Tilnefndar til Viðurkenningar Hagþenkis

Fjórar bækur Háskólaútgáfunnar eru tilnefndar til Viðurkenningar Hagþenkis 2016 sem veitt er fyrir framúrskarandi fræðirit, námsgögn eða aðra miðlun fræðilegs efnis til almennings.
Hagþenkir er félag höfunda fræðirita og kennslugagna og hefur frá árinu 1986 veitt viðurkenningu fyrir úrvals vinnu við samningu fræðirita, kennslugagna, aðra miðlun fræðilegs efnis eða rannsóknir. Alls eru tíu verk tilnefnd til verðlaunanna að þessu sinni og var tilkynnt um þau 2. febrúar síðastliðinn.
Sem fyrr segir eru fjórar bækur á vegum Háskólaútgáfunnar tilnefndar að þessu sinni. Þær eru:
Síðustu ár sálarinnar eftir Ársæl Má Arnarsson.
Eyrbyggja saga. Efni og höfundareinkenni eftir Elínu Báru Magnúsdóttur, en hún er gefin út í samstarfi við Bókmennta- og listfræðistofnun Háskóla Íslands.
Lóðrétt rannsókn. Ódauðleg verk Áhugaleikhúss atvinnumanna 2005–2015 eftir Steinunni Knútsdóttur sem gefin er út í samstarfi við Listaháskóla Íslands.
Á hverju liggja ekki vorar göfugu kellíngar. Bókmenning íslenskra kvenna frá miðöldum fram á 18. öld eftir Guðrúnu Ingólfsdóttur.
Viðurkenningaráð Hagþenkis, skipað fimm félagsmönnum til tveggja ára í senn, stendur að valinu á verkunum tíu en eitt þeirra hlýtur viðurkenninguna á vormánuðum.

