Vilja fjölga konum og kynsegin fólki í upplýsingatækni með nýju sumarnámskeiði
„Stelpur forrita eru sumarvinnustofur sem miða að því að auka áhuga á og jafna kynjahlutföll í tölvunarfræði og hugbúnaðarverkfræði um leið og markmiðið er að draga úr brottfalli kvenna úr greinunum,“ segja Saeeda Shafaee og Theresia Mita Erika, tölvunarfræðinemar við HÍ. Þær standa í ágúst fyrir ókeypis vikulangri dagskrá þar sem ætlunin er að kynna áhugasömum konum og kynsegin einstaklingum fyrir töfrum upplýsingatækninnar. Meðal þess sem fengist verður við eru netverslun, netöryggi, máltækni og nýsköpun.
Saeeda og Mita eru báðar langt komnar í BS-námi í tölvunarfræði við HÍ og segjast einnig vilja með framtakinu hvetja innflytjendur, konur og kynsegin fólk, sem er í minnihluta til að skoða þau tækifæri sem felast í upplýsingatækninni og vel launuðum störfum innan geirans. Sjálfar eru þær báðar innflytjendur og eiga sér afar áhugaverða sögu.
Kynntust tölvunarfræði í COVID
Mita, sem er fædd í Indónesíu, fluttist hingað til lands árið 2016 eftir að hafa kynnst íslenskum manni sínum í Japan þar sem þau voru bæði í námi. Hún lærði upphaflega til kjólahönnuðar en þegar hingað var komið skellti hún sér í nám í íslensku sem öðru máli og lauk BA-gráðu í þeirri grein og einnig kínversku árið 2022. „Ég starfaði töluvert í ferðabransanum hér og sá fyrir mér að nýta kínverskuna þar vegna fjölgunar kínverskra ferðamanna,“ segir Mita.
En svo kom COVID með tilheyrandi áhrifum á ferðaþjónustuna og það breytti plönum Mitu. Þá var að finna sér nýjan vettvang. „Ég ákvað að taka nokkur tölvunarfræðinámskeið þar sem fyrrverandi samstarfsfólk hafði sagt mér að það væri mjög hagnýtt. Ég var þó ekki nógu hugrökk til að skrá mig í nám í HÍ fyrr en 2022 því ég var ekki viss um að ég gæti verið þessi dæmigerði tölvunarfræðingur, eins og ég sá þá fyrir mér. Þetta breyttist allt þegar ég skráði mig í Tölvunarfræði 1 sem Ebba Þóra Hvannberg, eini kvenkyns prófessorinn við brautina, kenndi. Ég fann þá að ég gat verið ég sjálf og myndi ná árangri ef ég legði nógu mikið á mig. Ég er Ebbu afar þakklát fyrir þá miklu þolinmæði, tíma og stuðning sem hún veitir nemendum og það hafði mikil áhrif á mig,“ segir Mita.
Saeeda kom hingað til lands sem flóttamaður árið 2012. Hún er af afgönskum uppruna en fædd í Íran en hefur nú búið hálfa ævina hér á landi. Sjálf segist hún aldrei hafa leitt hugann að því að hún færi í tölvunarfræði því draumur hennar var alltaf að verða læknir og hjálpa fólki. „Þegar afi minn dó áttaði ég mig á því að draumur minn var ekki að verða læknir heldur einhver sem gæti hjálpað honum að ganga. Ég upplifði mig yfirgefna, mjög týnda og skorti ástríðu,“ segir Saeeda.
Hún komst hins vegar fyrst í kynni við tölvunarfræðina í COVID-19-faraldrinum, þegar kennsla fór fram á netinu, og hlustaði á tíma í netöryggisnámskeiði sem systir hennar sótti. „Það var afar merkilegt hversu virkir nemendurnir voru og kennarinn talaði af slíkri ástríðu um efnið að ég varð að heyra meira og taka þátt í svara spurningum hans rétt,“ rifjar Saeeda upp. Tveimur árum síðar var hún svo byrjuð í tölvunarfræði í HÍ.
Saeeda Shafaee og Theresia Mita Erika, tölvunarfræðinemar við HÍ.
