við að meta ástand einstaklinga, skráningu og notkun hjúkrunarferlisins. Einnig verður farið í fræðileg vinnubrögð. Klínískt nám fer fram á sjúkrahúsum.

X

Vöxtur og þroski barna og unglinga (HJÚ319G)

Í námskeiðinu er farið í helstu kenningar um vitsmuna-, siðferðis- og sálfélagslegan þroska yfir æviskeiðið. Lögð er áhersla á heilbrigðan vöxt og þroska barna og unglinga. Farið er í líkamlegar breytingar en jafnframt í vitsmunalegan og sálfélagslegan þroska hjá börnum og unglingum og ýmsar aðferðir til að meta vöxt og þroska þeirrra.

X

Heilbrigðismat (HJÚ320G)

Markmið námskeiðsins er að veita nemendum yfirgripsmikla þekkingu á líkamsmati (physical assessment) og tengdum þáttum. Áhersla er lögð annarsvegar á að nemendur öðlist færni í beitingu á lykilþáttum í líkamsmati og hinsvegar á skilning nemenda á sérhæfðari aðferðum líkamsmats. Megin viðfangsefnið er heildrænt líkamsmat út frá fullorðnum einstaklingum. Samhliða er tæpt á bráðum líkamlegum einkennum hjá sjúklingum í tengslum við líkamsmat, sem og öryggi sjúklinga. Í námskeiðinu verður ennfremur tekið fyrir lykilþættir fyrstuhjálpar, þar sem megin markmið er að undirbúa nemendur að sinna fyrstuhjálp við krefjandi aðstæður og á sjálfstæðan hátt. Í færnistofu er farið yfir aðferðir við framkvæmd á allsherjar líkamsmati og námsefnið sett í klínískt samhengi. Rík áhersla er á að tengja námsefnið við önnur námskeið í náminu, til að mynda líffæra- og lífeðlisfræði. Sjá betur námskeiðslýsingu.

X

Lyfjafræði (HJÚ409G)

Lyfjahvarfafræði: Frásog, dreifing, útskilnaður og umbrot lyfja. Gildi lyfjamælinga í blóði. Lyfjaviðtakar. Samband skammta og verkunar. Hjáverkanir lyfja. Öldrunarlyfjafræði. Milliverkun lyfja. Lyfhrifafræði: Lyfjafræði innkirtla. Bólgueyðandi lyf. Lyfjafræði úttaugakerfis. Lyfjafræði miðtaugakerfis. Blóðþrýstingslækkandi lyf. Hjartalyf. Segavarnarlyf. Fitulækkandi lyf. Eitranir í heimahúsum.

X

Lyflækningafræði (HJÚ418G)

Námskeiðið miðar að því að nemandi öðlist yfirsýn yfir helstu sjúkdóma er fengist er við innan lyflækningafræði. Kennd eru grundvallaratriði allra algengustu sjúkdóma eftirtalinna sjúkdómaflokka: hjarta- og æðasjúkdóma, meltingarfærasjúkdóma, nýrnasjúkdóma, öndunarfærasjúkdóma, sjúkdóma í taugakerfi, blóðsjúkdóma, innkirtlasjúkdóma, gigtarsjúkdóma, smitsjúkdóma og krabbameinssjúkdóma. Við lok námskeiðsins á nemandi að geta hagnýtt þekkingu sína á sjúkdómum innan hvers sjúkdómaflokks lyflækninga í starfi og frekara námi.

X

Almenn hjúkrun III (HJÚ419G)

Þetta námskeið miðar því auka færni nemenda í greiningu hjúkrunarþarfa og skipuleggja hjúkrunarmeðferð. Áhersla er lögð á ábyrgð hjúkrunarfræðinga við að meta ástand einstaklinga og að veita viðeigandi hjúkrunarmeðferð. Fjallað verður um verki, einkennamat, vökva- og blóðgjafir í æð ásamt vökva-, elektrólýta- og sýrubasa jafnvægi. Farið verður yfir túlkun rannsóknarniðurstaða, töku sýna og meðhöndlun. Haldið verður áfram að kenna öryggi við lyfjavinnu og lyfjaútreikninga ásamt öryggismenningu. Umbætur, gagnreynd þekking ásamt þátttöku sjúklinga, upplýsingatækni og teymisvinna eru leiðarstef í gegnum allt námskeiðið. 

