Skip to main content
28. desember 2015

Tvær nýjar bækur um og eftir Vilhjálm Árnason

Háskólaútgáfan hefur nýlega gefið út tvær bækur sem tengjast Vilhjálmi Árnasyni, prófessor í heimspeki við Sagnfræði- og heimspekideild.

Önnur nefnist Hugsað með Vilhjálmi og hefur geyma 13 greinar sem byggðar eru á erindum sem flutt voru á viðamikilli ráðstefnu sem haldin var í tilefni sextugsafmælis Vilhjálms í janúar 2013. Bæði innlendir og erlendir samstarfsmenn rita greinar í bókina en þær fjalla um heimspeki Vilhjálms og hugðarefni hans. Ritstjórar eru Róbert H. Haraldsson, prófessor í heimspeki, og Salvör Nordal, lektor í heimspeki.

Hin bókin nefnist Rabbað um veðrið og fleiri heimspekileg hugtök og er eftir Vilhjálm sjálfan. Efni bókarinnar sýnir svo ekki verður um villst að heimspeki getur fjallað um hvað sem er. Í stuttum, læsilegum pistlum beitir Vilhjálmur heimspekilegri greiningu á hversdagsleg málefni af ólíku tagi. Hér eru á ferð ádeilur þar sem spjótum er beint að vinnubrögðum og viðhorfum í stjórnmálum og hugleiðingar um tilvistarleg stef á borð við tilgang lífsins, hugrekki, ábyrgð, þakklæti og líðandi stund.

Vilhjálmur Árnason hefur kennt heimspeki við Háskóla Íslands frá árinu 1982 og verið afkastamikill kennari og fræðimaður, ekki síst á sviði stjórnmálaheimspeki og siðfræði. Hann er vel metinn á alþjóðavettvangi fyrir skrif sín um lífsiðfræði. Vilhjálmur hefur ætíð tekið virkan þátt í samfélagsumræðu um margvísleg siðferðisleg álitaefni og lýðræði, ekki síst í kjölfar bankahrunsins en hann var formaður vinnuhóps um siðferði og starfshætti sem starfaði með rannsóknarnefnd Alþingis.

Bækur um og eftir Vilhjálm Árnason
Bækur um og eftir Vilhjálm Árnason