Mikill áhugi og stuðningur frá HÍ og fyrirtækjum í upplýsingatækni
Þær Mita og Saeeda kynntust í tölvunarfræðinni og tóku m.a. þátt í að endurvekja Ada - Hagsmunafélag kvenna í upplýsingatækni við HÍ eftir COVID. „Sem hluti af teyminu sem endurvakti Ada sáum við að við gætum fetað okkar eigin slóð þar sem allt sem við gerðum var meira en það sem gert hafði verið árið áður. Ég byrjaði sem meðstjórnandi þar sem ég hjálpaði til við að skipuleggja viðburði og að reyna að ná til stúdenta til að kanna hvers þeir þörfnuðust og hverju þeir hefðu áhuga á. Þegar ég áttaði mig á því að það sem ég gerði skipti máli og að fólk tók mig alvarlega þegar ég talaði fyrir hagsmunum Ada hvatti það mig áfram til að gera meira. Á öðru árinu var ég varaforseti Ada og ég kunni virkileg að meta það að tilheyra fjölbreyttum hópi í stjórn félagsins. Þar sem ég var innflytjandi og þroskaður nemandi var ég stressuð yfir því að gegna slíku embætti í stjórninni en ég fann eingöngu fyrir stuðningi og viðurkenningu frá félögum mínum í stjórn. Reynsla mín innan Ada færði mér tækifæri til þess að rýna í og skilja þær áskoranir sem konur og kynsegin fólk fæst við innan deildarinnar og það hvatti mig til að hugsa um það sem ég kynni í raun og til hvers ég gæti leitað eftir hjálp,“ segir Mita.
Saeeda hefur einnig látið mikið að sér kveða innan Ada og var m.a. viðburðastjóri félagsins á skólaárinu sem er að ljúka. „Þetta var í fyrsta sinn sem ég tek þátt í félagsstarfi sem þessu og það var áskorun að koma inn í þetta og læra allt frá gunni. Við skipulögðum fjölmargar vísindaferðir og nýttum vel þau tækifæri sem okkur buðust til að kynna okkur. Fólk veit að við erum mjög drífandi konur og er forvitið um störf okkar,” segir Saeeda sem verður forseti Ada á næsta skólaári.
Báðar vildu þær láta frekar að sér kveða og þegar Saeeda viðraði hugmyndina á bak við Stelpur forrita við Mitu lagði hún strax til að þær gengju í málið. „Við fórum strax að leita fjármögnunar og sóttum m.a. um hjá Rannís, í Nýsköpunarsjóð námsmanna, og Kennslumálasjóði HÍ. Við fengum á endanum styrk frá Kennslumálasjóði,“ segir Mita og bætir við að þær Saeeda finni fyrir miklum stuðningi frá Háskóla Íslands, ekki síst Verkfræði- og náttúruvísindasviði en Matthias Book, prófessor í tölvunarfræði, er leiðbeinandi þeirra í verkefninu.
Þær stöllur leituðu einnig hófanna hjá fyrirtækjum tengdum upplýsingatækni um stuðning við verkefnið. „Við höfum fengið mjög góð viðbrögð og það er fjöldi fólks sem vill leggja þessu verkefni lið þannig að nú eru við forma það hvernig sá stuðningur mun eiga sér stað,“ segir Saeeda.
Sýna tækifærin sem eru í upplýsingatækni
Verkefnið Stelpur forrita gengur eins og áður sagði út að vekja áhuga hjá konum og kynsegin fólki á tölvunarfræði og hugbúnaðarverkfræði. Um leið er markmiðið að draga úr brottfalli kvenna í greinunum. „Til þess að ná þessu markmiði sjáum við fyrir okkur að veita áhugasömum innsýn inn í þá starfsmöguleika sem bíða útskrifaðra,“ segir Mita.
Saeeda bætir við að markmiðið sé einnig að tengja þá þekkingu sem fólk öðlast í háskólanámi við raunveruleikann. Stundum átti fólk sig nefnilega ekki á því hvernig þekking úr tilteknum kúrsum nýtist í framtíðinni. „Ef þú færð sérfræðinga úr geiranum og fólk úr atvinnulífinu til þess að segja þér frá því þá verður allt miklu áþreifanlegra, framkvæmanlegra og áhugaverðara“ segir Saeeda.
Þá segja þær stöllur að mikilvægasta markmiðið með Stelpur forrita sé að skapa félagsleg tengsl. „Við Saeeda erum með svipaðan bakgrunn, erum báðar af erlendum uppruna og vorum hvorki með vinahóp eða stuðningsnet þegar við skráðum okkur til náms. Námið er bæði skemmtilegt og áhugavert en um leið mikil áskorun og við fundum vel fyrir því hversu mikilvægt það er að hafa stuðning frá félögum þínum þegar þú ert að glíma við flóknar hugmyndir og snúin námskeið,“ bendir Mita á.