X

Skurðlækningafræði (HJÚ410G)

Námskeiðið miðar að því að nemandi öðlist yfirsýn yfir helstu sjúkdóma og áverka vegna slysa sem fengist er við innan handlækningafræði. Farið verður yfir einkenni, greiningu og meðferð sjúkdóma og slysa, sem skiptist þannig: Almennir hlutar skurðlæknisfræði, sjúkdómar í brjóstholi, sjúkdómar í kviðarholi, brjóstasjúkdómar, skjaldkirtilssjúkdómar og meðferð bruna, sjúkdómar í þvagfærum, sjúkdómar í beinum og liðum og sjúkdómar í heila og mænu.

X

Næringarfræði (HJÚ416G)

Markmið námskeiðsins er að nemendur læri undirstöðuatriði næringarfræðinnar, þ.e. um hugtakið lífsnauðsynlegt, um næringarefni og hlutverk þeirra í líkamanum, hvaðan næringarefnin koma, áhrif þeirra á líkamsstarfsemi og tengsl mataræðis, næringarefna og heilsu. Fjallað verður um næringu á mismunandi æviskeiðum og helstu áherslur varðandi næringu mismunandi sjúklingahópa. Markmiðið er jafnframt að nemendur kynnist samstarfi hjúkrunarfræðinga og næringarfræðinga í heilsugæslu og á sjúkrahúsum.

X

Geðhjúkrun og geðheilbrigði (HJÚ523G)

Í námskeiðinu er fjallað um ýmsa þætti geðheilbrigðis og helstu geðraskanir meðal fullorðinna og barna, tíðni, greiningu og meðferðarleiðir. Farið verður yfir meginkenningar og hugtök sem geðhjúkrun byggir á sem og mismunandi nálganir í geðheilbrigðisþjónustu. Fjallað er sérstaklega um hlutverk hjúkrunarfræðinga í bráðameðferð og endurhæfingu einstaklinga með geðræn vandamál.

X

Klínísk færni í fjölskylduhjúkrun (HJÚ529G)

Í námskeiðinu verður lögð áherslu á að nemendur kynnist hlutverki hjúkrunarfræðinga innan heilsugæslunnar s.s. ung- og smábarnavernd og almennri móttöku.  Sérstök áhersla verður lögð á umfjöllun um umönnun og eftirlit nýbura, sængurkvenna og fjölskyldna, hjúkrun ungu fjölskyldunnar og um hugmyndafræði fjölskylduhjúkrunar og sú hugmyndafræði útfærð fyrir skjólstæðinga heilsugæslunnar.  Í námskeiðinu kynnast nemendur aðlögun foreldra að nýjum hlutverkum og er meðal annars farið í tengslamyndun í fjölskyldum.  Jafnframt er farið í ýmis frávik svo sem áhrif meðgöngu-og fæðingarreynslu á heilsu móður og barns og þunglyndi mæðra eftir fæðingu. Nemendur öðlast grunnþekkingu og þjálfun í því að meta sérþarfir og heilsufarsástand mæðra,nýbura og fjölskyldna eftir fæðingu, bæði með klínískri starfsþjálfun og einnig með gerð lausnaleitarverkefna.  Áhersla verður lögð á að þjálfa nemendur í samskiptum við skjólstæðinga og fyrirbyggjandi og heilbrigðishvetjandi hjúkrun.

Meginmarkmið námskeiðsins er að dýpka skilning nemenda á þeirri heilbrigðisþjónustu sem innt er af hendi innan heilsugæslunnar og um leið að auka skilning þeirra á hlutverki hjúkrunarfræðinga í almennri og sérhæfðri móttöku á heilsugæslustöðvum.  Megin áhersla er lögð á heilsuvernd og fræðslu- og stuðning við fjölskyldur sem eru skjólstæðingar heilsugæslunnar.  Fjallað verður um hugtök og kenningar tengdar hjúkrun fjölskyldna,  heilsuvernd ogaðferðir við þróun fjölskylduviðtala og  fræðslu- og stuðningsmeðferða. Auk þess verður fjallað um það hvernig hjúkrunarfærðingar geta nýtt gagnreynda starfshætti á klínískum vettvangi og hugmyndafræði heilsugæsluhjúkrunar í starfi og til rannsókna. Stefna stjórnvalda í heilbrigðismálum verður höfð að leiðarljósi.  Námskeiðinu er þannig ætlað að gefa nemendum tækifæri til að þróa eigin færni í að aðstoða einstaklinga og fjölskyldur í eigin heilsurækt.  Þannig gefur námskeiðið nemendum tækifæri til að  kynnast ákveðnum sérsviðum innan hjúkrunar. 

