Skip to main content
27. júní 2024

Þrjú styrkt til sumarrannsókna í Caltech

Þrjú styrkt til sumarrannsókna í Caltech - á vefsíðu Háskóla Íslands

Á næstu dögum halda þrír nemendur í grunnnámi við Háskóla Íslands til Kaliforníu til að vinna tíu vikna rannsóknaverkefni við Caltech - California Institute of Technology. Þetta eru þau Anna Huyen Ngo, nemandi í lífefna- og sameindalíffræði sem vinnur verkefni undir leiðsögn dr. Bil Clemons, Freyr Víkingur Einarsson, nemandi í rafmagns- og tölvuverkfræði sem nýtur leiðsagnar dr. Wei Gao, og Iðunn Björg Arnaldsdóttir, nemandi í efnafræði sem vinnur sitt verkefni á rannsóknastofu dr. Davids Anderson. 

Um er að ræða svokölluð SURF-verkefni eða Summer Undergraduate Research Fellowship sem snúast um rannsóknasamstarf á milli leiðbeinanda og nemanda í grunnnámi. Á fimmta tug nemenda við HÍ hefur unnið sumarverkefni við Caltech frá því að samningur milli skólanna var undirritaður árið 2008 og að sama skapi hefur fjöldi Caltech nemenda unnið SURF-verkefni hér við Háskóla Íslands undir handleiðslu kennara skólans. 

Caltech-háskóli er einn allra fremsti rannsóknaháskóli heims og raðast í eitt af efstu sætunum á matslistum yfir bestu háskóla á heimsvísu. 

Anna, Freyr og Iðunn hljóta styrk frá HÍ að upphæð 7.740 dollara en styrkirnir eru kenndir við hjónin Kiyo og Eiko Tomiyasu. Kiyo Tomiyasu var heimskunnur vísindamaður á sviði rafmagnsverkfræði og lykilmaður í að koma á samstarfssamningi milli Caltech og Háskóla Íslands árið 2008. 

Tveir nemendur frá Caltech koma til Háskóla Íslands í sumar. Virginia (Gigi) Pistilli mun vinna verkefni undir leiðsögn Ingibjargar Svölu Jónsdóttur, prófessors við Líf- og umhverfisvísindadeild, og Mehul Jangir vinnur verkefni á Jarðvísindastofnun undir leiðsögn Sæmundar Halldórssonar vísindamanns og Simon Matthews sérfræðings. 

Styrkþegarnir Anna Huyen Ngo, Freyr Víkingur Einarsson og Iðunn Björg Arnaldsdóttir ásamt Jóni Atla Benediktssyni, rektor HÍ, og Magnúsi Gunnlaugi Þórarinssyni, verkefnisstjóra við Alþjóðasvið HÍ