„Rannsóknir hafa sýnt að nemendur eru líklegri til að hætta námi ef þeir hafa ekki myndað einhver félagsleg tengsl á öðru misseri náms. Við erum að reyna að hjálpa fólki að tilheyra hópi með því að skapa öruggt umhverfi þar sem fólk getur hitt jafningja sína áður en misserið hefst þannig að það verði afslappaðra og geti víkkað frekar út stuðningsnetið þegar kennsla hefst í ágúst. Þar sem upplýsingatæknigeirinn er mikill karlageiri viljum við líka nota tækifærið til þess að tengja verðandi nemendur við fólk úr atvinnulífinu sem hefur skapað sér feril í upplýsingatækni en þannig getur fólk séð sjálft sig fyrir sér í sömu sporum og orðið spenntara fyrir því sem koma skal,“ bætir Saeeda við.
„Markhópur okkar eru konur og kynsegin fólk sem hefur áhuga á upplýsingatækni. Þetta geta t.d. verið nemendur sem eru nú þegar í háskóla eða á lokaári í framhaldsskóla eða jafnvel þau sem hafa verið vinna einhvers staðar í nokkur ár en langar að skapa sér ný tækifæri,“ segir Mita. MYND/Unsplash/Ilya Pavlov
Vikulöng dagskrá í ágúst
Sumarvinnustofurnar Stelpur forrita fara fram dagana 12.-16. ágúst og stendur dagskráin frá kl. 9-16 hvern dag, aðallega á háskólasvæðinu. Gert er ráð fyrir að hámarksfjöldi þátttakenda verði 25 í þessari fyrstu atrennu en að sögn Mita er það gert til þess að tryggja að allir þátttakendur fá þá athygli sem þeir þarfnast. „Markhópur okkar eru konur og kynsegin fólk sem hefur áhuga á upplýsingatækni. Þetta geta t.d. verið nemendur sem eru nú þegar í háskóla eða á lokaári í framhaldsskóla eða jafnvel þau sem hafa verið vinna einhvers staðar í nokkur ár en langar að skapa sér ný tækifæri. Líka fólk eins og Saeeda, sem var að læra lífeindafræði en langaði að prófa nám í hagnýtari grein eins og tölvunarfræði,“ segir Mita og bætir við að námskeiðið verði þátttakendum, sem ljúka námskeiðinu, að kostnaðarlausu.
Skipulag námskeiðsins byggist á velgengni annars verkefnis innan Háskóla Íslands sem nefnist Stelpur diffra og miðar því auka áhuga stelpna og stálpa á stærðfræði. Nanna Kristjánsdóttir, sem nýlega útskrifaðist með BS-gráðu í stærðfræði frá Háskóla Íslands, setti verkefnið á laggirnar fyrir þremur árum.
„Við erum undir miklum áhrif frá Nönnu sem hélt fyrstu búðirnar sem fyrsta árs stærðfræðinemi. Ég ber mjög mikla virðingu fyrir henni og verkefni hennar sem notið hefur mikillar velgengni og við viljum byggja á einhverju sem virkar nú þegar,“ segir Mita sem mun hafa það að sumarstarfi að undirbúa vinnustofurnar en Saeeda starfar hjá nýsköpunarfyrirtæki í fullu starfi ásamt því að taka þátt í undirbúningnum.
Fjölbreytt dagskrá með reyndum konum úr upplýsingatækni
Þegar talið berst að dagskrá sumarbúðanna segir Saeeda að hver dagur hafi sitt þema. „Á fyrsta degi sjáum við fyrir okkur að þátttakendur kynnist hver öðrum og við munum jafnframt kynna fyrir þeim GitHub sem er samstarfsvettvangur fyrir forritun og er notaður víða í upplýsingatæknigeiranum. Við leggjum áherslu á að þegar fólk starfar í upplýsingatækni þá er það sjaldnast eitt, hugbúnaðarþróun er samstarfsverkefni,“ undirstrikar Saeeda.
Mita bætir við að dagar 2-4 í dagskránni muni byggjast á tvenns konar lotum fyrir og eftir hádegi og svo ljúki hverjum degi með valfrjálsri heimsókn í fyrirtæki eða stofnanir sem starfa á því sviði sem tengist þema dagsins. Þátttakendur fái kynningu á efni dagsins frá sérfræðingi í faginu og gefist svo tækifæri til þess að nýta þá þekkingu sem þeir hafa aflað sér í hópverkefnum sem kennarar og aðstoðarkennar leiða. „Síðasta daginn í sumarbúðunum sjáum við svo fyrir okkur að kynna þátttakendum fyrir þeim möguleikum sem bíða þeirra eftir útskrift,“ segir Mita enn fremur.