X

Öldrunarhjúkrun (HJÚ525G)

Í þessu námskeiði verður fjallað um breytingar sem verða á einstaklingum með hækkandi aldri og helstu viðfangsefnum öldrunarhjúkrunar. Gerð verður grein fyrir algengum heilsufarseinkennum, sjúkdómum og hjúkrunarmeðferð sem beitt er við þeim. Sérstök áhersla verður á einkenni vitrænnar skerðingar og greiningu hennar svo og hjúkrun sjúklinga með heilabilun og/eða í óráði.

X

Hjúkrun aðgerðasjúklinga (HJÚ528G)

Tilgangur kennslu í námskeiðinu er að nemendur öðlist þekkingu og færni í hjúkrun fullorðinna einstaklinga sem eiga við bráða og langvinna sjúkdóma að stríða, fara í skurðaðgerð og þarfnast sérhæfðrar hjúkrunar. Lögð er áhersla á að nemendur greini líkamlegar, andlegar, félagslegar og menningarlegar þarfir og samspil þeirra við heilsufarsvanda hins sjúka einstaklings og fjölskyldu hans. Enn fremur, að þeir vinni heildrænt að því að leysa hjúkrunarvandamál og efla heilbrigði og þroska skjólstæðinga sinna. Eftirlit (observation), skipulagning og beiting hjúkrunarmeðferða eru lykilatriði. Þá er fjallað öryggi, gæði og umbætur, upplýsingatækni, gagnreynda þekkingu og teymisvinnu heilbrigðisstétta í samhengi við bataferli (post-operative recovery) sjúklings.

X

Hjúkrun langveikra fullorðinna (HJÚ527G)

Tilgangur námskeiðisins Hjúkrun langveikra fullorðinna er að efla þekkingu og færni nemenda við að hjúkra fullorðnum einstaklingum með langvinna sjúkdóma bæði í langvinnu og bráðaástandi. Lögð er áhersla á að nemendur greini líkamlegar, andlegar, félagslegar, trúarlegar og menningarlegar þarfir og samspil þeirra við heilsufarsvanda hins sjúka einstaklings og fjölskyldu hans og vinni heildrænt að því að lina þjáningu og efla heilbrigði og þroska sjúklinga sinna. Tengsl hjúkrunarfræðings og sjúklings, eftirlit, viðbrögð við einkennum, skipulagning og beiting hjúkrunarmeðferðar eru lykilatriði

X

Heilsugæsla samfélagsins (HJÚ530G)

Markmið námskeiðsins er að fjalla um þá heilbrigðisþjónustu sem hjúkrunarfræðingar sinna innan heilsugæslunnar og í samfélaginu utan heilbrigðisstofnana.  Farið er í hlutverk heilsugæsluhjúkrunarfræðinga í ung- og smábarnavernd, skólaheilsugæslu í grunn- og framhaldsskólum og móttöku skjólstæðinga í móttöku á heilsugæslustöðvum.  Sérstök áhersla verður lögð á umfjöllun um umönnun nýbura, foreldra og ungu fjölskylduna.  Í námskeiðinu kynnast nemendur barneingarferlinu, ýmsum frávikum svo sem áhrifum meðgöngu-og fæðingarreynslu á heilsu móður og barns, aðlögun foreldra að nýjum hlutverkum, þróun tengslamyndunar og þunglyndi mæðra/foreldra eftir fæðingu. Nemendur öðlast grunnþekkingu og þjálfun í því að meta sérþarfir og heilsufarsástand mæðra,nýbura og fjölskyldna eftir fæðingu, bæði með klínískri starfsþjálfun og einnig með gerð lausnaleitarverkefna.  Áhersla verður lögð á að þjálfa nemendur í samskiptum við skjólstæðinga og fyrirbyggjandi og heilbrigðishvetjandi hjúkrun. Einnig verður áhersla lögð á forvarnir og heilsueflingu einstaklinga og hópa í samfélaginu innan og utan heilbrigðisstofnana. Fjallað er um leiðir til að fyrirbyggja heilsufarsvandamál og efla heilsu hópa innan samfélagsins, með hliðsjón af þekkingu um lifnaðarhætti og  kenningar um forvarnir og heilsueflingu, meðal annars með umfjöllun um atvinnu- og umhverfisheilbrigði.

X

Klínísk öldrunarhjúkrun (HJÚ618G)

Í þessu námskeiði kynnist nemandi sértækum þörfum og hjúkrun eldra fólks og þeim breytingum sem verða á einstaklingnum með hækkandi aldri. Áherslan er á að greina hvernig meðferð og mat á eldra fólki þarf að taka tillit til sérstakra þarfa þeirra svo sem bestur árangur náist í meðferð og endurhæfingu. Með því að taka tillit til sér þarfa eldra fólks má tryggja lífsgæði og stytta legutíma. Verkefni og matstæki sem unnið er með geta skarast við önnur námskeið en tilgangurinn er þá að þjálfa nemandann í að nota matstæki sem og að túlka niðurstöðuna með tilliti til öldrunarbreytinga.

