Vinningstillaga um stækkun Gamla Garðs

Arkitektastofurnar Ydda arkitektar og DLD - Dagný Land Design urðu hlutskarpastar í hönnunarsamkeppni Félagsstofnunar stúdenta um stækkun Gamla Garðs. Úrslit voru kynnt í vikunni en efnt var til samkeppninnar í samvinnu við Arkitektafélag Íslands.
Gamli Garður er elsti stúdentagarðurinn á háskólalóðinni og var tekinn í notkun árið 1934, fyrir rúmum 80 árum. Hefur hann verið leigður út til stúdenta yfir vetrartímann en nýttur sem hótel á sumrin.
Starfsemi á háskólasvæðinu hefur breyst mikið undanfarin ár samfara auknu alþjóðlegu samstarfi Háskóla Íslands og einskorðast ekki lengur við vetrartímann. Með tengingu nýrra stúdentaíbúða á lóðinni við Gamla Garð verður betur hægt að sinna erlendum stúdentum, fræðimönnum og ráðstefnugestum sem þurfa á skammtímahúsnæði á viðráðanlegu verði að halda á meðan þeir stunda hér rannsóknir og nám á sumrin. Verður þá bæði hægt að sækja um dvöl á Gamla Garði í lengri og skemmri tíma.
Alls bárust 13 tillögur í samkeppnina en vinningstillöguna áttu Ydda arkitektar og DLD - Dagný Land Design. Ydda var stofnuð árið 2013 af Hildi Ýri Ottósdóttur og Hjördísi Sóleyju Sigurðardóttur sem báðar luku BA-prófi í arkitektúr frá LHÍ. Að því loknu lauk Hildur Ýr meistaraprófi frá EPFL í Lausanne í Sviss en Hjördís Sóley meistaraprófi frá TU-Delft í Hollandi. DLD - Dagný Land Design var stofnað árið 2011 af Dagnýju Bjarnadóttur en hún lauk meistaraprófi í landslagsarkitektúr frá Kaupmannahafnarháskóla.
Í umsögn dómnefndar um tillöguna segir m.a. að hönnun húsanna falli vel að hugmyndum FS um samfélag stúdenta en í samkeppnislýsingu kom m.a. fram að áherslur í byggingu og nýtingu skyldu vera í takt við þá stefnu FS að auka lífsgæði stúdenta. „Fyrirkomulag lóðar er skemmtilegt og býður upp á opið samfélag íbúa og annarra gesta háskólasvæðisins. Íbúar Gamla Garðs fá með tillögunni útisvæði til afnota sem er vel þegið. Þá fær hann skjól frá nýbyggingu við Hringbraut en skapar skemmtilega opnun inn á háskólasvæðið í átt að Skeifu og Sæmundargötu,“ segir einnig í umsögn dómnefndar sem jafnframt tekur fram að mikilvægt sé að unnið verði frekar með ásýnd byggingarinnar við frekari vinnslu í deiliskipulagsferli svo yfirbragð byggingar samræmist betur aðliggjandi byggð.
Í öðru sæti varð tillaga Andrúms arkitekta og 3. verðlaun komu í hlut Loop Architechts APS og Urban Arkitekta ehf. Þá veitti dómnefnd einnig viðurkenningu fyrir athyglisverða tillögu en hún kom frá arkitektastofunum Trípólí og Krads.
Vonast er til að framkvæmdir við bygginguna hefjist í lok árs og að hún verði tekin í notkun vorið 2019.