Tengslamyndun, netverslun, netöryggi, máltækni og nýsköpun
Stór hópur nemenda og kennara úr HÍ og sérfræðinga úr atvinnulífinu mun koma að dagskránni með þeim Saeedu og Mitu. „Fulltrúar frá Nörd, félagi tölvunarfræði- og hugbúnaðarverkfræðinema í Háskóla Íslands, og Ada taka þátt í dagskránni fyrsta daginn en það er fólkið sem mun styðja þig í skólanum ef þú velur að fara í tölvunarfræði eða hugbúnaðarverkfræði síðar. Við erum einnig að reyna að fá fulltrúa frá Sys/tur úr Háskólanum í Reykjavík til að koma en Ada vinnur með þeim að ýmsum viðburðum og félögin reyna að styðja hvort annað,“ bendir Saeeda á.
Annar dagurinn verður svo helgaður netverslun en það er líklega sá hluti upplýsingatækninnar sem við þekkjum flest úr hinu daglega lífi. „Valenttina Griffin er vélaverkfræðingur sem starfar í upplýsingatækni og á einnig netverslunarfyrirtæki og er í stjórn WomenTech Iceland. Hún mun leiða umræður um um verkefnastjórnun, vefþróun og hvernig á að láta hugmyndir verða að veruleika,“ segir Mita.
Þriðji dagur sumarbúðanna verður svo helgaður netöryggi og þar verður Jacqueline Clare Mallett fyrirlesari. „Hún er prófessor í netöryggi við Háskólann í Reykjavík, er afar ástríðufullur fyrirlesari og hún var fyrsti fyrirlesarinn sem ég fá í vinnustofuna. Hún er áhugaverð manneskja og við viljum undirstrika að Háskóli Íslands og HR eru að vinna saman að netöryggi og undirbúa stofnun nýrrar meistaranámsleiðar í þeirri grein,“ segir Saeeda.
Fjórða daginn mun Steinunn Rut Friðriksdóttir, doktorsnemi við Háskóla Íslands, hitta þátttakendur en hún hefur kennt inngang að máltækni við Háskóla Íslands. „Ég tók það námskeið og fannst það frábært. Hún er einnig afar góður talsmaður þeirra sem hyggja á frama innan akademíunnar og fyrirmynd sem ein af fáum konum sem leggur stund á doktorsnám í tölvunarfræði í háskólanum. Þennan dag einblínum við á gervigreind og það hvernig mállíkön virka og möguleika þeirra,“ bætir Saeeda við.
Síðasta dag sumarbúðanna er svo komið að Söfu Jemai og fulltrúum frá CCP og RB (Reiknistofu bankanna). Safa er úrskrifaður hugbúnaðarverkfræðingur frá HÍ og hefur stofnað tvö fyrirtæki. „Hún er frábær og gott dæmi um innflytjanda sem upplifir íslenskra drauminn; kemur hingað til lands, blómstrar í sínu námi, stofnar eigin fyrirtæki og er að gera frábæra hluti fyrir konur af erlendum uppruna með því að vera sýnileg sem leiðtogi og fyrirmynd,“ segir Mita og bætir við: „Hún hefur m.a. unnið Gulleggið og mun tala um það hvernig maður skorar sjálfa sig á hólm með því að taka þátt í hakkaþonum og keppnum og hvernig það getur aukið sjálfstraust og hvatt konur og kynsegin fólk til að prófa nýja hluti. Fulltrúar CCP og RB munu svo fjalla um leiðina út á vinnumarkaðinn en þar fáum við ólík sjónarhorn frá ólíkum geirum.“
Vilja bjóða upp á frekari dagskrá í vetur
Þær Saeedu og Mitu dreymir enn stærra og hafa jafnvel í hyggju að þróa vinnustofurnar frekar þannig að þátttakendur og önnur áhugasöm geti haldið áfram að hittast yfir vetrartímann í samstarfi við fyrirtæki í upplýsingatækni. „Við sjáum fyrir okkur vikulegan hitting yfir vetrartímann. Það er mikilvægt að hamra járnið meðan það er heitt og fyrir þau sem hafa kannski í hyggju að sækja um nám tengt upplýsingatækni á næsta ári er mikilvægt að geta undirbúið sig áfram,ׅׅ“ segir Mita.
Sem fyrr segir er markmið Stelpur forrita ekki síst að fjölga konum og kynsegin fólki í upplýsingatæknigeiranum og þær Mita og Saeeda benda á að brautskráningarhlutfall kvenna í greinum tengdum þeim geira er enn þá mjög lágt. „Enn fremur er brottfall bæði kvenna og karla töluvert. Okkur Saeedu langar að byrja á því að hjálpa konum og öðlast þekkingu á því hvað virkar og hvað ekki í þessum efnum. Svo getum við kannski reynt að beita því gagnvart öllum stúdentahópnum,“ segir Mita og Saeeda bætir við: „Okkur er auðvitað annt um alla stúdenta og við viljum stuðla að bræðralagi þeirra sem sækja námið og útskrifast.“