X

Klínísk hjúkrun aðgerðasjúklinga (HJÚ633G)

Tilgangur kennslu í námskeiðinu er að nemendur öðlist þekkingu og færni í hjúkrun fullorðinna einstaklinga sem fara í skurðaðgerð og þarfnast sérhæfðrar hjúkrunar. Lögð er áhersla á að nemendur greini líkamlegar, andlegar, félagslegar og menningarlegar þarfir og samspil þeirra við heilsufarsvanda hins sjúka einstaklings og fjölskyldu hans. Enn fremur, að þeir vinni heildrænt að því að leysa hjúkrunarvandamál og efla heilbrigði og þroska skjólstæðinga sinna. Eftirlit, skipulagning og beiting hjúkrunarmeðferða, öryggi, gæði og umbætur, upplýsingatækni, gagnreynd þekking og teymisvinna heilbrigðisstétta í samhengi við bataferli sjúklings eða að taka á við einkenni og heilsufarsvanda eru lykilatriði í klínískri þjálfun í námskeiðinu.

X

Klínísk geðhjúkrun (HJÚ617G)

Í námskeiðinu er lögð áhersla á að þjálfa nemendur m.a. í að beita þeirri þekkingu sem þeir öðluðust í fræðilega námskeiðinu Geðhjúkrun og geðheilbrigði. Klíníska þjálfunin fer fram á heilbrigðisstofnunum þar með talið á Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins, Reykjalundi og Landspítala háskólasjúkrahúsi. Sérstök áhersla verður lögð á þjálfun heilsufarsmats og klíníska færni og hagnýtingu gagnreyndrar þekkingar við hjúkrun einstaklinga og aðstandenda á sviði geðhjúkrunar.

Nemendur öðlast grunnþekkingu og þjálfun í að meta þarfir og heilsufarsástand skjólstæðinga, bæði með klínískri þjálfun og einnig með framkvæmd klínískra verkefna. Auk þess er áhersla lögð á þjálfun nemenda í tengslamyndun og samskiptum við skjólstæðinga og fjölskyldur ásamt heilsueflandi umönnun. Nemendur eiga samneyti við sjúklinga, aðstandendur og fagfólk og skoða sérstaklega þátt hjúkrunarfræðinga í meðferð og þverfaglegu samstarfi. Þeir leitast við að tengja fræðilega þekkingu við klínísk viðfangsefni og leita í því samhengi eftir fræðilegu efni og rannsóknarniðurstöðum. Nemendur taka þátt í daglegum viðfangsefnum hjúkrunar og nýta sér námstækifæri sem þeim bjóðast og vinna klínísk námsverkefni með leiðsögn klínískra- og sérfræðikennara.

Nemendur öðlast grunnþekkingu og þjálfun í að meta þarfir og heilsufarsástand skjólstæðinga sinna, bæði með klínískri þjálfun og einnig með framkvæmd klínískra verkefna. Auk þess er áhersla lögð á þjálfun nemenda í samskiptum við skjólstæðinga og fjölskyldur þeirra og á fyrirbyggjandi og heilsueflandi umönnun. Nemendum gefst tækifæri til að beita fræðilegri þekkingu við mat og þróun íhlutana fyrir einstaklinga og fjölskyldur þeirra undir handleiðslu heilbrigðisstarfsmanna. Þeir eiga samneyti við sjúklinga, fjölskyldur þeirra og fagfólk og skoða sérstaklega þátt hjúkrunarfræðinga í meðferð og þverfaglegu samstarfi. Þeir leitast við að tengja fræðilega þekkingu við klínísku viðfangsefni og leita í því samhengi eftir fræðilegu efni og rannsóknarniðurstöðum. Nemendur taka þátt í daglegum viðfangsefnum hjúkrunar og nýta sér námstækifæri sem þeim bjóðast og vinna klínísk námsverkefni með leiðsögn klínískra- og sérfræðikennara.

