Skip to main content
1. júlí 2025

Unga fólkið ánægðast með námskeið í heilbrigðisvísindum

Háskóli unga fólksins

Háskóli unga fólksins, sem haldin er um miðjan júní ár hvert, er fyrir fróðleiksfúsa og fjöruga krakka á aldrinum 12–14 ára í 6.– 8. bekk grunnskóla. Skólinn stendur yfir í tæpa viku og þá sækja nemendur nokkur stutt námskeið og kynnast undrum tilverunnar með vísindamönnum Háskóla Íslands. 

Heilbrigðisvísindasvið HÍ bauð nemendum sem höfðu áhuga á heilbrigðisvísindum upp á þemadaginn „Heilbrigðisvísindi á Landspítala“ en það var Læknadeild sem sá um skipulagningu námskeiðisins. 
Nemendur fengu innsýn í fjölbreytt störf heilbrigðisstarfsfólks og tækifæri til þess að skoða hinar ýmsu hliðar heilbrigðisvísinda.

Boðið var upp á 6 þverfaglegar stöðvar. Nemendur fengu að fara á hverja stöð fyrir sig og prófuðu að sauma saman sár á hermihúð, blönduðu lyf, mældu blóðþrýsting og súrefnismettun, kepptu í að gera hjartahnoð (app sem skynjar hver hnoðar skilvirkast), fengu sýnikennslu um notkun stoðtækja og kepptust í að týna upp smáhluti með tækjun notuðuðm í kviðarhols speglunaraðgerðum. Þátttakendur voru mjög áhugasamir og til fyrirmyndar í alla staði.

Er skemmst frá því að segja að unga fólkið var mjög sátt við dagskrána sem Heilbrigðisvísindasvið bauð upp á. Í skoðanakönnun sem lögð var fyrir nemendur í lok Háskóla unga fólksins fékk þemadagur Heilbrigðisvísindasviðs HÍ bestu einkunnina. 91,5% sögðu námskeiðið mjög gott og 8,5% sögðu það gott. Engum þátttakenda þótti það sæmilegt eða leiðinlegt.

Heilbrigðisvísindasvið HÍ bauð nemendum sem höfðu áhuga á heilbrigðisvísindum upp á þemadaginn „Heilbrigðisvísindi á Landspítala“ en það var Læknadeild sem sá um skipulagningu námskeiðisins. Mynd Kristinn Ingvarsson