Þrjú styrkt til sumarrannsókna í Caltech
Á næstu dögum halda þrír nemendur í grunnnámi við Háskóla Íslands til Kaliforníu til að vinna tíu vikna rannsóknaverkefni við Caltech - California Institute of Technology. Þetta eru þau Anna Huyen Ngo, nemandi í lífefna- og sameindalíffræði sem vinnur verkefni undir leiðsögn dr. Bil Clemons, Freyr Víkingur Einarsson, nemandi í rafmagns- og tölvuverkfræði sem nýtur leiðsagnar dr. Wei Gao, og Iðunn Björg Arnaldsdóttir, nemandi í efnafræði sem vinnur sitt verkefni á rannsóknastofu dr. Davids Anderson.
Um er að ræða svokölluð SURF-verkefni eða Summer Undergraduate Research Fellowship sem snúast um rannsóknasamstarf á milli leiðbeinanda og nemanda í grunnnámi. Á fimmta tug nemenda við HÍ hefur unnið sumarverkefni við Caltech frá því að samningur milli skólanna var undirritaður árið 2008 og að sama skapi hefur fjöldi Caltech nemenda unnið SURF-verkefni hér við Háskóla Íslands undir handleiðslu kennara skólans.
Caltech-háskóli er einn allra fremsti rannsóknaháskóli heims og raðast í eitt af efstu sætunum á matslistum yfir bestu háskóla á heimsvísu.
Anna, Freyr og Iðunn hljóta styrk frá HÍ að upphæð 7.740 dollara en styrkirnir eru kenndir við hjónin Kiyo og Eiko Tomiyasu. Kiyo Tomiyasu var heimskunnur vísindamaður á sviði rafmagnsverkfræði og lykilmaður í að koma á samstarfssamningi milli Caltech og Háskóla Íslands árið 2008.
Tveir nemendur frá Caltech koma til Háskóla Íslands í sumar. Virginia (Gigi) Pistilli mun vinna verkefni undir leiðsögn Ingibjargar Svölu Jónsdóttur, prófessors við Líf- og umhverfisvísindadeild, og Mehul Jangir vinnur verkefni á Jarðvísindastofnun undir leiðsögn Sæmundar Halldórssonar vísindamanns og Simon Matthews sérfræðings.