X

Valnámskeið í klínískri hjúkrun (HJÚ823G)

Lýsing á námskeiðinu á íslensku:
Nemendur velja sér sjálfir klínískan vettvang eftir áhugasviði. Klínískur vettvangur er þar sem sjúklingum/einstaklingum er veitt hjúkrun og þar sem nemandi getur aukið klíníska færni sína og þekkingu. Skilyrði er að nemandi hafi ekki verið né verði þar í klínísku námi í öðrum námskeiðum og að hjúkrunarfræðingur sé þar starfandi. Gert er ráð fyrir að nemandi dvelji á vettvangi í eina vinnuviku (40 stundir). Frávik geta verið frá því t.d. ef nemandi fer erlendis.

Nemandi hefur samband við vettvang og semur munnlega við hjúkrunarfræðing um að fá að koma í klínískt nám sem samsvarar 40 klukkustundum. Skilyrði er að nemandi hafi ekki verið né verði þar í klínísku námi í öðrum námskeiðum og að hjúkrunarfræðingur sé þar starfandi. 

Nemandi sendir formlega umsókn með starfsferilskrá til umsjónarkennara námskeiðs (á Canvas vef námskeiðsins) og hjúkrunarfræðings á vettvangi. Í umsókn á að koma fram:

    1. Nafn og netfang nemanda.
    2. Nafn og netfang umsjónarkennara.
    3. Hvaða vettvang valdi nemandi og hver hefur umsjón með dvöl hans þar (nafn og netfang hjúkrunarfræðings).
    4. Hvers vegna varð þessi vettvangur fyrir valinu/rök fyrir vali.
    5. Hver eru markmið nemandans með klíníska náminu á þessum stað.
    6. Áhersluatriði sem nemandi mun sérstaklega kynna sér. Hvaða gagnreyndu þekkingu ætlar nemandi að skoða og skrifa um sem tengist þessum vettvangi.

 Umsjónarkennari sendir hjúkrunarfræðingi á vettvangi upplýsingar um námskeiðið.

Þegar ljóst er hvenær nemandi mun fara á vettvang hefur hann samband við hjúkrunarfræðing á vettvangi. Nemandi staðfestir síðan við umsjónarkennara tímabil klíníska námsins. Mismunandi er eftir stundatöflu hvers nemanda hvenær hann getur farið á vettvang

X

Klínísk heilsugæsla (HJÚ627G)

Í námskeiðinu er lögð áhersla á að þjálfa nemendur í að beita gagnreyndri þekkingu sem þeir öðluðust í fræðilega námskeiðinu „Heilsugæsla samfélagsins. Klíniska þjálfunin fer fram á heilbrigðisstofnunum þar með talið á Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, Landspítala háskólasjúkrahúsi. Sérstök áhersla verður lögð á klíníska færni og hagnýtingu gagnreyndrar þekkingar við hjúkrun einstaklinga (t.d. nýbura, mæðra/foreldris og skólabarna), fjölskyldna og hópa innan heilsugæslunnar.

X

Klínísk fjölskylduhjúkrun (HJÚ632G)

Í námskeiðinu er lögð áhersla á að þjálfa nemendur í að beita gagnreyndri þekkingu sem þeir öðluðust í fræðilega námskeiðinu HJÚ 529G Klínísk færni í fjölskylduhjúkrun.  Sérstök áhersla verður lögð á klíníska færni og hagnýtingu gagnreyndrar þekkingar við hjúkrun einstaklinga og fjölskyldna þeirra. Nemendur vinna í sameiningu með sérfræðikennara að því að finna skjólstæðinga og fjölskyldur þeirra til að vinna með í klíníkinni.

X

Klínísk hjúkrun langveikra fullorðinna (HJÚ620G)

Tilgangur kennslu í námskeiðinu er að nemendur öðlist þekkingu og færni í hjúkrun fullorðinna einstaklinga sem eiga við bráða og langvinna sjúkdóma að stríða og þarfnast sérhæfðrar hjúkrunar. Lögð er áhersla á að nemendur greini líkamlegar, andlegar, félagslegar og menningarlegar þarfir og samspil þeirra við heilsufarsvanda hins sjúka einstaklings og fjölskyldu hans. Enn fremur, að þeir vinni heildrænt að því að leysa hjúkrunarvandamál og efla heilbrigði og þroska skjólstæðinga sinna. Eftirlit, skipulagning og beiting hjúkrunarmeðferða, öryggi, gæði og umbætur, upplýsingatækni, gagnreynd þekking og teymisvinna heilbrigðisstétta í samhengi við bataferli sjúklings eða að taka á við einkenni og heilsufarsvanda eru lykilatriði í klínískri þjálfun í námskeiðinu.

