Skip to main content
3. mars 2017

Troðfullt Tímarit Háskóla Íslands komið út

""

Tímarit Háskóla Íslands er komið út, sneisafullt af spennandi efni um rannsóknir og nýsköpun kennara og nemenda við Háskóla Íslands. Þetta er tíunda árið í röð sem ritið kemur út en á þessu ári verða gefin út tvö tölublöð. Það seinna kemur út í haust. Ritinu verður dreift á Háskóladeginum í Háskóla Íslands sem verður á morgun. 

Í nýja tölublaðinu er fjallað um rannsóknir á öllum fræðasviðum skólans og sjónum bæði beint að rannsóknum kennara og nemenda. Í ritinu er m.a. fjallað um að fatlaðar konur búi við margþætta mismunun, mikilvægi þyrlu Landhelgisgæslunnar í heilbrigðiskerfinu, sagnaheim í sýndarveruleika, hönnun á áhættureikni fyrir mergæxli, vegtengingu um Skerjafjörð, söguna sem lesa má úr fornum hvalbeinum, áhrif áfalla á heilsu, áhrif skapandi iðnaðar á þjóðarhag, menntun og meðferðarúrræði fanga, gríðarlega verðmætasköpun í vinnslu sjávarfangs í tengslum við rannsóknir, afdrifum íslenskunnar í stafrænum heimi, heimsendi í háskerpu, matarsóun, börn og smátæki, augnlinsur sem ferja lyf, guð og græna skóga og gervifætur með fullu viti. Hér er fátt eitt talið en ritið er 90 síður. 

Tímarit Háskóla Íslands er að mestu leyti unnið af starfsfólki markaðs- og samskiptasviðs Háskólans. Nemendur í MA-námi í blaða- og fréttamennsku við Háskólann lögðu einnig til fjölda greina. Flestar ljósmyndir í ritinu eru teknar af Kristni Ingvarssyni, ljósmyndara Háskóla Íslands, og margar þeirra af vísindamönnum við rannsóknir á vettvangi. Þannig er t.d. myndasyrpa af Pétri Halldórssyni meistaranema sem tekst á við það verkefni að taka sýni úr himbrimum og merkja þá, en himbrimastofninn á Íslandi er ekki ýkja stór, telur aðeins um þúsund fugla. Ísland er eina landið utan Ameríku þar sem fuglinn verpir en 200-300 pör verpa hér árlega. Pétur hefur notað 550 vinnustundir í að ná 7 fuglum til að merkja sem er flókið og gríðarlega erfitt. 

Hér má nálgast ritið í heild sinni en því verður einnig dreift á Háskóladeginum í Háskóla Íslands sem fram milli kl. 12 og 16. Auk þess verður hægt að nálgast prentað eintak í flestum byggingum Háskólans eftir helgi.

Ritstjórar eru eins og áður Björn Gíslason og Jón Örn Guðbjartsson, sem báðir starfa við markaðs- og samskiptasvið. Hér má hlýða á ritstjórana fara stuttlega yfir efni blaðsins með morgunhönum Bylgjunnar.

Kona í tölvuveri.