Vísindavefurinn aldrei vinsælli

Nýliðið ár var hið besta í sögu Vísindavefsins þegar litið er til heimsókna á þennan vinsæla vef. Hann er nú í 15. sæti yfir mest sóttu vefi landsins samkvæmt samræmdri mælingu fyrirtækisins Modernus.
Vísindavefur HÍ birti 336 svör árið 2016 eða nærri eitt nýtt svar á hverjum degi ársins. Svörin á vefnum voru samtals 11.415 í árslok 2016 en auk þess að birta svör á vefnum svara starfsmenn vefsins fjölmörgum fyrirspurnum og vísa á svör, bæði með tölvupósti og símtölum.
Samkvæmt mælingum Modernus á síðasta ári voru notendur Vísindavefsins rúmlega 690 þúsund á síðasta ári og jókst fjöldi þeirra um 34 þúsund eða 5% frá fyrra ári. Þetta er mesti fjöldi sem sótt hefur vefinn á einu ári. Innlitum fjölgaði enn fremur um 6% milli ára og reyndust nærri 1,7 milljónir og þá voru flettingar á vefnum á síðasta ári 2,5 milljónir eða 5% fleiri en árið á undan. Vefurinn er nú í 15. sæti yfir fjölsóttustu vefina sem taka þátt í samræmdri vefmælingu Modernus.
Starfsmenn Vísindavefsins hafa tekið saman lista yfir „mest lesnu“ svörin á árinu 2016 og snerta þau ýmis mál, allt frá Icesave og uppþvottavéla til parísarhjóla og fríhafna, eins og sjá má í nýrri frétt á vefnum.
Þar er bent á að ekki sé óalgengt að á hverjum degi séu rúmlega 3.000 svör opnuð á Vísindavefnum og í einum mánuði getur talan nálgast 11.000 sem fer nærri heildarfjölda svara á Vísindavefnum! Fjölbreytni er því einn af kostum vefsins og ljóst að lesendur hafa mikinn áhuga á að fræðast um allar greinar vísindanna.
Vísindavefurinn hefur verið starfræktur í vel á annan áratug og hefur frá upphafi notið afar mikilla vinsælda. Á vefnum er fjallað um alls kyns vísindi og getur hver sem er sent inn spurningu um allt milli himins og jarðar. Starfsmenn Háskólans og stuðningsmenn vefsins sjá svo um að svara spurningunum.