X

Heimahjúkrun (HJÚ711G)

Í námskeiðinu verður fjallað um heimilið sem vettvang heilbrigðisþjónustu. Rætt verður um gildi heimilisins fyrir fólk og áhrif tæknivæðingar á heimilismenn. Leitast verður við að skoða samspil umhverfis á heimilum og heilsu og lífsgæða. Samstarf við aðstandendur og aðstæður þeirra verða ræddar með hliðsjón af innlendum og erlendum rannsóknum. Gerð verður grein fyrir uppbyggingu og skipulagi heilbrigðis- og félagsþjónustu til þeirra sem dvelja heima og þarfnast aðstoðar vegna veikinda eða skerðingar á færni. Í fyrirlestrum og klínísku námi kynnist nemandi störfum í heimahjúkrun sem miða að því að viðhalda og efla vellíðan fólks með langvinn heilsufarsvandamál sem býr á eigin heimili.

X

Barnahjúkrun (HJÚ728G)

Námskeiðið veitir nemendum þekkingu og skilning á grundvallar hugtökum, kenningum og aðferðum í barnahjúkrun og grundvallar þekkingu og skilningi á hugtökum sem tengjast helstu barnasjúkdómum. Lögð er áhersla á þarfir og heilbrigði barna; einkenni, viðbrögð, upplifun og skynjun barna á veikindum og sjúkrahúsvist; tjáskipti við börn, tengsl við foreldra og hlutverk hjúkrunar í umönnun barna með ýmis heilbrigðisfrávik. Þátttaka í klínískum verkefnum, starfi og umræðu, ásamt umræðufundum og klínískum vinnusmiðjum veita nemendum tækifæri til að kynnast störfum hjúkrunarfræðinga og samstarfsmanna á barnadeildum og að öðlast grundvallarhæfni og -leikni í helstu aðferðum og inngripum tengdum hjúkrun og tengdri meðferð. Áhersla er lögð á tengingu fræðilegrar þekkingar, klínískrar aðferðafræði og framkvæmd hjúkrunar foreldra og barna með gagnreyndum aðferðum.

X

Bráðahjúkrun (HJÚ729G)

Markmið námskeiðsins er að nemendur öðlist þekkingu og færni í hjúkrun bráð- og alvarlega veikra sjúklinga, sem og hjúkrun slasaðra. Í námskeiðinu er fjallað um hjúkrun sjúklinga á bráða- og gjörgæsludeildum. Tekið er fyrir meðal annars hugmyndafræði bráða- og gjörgæsluhjúkrunar, fyrstu meðferð, mat og eftirlit, flutning og móttöku slasaðra/bráðveikra, stuðning við aðstandendur bráð- og alvarlega veikra og helstu þætti í hjúkrun sjúklinga sem þurfa á gjörgæslumeðferð að halda. Í námskeiðinu er áhersla lögð á hugtökin mat (assessment), eftirlit (surveillance) og fyrirbygging (prevention) og hugtökin skoðuð í bráðasamhengi.
  Í námskeiðinu er tekin fyrir sérhæfð endurlífgun, byggt á stöðlum evrópska endurlífgunarráðsins (ERC). Í verklegum æfingum í hermisetri (herminám) er lögð áhersla á  þjálfun í kerfisbundnu mati/skoðun, fyrstu meðferð/bjargráð og samvinnu/samskipti í bráðaaðstæðum. Áhersla er lögð á virka þátttöku nemenda í verklegum æfingum sem og að tengja námsefnið við önnur námskeið í náminu með áherslu á bráð- og alvarleg veikindi.

X

Þverfræðileg samvinna í heilbrigðisvísindum (HVS501M)

Námskeiðið er ætlað nemendum á þriðja námsári eða síðar sem lokið hafa a.m.k. tveimur árum grunnnáms í greinum heilbrigðisvísinda.  Hugmyndafræði þverfræðilegrar samvinnu verður lögð til grundvallar í námskeiðinu þar sem nemendur vinna saman að sameiginlegum markmiðum.  Nemendur munu vinna saman í þverfræðilegum teymum og fá tækifæri til að æfa fagmennsku, teymisvinnu, og efla samskipti. Nemendur í hverjum hóp eru úr nokkrum heilbrigðisvísindagreinum.

Námsmat (staðið/fallið) byggist á  verkefnavinnu, virkni í verkefnavinnu og prófum sem verða á rafrænu formi í kennslulotunni.
 
Kennslutilhögun:
Nemendum er skipt í þverfaglega námshópa í byrjun annar sem síðan skipuleggja fundartíma sínir sjálfir og skila lokaverkefnum fyrir lok október. 

