Skip to main content
15. ágúst 2024

Þróun tæringaþolinna melma fyrir ofurheitar borholur í tækniþætti BBC

Þróun tæringaþolinna melma fyrir ofurheitar borholur í tækniþætti BBC - á vefsíðu Háskóla Íslands

Vísindamenn Háskóla Íslands eru meðal viðmælenda í innslagi í tækniþættinum Click á BBC sem birt var á dögunum. Þar var fjallað um tilraunir innlendra og erlendra aðila til að þróa nýjar orkuvinnsluaðferðir og bæta eldgosaspár í viðamiklu verkefni á Kröflusvæðinu.

Verkefnið sem um ræðir nefnist Krafla Magma Testbed (KMT) og var sett á laggirnar fyrir nokkrum árum undir hatti GEORG, samstarfsvettvangs um rannsóknir og verkefni á sviði jarðvarma sem Háskóli Íslands hefur leitt um árabil. KMT er nú orðin sjálfstæð stofnun en hún grundvallast á óvæntum uppgötvunum sem gerðar voru innan íslenska djúpborunarverkefnisins IDDP-1 árið 2009. Þá boruðu aðstandendur þess niður á grunnstætt kvikuhólf í Kröflu en það reyndist á rúmlega tveggja kílómetra dýpi. Við mælingar á borholunni kom í ljós að hún gaf af sér um það bil tíu sinnum meiri orku en meðalháhitaborhola á Kröflusvæðinu en jafnframt kom í ljós að hefðbundin efni og búnaður til jarðhitaborana þoldi ekki hitann, þrýstinginn og tæringuna næst kvikunni.

Innslagið í Click á BBC má finna á YouTube-rás BBC News.
 

Hyggjast gjörbylta aðferðum við vöktun eldstöðva

Á vegum KMT er unnið að því að þróa tækjabúnað sem þolir slíkan hita en ætlunin er að bora aftur nálægt umræddu kvikuhólfi, bæði í þeim tilgangi að öðlast frekari skilning á hegðun eldstöðva til að geta spáð betur fyrir um eldgos og þróa nýjar aðferðir til að nýta jarðhita á mjög heitum svæðum. Ætlunin er að reisa alþjóðlega rannsóknamiðstöð á sviði eldfjalla- og orkurannsókna á Kröflusvæðinu á komandi árum í þessum tilgangi en svæðið er eitt mest rannsakaða eldfjallasvæði í heimi.

„Við viljum gjörbylta þeim aðferðum sem við nýtum til að fylgjast með eldfjöllum með því að setja hita- og þrýstingsnema í kvikuna. Það mun gera okkur kleift að spá fyrir um eldsumbrot með meiri nákvæmni en áður. Þetta mun því breyta spám um eldgos,“ segir Björn Þór Guðmundsson, framkvæmdastjóri KMT, m.a. í þættinum á BBC.

Vísindafólk HÍ vinnur að tilraunum á ýmiss konar efnum til að komast að því hvaða melmi þolir tæringaráraun jarðvarmagasa sem búist er við í borholuumhverfinu við svo mikinn hita. Fréttamaður BBC heimsótti rannsóknastofu þeirra og kynnti sér þróunar- og rannsóknarstarfið. MYND/Skjáskot úr umfjöllun BBC

Gera tilraunir með málmblöndur í húsakynnum HÍ

Sem fyrr segir er einnig ætlunin að reyna að nýta þá miklu orku sem leynist við kvikuhólfið en þar leynist 500-600 gráðu heit gufa. Almennt batnar orkunýting í rafmagnsframleiðslu úr jarðhitagufu eftir því sem hitastig gufunnar er hærra og bent er á að orka úr tveimur svo heitum borholum jafngildi allri þeirri orku sem unnin er úr 22 holum í Kröfluvirkjun nú. 

Til þess að geta nýtt svo heita jarðhitagufu þarf sérstaklega tæringarþolin melmi, sem þola einnig meiri hita og þrýsting en í hefðbundum háhitaborholum. Sigrún Nanna Karlsdóttir, prófessor í vélaverkfræði við Háskóla Íslands, og samstarfsfólk hennar vinnur að tilraunum á ýmiss konar efnum til að komast að því hvaða melmi þolir tæringaráraun jarðvarmagasa sem búist er við í borholuumhverfi við svo mikinn hita. Fréttamaður BBC heimsótti rannsóknastofu þeirra og kynnti sér þróunar- og rannsóknarstarfið. „Svart stál er alla jafna notað í hefðbundnar jarðhitaborholur en styrkur þess dvínar hratt eftir að hitinn nær 200 gráðum. Það tærist enn fremur. Við þurfum því að finna ný efni og tæringarþolnari melmi,“ segir Sigrún m.a. í umfjöllun BBC og segir hópinn m.a. hafa unnið með nikkel- og títanmelmi í tilraunum sínum.

Ef verkefnið gengur vel bendir hópurinn sem stendur að KTM á að hægt verði að nýta aðferðirnar víða um heim, þar á meðal í Bandaríkjunum og Afríku þar sem finna megi kvikuhólf á litlu dýpi.

Sigrún Nanna í innslagi BBC