X

Heilbrigði og siðfræði (HJÚ726G)

  • Sérstaklega er fjallað um siðferðilegan þátt hjúkrunarfræðinnar og hjúkrunarstarfsins með það að markmiði að búa nemendur undir að greina og takast á við siðferðileg úrlausnarefni í starfi heilbrigðisstétta til dæmis tengt ofbeldi og flóknum aðstæðum í starfi. Tekin verða til athugunar ýmis siðfræðileg úrlausnarefni, sem upp koma í starfi heilbrigðisstétta og forsendur fyrir lausnum á þeim.
  • Afleiðingar ofbeldis og kynbundinna áfalla á heilsu. Birtingarmyndir ofbeldis og kynbundins ofbeldis á mismunandi æviskeiðum. Birtingarmyndir ofbeldis meðal mismunandi samfélagshópa, s.s. ofbeldis í nánum samböndum og fjölskyldum; ofbeldis gagnvart viðkvæmum og jaðarsettum hópum; eineltis; ofbeldis í heilbrigðis- og félagsþjónustu. Faraldsfræði ofbeldis, úrræði fyrir þolendur og leiðir til forvarna.
  • Erfiða samtalið og áskoranir í samskiptum. Sjálfskaðar og sjálfsvígshætta. Aðferðir til að skima fyrir ofbeldi og veita þolendum stuðning. Hjúkrun eftir ofbeldi
X

Langveikir og heilbrigðisþjónustan (HJÚ727G)

Námskeiðið er ætlað 4. árs BS nemendum í hjúkrunarfræði. Það er fræðilegt (4 ECTS) og klínískt (1 ECTS) og skiptist í tvo þætti:

Þjónustunotkun og íslensk heilbrigðisþjónusta í alþjóðlegu samhengi.
Fjallað er um veikindahegðun og þjónustunotkun, skýringar á þjónustunotkun, einkenni þeirra sem nota heilbrigðisþjónustu, skipulag á og aðgengi að þjónustu, árangur og árangursmælingar í heilbrigðisþjónustu. Umsjón með þessum þætti námskeiðsins hefur Rúnar Vilhjálmsson, prófessor.

Meðferð/þjónusta hjúkrunarfræðinga fyrir langveika og fjölskyldur þeirra.
Fjallað er um hugtök, einkenni og fyrirbæri sem tengjast langveikum og fjölskyldum þeirra og hjúkrunarmeðferðir  sérsniðnar að þörfum langveikra og fjölskyldna þeirra. Einnig er fjallað um siðferðileg álitamál í þjónustu við langveika og fjölskyldur þeirra og úrvinnsla álitamála þjálfuð. Nemendur kynnast starfsemi stofnana sem þjónusta langveika, verða í klínísku námi á göngudeildum fyrir langveika og kynnast starfsemi sjúklingasamtaka.

Tvær kennsluáætlanir verða í námskeiðinu, annars vegar fyrir grunnnemendur og hins vegar fyrir framhaldsnemendur. Nemendur námskeiðsins geta nálgast þær á Canvas þegar kennsla er hafin.

X

Hjúkrunarstjórnun (HJÚ714G)

Námskeiðinu er ætlað að auka þekkingu og dýpka skilning nemanda á helstu grunnhugtökum og kenningum í hjúkrunarstjórnun og hvernig hægt er að beita þeim í hjúkrunarstarfi. Lögð er áhersla á að nemendur þekki og geri sér grein fyrir því stjórnunarstarfi sem fram fer í hjúkrun innan heilbrigðisstofnana. Jafnframt að þau þekki grundvallaratriði í rekstri, uppbyggingu og skipulagi stjórnkerfa heilbrigðisstofnana. Fjallað verður sérstaklega um forystuhlutverk hjúkrunarfræðinga innan heilbrigðiskerfisins og hlutverk þeirra í teymisvinnu. Klínískt nám í hjúkrunarstjórnun miðar að því að nemendur fái æfingu í að hafa umsjón með, skipuleggja, stjórna og forgangsraða hjúkrunarmeðferð ákveðins hóps sjúklinga ásamt því að tryggja öryggi þeirra og starfsmanna.

Öll fög eru skyldufög nemaVValfagBBundið val er háð skilyrðum ENámskeiðið er ekki kennt á misserinuNámsleiðin í Kennsluskrá

Hvað segja nemendur?

Þórunn Friðriksdóttir
Carolin K. Guðbjartsdóttir
Birna M.G. Baarregaard
Rakel Haraldsdóttir
Gunnhildur Gunnarsdóttir
Þórunn Friðriksdóttir
Hjúkrunarfræði, BS

Það hefur lengi blundað í mér að fara í hjúkrunarfræði og þegar ég heyrði af þessari námsleið vissi ég að hún væri fullkomin fyrir mig. Ég sem þroskaþjálfi sé ótal mörg tækifæri í því að tvinna þessar tvær starfstéttir, sem hafa oft ekki sömu sýn á hlutina, saman. Það eru afar spennandi tímar framundan og ég hlakka til að sjá hvaða dyr þessi námsleið mun opna fyrir mig. Námið er krefjandi en um leið mjög skemmtilegt. Þessi gráða er ótrúlega góð viðbót við hvaða menntun sem er og nánast tryggir starfsöryggi enda er alltaf þörf á góðum hjúkrunarfræðingum. Um leið er starfið svo fjölbreytt að allir ættu að finna sér starfsvettvang við hæfi.

Carolin K. Guðbjartsdóttir
Hjúkrunarfræði, BS

Hjúkrunarfræðinám er gamall draumur og ákvað fara í námið þegar ég sá að það væri komi ný styttri námsleið sem hentaði mér betur en að fara í 4 ára nám. Námið er mjög krefjandi og lærdómsríkt. Gaman að kynnast nýju fólki bæði kennurum og nemendum. Námið er fjölbreytt og skemmtileg blanda af verklegum og bóklegum tímum. Fyrir þá sem eru með háskólagráðu fyrir og langar að breyta um starfsvettvang þá hentar að vera með styttri námstímabil og einnig er þetta minni hópur. Námið er skemmtilegt, fjölbreytt en um leið krefjandi nám fyrir þá sem hafa áhuga á því að vinna sem hjúkrunarfræðingar. 

Birna M.G. Baarregaard
Hjúkrunarfræði, BS

Námið er mjög áhugavert, krefjandi og krefst mikillar vinnu en uppskeran er frábær. Það hefur komið mér á óvart hversu margir koma að kennslunni í náminu og aðgengi okkar að fremstu sérfræðingum landsins á hinum ýmsu sviðum heilbrigðisstéttarinnar. Ég mæli með þessu námi fyrir hvern þann sem langar til þess að starfa innan heilbrigðisgeirans og er tilbúinn í áhugavert og krefjandi nám sem bíður upp á ótal tækifæri til framtíðar. Eirberg, húsnæði hjúkrunarfræðideildar býður upp á fína aðstöðu fyrir nemendur þar sem gott er að vera.

Rakel Haraldsdóttir
Hjúkrunarfræði, BS

Ég íhugaði það að fara í hjúkrunarfræði beint eftir menntaskóla en ákvað að fara aðra leið. Seinna fór ég að vinna á Landspítalanum og kynntist starfi hjúkrunarfræðinga betur og hugsaði oft með mér að ég hefði átt að læra þetta en fannst 4 ára námið aðeins of langt til að ég gæti skráð mig í það. Ég var svo ekki lengi að hugsa mig um þegar ég sá tækifæri til þess að taka sama námið á fljótari yfirferð. Það hefur komið mér á óvart hvað námið er fjölbreytt, en það endurspeglar auðvitað bara hve fjölbreytt störf hjúkrunarfræðinga eru. Ég er mjög ánægð með að boðið sé uppá þessa leið og vona að þessi valkostur sé kominn til að vera, enda góður hópur með fjölbreyttan bakgrunn sem stundar námið.

Gunnhildur Gunnarsdóttir
Hjúkrunarfræði, BS

Ég hafði alltaf hugsað mér að læra hjúkrunarfræði þó að ég hafi nú þegar útskrifast með aðra háskólagráðu. Eftir að fréttir bárust um þessa námsleið þá hvatti það mig enn meira til þess að sækja um. Hjúkrunarfræði er frábrugðin því sem ég hef áður lært í háskólanum. Í hjúkrunarfræði er meira einblítt á verklegu hliðina heldur en í öðrum greinum. Ég hvet alla sem hafa áhuga á að hafa áhrif á heilsu og líf annarra og vilja fjölbreytt nám til þess að sækja um. 

Hafðu samband

Skrifstofa Hjúkrunar- og ljósmóðurfræðideildar
Eirberg, 1. hæð, Eiríksgata 34
101 Reykjavík
Sími 525 4960
hjukrun@hi.is

Opið virka daga frá kl. 9 - 14

Við erum á Facebook

""

Hjálplegt efni

Ertu með fleiri spurningar? Hér finnurðu svör við ýmsum þeirra og upplýsingar um ýmislegt annað sem gott er að hafa í huga þegar þú velur nám.